Hvað veldur?

Þegar vinnupallarnir við Tryggvagötu fóru niður kom í ljós hús sem passar ekki inn í götumyndina, yfirgnæfir gamla húsið við hliðina, er ljótt þótt það stæði eitt og sér, og mun verða minnismerki um verktakaveldið sem hefur verið við lýði.

IMG_0223

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það var víst maður að nafni Hanlon sem fyrstur skrifaði: Ekki álykta að um samsæri sé að ræða þegar fávitaháttur getur útskýrt hlutina.

Mér finnst freistandi að útskýra þessa byggingu þannig að verktakar hafi borgað réttum mönnum fyrir rétt til að byggja þetta skrýmsli þarna til að hámarka ágóðann af landinu.  Samt getur verið að borgin hafi bara leyft bygginguna án þess að neinn hafi fengið borgað undir borðið.  Hvor skýringin er betri vitnisburður um starf borgaryfirvalda?

Er þetta kannski rugl í mér?  Getur verið að ég finni fræðimenn í arkitektúr sem segja að þessi bygging sé nákvæmlega það sem staðurinn og stundin kallaði á?

Tilsýndar virðist bygginging vera gerð úr fjöldaframleiddum einingum á ódýran hátt og hún ber ekkert vitni um nostur eða fínerí.  Hún er í hrópandi andstöðu við þesa frægu nítjándu (tuttugustu?) aldar borgarmynd sem Ólafur fráfarandi borgarstjóri var að reyna að vernda.  Ég vona að ímigustur á Ólafi verði þess ekki valdandi að málefnin sem hann stóð réttilega fyrir verði forsmáð.

--- 

Misheppnað smartkortakerfi í strætó og sundstaði var orðið þekktur skandall fyrir fjórum árum.  Sundgestir hafa horft upp á ónotuð aðgangshlið á sundstöðum lengi án þess að spyrja neinna spurninga.

Það sem mér finnst fréttnæmt er að einhver fjölmiðill sé fyrst að skrifa um það núna.  Getur verið að það henti Morgunblaðinu að blása þetta upp því fylgi sjálfstæðismanna í borginni er svo lítið?  Alvöru fjölmiðlar hefðu tekið málið föstum tökum fyrir lifandis löngu.  Af hverju núna?

 


Rétt forgangsröðun

Gott almenningssamgöngukerfi er bráðnauðsynlegt fyrir efnahag landsins. Allir, ekki bara notendur ættu að borga fyrir það því allir hagnast á tilveru þess.  Gjaldskrárhækkanir gætu verið nauðsynlegar en það eru skattar líka. Ökumenn upplifa minni umferð. Eigendur fyrirtækja og starfsmenn fá betra  starfsumhverfi og betri staði að búa á.  Allir anda að sér hreinna lofti.

Það hefur aldrei verið mikilvægara að bæta almenningssamgöngur. Rétta spurningin er ekki hvort við höfum efni á þeim, heldur hvað gerist ef við borgum ekki fyrir þær?

Ritstjórnargrein New York Times 17.ágúst

Tvær aðrar greinar úr sömu röð:

 


Haukur í horni

Fyrsta vinnan mín í Bandaríkjunum eftir að námi lauk var hjá hugbúnaðarfyrirtæki sem var í þann mund að skrá hlutabréfin sín á NASDAQ. Ég var þá svo blautur bak við eyrun að ég vissi varla hvað hlutabréf voru eða hvað "IPO" (Initial Public Offering) þýddi.

Maðurinn sem réði mig til starfa kom til mín í fyrstu vikunni og sagði "þú ættir að kaupa hlutabréf, öllum starfsmönnum bjóðast þau og þau munu hækka mikið strax og við förum á almennan markað". Ég sagðist ekki eiga krónu með gati enda nýkominn úr námi og væri ekki á leiðinni að fjárfesta. Hann sagði "Þetta er öruggur díll, ég skal lána þér fyrir kaupunum!" Ég spurði hann af hverju og hann sagðist vilja gera vel við sína undirmenn.

Ég var nýbyrjaður og treysti honum varla. Ég fór heim og sagði konunni frá þessu, ég væri kominn í "The firm" og það ætti að fara að neyða mig til að kaupa hlutabréf á nýja vinnustaðnum. Að endingu leyfði ég þó yfirmanninum að lána mér peninga fyrir hlutabréfum. Tveim vikum síðar var fyrirtækið komið á markað, ég seldi hlutabréfin, endurgreiddi yfirmanninum lánið og græddi rúmlega árslaun í leiðinni. Hann hafði þá rétt fyrir sér.  Ekki slæmt fyrir þriggja vikna vinnu!

evran

 

 

 

 

 


Ég minnist hans oft því hann kom okkur aldeilis vel af stað í húsnæðiskaupunum með þessu góðverki, en svo hugsa ég líka oft hversu gott það er að hafa vini í vinahópnum sem geta bent manni á svona "sure thing". Ég velti stundum fyrir mér hvernig kaupin ganga á eyrinni hér á Íslandi, hversu margir hafa fengið svona góðar ábendingar frá vinum sínum í bönkum og fyrirtækjum. Ef ábendingin er gullslegin þarf maður ekki einu sinni að vera eignamaður því maður getur fengið lán út á ábendinguna ef hún er nógu góð.

Þarna gildir að þekking er máttur.  Svona má gera vinum sínum greiða, hvort sem til stendur að hækka eða lækka verð á hlutabréfum, eða jafnvel á gengi krónunnar.  Hverjir hafa þessi völd á fjármálamarkaðinum á Íslandi og hverjum hygla þeir?  Þegar þeir láta vini sína hafa peninga með þessum óbeina hætti, er það á kostnað venjulegs fólks?  Er hægt að koma í veg fyrir þetta á litlum markaði þar sem allir þekkja alla?  Ég veit það ekki.


Ekki kom háskerpan þetta árið

Útsending kínverja frá Ólympíuleikunum er í háskerpu.  Fimm hundruð klukkustundir af háskerpuefni verða sendar út á Sky HD sjónvarpsstöðinni.  Allir viðburðir sem BBC sendir frá verða einnig í háskerpu á rásinni BBC HD, og svo verða 230 klukkutímar af efni á Eurosport HD.

logo_bbc_hd.png

 

 

 

Ég hafði spáð fyrir ári að Olympíuleikarnir myndu marka tímamót á Íslandi, því þá yrðu fyrstu útsendingar hér í háskerpu og þá myndu kaupendur flatskjáa í fyrsta sinn fá tækifæri til að sjá útsendinguna sem þeir eru hannaðir fyrir.

frog.jpg

 


Engin af þessum háskerpurásum er komin á myndlykla símans eða á aðra lykla mér vitanlega, þrátt fyrir auglýsingar símans um að vera í fararbroddi með háskerpu.  Það er merkilegt því í mörgum löndum voru Ólympíuleikarnir notaðir sem ástæða fyrir söluátak fyrir háskerpuna.

Síminn leggur mikla áherslu á að selja myndlykla en þeir eru fyrir ADSL sem nýtir gömlu símalínurnar sem forfeður okkar borguðu fyrir, en ekki ljósleiðara eða breiðband.  Ég efast um að ADSL muni verða mikið notað undir háskerpusjónvarp í framtíðinni því háskerpumynd þarf 10 megabita á sekúndu til að komast óbrengluð til skila ef vel á að vera.  Ef myndin er send þjöppuð um ADSL rýrna myndgæðin því myndin breytist í mósaík.  Hér er dæmi um lélega stafræna útsendingu:

mpeg2.png

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er óþjöppuð fyrirmynd:

source.png

 

 

 

 

 

 

Ég held að gagnaveitan álykti að síminn kemst ekki mikið lengra með sína tækni enda eru göturnar í Reykjavík nú sundurgrafnar af ljósleiðaraskurðum.  Síminn hefði átt að geta skipt úr ADSL yfir í VDSL um þetta leyti en ég hef ekki séð hann gera það, enda hef ég lesið að það gangi illa að kreista meiri sendihraða út úr gömlu símalínunum.  Síminn hætti að þróa breiðbandið sitt og nú gæti hann verið að súpa seyðið af því.

Ef gagnaveitan leggur ljósleiðara áfram getur verið að eitthvað fari að rofa til í háskerpumálum hér, en fyrst sjálfir Olympíuleikarnir nægðu ekki til að síminn þyrði að byrja útsendingar þá er ég ekki vongóður um að þær hefjist hér á næstunni.  Ég sé persónulega enga ástæðu til að endurnýja heimasjónvarpið á meðan þær eru ekki hafnar að neinu viti.

Í óskyldum fréttum þá er merkilegt að samkvæmt sölutölum seljast minni flatskjáir mest, það eru þeir sem eru undir 26 tommum.  Þessi þróun hefur komið framleiðendum mikið á óvart sem hafa lagt mesta áherslu á 42 tommu tæki og stærri.

----- 

Hér má sjá mismunandi stærðir af útsendingum, þar á meðal gömlu PAL útsendinguna sem íslenska sjónvarpið notar í dag, og svo nýju 1080p háskerpu útsendinguna sem er notuð frá Olympíuleikunum.

800px-common_video_resolutions_2_svg.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Myndavélakaup eru erfið

Ég fór í Elko í gær og sá miðaldra konu horfa raunalega á hilluna þar sem allar myndavélarnar voru. Ég fór að skipta mér af og hún sagði strax að hún gæti ekki ákveðið sig.  Allar vélarnar væru eins utan frá, hún kynni ekki að lesa skiltin sem væru hjá hverri vél og afgreiðslufólkið væri víðsfjarri og vissi fátt.

Ég gaf henni eftirfarandi heilræði:

  1. Veldu þrjár vélar sem þér finnast fallegar og fara vel í hendi. Skrifaðu módel númerin niður.
  2. Lestu um þær á http://www.dpreview.com, undir "camera database", efst til vinstri á síðunni.
  3. Farðu svo aftur í Elko og kauptu þá vél sem fékk besta umfjöllun - eða láttu frænku þína í Bandaríkjunum kaupa hana fyrir þig.


Ég er með öðrum orðum að segja að dpreview er mjög góð síða fyrir þá sem eru að leita sér að myndavél.


photographer-suspended.jpg


Kifaru og Seglagerðin

Ég hef aðgang að forláta tjaldi sem er hannað með indjánatjöld að fyrirmynd og rúmar auðveldlega tíu manns en pakkast samt jafn lítið og dúnpoki.  Ég mæli með þessu tjaldi,  framleiðandinn er í Colorado í Bandaríkjunum og heitir Kifaru (http://www.kifaru.net).

p6280019.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir veðurátök kom rifa í toppinn á tjaldinu svo ég hringdi í framleiðandann.  Konan í símanum skoðaði mynd af tjaldinu sem ég hafði sent í tölvupósti og sagði að þessi tjalddúkur hefði verið notaður við framleiðsluna fyrir átta árum.  Hún hafði svo samband aftur og sagðist hafa fundið gamla dúkinn inn á lager og gráa efnið sem er notað við reykháfsopið.

p6280017_628858.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hún sagðist ætla að senda mér bæði efnin í pósti mér að kostnaðarlausu og hún gerði það.  Við áttum huggulegt spjall í símanum og ég sendi henni fleiri ljósmyndir frá kajakferðum með tjaldið í þakkarskyni.

Næst fór ég í Seglagerðina úti í Örfirisey og sýndi þeim rifuna og spurði hvort þeir gætu gert við hana með efninu sem ég hafði meðferðis frá Kifaru. Konan í afgreiðslunni sagði að viðgerðin myndi kosta að minnsta kosti 10 þúsund krónur en annars væri ómögulegt að gefa verðmat fyrirfram.

Ég afþakkaði og spurði hvort hún gæti selt mér nylonþráð svo ég gæti saumað tjaldið sjálfur? Hún sagði nei, þau ættu bara stór kefli fyrir saumavélarnar.  Ég spurði hvort hún gæti gefið mér 1-2 metra og svarið var "Nei".

Næst spurði ég hvort hún ætti lím svo ég gæti límt efnið á sinn stað áður en ég saumaði það?  Hún sýndi mér túbu og sagði að hún kostaði 1.500 krónur. Þar með þakkaði ég fyrir og kvaddi.

Þetta sama tjaldlím fann ég í 66Norður fyrir 600 krónur.

lim.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Nylon bandið hirti ég af flugdrekakefli og svo saumaði ég tjaldið sjálfur úti í góða veðrinu og var snöggur að.

p7190027.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta eru ólíkar sögur, af viðskiptum mínum við konurnar hjá hinu ameríska Kifaru fyrirtæki og hjá hinni íslensku seglagerð.

Ein skýring sem ég hef á þessu framferði er að í ameríska fyrirtækinu fari saman völd og ábyrgð. Ég hafði á tilfinningunni að konunni stæði alls ekki á sama hvernig hún skildi við mig. Ég yrði að fá lausn minna mála. Ég hef heyrt að í Wal-mart megi starfsfólk taka völdin í eigin hendur til að kúnninn fari glaður út úr búðinni.  Samt vinna tugþúsundir hjá Wal-mart.  Þetta hlýtur því að fara eftir hugarfari í fyrirtækinu en ekki stærð þess.

Það getur verið að konan hjá Seglagerðinni sé að framfylgja stefnu fyrirtækisins.  Hennar markmið sé að rukka alla sem koma um tíu þúsund krónur að minnsta kosti, annars séu þeir eyðsla á tíma og ekki kúnnar sem er þess virði að eltast við.  Ég virði líka þá stefnu en ég syng samt lof Kifaru og ekki Seglagerðarinnar.

 


Prósentuleikur

Hér er smá ókeypis kennsla í prósentureikningi.

Evran kostaði 90 krónur um áramót en kostar nú 126 krónur.

Það eru margar leiðir við að segja þetta í prósentum.  Ein er að segja að krónan hafi lækkað um 28.6%:

(126-90) / 126 = 0.286

Önnnur leið við að segja þetta er að hún haldi eftir 71.4% af upphaflegum kaupmætti sínum:

90 / 126 = 0.714

Þriðja leiðin sem er kannski meira sjokkerandi er að segja að evran hafi hækkað um 40% :

(126-90) / 90 = 0.40


Svo er hægt að sleppa prósentunum en taka dæmi: íslendingur sem var með 400 þúsund í laun í janúar er með 285 þúsund í laun núna ef hann ætlar að eyða laununum í Evrópu.

400 * 90 / 126 = 285

Ef hann ætlar að kaupa eitthvað þar sem kostaði 400 þúsund um áramót kostar það hann núna 560 þúsund:

400 * 126 / 90 = 560

Er ekki stærðfræði skemmtileg? Smile

----

Illugi Gunnarsson sagði eftirfarandi í viðtali í viðskiptakálfi Fréttablaðsins 23.júlí:

 

Staðan er erfið. [..] Við munum ekki geta leyst þann vanda með því að stefna að upptöku annars gjaldmiðils, eðli vandans er einfaldlega þannig. Ég tel að reynt hafi verið að koma því inn hjá þjóðinni að til sé einföld sársaukalaus leið út úr vandræðunum og þá verði allt í himna lagi. Það finnst mér vera mikill ábyrgðarhlutur.


Ég er sammála því að núverandi vandi leysist ekki með upptöku evrunnar.  Ég held ekki að evrusinnar haldi það almennt.  Ég hef viljað taka evruna upp áður en góðærið byrjaði og ég mun vilja það eftir að kreppan líður hjá. Mig langar að segja hvers vegna:

Í góðærinu varð krónan mjög sterk. Íslenskir bankar tóku erlend lán og endurlánuðu íslendingum á hærri vöxtum af því þeir hafa einokunaraðstöðu hér á landi. Einokunin felst í því að ég get ekki verið með Visa kort frá erlendum banka og fengið launin mín greidd á reikning þar. Ef við hefðum haft evru hefði fólk verið í viðskiptum við erlenda banka og fengið sömu vexti og aðrir evrópubúar. Íslensku bankarnir hefðu ekki hagnast ótæpilega á þessum lánainnflutningi og vaxtamismun.

Ef íslendingar komast í venjuleg bankaviðskipti hjá erlendum bönkum myndi verðtrygging á lánum líka tilheyra liðinni tíð. Ég fæ ekki verðtryggð laun eða vöruverð, af hverju ættu bankarnir að fá verðtryggð lán?  Verðtryggingin er slæm hugmynd því hver er hagur bankanna af því að aðstoða stjórnvöld við að halda verðlaginu stöðugu ef öll þeirra útlán eru verðtryggð?

Verslanir á Íslandi nutu líka góðs af sterku gengi krónunnar en létu neytendur ekki njóta ágóðans. Kunningi minn sem flytur inn vörur og selur sagði mér að þegar best lét hefði hann getað lagt 150% á vöruna áður en hann seldi hana. Han setti næstum því allan hagnaðinn af sterkri krónu í eigin vasa meðan viðskiptavinir héldu áfram að borga óbreytt verð.  Hann hefði getað lækkað vöruverð en hann langaði meira í einbýlishús og jeppa.  Kúnnunum var sama um arðránið, þeir höfðu ekkert verðskyn.

Ef krónan hefði ekki verið, hefðu neytendur getað borið saman verð í evrum hér við verð í evrum í Evrópu og fengið þannig miklu betra verðskyn. Þeir hefðu líka getað pantað vöruna sjálfir fram hjá íslenskum kaupmönnum með lítilli fyrirhöfn því tollurinn verður ekki sú risavaxna hindrun sem hann er ef við göngum í bandalagið.

Ég hef bloggað um það áður að land sem telur 300 þúsund sálir átti ekki að reisa svona stóra tollmúra því fastakostnaður við tollafgreiðslu er of hár.  Hvað myndi það kosta ef akureyringar stöðvðuðu hvern einasta bíl sem keyrði inn á Akureyri og tollflokkuðu allt sem í honum er?  Það gera Íslendingar við allan inn og útflutning fyrir þetta litla samfélag.

Íslendingar hafa opnað landið fyrir erlendu vinnuafli og erlendu fjármagni. Bankar, verslunarrekendur og verktakar hafa notið góðs af því.  Það er kominn tími til að venjulegt launafólk njóti þess líka.

Andstæðingar segja að ef evran yrði tekin upp þyrftu íslendingar í fyrsta skipti að kynnast launalækkunum. Mér er nokk sama. Innkaupakarfan sem kostaði 9 þúsund um áramótin kostar 16 þúsund núna.  Er það ekki launalækkun?

Andstæðingar umræðu um evrópubandalagsaðild segja að við munum afsala okkur einhvers konar sjálfstæði ef við göngum í bandalagið. Ég segi að við höfum þegar glatað efnahagslegu sjálfstæði, við ráðum ekkert við krónuna. Hvað annað sjálfstæði varðar vitum við ekki hvað við erum að tala um fyrr en viðræður við bandalagið hefjast.

Völdin á Íslandi nú eru hjá handfylli af ríkustu einstaklingum landsins.  Það eru nokkrar fjölskyldur sem eiga hér verslanirnar, tryggingarfélögin og bankana og forseta landins er boðið í þotuferðir til að kaupa tryggð hans.  Hvers konar valddreifing er það?  Er þá ekki alveg eins gott að ganga í evrópusambandið?

 


Íslenskur Celsius

Við gengum í sund áðan, konan mín og ég. Við vorum bæði í stuttbuxum og sammála um að það væri hlýtt. "Samt er bara fimmtán stiga hiti úti" sagði konan mín. "Það er vegna þess að íslenskar fimmtán gráður eru hlýrri en útlendar tuttugu gráður" sagði ég.

Þegar við bjuggum í Bandaríkjunum féll hitinn niður í tuttugu gráður í Október og það var merki um að haustið væri að koma. Þá fórum við í síðbuxur og sokka, og ekki langt í að við færum í peysu.

Í framhaldi af þessu datt mér í hug að íslendingar ættu að taka upp íslenskar Celsius gráður rétt eins og íslenska krónu. Þá getum við haldið hitastiginu á Íslandi stöðugu í tuttugu og fimm gráðum og hér verður virkilega eftirsóknarvert að búa. Ef veturinn er erfiður breytum við genginu á íslensku celsiusgráðunni sem því nemur.

Ég er sannfærður um að ef við værum komin með íslenskar gráður myndum við alls ekki vilja hætta að nota þær, því ef þær væru lagðar niður kæmi í ljós að á Íslandi væri frekar kalt.

Á sama hátt er rétt að vilja ekki Evru því hún myndi lækka laun og leiða í ljós að hér eru þau ekkert sérstök. Þá er betra að trúa því að við séum með há laun en hér sé allt svo dýrt.

standard-weather-thermometer.jpg


Opinn hugbúnaður - opin gögn

Microsoft (MS) Office pakkinn sem flestir þekkja kom fyrst út sem Office 3.0 árið 1989 og er því orðinn nítján ára gamall.  Hann er orðinn stór hluti af lífsreynslu flestra sem nota tölvur á annað borð, rétt eins og QWERTY lyklaborðið og músin.

picture1.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef menn vilja nota annan pakka kostar það endurþjálfun.  Þessi rök voru notuð gegn því að hætta að nota Office pakkann en nú hefur Open Office pakkinn (sem er ókeypis) orðið sífellt líkari MS Office og þessi þjálfunarkostnaður er því orðinn lítill sem enginn.

Skjöl sem voru vistuð með MS Office voru aðeins læsileg í MS Office.  Þessi rök mæltu einnig gegn því að nota annan hugbúnað, því annars gætu starfsmenn ekki auðveldlega skipst á skjölum.  Open Office getur lesið og skrifað MS Office skjöl svo þessi röksemd er líka orðin veigaminni.

Það að Microsoft kostar peninga en Open Office er ókeypis skiptir ekki miklu máli.  Ég held ekki að kostnaðurinn við að kaupa Microsoft hugbúnað eigi að stjórna umræðunni, kostnaðurinn er varla meiri en kostnaður við að kaupa kaffi fyrir starfsmenn.

Það sem skiptir meira máli er að opinberar stofnanir eiga ekki að vista skjöl á skráarsniði sem aðeins einn hugbúnaðarrisi hefur stjórn á.  Það væri í mínum huga eins og að leggja vegi um landið sem aðeins einn bílaframleiðandi hefur heimild til að þróa bifreiðar fyrir.

Íslenskar stofnanir ættu frekar að huga að því að vista reikniarkir og ritvinnsluskjöl samkvæmt opnum stöðlum eins og ODF en ekki lokuðum eins og DOC og XLS.  Hvaða forrit eru valin til að búa þessi skjöl til er ekki eins mikilvægt.

Ég er ekkert hrifnari af Open Office en Microsoft Office.  Það er kaldhæðnislegt, en til þess að verða nógu boðlegt fyrir vanadýr sem hafa alist upp við Microsoft Office þurfti Open Office að verða næstum nákvæmlega eins og Microsoft Office.  Munurinn er því nánast enginn.

Ég endurtek: Það sem skiptir máli er að skjölin séu læsileg öllum forritum sem vilja lesa þau.  Einhver, einhverntímann getur þá búið til forrit sem les og skrifar öll þessi ráðuneytaskjöl, forrit sem verður betra og vinsælla en Microsoft Office og Open Office samanlagt, eða getur hluti sem höfundum Office pakkanna datt ekki í hug.

 


mbl.is Allt opið og ókeypis?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þín bíður sending

Í morgun barst tilkynning um pakka frá pósthúsinu en pakkinn sjálfur barst hins vegar ekki. Var sendandinn ekki að borga póstinum fyrir að láta mig fá pakka? Af hverju ber pósturinn bara út tilkynningar um pakkana en ekki pakkana sjálfa?  Fljótlega svarið er að bréfalúgan er svo lítil, en af hverju er hún það? Ef pósturinn biður mig að setja upp stærri póstkassa myndi ég glaður gera það.  Eigum við ekki bara að drífa í því?

Þjónustan sem pósturinn er að selja er að spara manni bæjarskutlið en samt þarf ég yfirleitt að fara í bíltúr til að sækja póst og alltaf ef ég ætla að senda hann.  Þegar maður er einu sinni kominn af stað með bréfið eða pakkann, ætti maður þá ekki bara að fara með hann alla leið?

Ég skoðaði tilkynninguna til að sjá hvort þetta væri eitthvað sem lægi á eða hvort ég gæti afgreitt þetta í næstu bæjarferð, hvort þetta væri lítill pakki sem ég get sótt á hjólinu eða stór kassi sem ég þarf bíl til að sækja. Hins vegar stendur ekkert á miðanum nema sendingarnúmer upp á 13 stafi til innanhússnota fyrir starfsmenn póstsins, engar upplýsingar fyrir mig. Nafn sendanda, borg, land, hvenær sent, innihald, ekkert slíkt tekið fram.

"Hvert á ég að sækja pakkann?" hugsaði ég næst. Á miðanum stendur. "Vinsamlega framvísið þessum miða á pósthúsinu, sjá bakhlið". Ég kíki á bakhliðina og þar stendur: "Upplýsingar um staðsetningu pósthúsa er að finna á heimasíðu póstsins". Það er ekki einu sinni hægt að segja á miðanum hvaða pósthús sendi miðann! Hefði ekki mátt setja þær upplýsingar á miðann, ásamt opnunartíma? Þeir eru jú að bera út þó nokkra pakka frá þessu pósthúsi og ættu að geta fjármagnað sérstaka prentun á tilkynningarmiða með upplýsingum um pósthúsið, litla mynd sem sýnir hvar þeir eru o.s.frv.



mailbox-776204_618508.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sumir kannast kannski við flöggin á póstkössunum í Ameríku.  Pósturinn setur flaggið upp til að íbúi geti séð að til hans er kominn póstur eða pakki.  Póstkassinn er nefnilega nógu stór fyrir flesta pakka.  Færri vita kannski að íbúinn getur líka sett flaggið upp ef hann vill að pósturinn sæki umslag eða pakka til sín í kassann, pósturinn virkar með öðrum orðum í báðar áttir í Bandaríkjunum! Þetta er ótrúlega mikilvægt. Ef ég vil senda manni pakka get ég sett pakkann í minn póstkassa með frímerkjum á og pósturinn tekur hann.  Ég þarf ekki að fara út á pósthús.

Bandaríkjamenn panta mikið af vörum á netinu en þeir eru vanir því að geta notað póstinn og þeir þurfa ekki heldur að tollafgreiða vörur.  Ég pantaði tölvu frá Idaho þegar ég bjó í Norður Karolínu. Hún barst daginn eftir, sendingarkostnaður var innifalinn því varan var yfir einhverju hámarksverði, annars hefði hann víst verið 15$.   Fjarlægðin frá Idaho til Norður Karólínu er 3.340 km sem er lengra en frá Reykjavík til Barcelona en samt fannst mér búðin í Idaho vera í næsta húsi.  Það má venjast þessu.

Góðar pakkapóstsamgöngur eru kannski eitthvað sem íslendingar ættu að þróa til jafns við góðar vegasamgöngur því ef íslenski pósturinn ynni vinnuna sína jafn vel og sá bandaríski myndi bæjarskreppunum kannski fækka og bensínnotkun myndi minka.  Nú ætla ég að keyra 5 km til að sjá hvað bíður mín á pósthúsinu.

Eftirmáli

Pakkinn reyndist vera bíómynd á geisladiski í póstkröfu.  Sendandinn vildi fá 3000 krónur fyrir diskinn en sendingakostnaðurinn var 950 krónur.  Ég þurfti að keyra lengra til að ná í diskinn en ef ég hefði farið heim til sendandans, því hann býr í Reykjavík en pósthúsið fyrir vesturbæinn er á Seltjarnarnesi.  Það hefði líka komið betur út að borga leigubíl undir diskinn.

Best af öllu hefði verið ef sendandinn hefði sent mér bíómyndina í tölvupósti því báðir erum við jú með internet heima hjá okkur - eða hvað?

star-wars-postbox_618505.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband