Færsluflokkur: Bloggar
28.3.2007 | 12:24
Óþarfa ánauð
Ég er með breiðband Landssímans. Stærsti pakkinn frá þeim er með mikinn fjölda sjónvarpsrása, en það sem stingur í stúf er að engin þeirra sýnir "The Simpsons" eða "Scrubs" eða neinn þann þátt sem er einnig sendur út hér.
Þessir þættir eru sýndir á "TV2" í Danmörku sem við horfðum mikið á meðan við bjuggum þar. TV2 er ekki á leið til Íslands frekar en margar aðrar stöðvar sem vantar í stöðvaflóruna hér.
Ég held því fram að samkeppnin sé ekki í lagi. Skammt er að minnast þegar slökkt var á útsendingu danska sjónvarpsins eins og hún lagði sig vegna þess að danir sýndu frá HM í knattspyrnu sem var sent út í læstri dagskrá á einhverri íslensku stöðvanna.
Nú eru nokkur ár liðin síðan örbylgju og breiðbands útsendingar hófust og ég er að verða vondaufur um að þetta ástand breytist til batnaðar.
Ein leið til að komast undan einokunninni er að kaupa gerfihnattaloftnet. Vegna tækniframfara á síðastliðnum árum hafa gerfihnattadiskar minnkað og eru nú aðeins 85cm stórir. Ég veit satt að segja ekki hvers vegna neytendur flykkjast ekki hópum saman að þessari tækni.
Skýringarnar eru þó sennilega að enginn aðili hér á landi sér hag í að útbreiða hana enda er bara hægt að selja hvern disk einu sinni.
Ég hvet lesendur til að hugsa sjálfstætt og hafa samband við næsta útsöluaðila á gerfihnattadiskum.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2007 | 12:14
Hversvegna tölvunarfræði?
Ég þurfti ekki að kunna að smíða legokubbana til að smíða úr þeim og reynslan við að smíða úr þeim nýtist líka á múrsteina eða hugmyndir. Það sem hægt er að byggja með kubbum er óháð kubbunum og þannig er tölvunarfræði óháð tölvum.
Tölvunarfræði á meira skylt við tónlist og stærðfræði en við verkfræði eða efnafræði og hún býður upp á ótrúlega sköpunargleði.
Á tímabili voru tölvur aðeins fyrir útvalda einfara sem vildu kynnast þeim betur á sama tíma og venjulegt fólk notaði ritvélar.
Fullkomnunarárátta og stjórnsemi eru eiginleikar sem fá útrás í tölvugeiranum því tölvan skapar heim fyrir þig þar sem þú getur ráðskast að vild. Tölvuheimurinn laðaði því að sér marga sem eru ekki tilbúnir til að taka þátt í mannlegum samskiptum, og hann gerir það enn.
Þeir sem komast langt í tölvubransanum eru þó yfirleitt færir um mannleg samskipti til jafns við tölvusamskiptin. Hinir lenda fyrr eða síðar á glerþaki.
Flestir sem ég þekki í tölvubransanum eru ekki fagidjótar heldur skemmtilegt fólk sem hefur önnur áhugamál en tölvur. Reyndar finnst mér mikil fylgni milli þess að vera góður í tölvum og að vera áhugasamur um tónlist.
Windows og Office pakkinn eru búin að vera með okkur síðan 1995 og hafa mótað mjög hugsanir fólks um hvað tölvur eru.
Mér finnast Windows og Office frekar óspennandi og mér sárnar þegar fólk segir "þú ert tölvunarfræðingur, hjálpaðu mér með Excel". Það er álíka og að segja við fransmann: "Þú ert frakki, hjálpaðu mér að skipta um dekk á þessum Citroen" án þess að vilja vita neitt um landið sem hann kemur frá.
Það er hægt að smíða svo miklu meira spennandi vörur en Windows og það er ennþá hægt að verða sá sem gerir það (og verða ríkur). Windows, Macintosh og Unix eru öll amerísk. Hvernig myndi evrópskt stýrikerfi líta út? Þurfum við stýrikerfi? Hverfa þau á bak við tjöldin og Google heimasíðan verður nýja skjámyndin sem mætir þér á morgnana?
Tölvur hafa verið notaðar til svo margs en tölvunarfræðin á ekki heima í neinni einni grein.
Tölvur eru mikið notaðar af vísindamönnum. Það þýðir ekki að menn þurfi að kunna stærðfræði til að forrita tölvur.
Verkfræðingar hafa smíðað tölvur og tölvuhluta, en samt er tölvunarfræði ekki undirskor í verkfræði.
Tölvur eru líka mikið notaðar af viðskiptageiranum. Það þýðir ekki að maður þurfti að ganga með bindi og hafa gaman af prósentureikningi til að nota tölvur.
Krakkar í dag nota tölvur til að spila leiki og vera á MSN. Það þýðir ekki að tölvur séu fyrir krakka.
Tölvunarfræði er að verða fræðin um það hvernig fólk leysir vandamál í öllum hinum fræðunum. Margir vilja gera tölvunarfræði að skyldufögum í öllum öðrum fögum, rétt eins og stærðfræði er í dag.
PC tölvur eru oft ljótir ljósbrúnir eða svartir kassar. Þær þurfa ekki að vera þannig. Vissirðu að það er tölva inní Visa kortinu þínu, örgjörvi, minni og allur pakkinn? Gemsinn þinn er 99% tölva.
Tölvur þurfa ekki að ganga fyrir rafmagni. Þær geta gengið fyrir vatni eða ljósi. Menn eru að prófa að smíða tölvur úr frumum. Hver einasta fruma í líkamanum er tölva. DNA er forritið hennar. Samruni tölvunarfræði og líffræði er rétt að byrja og óhemju spennandi svið sem margir fást við.
Vinur minn notar tölvur til að tefla skák og stýra vefstól sem hann forritar mynstur í.
Kollegi minn lætur tölvur skrifa glæpasögur. Hún er búin að sjá að plottin í glæpasögum má búa til með formlegum hætti, alveg eins og Agatha Christie gerði.
Annar kollegi minn er að hugsa um ljósmyndir.
Enn annar leitar að laglínum í tónlist.
Hvers vegna er forritun skemmtileg? Hvaða undur bíða þess sem leggur hana fyrir sig?
Í fyrsta lagi er það hrein sköpunargleði. Rétt eins og barnið leikur sér að drullukökum eða legokubbum, þá nýtur sá fullorðni þess að byggja forritin inní tölvunni.
Í öðru lagi er það ánægjan að sjá annað fólk geta nýtt sér sköpunarverkið. Allir vilja koma að gagni og það er óskaplega mikið stolt samfara því að fá þakkir fyrir að hafa létt einhverjum störfin.
Í þriðja lagi getur verið gaman að kljást við flækjustig sem geta komið upp. Hluti dagsins hjá forritara fer í að leysa gátur. Tölva heillar á sama hátt og klukka sem hægt er að rífa í sundur og skrúfa saman aftur.
Í fjórða lagi eru endalausar uppgötvanir. Það er alltaf eitthvað nýtt í hverju forriti rétt eins og hver bygging sem arkitekt hannar býður upp á ný viðfangsefni.
Síðast en ekki síst er það ánægjan sem fylgir því að vinna í leir sem er svona mótanlegur. Tölvan er svo sveigjanleg, hún leyfir þér að pússa og breyta og bæta við sköpunarverkið. Leirinn þornar aldrei, það kvarnast ekki úr og listaverkið upplitast ekki eða verður skítugt.
Þótt forritið sé ekkert nema hugarsmíði lifnar það við fyrir augunum á þér. Það skilar niðurstöðum, tölum, texta eða myndum og þú getur sýnt það öðrum, stoltur eins og krakki. Það er dulúð yfir því að slá inn réttu orðin á lyklaborð og sjá forritið þitt svara þér í fyrsta sinn.
Eftirspurn eftir hugbúnaðarfólki fór upp úr öllu valdi rétt áður en "dotcom" bólan sprakk, um aldamótin. Þótt eftirspurnin hafi minnkað síðan þá, er hún engu að síður mikil. Það þarf ekki að fletta atvinnuauglýsingum lengi til að sjá að nóg er að gera í bransanum hér á landi.
Ég hef lesið í 25 ár að bráðum verði búið að semja síðasta tölvuforritið eða að nú sé öll hugbúnaðarvinna farin til Indlands eða Kína. Nú eru flest rör framleidd í útlöndum en það er samt nóg að gera hjá íslenskum pípulagningarmönnum. Enginn hefur haft áhyggjur af atvinnuleysi hjá þeim.
Þótt tölvur séu skemmtilegar og nóg sé að gera, auglýsi ég samt eftir fjölbreyttari viðfangsefnum. Íslenskur þekkingariðnaður getur verið ennþá blómlegri, sérstaklega ef ríkisstjórnin hættir að mæna á aldargamlar atvinnugreinar.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.3.2007 | 11:36
Vöfflujárn og vestræn menning
Vöfflujárnið okkar er frá Moulinex. Ég keypti það af því við keyptum örbylgjuofn frá þeim fyrir tuttugu árum og hann er ennþá að skila sínu.
Á járninu eru tvö ljós. Rautt ljós er alltaf kveikt og þýðir að straumur sé á því. Grænt ljós slökknar þegar járnið er orðið heitt.
Bæði ljósin eru ómerkt, svo ég verð að muna hvað þau gera. Mér gengur bölvanlega að muna að græna ljósið þýði "bíddu" og að rauða ljósið þýði að allt sé í sómanum.
Sá sem hannaði grillið er að svíkja grundvallarboðorð. Grænt þýðir "gott, haltu áfram" en rautt þýðir "stopp, passaðu þig".
Járnið er lengi að hitna og ef vöffludeig er sett í járnið kólnar það niður og er fimm mínútur að steikja vöffluna. Sá sem hannaði grillið setti of lítið hitaelement í það og of lítið járn.
Ef ég set of mikið deig í járnið vellur deigið út í raufar og samskeyti sem er ómögulegt að þrífa.
Svona grill er með einföldustu tækjum sem neytendur geta keypt og það er svo auðvelt að hanna þau rétt. Moulinex er fínt merki og mér vitanlega var þetta ekki ódýra byrjendajárnið frá þeim.
Vöfflujárn voru orðin ágæt vara fyrir þrjátíu árum en nú fer þeim aftur. Ég velti fyrir mér hvers vegna.
Vita ungir hönnuðir í dag ekki að rautt þýðir stopp og grænt þýðir gott? Vita þeir ekki að það á að merkja ljós með texta? Vita þeir ekki að það þarf að þrífa vöfflujárn og að það á að taka 2 mínútur að steikja vöfflu en ekki fimm?
Ég get upphugsað nokkrar skýringar á þessu:
- Kannski fer kennslu aftur í iðnhönnun.
- Kannski er ekki hægt að fá nógu hæft starfsfólk til að hanna af því það er krónísk vöntun á hæfu fólki í skólana.
- Kannski er vöfflujárn í dag tuttugu sinnum ódýrara en það var fyrir þrjátíu árum og verðlækkunin kemur svona niður á gæðunum.
- Kannski eru hönnuðurnir valdalausir og óhamingjusamir og vinna fyrir feita kalla með bindi sem hafa bara áhuga á að hvert vöfflujárn skili hámarks framlegð.
- Kannski tekur því ekki að hugsa um svona smáatriði af því neytandinn á að henda járninu og kaupa nýtt innan árs.
Kannski er það blanda af öllu þessu.
Ég er ekki með stóráhyggjur af vöfflujárnunum -- en þjóðfélagið byggir á tækni sem þarf að virka svo við getum haldið áfram að finna upp meiri tækni. Hvað með Multimedia stofukerfið og rafrænu skilríkin og Windows Vista og Internetið og gemsana og ljósastýringarnar og þjófavarnarkerfin?
Það er til hugtak sem heitir "Dancing Bear Syndrome". Eftir að hafa séð björn dansa í sirkús nokkrum sinnum byrja menn að spyrja sig: "já, en hversu vel dansar hann?" Ég er að spyrja mig að þessu núna með tilliti til tækninnar.
Ég er einn af þeim sem hef hjálpað öðrum að tjónka við tækni í gegnum árin. Gemsarnir og þvottavélarnar blikka ljósum sem ég er beðinn að ráða í enda er ég einn af þeim fáu sem lesa handbækur. Mig grunar að flestir sem eru ekki tæknilega þenkjandi hafi einhvern "tæknigúru" í sínu lífi.
Þetta gengur ekki svona til lengdar. Tækjunum fjölgar, flækjustig þeirra eykst og ég er löngu hættur að nenna að vera fótgönguliði í þessari Tamagotchi byltingu. Mig grunar að svo sé um fleiri.
Kannski erum við að byggja tæknilegan Babelsturn sem ekki er hægt að bæta ofaná fyrr en gæði eru sett í fyrsta sæti og tæki eru hönnuð þannig að venjulegt fólk geti notað þau.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2007 | 13:38
Potemkin þorpin
Hér er hluti af hjólastígakorti Reykjavíkur. Mér vitanlega var kortið gert vegna ráðstefnu um skipulagsmál borga á Norðurlöndum.
Kortið gerir ekki greinarmun á leiðinni meðfram sjónum báðum megin sem er malbikuð og ágæt hjólaleið, eða leiðunum meðfram Hringbraut og Lækjargötu sem eru gamlar gangstéttir. Finnst einhverjum öðrum en mér hæpið að kalla þær hjólastíga?
Þetta minnir mig á þegar Ameríkanar endurskilgreindu tómatsósu sem grænmeti til að fullnægja kröfum um grænmetisneyslu hjá unglingum í skólum.
Þetta minnir mig líka á Potemkin Þorpin rússnesku.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2007 | 10:26
Borgar sig að treysta neytendum ?
Ég fór í nýju raftækjaverzlunina "Max" um helgina og ætlaði að kaupa DVD spilara með upptöku. Panasonic kemur best út í könnunum og hann fæst hjá Max.
Ég komst að því mér til vonbrigða að ef mér líkar hann ekki borgar Max ekki til baka heldur verð ég að sætta mig við inneignarnótu.
Verzlanirnar BT og Max neita báðar að endurgreiða vörur, en Elko borgar til baka í beinhörðum peningum eða með endurgreiðslu á Visakortið.
Það er löglegt að neita að endurgreiða og gefa inneign í staðinn. Ég skil vel þetta viðhorf kaupmanna. Hitt er svo annað mál, að þegar ég kaupi nýja tegund af vöru sem ég get lítið kynnt mér fyrirfram, er ekki sett upp í búðinni og börnin sem afgreiða vita lítið um, þá verð ég að fá að skoða vöruna heima í góðu tómi og þá sætti ég mig ekki við inneignarnótur.
Það var fyrirtækið "Sears" í Bandaríkjunum sem reið á vaðið með endurgreiðslu í beinhörðum peningum fyrir 80 árum. Þeir höfðu séð að neytendur þorðu ekki að panta vörur í póstlista frá þeim án þess að hafa séð vöruna.
Sears hefur ekki tapað á þessari ákvörðun, síður en svo.
Vörur hafa aldrei verið flóknari. Ég get skoðað hamar og skrúfjárn í búðinni en bæklingurinn með nútíma videói eða tölvuprentara getur verið helgarlesning.
Ég vona að íslenskar verzlanir hætti þessari skorts hugsun ættaðri frá dönum og taki þess í stað upp þennan ágæta ameríska sið. Við höfum tekið flest alla ameríska siði upp nú þegar, hvers vegna ekki þennan?
Fyrst ég er farinn að tala um fjárfestingar fyrir heimilið:
Við keyptum nýja eldavél um daginn. Við höfum eldað á gasi öll árin okkar erlendis og ætluðum að fá okkur gas helluborð. Til allrar hamingju fengum við að sjá spanhelluborð hjá kunningjum og gátum fullvissað okkur um að þarna færi tækni sem tæki jafnvel gasinu fram.
Við höfum nú haft spanhelluborðið í nokkra mánuði og það var rétt ákvörðun. Við þurftum að vísu að losa okkur við nokkra potta sem virkuðu ekki á spani en Einar Farestveit sem seldi okkur helluborðið gefur ríflegan afslátt á pottum og pönnum fyrir þá sem kaupa span. Þarna fer verzlun sem skilur sálir.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.3.2007 | 13:51
Pönnukökur!
Til að vega upp á móti tuðinu þá er hér ítölsk vél sem ég held að einhver gæti haft gaman af.
Ef hægt væri að fá litla heimilisútgáfu af henni er ég viss um að einhver íslensk heimili bitu á agnið.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2007 | 11:44
Mannvæn gatnamót
Þessi gatnamót eru í New York borg þar sem 16 milljón manns búa.
Svona gatnamót eru oft troðfull af bílum en þau eru góð af því gangandi vegfarendum er gert jafn hátt undir höfði og ökumönnum.
Hér er andstæðan
Þarna kemst enginn yfir nema fuglinn fljúgandi.
Á Íslandi höfum við þurft að sætta okkur við ófærar jökulár en það er ekki náttúrulögmál að umferðamannvirki séu ófær öðrum en bílum. Ef stærri borgir virða rétt gangandi og hjólandi getur Reykjavík það líka.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.3.2007 | 09:40
Gjör leið mína greiða
Þessi bílakös mætti mér þegar ég hjólaði gangstéttina meðfram Hringbraut í morgun.
Ég hef haft það fyrir reglu að hringja í 112 aðeins ef bílar ógna öryggi, t.d. með því að leggja ofan á gangbraut við götuhorn. Ég vil síður trufla mikilvægari störf þar á bæ en svona bílalagning fer óneitanlega í taugarnar á mér.
Ég vildi geta sent SMS með ljósmynd af svona bílalagningu beint til þeirra sem sjá um að draga bílana, án þess að fara í gegnum 112.
Ætli það sé hægt? Ef ekki, myndi ég vilja leggja til við nýja lögreglustjórann að þessari þjónustu væri komið á.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2007 | 10:54
Allir með (Strætó?)
Ég sé fólk koma til vinnu á Range Rover en taka svo lyftuna upp á 5.hæð. Lyftur eru almenningsamgöngur, þær eru bara vel heppnuð útgáfa af þeim. Enginn neitar að taka lyftu vegna þess að þær séu fyrir farlama fólk?
Ég er næstum búinn að leysa vandamálið. Við getum lagt niður strætó. Nú skal ég segja ykkur hvernig.
Á Íslandi er lág glæpatíðni. 99.9% þjóðarinnar er ágætis fólk þótt hin 0.1 prósentin séu góður fréttamatur. Hér væri því hægt að skipuleggja ferðir innan Reykjavíkur á puttanum.
Við gætum búið til "stoppistöðvar" þar sem fólk gæti stimplað inn á gemsann sinn hvert það þyrfti að komast. Viðkomandi gæti til dæmis sent SMS með númeri stoppsins sem hann er á og númeri stoppsins sem hann vill fara til.
Bílar sem keyra framhjá stoppinu gætu einhvernveginn séð hvort einhver á stoppinu á samleið og gefið far. Meiri gemsatækni eða skynjari í rúðuna, veit það ekki ennþá. Íslenskt hugvit leysir það.
Sá sem þiggur far gæti borgað einhverja málamyndaupphæð, ekki svo mikla að menn verði "frístunda leigubílstjórar" en ekki svo litla að það taki ekki að stoppa bílinn. Hugsanlega gæti bílstjórinn safnað "inneign" sem hann getur notað ef hann er sjálfur á puttanum seinna.
Upphæðin gæti runnið til líknarmála ef menn vilja ekki flækja skattheimtuna.
Það þarf "social engineering" til að koma þessu á. Fólk er tilbúið að taka lyftu með ókunnugum en að taka fólk uppí er hugmynd sem þarf að venja fólk við, sérstaklega þegar fólk er orðið hálf innhverft af sjónvarpsglápi og félagslegri einangrun.
Hugmyndin er svolítið klikkuð en ekki of klikkuð. Skortur á almenningssamgöngum er ekki óleysanlegt og alvarlegt vandamál. Allt sem þarf er raunverulegur vilji til að leysa vandann.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.3.2007 | 21:30
Nerdar, reynið að þrauka
Sá sem ræður í bekknum segir að einhver sé "nerd". Þar með er viðkomandi í djúpum skít. Hvað þýðir þessi "nerdastimpill"?
Skv. mér er nerd sá, sem hefur mikinn áhuga á að finna svör við spennandi spurningum, þótt það kosti að spyrja mikið (ekki cool) og sætta sig við ákveðinn skort á sjálfsviðhaldi í tískulegum skilningi.
Það eru sterk tengsl milli þess að vera gáfaður og að vera nerd. Það er næstum ómögulegt að vera vitlaus nerd.
Það eru líka sterk tengsl milli þess að vera nerd og vera óvinsæll í gaggó. Gáfur gagnast flestum í gegnum lífið, bara alls ekki á þessu aldursskeiði.
Sumir segja að gáfaðir krakkar séu óvinsælir af því hinir öfundi þá. Þetta stenst ekki skoðun. Stelpur vilja vera með strákum sem hinir strákarnir öfunda en þær eru ekki með nördunum.
Ef nerdar eru svona gáfaðir, af hverju hafa þeir þá ekki vit á að gera sig vinsæla? Þeir hljóta að geta lesið sér til um vinsældir eins og um eldflaugabensín og örgjörva?
Allir vilja vera vinsælir. Nerdar vilja það líka -- bara ekki nógu mikið. Það er mikil vinna að lesa um tölvur og eldflaugar, og það er líka mikil vinna að setja sig inn í vinsældakapphlaupið. Maður þarf að kaupa réttu skóna og buxurnar og segja réttu hlutina. Vinsældir eru mjög sérhæfð keppnisgrein og tímafrek, og nerdar hafa (ómeðvitað) valið að vera ekki vinsælir.
Óhamingjusamur nerd myndi ekki samsinna mér en ef hann væri spurður hvort hann vildi missa 20% af greindinni í skiptum fyrir vinsældir efast ég um að hann myndi þiggja skiptin.
Þeir sem eru í vinsældakapphlaupinu vinna í því 24 klst á dag, 365 daga á ári, og aldrei eins mikið og í gaggó.
Vinsældakapphlaupið hjá unglingum verður verst á aldrinum í kring um 11-16 ára og þess vegna eru þetta erfiðustu tímarnir fyrir nerda. Áður en aldrinum er náð skiptir ást og velþóknun foreldra meira máli og eftir þennan aldur fer þjóðfélagið að launa fólki vel sem er vel gefið og hefur svör á takteinum.
Aldurinn 11-16 ára er "Lord of the flies" aldurinn, þegar krakkar búa til sinn eigin heim. Ég las þá bók í menntaskóla. Hún var sennilega sett fyrir til að benda lesendunum á að þeir væru litlir villimenn, ég tók skotið ekki til mín.
Krakkar eru vondir við nerda vegna þess að það lætur þá sjálfa líta betur út og af því ekkert sameinar hóp betur en sameiginlegur óvinur. Hjá vinsælu krökkunum eru það nerdarnir sem verða fyrir valinu. Flestir nerdar geta vitnað um að einn og einn krakki eru í lagi, en hópur af þeim er vandamálið.
Þegar menntaskólinn byrjar hjaðnar vandinn. Í nógu stórum hópi geta nerdar fundið jafningjahóp og orðið hamingjusamir. Þjóðfélagið byrjar líka að launa þeim fyrir að vera eins og þeir eru. Bill Gates er jafngott dæmi um þetta og hver annar.
Nerd í gaggó hefur það svipað og fullorðinn maður sem væri neyddur til að sitja barnaskólann upp á nýtt. Hann er byrjaður að hugsa um raunveruleg og spennandi verkefni en upplifir að fólkið í kringum hann er upptekið af skrýtnum merkingarlausum leikjum eins og að velja föt eða sparka tuðru.
Skólar eru geymsluhúsnæði fyrir börn þangað til þau geta orðið að gagni. Opinberlega er hlutverk skólanna að kenna börnum, en í alvöru eru þeir geymsla. Vandinn er að börnunum er ekki sagt það og að fangelsin eru mikið til rekin af föngunum sjálfum.
Krökkunum er gert að eyða árum í að hlusta á kennara fara með staðreyndalista og er þess á milli stjórnað af rudddum sem hlaupa eftir bolta eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Lífið í þessum litla gerfiheimi er tilganglaust. Á þessum aldri finna margir krakkar að það er ekkert að gera og enginn staður til að fara á.
Fullorðna fólkið sér að krakkarnir eru óhamingjusamir en þeir kenna gelgjuskeiðinu um. Þessi hugmynd er svo útbreidd að jafnvel krakkarnir sjálfir trúa þessu.
Ef gelgjuskeiðið er raunverulegt, af hverju er það þá bara til í vestrænum þjóðfélögum? Eru móngólskir steppurkrakkar níhílistar þegar þeir eru þrettán ára? Ég hef ekki séð gelgjuskeiðið nefnt í bókum frá öðrum tíma en tuttugustu öldinni. Táningar á miðöldum voru vinnuhundar. Táningar í dag eru gælupúðlar og þeirra geðveiki er geðveiki samfélagsins.
Grundvallarvandamálið er sérhæfingin í þjóðfélaginu. Það getur enginn notað táning í neitt að viti. Foreldarnir sjálfir eru fyrst orðnir nýtir þjóðfélagsþegnar um þrítugt.
Öllum finnst gaman að hafa eitthvað fyrir stafni. Vandamálið í skóla er að það er ekkert í alvörunni að gera. Krakkarnir eiga að vera að læra en það er enginn utanaðkomandi þrýstingur til að læra vel. Ef svo væri myndu nerdar blómstra þar. Kennarnarir endurnýta spurningarnar frá í fyrra, slíkur er metnaðurinn. Þeir eru fórnarlömb sama kerfis.
Raunverulega vandamálið er þannig ekki að vera nerd eða gelgjaður, það er tilgangsleysi skólans og biðin. Nerdar eru ekki lúserar. Þeir eru bara í öðrum leik en hinir krakkarnir, leik sem er meira í takt við raunverulegt líf.
Nerdar, skólinn er ekki lífið, hann er lítil brengluð útgáfa af því. Reynið að þrauka.
Stytt og endursagt úr greininni "Why Nerds are Unpopular". http://www.paulgraham.com/nerds.html
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)