Færsluflokkur: Bloggar
26.4.2007 | 08:55
Hvað verður um skjölin okkar?
Þeir sem vilja fylgjast með tölvuiðnaðinum ættu að lesa bloggið hjá Joel í Joel on Software
Í nýjasta bloggi rifjar hann upp að Microsoft hefur alltaf reynt að koma í veg fyrir að notendur Windows og Office prófi eitthvað annað.
Það gerir Microsoft með því að geyma Word ".DOC" og Excel ".XLS" skjöl á leynilegan hátt svo aðrir framleiðendur hugbúnaðar geti ekki opnað skjölin, en einnig með því að hafa "Makróa" inni í skjölunum á sérstöku máli í eigu Microsoft (VBA) til að auka flækjustigið enn frekar.
Nú virðist sem þessi hugmyndafræði sé farin að skjóta Microsoft sjálfa í fótinn.
Hér er tilvísun í nýjasta bloggið hjá Joel:
What is really interesting about this story is how Microsoft has managed to hoist itself by its own petard. By locking in users and then not supporting their own lock-in features, they're effectively making it very hard for many Mac Office 2004 users to upgrade to Office 2008, forcing a lot of their customers to reevaluate which desktop applications to use. It's the same story with VB 6 and VB.Net, and it's the same story with Windows XP and Vista. When Microsoft lost the backwards-compatibility religion that had served them so well in the past, they threatened three of their most important businesses (Office, Windows, and Basic), businesses which are highly dependent on upgrade revenues.
PS: in researching this article, I tried to open some of my notes which were written in an old version of Word for Windows. Word 2007 refused to open them for "security" reasons and pointed me on a wild-goose chase of knowledge base articles describing obscure registry settings I would have to set to open old files.It is extremely frustrating how much you have to run in place just to keep where you were before with Microsoft's products, where every recent release requires hacks, workarounds, and patches just to get to where you were before. I have started recommending to my friends that they stick with Windows XP, even on new computers, because the few new features on Vista just don't justify the compatibility problems.
PPS: I was a member of the Excel Program Management team from 1991-1993, where I wrote the spec for VBA for Excel.
Ríkisstjórnir og stofnanir ættu að hugleiða að mörg skjöl sem verða til á tölvutæku formi í dag verða að vera læsileg eftir tíu ár.
Ég efast um að þeir sem eiga gamlar diskettur með Word Perfect og Word 3.0 skjölum eigi auðvelt með að opna þau í dag. Þetta vandamál er nógu erfitt tæknilega þótt fyrirtæki geri það ekki viljandi verra með leynilegum aðferðum við að vista skjölin.
Þess vegna þarf ríkið að krefjast þess, að skjöl í þeirra eigu séu vistuð á staðlaðan og skiljanlegan hátt.
Þetta finnst mér vera mikilvægara en allt tal um "Open Source hugbúnað". Ég vil að mín skjöl séu læsileg með nýjum eða gömlum forritum, opnuðum eða lokuðum.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.4.2007 | 09:35
Ísskúffur
Sub Zero í Bandaríkjunum framleiðir þessar:
Þetta var merkið sem allt ríka fólkið keypti þar - merkilegt að enginn nýríkur hér á landi skuli vera búinn að flytja þetta inn.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2007 | 21:55
Einsleit fjölbreytni
Mér finnst leiðinlegt að kaupa föt en gaman að fara í búðir eins og Brynju á Laugavegi og Ellingsen. Sennilega er það dæmigert fyrir nerda.
Gamla Ellingsen búðin átti allt; flísatangir í svissneska vasahnífa og kveik í steinolíuofna fyrir neyðarskýli á Hornströndum. Sumt í búðinni hreyfðist alls ekki en það var samt þannig "C" vara sem laðaði mig inní búðina og lét mig kaupa "A" vöruna á endanum. Ég heillaðist af fjölbreytninni.
(Fyrir þá sem ekki hafa lært lagerhald þá eru A vörur þær sem seljast mikið en C vörur þær sem seljast lítið).
Í dag eru flestar búðir í hinum öfgunum. Eingöngu það sem selst vel er til sölu. Það kostar pening að liggja með óhreyfða vöru. Samkvæmt þessari speki er í lagi að selja skó en ekki skóreimar eða skóáburð og það má selja reiðhjól en ekki hjólapumpu eða bætur. Mér leiðast svona búðir.
Það er svo gaman þegar maður finnur það sem mann vantar. Ef þú ert að ganga á Hornströndum og lendir í því að skóreimin slitnar ertu í slæmum málum. Þegar þú finnur svo sjórekið reipi sem hægt er að nota sem skóreim er það góð tilfinning. Það er alvöru vöntun, en ég finn hana sjaldan og það er lúxusvandamál.
Þrýstingurinn að kaupa er mikill. Raddirnar í útvarpinu sem segja mér að hlaupa út í búð eru orðnar jafn skerandi og háværar og ég man eftir þeim í Bandaríkjunum. Ég er farinn að lækka þegar auglýsingarnar koma, eins og ég gerði þar.
Þegar mig vantar eitthvað finn ég ekki neitt af því ég er svo erfiður kúnni. Síðast vantaði mig nýjan bakpoka því sá gamli er orðinn slitinn enda hef ég notað hann daglega í mörg ár. Ég finn ekki poka sem er lokað með bandi. Ég vil ekki rennilásapoka, því rennilásinn eyðileggst löngu áður en byrjar að sjást á pokanum.
Ef ég sætti mig við rennilás bjóðast mér tugir poka. Einhversstaðar ákvað einhver að pokar með bandi væru "C" vara og þar með voru örlög bandbakpokaþurfandi manna ráðin.
Í Wal-Mart fást plastbollar í öllum litum og með öllum myndskreytingum - en bara úr plasti. Ekki leita að kristal. Úrvalið er algert - og samt ekkert. Þetta er mótsögnin sem ég settist til að skrifa um. Ég get kallað hana "Einsleit fjölbreytni".
Flestar búðir í Kringlunni selja áprentaða bómull, hampur og hör sjást ekki. Karlmannaföt eru einsleit, borin saman við úrvalið af kvennafötum. (Ég veit aldrei hvernig Prince fór að því að finna fötin sem hann var í).
Það er nóg til af ísskápum - en reyndu að finna ísskúffur (ég held reyndar að það væri góð hugmynd).
Fyrir 250 milljón árum sprakk "Precambrian" sprengjan, en það er tímabilið í sögu lífsins á jörðinni þegar allar fyrirmyndir allra dýrategunda komu fram á mjög stuttum tíma. Bókin sem lýsir þessu er stórskemmtileg, hún heitir "Wonderful life" og er eftir Stephen Jay Gould.
Það merkilega er að á þessum tíma urðu til geysilega mörg skrýtin dýr sem hafa enga samsvörun í dag. 99% af öllum tegundunum dóu út. Öll dýr í dag eiga forföður meðal eina prósentsins sem eftir lifði.
Steingerfingar hafa fundist af dýrum sem líktust einhverjum ofskynjunum úr LSD trippi. Þessi dýr voru hvorki köngulær né ormar né neitt það sem við þekkjum í dag. Þegar steingerfingar frá þessum tíma fundust fyrst, fengu fræðingar flog við að reyna að troða þeim inn í þekkta flokka dýra.
Öll dýr í dag eru annaðhvort skyld spendýrum eða lindýrum eða köngulóm eða nokkrum öðrum grunnflokkum. Feykileg fjölbreytni dýra en örfáar grunnteikningar. Engin dýr eru til með hjól. Engin dýr kallast á með útvarpsbylgjum. Ef við hefðum ekki steingerfingana myndum við ekki vita þetta og sakna því einskis.
Svipaða sögu er að segja úr þróun reiðhjólsins og tölvanna. Spennandi nýar hugmyndir komu fram þegar í upphafi en örfáar fyrirmyndir urðu eftir.
Það þarf róttæklinga til að hugsa út fyrir rammann, svo einhvern tímann verði eitthvað nýtt til. Það geta ekki allir setið á sömu grein. Við þurfum ekki fleiri pizzu staði og rennilásabakpoka.
Orðið "radical" í ensku er þýtt "róttækur" á íslensku. Það er góð þýðing því "radical" kemur úr "radix" á latínu sem þýðir "rót".
Sá sem er róttækur hugsar um hlutina frá rótinni í stað þess að vinna út frá þeirri grein sem allir sitja á.
Það er þreytandi að vera róttækur því þá detta manni í hug hlutir eins og ísskúffur þegar allir eru að leita að ísskáp og svo vill maður ekki ísskápinn fyrir vikið. Ég er semsagt róttæklingur. Hver hefði trúað því, eins og ég er með óspennandi fatasmekk. Verst er að ég nenni ekki að stofna ísskúffufyrirtæki.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2007 | 15:06
Hver prentaði húsið þitt?
Ég sá þrívíddarprentara í boði Iðntæknistofnunar um daginn. Þessir prentarar geta "prentað" hluti eins og aðrir prentarar prenta texta og myndir.
Prenttæknin hefur gerbylt menningunni nokkrum sinnum, fyrst þegar Gutenberg prentaði Biblíuna en líka þegar rafmagnsrásir voru prentaðar og tölvan varð almenningseign.
Ég fór að velta fyrir mér hvort næsta prentbylting gæti ekki verið húsagerð? Það er ekki mikill eðlismunur á því að prenta hús eða rökrás þótt stærðarhlutföllin séu þó nokkur.
Eins og góður akademíker leitaði ég að heimildum og fann frumkvöðul í Kaliforníu sem er að reyna að prenta hús. Ég hafði séð fyrir mér að leggja út sand í þunnu lagi, og sprauta svo lími eða sementi í sandinn þar sem veggir ættu að standa.
Kaliforníuútgáfan sprautar steypu úr stút og notar múrskeiðar báðum megin við stútinn til að forma vegginn.
Vélmennin eru að koma en þau líta ekki út eins og ég hélt.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2007 | 15:41
Hver gætir varðmannanna?
"Quis custodiet ipsos custodies" spurði Sókrates.
Forritarar finna ekki villur í eigin forritum því þeir vilja (ómeðvitað) ekki finna þær. Þess vegna þarf einhver annar að prófa forritin. Þetta eru viðtekin sannindi í hugbúnaðarverkfræði.
Rithöfundar fá vini sína til að lesa uppkast yfir. Ökukennarar senda nemendur í ökupróf í stað þess að prófa þá sjálfir.
Af hverju prófa þá kennarar eigin nemendur?
Ef nemendur fá lélegar einkunnir lítur kennarinn illa út. Þess vegna skrifar hann próf sem er jafn lélegt og kennslan. Nemendur borga skólagjöld og kennarar verða ómeðvitað skuldbundnir til að leyfa þeim að ná. Nemandinn er farinn að borga laun kennarans. Ekki bítur maður höndina sem fæðir mann?
Útkoman er gengisfelling á námi.
Við gætum búið til deild hjá ríkinu sem fylgist með gæðamálum í kennslu. Betri leið að breyta þessu er að aðskilja kennara og próf.
Stærri skólar myndu stofna próftökusetur. Nemendur gætu bókað tíma og mætt í próf þegar þeim hentar. Mörg próf væri hægt að halda í tölvuherbergi og fá einkunn samstundis. Önnur próf væru yfirfarin af kennurum eða nemendum sem væru á launum við að yfirfara svör sem þeir fengju send frá setrinu.
Prófið væri ekki úr námsefni allra faga heillar annar heldur í afmörkuðu efni, t.d. fylkjareikningi eða röðunaralgrímum, efni sem nemandinn var 1-3 vikur að tileinka sér. BS gráða yrði samsett úr mörgum svona stöðuprófum.
Prófstress yrði úr sögunni því prófin væru fleiri, en minni, og í boði allt árið.
Nemendur gætu fengið aukavinnu hjá próftökusetrinu við að semja nýjar prófspurningar og við að fara yfir svör.
Kennarar geta einbeitt sér að því að kenna. Ef nemandi spyr: "Verður þetta á prófi?" getur kennarinn svarað "ég veit það ekki, verðum við bara ekki að gera ráð fyrir því?" Prófin verða aftur það mælitæki sem þeim var ætlað að vera.
Nemandi frá HÍ gæti tekið próf hjá HR. Nemandi frá námshópum Ísafjarðar gæti tekið próf í MIT.
Sumir telja sig ekki þurfa kennslu og fyrirlestra til að taka próf, þeir geta þá lesið sjálfstætt og sparað tíma og peninga. Aðrir vilja fá kennslu vegna vinnu sinnar en telja sig ekki hafa gagn af próftöku. Þetta kerfi myndi henta báðum aðilum.
Skólasetur gætu orðið til um allt land sem einbeittu sér að kennslu í afmörkuðum fögum. Nemendur þeirra myndu snúa sér til viðurkenndrar prófstofnunar til að taka próf eftir að hafa stundað námið.
BS gráða eins nemanda gæti orðið til hjá mörgum stofnunum á mörgum árum og verið blanda af staðarnámi, fjarnámi og sjálfnámi. Ef nemendur ná góðu prófi væri það góð auglýsing fyrir viðkomandi skólasetur.
Þarna myndu opnast möguleikar fyrir t.d. Ísafjarðarkaupstað að verða "stærðfræðihöfuðstaður Íslands". Þótt rannsóknarháskóli með dýran sérhæfðan búnað geti kannski ekki risið þar á samt að vera hægt að bjóða þar kennslu eftir menntaskólastigið. Þarna opnast leið til þess.
Þetta er ekki ný hugmynd. Íslendingar á miðöldum stunduðu nám hjá presti í héraði og tóku svo próf í lærða skólanum um haustið. Economist skrifaði grein um þetta sama efni um daginn. Ég held að það sé mikið til í þessu.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.4.2007 | 11:18
Síðustu perurnar í seríuna takk !
Ljósin á jólatrénu eru þeirrar náttúru að það kviknar ekki á þeim nema allar perurnar séu í lagi.
Hjólastígar eru þannig líka. Ef þeir mynda ekki samhangandi net þá treysta foreldrar sér ekki til að senda börnin sín út á hjóli. Þeir skutla þeim í bíl í staðinn. Það er slæmt, því fullorðnir hjólamenn (eins og ég) eru búnir til úr börnum sem hjóla.
Það er fullt af hjólastígum í Reykjavík en þeir eru ekki farnir að mynda fulltengt net ennþá. Það vantar uppá 100 metra hér og þar. Mig grunar að kostnaðurinn við að klára uppbyggingu netsins sé ekki rosalegur, en nú þarf að skoða hjólastíganetið, finna þessar gloppur og eyða þeim.
Nýju brýrnar yfir Hringbrautina voru öfgakenndar. Ef markmiðið var að efla umferð hjólandi hefði ég ekki byrjað þar. Það hefði mátt kaupa þó nokkra kílómetra af venjulegum hjólastíg fyrir andvirðið.
Það er til kort af hjólaleiðum í Reykjavík, en kortið gerir ekki greinarmun á gangstétt og hjólastíg. Ég myndi ekki þora að senda barn yfir Suðurgötu hjá þjóðminjasafninu því þar þeytast bílar út úr hringtorginu yfir ómerkta gangbraut allan sólarhringinn. Samt er þetta merktur hjólastígur á kortinu, rétt eins og hjólaleiðin meðfram sjónum.
Kortið gerir ógagn því fólk gæti haldið að Reykjavík sé orðin góð hjólaborg og fólk hjóli ekki af því það er latt. Reykjavík er ekki orðin hjólaborg en gæti farið að verða það.
Ég trúi því að ef hjólastígarnir væru kyrfilega merktir þannig að fólk viti af þeim, og ef þeir eru færir um að koma fólki milli staða án þess að leggja lífið í sölurnar, þá muni kvikna á perunni: fólk fer að hjóla.
Ég veit með vissu að brekkurnar og veðrið eru ekki vandamálið, heldur umferðin. Hún fer ekki neitt og borgin ekki heldur. Þess vegna getum við óhrædd lagt í þessa langtíma fjárfestingu og aðskilið hjólandi umferð frá bílunum.
Verkfræðistofur hafa verið fengnar til að meta umferðarálagið á stærstu umferðargötum í Reykjavík. Ég legg til að næsta skref verði að verkfræðistofa verði fengin til að gera úttekt á hjólastígum borgarinnar með þessa spurningu að leiðarljósi: "Myndi ég þora að senda barnið mitt þessa leið á hjóli?"
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.4.2007 | 21:07
Ráðleggingar til prinsa
"Ég færi á taugum ef ég ætti svona mikla peninga" hugsaði ég um daginn. "Af hverju sofa þeir ríku vel?"
Ég held ég viti svarið. Peningar eru ekki aðalatriðið og hafa aldrei verið, þeir eru einkenni um annað mikilvægara: Vald. Ég ólst upp við að ríkið réði flestu á Íslandi og þetta er því nýtt fyrir mér, en ég er að læra.
Frægur leikari fær peninga fyrir það eitt að nota dýran bíl sem framleiðandinn vill gefa honum. Völd í formi frægðar færa leikaranum þannig peninga.
Sumir sem eru ríkir á Íslandi eru það af því þeir hafa völd, ekki öfugt. Þeir vita að völdin eru tryggð og sofa vel. Völdin geta verið í formi lögbundinna réttinda, kvóta, einokunar, tengslanets og margs annars.
Ráðuneytin og þingið samanlagt gera ca. 1100 starfsmenn, ætli meðalbankinn sé með 2000 starfsmenn? Hver er með stærri her þegar kemur að þekkingaröflun og tengslaneti?
Af hverju vilja margir að ríkisumsvif séu sem minnst? Kannski útaf völdum. Ef ríkið minnkar við sig verður til valdatóm og þar komast aðrir að. Peningarnir sem losna við sölu ríkisfyrirtækis eru kannski ekki aðalatriðið, heldur hver stjórnar auðlindinni.
"Það er til nóg af peningum, þeir eru ekki málið" sagði framámaður í þjóðlífinu við mig um daginn. Ég held ég sé að skilja rétt það sem hann var að reyna að segja.
Sumir verða nýríkir óvart, t.d. með því að eiga hús sem verður verðmætt. Ef þú átt 100 milljóna hús núna gætir þú selt það, lagt peningana inn á banka og fengið milljón á mánuði í vexti. Af þessari milljón getur þú borgað 10% fjármagnstekjuskatt og átt 900 þúsund á mánuði til að lifa fyrir.
Þú gætir notað nýja frítímann til að læra að kaupa völd - en flestir sem eignast óvart pening eru vanir að vinna dagvinnu og vinna áfram í staðinn eða slæpast bara í Florida. Þeir munu missa peningana frá sér smám saman ef þeir sækjast ekki eftir völdum. Þótt þú kaupir verðbréf verður hollusta verðbréfasalans ekki fyrst og fremst við þig því þú ræður ekki yfir honum.
Ef þú eyðir öllum dagstundum þínum í að vinna áttu engan tíma aflögu til að læra að beita þeim völdum sem þú þó hefur sem neytandi eða félagsmaður í einhverju félagi. Þekking = völd.
Kunningi sem vann í fjármálafyrirtæki sagði mér að hann hefði haft samviskubit yfir þeim sem eyddu öllum tíma sínum í að afla fúlgu fjár en afhentu hana í bankann eins og býflugur koma með hunang til bóndans. Kunninginn er kominn á eftirlaun fyrir fimmtugt.
Heildsali var heimsóttur af verzlunareigendum sem keyptu af honum pallettu af vörum fyrir hálfa milljón. Næst komu þeir og vildu heilan gám fyrir fimm milljónir. Heildsalinn var glaður. Í síðasta skipti komu þeir og sögðu "Við kaupum af þér heildsöluna fyrir fimmtíu milljónir". Hann sagði "ég held nú ekki, ég er að græða á tá og fingri".
Loks fékk hann uppsagnarbréf frá framleiðandanum sem sagðist hafa fengið betri umboðsmenn, þeir væru með 70% markaðshlutdeild. Heildsalinn sat eftir með sárt ennið. Hann hafði haft peninga en þeim fylgdu engin völd.
Svona geta þeir gert sem skilja að þeir hafa völd og þora að beita þeim. Ef peninga vantar tímabundið má fá þá lánaða, því þeir sem hafa völd hafa lánstraust.
Ef ríkið veit af ójöfnuði í þjóðfélaginu og vill minnka hann aftur þá er ekki víst að ríkið ráði í raun þegar þar að kemur. Skv. "Leviathan" eftir Hobbes er ríkið samningur milli þjóðfélagsþegna um að vera ekki í stríði við hvorn annan. Sá friður kemur niður á athafnafrelsi manna en það er fórnin.
Ef ríkið verður að engu er vopnahléið búið. Menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir gera ríkið óstarfhæft, hvar sem þeir standa í flokki.
Ef þú ert ungur og þarft að kaupa 100 fermetra íbúð núna þarftu 300 þúsund eftir 40% skatta til að eiga fyrir afborgunum og þá er eftir að kaupa í matinn. Framtíðarlandið virðist ekki ætlað þér í bili.
Machiavelli myndi ráðleggja þér að fara utan, verða ríkur, koma aftur og brjótast til einhverra valda með auðnum.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2007 | 09:40
Mætti ég koma með smá tillögu?
Grein Uwe Reinhardt um að gera ætti árás á Ísland, á sér forföður í enskum bókmenntum. Blaðagreinin "A Modest Proposal" eftir Jonathan Swift kom út 1729. Í henni leggur hann til að fátækar írskar fjölskyldur selji börnin sín sem gott kjöt til ríkra fjölskyldna í London.
Í greininni fjallar hann á yfirvegaðan hátt um bágt ástand hjá fátækum og svo kemur þessi málsgrein eins og skrattinn úr sauðaleggnum:
A young healthy child well nursed, is, at a year old, a most delicious nourishing and wholesome food, whether stewed, roasted, baked, or boiled; and I make no doubt that it will equally serve in a fricassee, or a ragout.
Í seinni hluta greinarinnar fer hann ítarlega gegnum útreikninga á því, hversu jákvæð áhrif þetta muni hafa á allar vísitölur. Í enskum skólum er þessi grein kennd sem eitt besta dæmið um breska kaldhæðni.
Fjöldi fólks skrifaði haturgreinar gegn Swift og þarmeð var tilganginum náð; greinin og hryllilegt ástand fátækra fjölskyldna í London komst á forsíður blaðanna. Jonathan Swift er best þekktur sem höfundur annarar þjóðfélagsádeilu en það er "Gulliver í Puttalandi".
Mér datt í hug að skrifa mína eigin grein í þessum anda. Í henni ætlaði ég að leggja til að nú, þegar flestir keyra um á jeppum yfir rennislétt malbik meðan stéttarnar í borginni eru svo niðurníddar að þær eru eiginlega bara færar jeppum, hvernig væri þá að skipta? Jeppafólkið getur notað frábæra torfærueiginleikana í eitthvað og við hjólanerdarnir fáum loksins hjólastíga.
![]() |
Mikil viðbrögð við grein háskólaprófessors um sprengjuárás á Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2007 | 11:53
Öxl - Hurðarás
Þeir sem hafa tekið húsnæðislán nýlega munu sjá eftir nokkur ár að skuldabyrðin minnkar ekki sem skyldi.
Á fimmtugsaldri á erfiðasta hjallanum að vera náð og peningarnir sem menn afla eiga að verða þeirra eigin til að leika sér fyrir. Á fimmtugsaldri fer mönnum að svíða mistökin.
Hér er slóð á Excel skjal. Fylltu út í gulu reitina, láns upphæð og afborganirnar sem þú treystir þér til að standa við, leiktu þér svo með verðbólgureitinn og fylgstu með grafinu hægra megin.
Það sem vekur athygli mína á grafinu er hvað lítil verðbólguhækkun hefur mikil áhrif.
Í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans hafði Davíð Oddson orð á því hversu margir gætu orðið gjaldþrota á næstunni. Menn telja gjaldþrot eins og banaslysin í umferðinni en þeir sem eru örkumlaðir komast ekki í fréttirnar.
Mér datt í hug næsta nafn sem nota mætti á banka. Nafnið er "Öxl - Hurðarás".
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.4.2007 | 20:57
Óþarfa ánauð II
Adam og Eva voru ekki með nafla svo ekki stunduðu þau naflaskoðun. Þau höfðu engan að heimsækja, ekkert videó og afi kom aldrei í heimsókn, hvað þá að hann passaði Kain og Abel.
Það eina sem hjónaleysin höfðu var epli sem á stóð "Ekki éta mig". Þau áttu aldrei séns í þá freistingu. Ekki er vitað hvernig Kain eignaðist börn eftir að hafa drepið bróður sinn...
Svo komu kynslóðir af kóngum sem voru hver öðrum andstyggilegri. Jobsbók, orðskviðirnir og Davíðssálmar eru ágæt lesning, en þess á milli rennur út í fyrir bókarhöfundum. Móses leiddi lýðinn áfram og hvílíkur lýður!
Guð gamla testamentisins er mislyndur og frátekinn fyrir Guðs útvöldu þjóð sem er ekki Íslendingar heldur Gyðingar sem voru sannfærðir um að allir aðrir færu til fjandans. Afar óviðkunnaleg heimspeki.
Nýja testamentið er miklu betra. Ég kann mjög vel við Jesú og er sammála honum í næstum öllu. Ég er viss um að hann hafi verið til, Rómverjar staðfesta það í skrifum sínum. Ég trúi bara ekki á hann frekar en ég trúi á poppstjörnur, drauga eða jólasveina.
Ég held að Jesú hafi farið í austur frá Palestínu, kynnst Búddisma og fært hann í búning sem var nágrönnum hans skiljanlegur. Það útskýrir hvers vegna hugsanir Jesú eru svo upp á kant við allt sem á undan er gengið í Biblíunni -- enda var hann krossfestur. Mér hefur alltaf fundist fyrri bókin draga þá seinni verulega niður.
Það er hægt að lifa andlegu lífi án trúar og öfugt. Skipulögð trúarbrögð eru eins og fótboltaáhorf en andlegt líf er eins og að stunda reglulega hreyfingu. Þetta tvennt fer oft saman en ekki alltaf. Í þessari samlíkingu eru trúarofstækismenn eins og fótboltabullur. Hvað hafa þær með íþróttir að gera?
Það kemst enginn í form með því að horfa á fótbolta og mennirnir verða ekki góðir með því einu að mæta í messur. Trúaðir og trúlausir þurfa að vinna með sig andlega því höfuðsyndirnar eru lestir sem allir þurfa að reyna að sigrast á.
Ég hafði mitt trúleysi út af fyrir mig og brosti þegjandi þegar einhver gaf sér að ég væri trúaður. Núorðið segi ég að ég trúi ekki. Fyrir því eru tvær ástæður.
Í fyrsta lagi hafa árásir trúarofstækismanna á turna, borgir og lönd gefið misvitrum mönnum veiðileyfi á lýðræðið sem ég met mikils.
Í öðru lagi ýta mörg trúarbrögð undir þá hugmynd að betra líf bíði hinum megin og ekki þurfi að passa upp á náttúruna því hún sé gjöf Guðs til mannanna til að fara með eins og þeim sýnist. Sumir ganga svo langt að hlakka til heimsenda. Ég vil ekki umbera vitleysuna í þannig fólki.
Enginn má halda að trúarbrögð séu það sama og andleg sjálfsrækt.
Þjóðkirkjuna ætti að skilja frá ríkinu. Hún segist vera órjúfanlegur hluti af sögu og menningu landsins. Það er rétt, hún verður alltaf hluti af sögu Íslands. Það væru mistök að afneita henni í sögubókunum. Það er þó ekki rökrétt að álykta að hún þurfi þess vegna að vera innbyggð í lýðveldið áfram.
Á páskum er haldið upp á að dagurinn er orðinn lengri en nóttin og að vorið er að koma. Páskarnir eru eldri en dagatalið. Þess vegna eru þeir alltaf haldnir á fyrstu helgi eftir fullt tungl eftir jafndægur á vori og færast til í dagatalinu. Kanínurnar og eggin eru frjósemistákn. Sögurnar um engilinn sem myrti börn Egypta og um innreið Jesú í Jerúsalem komu seinna.
Páskarnir eru ekki bara fyrir trúaða. Ég get líka sagt: Gleðilega páska!
PS: Ég er í góðum félagsskap
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)