Færsluflokkur: Bloggar

Um uppáhalds slönguna mína (og skort á tölvunarfræðingum)

Ég er tölvunarfræðingur.  Löngu áður en ég varð það, var ég með tölvudelluna.  BASIC var  forritunarmálið sem kom mörgum úr minni kynslóð af stað í faginu.  Ég kynntist  því fyrst á Commodore PET tölvu fimmtán ára gamall.


Commodore_PET_2001_LargeÉg veit ekki hvernig krakkar í dag fara að því að kynnast tölvum.  Þær eru  orðnar öflugri, en að sama skapi flóknari.

Það er orðið auðvelt að byrja að nota  þær, en erfitt að byrja að forrita þær.

Þetta er sambærilegt við það sem hefur gerst í bílabransanum. Bílar voru einu  sinni hannaðir þannig, að meðaljón gat gert við bílinn með topplyklasetti.  Vélin var undir hálftómu húddi tilbúin fyrir sýnikennslu. Bílskúrar landsins  voru kennslustofur í bílaviðgerðum. Nútíma bíll er svo flókinn og húddið er svo  fullt, að enginn kemst að til að skipta um kerti eða kynnast bílnum nánar.

Við þurfum fólk sem fiktaði í tölvum.

Sá sem fer í tölvunarfræði í háskóla þarf helst að hafa kynnst henni lítillega í  menntaskóla, þó ekki væri nema til að vita um hvað fagið snýst.

Ég held að krakkar séu hræddir við tölvunarfræði.  Ég held að þeir þori  ekki ekki að fara í hana af því þeir vita ekkert um hana og þori ekki  að "opna húddið".  Þeir komust ekki til að fikta í BASIC og byrja að hugsa um forritun sem heillandi ferli.

Hvort sem þessi skýring er rétt hjá mér þá er það staðreynd að krakkar sækja  ekki um í tölvunarfræði þótt markaðurinn hér á Íslandi sé að æpa sig hásan eftir lærðu  tölvufólki.

Hefur þú séð atvinnuauglýsingarnar?

Tölvunarfræðingar með þriggja ára starfsreynslu geta fengið hálfa milljón í laun.  Fyrst atvinnuhorfur eru svona góðar hljóta krakkarnir annaðhvort að halda að tölvunarfræði sé mjög erfið eða mjög  leiðinleg.

Tölvunarfræðin getur verið hrútleiðinleg ef menn skella nerdalegum hlutum eins  og vélamáli og C++ beint í fangið á nýliðum.  Hún getur hinsvegar verið  bráðskemmtileg ef menn fá strax að nota hana til að leysa dagleg verkefni og sjá hversu gefandi það er að láta vélar létta sér hugarstörfin.

Hér er dæmi um daglegt verkefni:

Búðu til lista yfir alla sem hafa sent þér tölvupóst sl. ár. Flettu þeim upp á símaskrá púnktur ís og athugaðu hvort þeir hafa skipt um símanúmer eða heimilisfang.

Uppfærðu símaskrána í Outlook til samræmis og settu nýja númerið þeirra líka út í gemsann ef það hefur breyst eða er ekki í honum þegar.

 

Þetta getur tölva leyst á sekúndum ef notandinn kann að segja henni að gera það.  Menntaskólaþekking í forritun ætti að duga til í mínu draumasamfélagi.

Samt held ég að 99.9% notenda myndu eyða mörgum klukkustundum við tölvu til að  leysa verkefnið handvirkt og enda með krampa í músarhendinni.  Til hvers vorum  við þá að finna tölvurnar upp?

...og nú að allt öðru ... og þó ekki.

Uppáhalds slangan mín

Python er uppáhaldsforritunarmálið mitt. Ef einhver myndi spyrja mig hvar hann  ætti að byrja, myndi ég svara "Python".

Þótt málið sé einfalt er það samt  alvöru forritunarmál.  Ég hef grætt fullt af peningum með forritum sem ég skrifaði í  því.  CCP samdi meirhlutann af EVE Online leiknum með því.  Google notar það til  að skrifa leitarsíðuna sína.

Í Python gæti fyrsta uppkast að lausn á verkefninu litið einhvern veginn svona  út.

    for postur in postforrit.allir_postar:
        if nyrri(postur,"1.jan 2006"):
            baeta_i_lista(sendendalisti, postur.sendandi)

    for sendandi in sendendalisti:
        sendandi.simanumer=simaskrarleit(sendandi.nafn)
        if gemsi.numer(sendandi)!=sendandi.simanumer:
            gemsi.uppfaera(sendandi)

Þetta er ekkert svo erfitt?  Hvort er skemmtilegra, að leysa smá forritaþraut eða eyða mörgum klukkutímum í handaavinnu?

Fólk er búið að breyta tölvunum í ritvélar á sterum.  Er ekki nær að læra smá forritun og geta sagt tölvum fyrir verkum í stað þess að  vinna sjálfur vinnuna fyrir þær?  Þær munu ekki læra íslensku á næstunni og forritunarþekking getur nýst öllum, ekki bara þeim sem ætla í tölvunarfræði í háskóla.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að forritunarkunnátta sé mikilvægari en að kunna að heilda og diffra.

Ef lesandinn gæti hugsað sér að kynnast tölvum með ástarinnar gleraugum á nösum  getur hann gert margt vitlausara en að fara á http://www.python.org, ná í  forritunarmálið Python og fara í gegnum "Tutorial" sem fylgir því.  Kannski  verður ást við fyrstu sýn.

Fólk sem  heldur að Excel kunnátta sé tölvukunnátta veit hættulega lítið.


python

 

 

 

 

 

 

 

 

PS:  Það er einmanalegt að halda úti skrifum um annað en stjórnmál þessa dagana  en einhver verður að standa pliktina :)

 


Tollurinn

Fyrir mér er tollurinn á leið inn í landið óþægileg áminning um það sem var.  Land haftastefnu og miðstýringar.

Ég man eftir að hafa farið með pabba í Landsbankann að sækja gjaldeyri. Þá  þurfti að framvísa farmiðunum þar til að fá gjaldeyri skammtað. Visa var ekki  komið í hendur íslendinga.  Útlönd voru miklu ólíkari Íslandi en í dag, þar  fékkst Toblerone og Macintosh og kók í dósum.

Meirihluti utanlandsferða fór í að kaupa græjur og föt, myndavélar og skó. Þegar  heimferðin nálgaðist tók við stressið, skyldum við verða "tekin í tollinum".
Check_Point_Charlie
Nú er allt breytt, maður borgar með Visa og biðraðirnar í Landsbankanum eru  liðin tíð.  Eitt hefur samt ekki breyst.

Hvernig má það vera að nútíma íslenskir heimsborgarar sem kunna mannasiði í  tugum landa og eru löngu hættir að detta í það kl.sex að morgni út í gömlu  kanastöð skuli þurfa að versla eins og þeir séu á leiðinni til útlegðar á norður  Grænlandi, og reyna svo að keyra smyglið í gegnum tollinn í sjúklegri útgáfu af  stórfiskaleik?

Á þessu andartaki hættir íslendingur 21.aldarinnar að vera stoltur heimsborgari  og verður aftur álútur fátæktarlúði sem yfirvaldið á með húð og hári.  Sekur  þangað til fundinn saklaus.  Skyldi Stazi gruna eitthvað?  Múrinn ennþá á sínum  stað.

Þegar við fluttum til Bandaríkjanna var ég fyrst hneykslaður á því hversu litla  þjónustu var að finna á flugvöllum þar.  Engar verslanir, bara skyndibiti og  sjoppa.  Hvar voru allar búðirnar?  Jú, þær voru á sínum stað, úti í malli.

Vöruverð í búðum í Bandaríkjunum er svo hagstætt að það hefur ekkert upp á sig  að kaupa vörur á flugvöllum.  "Duty free" gæti aldrei náð fótfestu þar.

Svona þarf þetta að verða hér á landi.  Búðirnar á flugvellinum eru arfleið frá  tímum haftastefnu og verndarstefnu og tolla.  Verð á vörum hér þarf að verða í  samræmi við önnur lönd svo vörur komi til landsins með sjóflutningum í stað þess  að vera bornar inn í flugvélar og settar í handfarangursgeymslur á meðan  flugfreyjur teppa gangana með litlu duty free kerrununum sínum.  Þetta er léleg  nýting á þotueldsneyti.  Alþjóðlegar reglur um 20 kg farangurshámark gera ekki ráð fyrir því að íslenskar ferðatöskur eru gámar fyrir vöruflutninga.

Ónefndur afgreiðslumaður í græjubúð í Reykjavík sagði mér að hann myndi loka  búðinni ef hann væri ekki með vörurnar til sölu úti í Leifsstöð.  Hann vissi vel  að búðin í Reykjavík væri bara sýningarbás.  Kaupin færu fram úti á velli.

Tollurinn hefur nóg að gera að leita að fíkniefnum.  Af hverju þarf hann að  leita að Ipoddum og myndavélum og osti?

Mig dreymir um þann dag þegar ég fer út í búð í Reykjavík til að kaupa mér  gallabuxur eða Ipod í stað þess að bíða næstu utanlandsferðar.

Það verður frábært að labba inn í landið án þess að þurfa að horfa upp á  skömmustulega meðborgara með ferðatöskurnar opnar meðan tollarar rótast í þeim  til að leita að neytendavarningi.


Möguleg slysagildra í Vesturbæjarlaug

Í Vesturbæjarlauginni í Reykjavík er vatnið iðulega ógegnsætt eins og ef mjólk hefði verið blandað saman við.

Ég hef heyrt tvær skýringar á þessu hjá starfsfólki.  Annars vegar þá, að kolsýran sem bætt er í vatnið til að minnka klórnotkun valdi þessu, hins vegar að málningin í lauginni (sem er ekki flísalögð) sé að leysast smám saman upp í klórnum.

Þegar ég syndi í lauginni sé ég oft ekki næsta mann og alls ekki sundlaugarbotninn.  Vatnið hlýtur að þurfa að vera gegnsætt til að eftirlitsmyndavélarnar komi að gagni.


mbl.is Drengurinn var utan sjónsviðs eftirlitsmyndavéla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólakaup

Í tilefni af því að margir eru að hugsa um hjólakaup vil ég minnast á tvennt:

Innanbæjar eru fjallahjól of þung og á of grófum dekkjum.  Betri kaup eru í svokölluðu borgarhjóli (City-Bike) sem lítur svona út:

Gjarðirnar eru stærri og dekkin þynnri en á fjallahjóli.  Engir demparar eru á hjólinu.  Hjólið hentar betur til bæjaraksturs og er ódýrara.

Hitt sem ég vil nefna er, að það er ódýrt að taka hjól með sér heim frá Kaupmannahöfn.  Flugleiðir taka 3000 kr fyrir hjólið og þyngd þess er ekki dregin frá farangursheimildinni.

Þar er mikið úrval af borgarhjólum og verðmunurinn borgar hæglega farmiðann.

Svo sakar ekki að skoða Kaupmannahöfn á nýja fararskjótanum.

PS:  Hér er eldri grein um hjólreiðar í Reykjavík

 


mbl.is Næst því að hjóla nakinn ...
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kismundur

Þetta er Kismundur, heimiliskötturinn: 

111_1117

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hann fannst í lyftu á Aflagranda  40 fyrir fjórum árum.  Forfaðir hans er sennilega norskur skógarköttur.  Ég hef ekki kynnst skapbetri ketti.  Annálaðir kattahatarar gera undanþágu þegar hann er annarsvegar enda er heilmikill hundur í honum.

Kannast einhver við að kettlingur hafi glatast í vesturbænum fyrir uþb. fjórum árum?

 


Um lýðræði, frjálst framtak og fleira

Farþegar í lestarvagni fóru að fikta í hitastilli sem sem hafði verið  stilltur á 20 gráður. Upp komu deilur.

Kulvísa fólkið vildi fá 22 stig en þeir sem voru þreknir vildu heldur 18 gráður.  Haldin var atkvæðagreiðsla og hitinn ákveðinn 22 stig með naumum meirihluta.

Dsc00950Menn voru almennt sammála um að lýðræðinu hefði verið fullnægt, en þreknu  farþegarnir héldu áfram að svitna og hugsuðu með sér að það hefði verið gott ef  einnig hefði verið kosið um óbreytt ástand.

 

 

 

 


Seinna komu lestarvagnar með fjögurra manna klefum.  Nú sátu þeir heitfengu  saman við opna glugga og þeir kulvísu gátu hjúfrað sig í öðrum klefum með ofninn  á fullu og gluggana lokaða.  Allir voru ánægðir og ekkert reyndi á lýðræðið.
97mos_train1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 ---

Ég hef séð þykk ský af fuglum á flugi en ég hef aldrei séð tvo fugla rekast á og  hrapa.

Nokkrir tugir flugvéla að meðaltali eru yfir Atlantshafi á hverju augnabliki.  Hver flugvél um sig hefur meira pláss en kúkur í keppnislaug.  Samt þarf aragrúa  af flugumferðarstjórum mörg þúsund kílómetra í burtu til að stýra þeim.
swarm

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vita fuglar eitthvað sem flugmálayfirvöld vita ekki?

---

Í frumskóginum er einstaklingsframtakið á fullu.  Hæstu tréin sólunda ómældri  orku í að verða hæst til að njóta sólar.  Plönturnar fyrir neðan deyja úr  ljósskorti.

Í sama skógi hjálpast maurar að.  Samhjálpin er alger og eigingirni ekki til  enda spurning hvort hver maur hafi meðvitund.

---

Ég hef séð sérfræðing hanna vélmenni sem á að rata út úr völundarhúsi.  Ég hef  líka séð völundarhús leyst með því að hella vatni ofan í það svo vatnsbunan  lekur út um útganginn.  Hvernig fór vatnið að því að rata?  Til hvers þurfti þá  allar tölvugræjunar?

Bristol_water_maze

 

 

 

 

---

Bifreiðaeftirlitið gamla fannst mér gott dæmi um leiðinlegt fyrirtæki.  Það var  ríkisrekið. Einkarekna Lyf og heilsa er í 2.sæti hjá mér.  Fyrirtækið sem mér  líkar best við þessa stundina er rekið af bænum: Sundlaugarnar.  Einkarekni  Bónus er í 2.sæti.

---

Átti lýðræðið við hjá lestarfarþegunum?  Lestarfélagið leysti málið án þess að  reyndi á lýðræði.

Er miðstýring betri, eða á hver einstaklingur að ráða sér sjálfur, eins og  fuglarnir gera á flugi?  Kirkjan er miðstýrð, AA samtökin og Al-Quaida ekki.

aqimsamir1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Er samvinnan best eins og hjá maurunum eða gildir einstaklingsframtakið eins og  hjá trjánum?

Á að kaupa dýrar lausnir á vandamálum sem eru kannski ekki vandamál ef maður  setur önnur gleraugu á nefið?

Hvort er ríkisrekstur eða einkarekstur betri?

Ég hef engin patent svör, bara að það er ekki hægt að alhæfa neitt.   Þetta eru bara verkfæri og hvert verkefni er  sérstakt.


Hefðir

Ef ég setti son minn og eiginkonu í kerru og rúllaði þeim á undan mér  niður Laugaveginn myndi fólk í fyrsta lagi segja að ég væri  stórskrýtinn, svo myndi það hugsa:  af hverju labbar fullfrískt fólkið  ekki sjálft í stað þess að láta hann ýta sér?

pushcart

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef ég sest líka upp í kerruna og læt mótór ýta okkur öllum er þetta  allt í einu ekkert skrýtið lengur...

Mér datt þetta sísona í hug á Laugaveginum í gær.

 100_0003


Álagning

Lyf og heilsa í JL húsinu er farin að selja krem sem ég var vanur að kaupa úti.

tigerbalm

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta ágæta smyrsli inniheldur chili og kamfóru og hitar vel vöðva sem eru aumir eftir hlaup eða skrifborðssetu.   Ég var glaður að sjá kremið aftur, en ekki eins glaður að sjá verðið sem var 750 kr. dósin.

Á Amazon er hægt að panta þessa sömu dós fyrir 3$ eða 190 krónur.  Verðið er því fjórfalt hærra en úti.  Ég er ekki með fjórfalt hærri laun en ég hafði úti.

Þarna er ekki hægt að kenna landbúnaðinum um.  Þetta er bara óhófleg álagning.  Ég verð svo reiður þegar ég sé svona, en það er svo lítið hægt að gera.  Ég labbaði bara út kremlaus.

 


Strætó framtíðarinnar

Ég sá ótrúlega tækni í Tallin í Eistlandi síðustu helgi.  Eistar hafa tekið framúr vetnisstrætópælingum Íslendinga og keyra nú um alla borgina í rafmagns strætisvögnum.

Þeirra tækni nýtir rafmagnið betur en vetnisstrætó gerir.  (Það þarf rafmagn til að mynda vetni). 

tallin310e

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég var að grínast.  Tæknin er ekki ný, hún er áratuga gömul.


Enn einn merkipenni sem vill ekki Windows Vista

Bruce Schneier er höfundur bókarinnar "Secrets and Lies" sem fjallar um tölvuöryggismál, ég les fréttaskeytin hans reglulega.

cover-sandl-200h

Hann er ekki hrifinn af Windows Vista sem hann upplifir sem stórt skref afturábak í réttindamálum tölvunotenda.  Hér er úrdráttur úr grein hans um Vista:

Unfortunately, we users are caught in the crossfire. We are not only stuck with DRM systems that interfere with our legitimate fair-use rights for the content we buy, we're stuck with DRM systems that interfere with all of our computer use -- even the uses that have nothing to do with copyright.

In the meantime, the only advice I can offer you is to not upgrade to Vista. It will be hard. Microsoft's bundling deals with computer manufacturers mean that it will be increasingly hard not to get the new operating system with new computers. And Microsoft has some pretty deep pockets and can wait us all out if it wants to. Yes, some people will shift to Macintosh and some fewer number to Linux, but most of us are stuck on Windows. Still, if enough customers say no to Vista, the company might actually listen.

 Greinin birtist upphaflega í Forbes blaðinu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband