Færsluflokkur: Bloggar
10.10.2007 | 21:17
Ég hef hitt óvininn og hann er við sjálf
Einu sinni mátti ég ekki eignast hlut í fyrirtæki sem ég vann hjá, því það var þá enn að litlu leyti í eigu ríkisfyrirtækis; ég tel mig hafa skaðast á þessu. Ég treysti að reglan gangi enn jafnt yfir alla og að engir einkaaðilar hafi átt að eignast ómaklega hlut í sameign borgarbúa.
Ég veit ekki hvort það stóð til. Menn eru saklausir þangað til fundnir sekir.
Ég reyni að sinna mínu starfi en verð að treysta því að aðrir geri það líka, því nútímaþjóðfélög ganga fyrir sérhæfingu.
Ef allir Reykvíkingar hafa fylgst með fréttum af Orkuveitumálinu í eina klukkustund og meðallaun eru 3.000 krónur á tímann hafa 600 milljónir króna þegar tapast bara vegna fréttaáhorfsins. Það er því mikið í húfi að fólk vinni vinnuna sína samviskusamlega svo ekki þurfi að segja af því fréttir.
Í Kína er spilling ennþá dauðasök. Það er sennilega gott að aftökur tíðkast ekki hér, en það má samt einhver meðalvegur vera. Að lágmarki verður að ætlast til þess að fólk haldi ekki opinberu starfi eftir meiriháttar afglöp.
Ef þegnar telja sig sjá afglöp, hvað eiga þeir þá að gera? Menn geta þusað í bloggi en það er vita gagnslaust, held ég.
"I could burn the house down"
Þegar upp er staðið verð ég að viðurkenna að það var Svandís Svavarsdóttir sem velti hlassinu, annars hefði ekkert gerst. Á tímabili hlaut hún skítkast fyrir. Núna er boltinn hjá umboðsmanni Alþingis og héraðsdómi, þökk sé henni, en ekki blogginu hjá mér eða neinum öðrum.
---
Þegar Halldór Laxness flutti til Íslands eftir utandvölina fann hann hjá sér þörf til að segja þjóð sinni til syndanna í skáldverkum eins og Íslandsklukkunni, Sölku völku og Atómstöðinni enda var hann ekkert sérstaklega vinsæll meðal margra sem vildu ekki hleypa þessu heimkomna merkikerti upp með moðreyk.
Kiljan var ekki að úthúða stjórnvöldum, heldur benti hann þjóðinni allri á sinn eigin slóðaskap. Ólafur Kárason, Bjartur í Sumarhúsum og Jón Hreggviðsson voru alíslenskir gallagripir sem komu ekki úr stjórnmálageiranum, og þeir stóðu ekki með sjálfum sér.
Ísland er vissulega frábært land. Þá á ég við landið - en þjóðin ætti kannski að taka sig á. Ég hef lengi verið þeirrar trúar að fólk fái yfir sig þær ríkisstjórnir (og borgarstjórnir) sem það á skilið. Ef ráðnir fulltrúar standa sig ekki er það að hluta til vegna þess að betri fulltrúar voru ekki í boði. Agalaus þjóð elur upp agalausa embættismenn.
Ég þekki fullt af fólki með vísi að góðum eiginleikum, hjálpsemi, dug, hugrekki og heiðarleika. Þetta er bara vísir. Það þarf meira til. Við erum ekki alin upp til að verða borgarar og embættismenn af okkar eigin þjóðfélagi. Kannski er þetta vítahringur.
Kannski er skýringin söguleg. Við höfum ekki járnbrautir af því við fórum beint frá moldarkofum og hestum í steinsteypu og jeppa. Á sama hátt fórum við beint úr sveitamennsku í neysluhyggju án þess að máta nokkurn tímann borgarahlutverkið -- fá meðvitund um að bera ábyrgð sem þegnar.
Jón Sigurðsson barðist fyrir sjálfstæði okkar en svo læddumst við bakdyramegin út meðan Danir voru herteknir af Þjóðverjum. Stuttu síðar vorum við að verða rík á hernaðarbraskinu. Það var aldrei nein stór bylting þar sem lýðræðið fékk eldskírn í blóði, þar sem við lærðum að vera borgarar. Of auðveld velgengni spillti okkur kannski.
Ef við gætum okkar ekki núna missum við sjálfstæðið aftur, í þetta sinn í hendur manna sem voru einu sinni íslendingar en eru nú orðnir alþjóðlegir bissnessmenn. Margir sjá þetta og ofbýður en þeir fengu ekki þjálfun í réttum viðbrögðum. Hvað eigum við að gera núna annað en blogga?
Þetta klýfur þjóðina. Þegar frammámen tjá sig í fjölmiðlum og segja "Við eigum ekki að ganga í evrópusambandið" eða "við eigum að selja orkuveituna" þá spyr ég mig: hvað meina þeir með "Við"? Erum við ein þjóð ennþá? Ég á ekkert sameiginlegt með nýju óligörkunum.
Ég held ég reyni að kynna mér hvernig lýðræði er haldið virku og hver minn þáttur á að vera í að svo megi verða áfram. Blogg og kosningar á fjögurra ára fresti nægja kannski ekki eins og staðan er í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2007 | 07:17
Klaus Nomi
Ég sá þátt í franska sjónvarpinu um þýskan tónlistarmann sem var búsettur í New York en varð mjög frægur hér í Frakklandi á níunda áratugnum. Maðurinn hét Klaus Nomi.
Ég spurði kollega mína hvort þeir myndu eftir honum. Allir voru sammála um að hann hefði verið frægur og merkilegur.
Dansarinn Josephine Baker, sem var fædd í Missouri, sló líka rækilega í gegn hjá frökkum, án þess að verða mjög fræg annars staðar.
Söngstíllinn hjá Klaus var vægast sagt sérstakur því hann söng í sópran þótt hann hafi verið fullfær um að tala í eðlilegri tónhæð. Hér er myndband með honum.
Klaus Nomi varð einn af þeim fyrstu til að deyja úr AIDS og ferillinn varð æði stuttur fyrir vikið.
Man einhver á Íslandi eftir þessum manni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.10.2007 | 20:31
Almennilegt fólk
Ég er búinn að hugsa of mikið um íslensk skítseiði í viðskiptageiranum í þessari viku. Ég verð að hugsa um annað til að verða ekki þunglyndur.
Hér eru menn sem gera samfélagið betra, ekki verra. Ég fór á tónleika með Bela Fleck í Durham, Norður-Karolínu 1992. Hér tekur hljómsveitin lagið "Hoedown". Fyrstu 30 sekúndurnar eru kynning, en biðin er þess virði.
Bela Fleck er maðurinn með banjóið. Bassaleikarinn heitir Victor Wooten og er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hérna má sjá hann taka lagið "Norwegian Wood" sem Bítlarnir sömdu.
Svona fólk vil ég þekkja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.10.2007 | 14:40
Torfbæir enduruppgötvaðir
Í kaffitímanum fóru frönsku kollegar mínir að tala um kaup á arni til að setja í stofuna. Ég missti út úr mér að ég gæti alveg hugsað mér einn slíkann.
Þeir bentu á, að á Íslandi væri enginn viður til að brenna en hins vegar væri nóg af heitu vatni svo hvers vegna skrúfaði ég ekki frá vatnsofninum í stað þess að láta mig dreyma um lausn sem ætti ekki við?
Þetta er náttúrulega alveg rétt, við þurfum ekki arna. Annað sem við þurftum sennilega ekki eru svalir.
Ég er með svalir í vesturbænum sem eru gagnslausar gagnvart elífu vindgnauðinu. Svalirnar á íslenskum húsum virðast oft vera þar "af því bara", af því hús eiga að vera með svalir, en án þess að tilgangurinn með þeim hafi verið hugsaður. Margir reyna að gera gott úr öllu og breyta svölum í sólstofur eftirá með því að glerja þær.
Ef svalir voru svarið, hvað var þá spurningin? Hvernig væri að hanna bara sólstofuna strax og húsið er teiknað og hafa hana ómissandi hluta af húsinu? Það væri góð nýting á heita vatninu myndi ég halda.
Ég sé fyrir mér stiga úr stofunni út í lítinn gósengarð undir glerþaki þar sem hægt væri að njóta þeirrar dagsbirtu sem í boði er, kannski mjatla á heimaræktuðu vínberi eða tveim. Þarna væri hægt að hafa lítið eldhús með hlóðum og strompi í stað ameríska útigrillsins (sem útlendingar hafa víst haldið að séu ljósritunarvélar úti á svölunum hjá okkur) og þarna mætti borða allan ársins hring.
Er eitthvað því til fyrirstöðu að nota heita vatnið til að skapa svona þakparadís? Íslendingar voru með gras á þökunum til forna, kannski er tímabært að skoða þann möguleika aftur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.10.2007 | 08:19
Opið eða lokað ?
Þegar HM í fótbolta var haldið síðast var sent út beint í flestum löndum. Danska ríkissjónvarpið sendi út og ég hugði mér gott til glóðarinnar að horfa, því DR1 er á Breiðbandi landssímans sem mitt heimili borgar fyrir.
Mér varð ekki kápan úr því klæðinu því Síminn slökkti á útsendingum DR1 vikuna sem HM var haldið. Hér á landi þurfti að borga "premium" til 365 miðla fyrir það sem var sent út í ríkissjónvarpinu í öðrum löndum.
Ég vissi aldrei hvort síminn mátti slökkva á sjónvarpssambandi við útlönd sem þeir voru búnir að samningsbinda sig til að útvega mér gegn greiðslu. Þeir lækkuðu ekki mánaðargjaldið fyrir mánuðinn sem þeir slökktu og enginn kærði þá því íslendingar eru eins og þeir eru.
Þetta rifjast upp fyrir mér núna því yfirvöld í Búrma voru að loka á internet samband landsmanna og í sömu viku frétti ég að strákarnir sem bjuggu til Skype eru búnir að gera nýtt fyrirbæri sem heitir "Joost" og hægt er að sækja hér.
Joost breytir heimilistölvunni í ókeypis kapalsjónvarp. Myndgæðin eru ágæt ef netsambandið er gott því þjöppunin er mikil og góð.
Þarna opnast hugsanlega leið til að horfa á amerískar sjónvarpsstöðvar sem hafa hingað til ekki verið sendar út hér, líklega vegna þess að á þeim eru ókeypis þættir eins og "Simpsons" sem Íslendingar "eiga að borga fyrir".
Ég veit ekki hvort reynt verður að skadda Internetið til að fá Joost til að hætta að virka en það kæmi mér ekki á óvart miðað við reynslu mína af Íslandi og "frjálsri samkeppni" þar, því viðskiptafrelsi er mikið misnotað hugtak hér á flæðiskerinu þessa dagana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.9.2007 | 19:38
Ofbeldi 1 - Lýðræði 0
Í Búrma hefur stríðsherrunum sem halda þjóðinni í gíslingu tekist að berja niður friðsamleg mótmæli með því að myrða búddamúnka.
Ég hef ekki séð jafn skíra baráttu milli góðs og ills síðan ég sá Star Wars.
Merkilegast finnst mér að Bandaríkjamenn skuli ekki ætla þarna inn til að hjálpa Aung San Suu Kyi að komast til þeirra valda sem hún er réttkjörin til.
Að vísu liggur Búrma upp að Kína og sennilega best að koma ekki þarna nálægt, en Írak liggur upp að Íran, og ekki stoppaði það þá í að breiða út frelsi og lýðræði þar.
Ég vona að það fari að skýrast, hvaða þjóðir mega búast við innrás ef lýðræðið er ekki nógu gott.
Ég er ennþá svo barnalegur - en mér gengur illa að sætta mig við að "góðu" ríkisstjórnirnar skuli ekki ráða meiru þegar allt kemur til alls.
Að enginn "sterkur pabbi í hverfinu" skuli geta bankað að dyrum á þessu þjóðarheimili ofbeldisins og stöðvað misþyrmingarnar sem þarna fara fram og allir hlusta þöglir á.
Ef Hitler væri að setja helförina í gang í dag, myndi hann komast upp með hana aftur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
28.9.2007 | 08:17
Um ást á dauðum hlutum
Þegar ég var búinn að hjóla í vinnuna í morgun kastaði ég mæðinni fyrir utan hús og horfði á hjólið með ástarinnar gleraugu á nösum.
Þetta hjól eignaðist ég 1982. Það var notað og frekar illa farið, en ég sá að stellið var fyrsta flokks (Reynolds 531) svo ég skipti um gírana, gjarðirnar, dekkin og alla barkana, bæði bremsu og gíra. Ég er búinn að eiga hjólið í 25 ár og sennilega er það sjálft orðið þrítugt. Ég veit að það var handsmíðað af manni sem heitir David Russell í borginni Slough á Englandi. Síðast þegar ég heyrði hafði hann fengið slag og hann er hættur að smíða.
Gírskiptarnir eru niðri á botnstönginni og það eru engar smellur í þeim heldur stillir maður þá sjálfur eins og fiðlustrengi. Svona hjól fást ekki lengur og reyndar ekki varahlutir í þau heldur. Dekkjastærðin er ekki 700C eins og tíðkast á hjólum í dag heldur 27" sem ég sé ekki lengur til sölu.
Ég þekki hjólið algerlega. Ég hef oft tekið það í sundur niður í síðustu kúlulegu og sett saman aftur, þrifið og smurt. Hjólið myndi aldrei bila mér að óvörum af því ég veit í hvaða ástandi það er.
Þetta hjól er löngu afskrifað og einskis virði samkvæmt tryggingarfélaginu. Í dag eru reiðhjól soðin saman af vélmennum og þau löngu orðin hluti af neyslumenningunni þar sem hlutum er hent.
Fólki er kennt að binda ekki ástfóstri við dauða hluti. "Þú átt ekki að elska hluti sem geta ekki elskað þig til baka" er sagt.
Þetta er rangt. Menn eru að rugla saman tvenns konar ást.
Hjólið er fyrir löngu orðin framlenging af mér. Ég geri ekki mikinn greinarmun á því að klippa á mér neglurnar eða smyrja keðjuna á hjólinu. Ef ég missi þetta hjól mun ég syrgja það eins og ef ég missti framan af fingri.
Ef ég sæi fingurinn afhöggvinn gæti ég líka sagt um hann, að hann gæti ekki elskað mig til baka. Það er ekki þar með sagt að ég myndi ekki sakna hans. Hann var hluti af mér og það er hjólið orðið líka. Ég er ekki að tala um rómantíska ást heldur umhyggjuna sem kemur á mörgum árum þegar maður virkilega þekkir eitthvað vel og hefur passað uppá það.
Í morgun horfði ég á hjólið og fann að mér þótti vænt um það. Ég skammast mín ekkert fyrir það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.9.2007 | 16:59
La vie est belle
Ég er ennþá í Rennes í Frakklandi.
Þegar ég kem út á morgnanna gríp ég andann á lofti því allt er svo fallegt.
Blómin sem vaxa við gluggann ilma. Húsið mitt er allt skakkt og skælt en samt fallegt. Gatan er með tígulsteinum og hún er falleg.
Bakarín eru fallegt og kaffihúsin líka.
Fólkið sem situr á kaffihúsunum líka.
Ég veit ekki hvernig Fransmennirnir fara að þessu, en ég myndi vilja komast að því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2007 | 20:19
Harmleikurinn um úthverfin
Hér er athyglisverður fyrirlestur fluttur af James Howard Kunstler.
Ég hafði ekki séð hann þegar ég skrifaði bloggin á undan, en hann segir eiginlega það sem ég var að reyna að segja, bæði um úthverfi og neyslumenningu.
Á vefsíðunni http://www.ted.com eru margir aðrir fyrirlesarar sem eru þess virði að sjá:
- William McDonough talar um hvernig eigi að hanna hluti með það fyrir augum að við ætlum að lifa áfram á plánetunni.
- James Nachtwey talar um feril sinn sem stríðsfréttaljósmyndari.
- Hans Rosling segir sannleikann um þriðja heiminn.
Þarna er fræðandi efni af þeirri sort sem auglýsingavædda "ríkis" sjónvarpið okkar ætti að vera að sýna!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2007 | 11:57
Ljósmyndir
Ég rakst á þennan herramann í St.Malo í síðustu viku. Hann er búinn að hæna máf að sér að því marki, að fuglinn sezt á hendina á honum og þeir horfa á hvorn annan í þögulli aðdáun.
Þetta hafði ég aldrei séð fyrr. Hann (maðurinn) sagði mér að augnaráðið væri lykillinn að velgengni í þessari list. Mér sýndist aðgengi að snarli fyrir mávinn hafa eitthvað að segja líka.
Ég hef verið að setja myndir í albúm á vefnum fyrir fjölskylduna mína. Kannski finnst einhverjum öðrum gaman að fletta þeim. Nýjustu albúmin eru frá Rennes í Frakklandi, en eldri myndirnar koma víða að.
Nú ætla ég út í góða veðrið og hjóla 40 km!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)