Færsluflokkur: Bloggar
12.11.2007 | 19:44
Mennning og ómenning
Menning
Ég kíkti á vefmyndavél sem er staðsett í Reykjavík meðan ég drakk morgunkaffið hér í Rennes. Mér fannst drungalegt að rýna út í myrkrið og rigninguna í gegnum linsuna og ég varpaði öndinni léttar þegar ég gekk út í sólbjartan morguninn og settist á hjólið. Hér skín sól og hér er logn og hitinn er í kringum tíu gráður. Íslenskt sumar.
Ég hljóp í eina klukkustund í hádeginu og fékk mér svo samloku með vinnufélögunum. Það urðu tímamót því samræðurnar stöðvuðust eitt augnablik og einn vinnufélagi sagði: "Kári, þú ert farinn að tala á frönsku" - á frönsku. Ég varð upp með mér og sagði, "Takk, ég reyni".
Það er eins og hella hafi farið frá eyrunum og ég get fylgst með samræðum fólks, og afgreitt erindi mín í síma. Þetta er ofsalega gaman.
Hér er svo mikla menningu að sækja, líka fyrir nerda. Frakkar hafa alist upp við verkfræðileg stórvirki Rómverja, brýr og vatnslagnir. Napóleon horfði á þessi mannvirki og ákvað að verkfræðingar væru það verðmætasta sem þjóð gæti átt. Þessa gætir enn í dag. Það er engin tilviljun að Airbus þotur koma héðan, tölvunet á öll heimili áður en Internetið var fundið upp, háhraðalestir sem ná 574 km hraða, svo ekki sé talað um verkfræðiviðundrið, Parísarturninn.
Í Rennes eru margar búðir sem selja teiknimyndasögur og ævintýraspil og líkjast búðinni Nexus í Reykjavík.
Þegar ég kem inn í bókabúðirnar hér sé ég gífurlega spennandi bækur um allt milli himins og jarðar, siglingafræði, kajaka, ferðabækur um allan heim, þær hafa ekki verið þýddar og ég hef ekki getað látið mig dreyma um að lesa fyrr en núna.
Ómenning
Þegar ég hjólaði heim úr vinnunni áðan kom ég við í stórmarkaðinum við bílaplanið þar sem heitir Place Hoche. Þar var ölóður strákur við innganginn sem reyndi að fá alla þá sem gengu inn í búðina til að slást við sig. Fólk var dauðhrætt. Ég sá starfsmennn búðarinnar á hlaupum inni.
Ég fann hjartað slá örar, ég fann fyrir gamalgróinni hræðslu og reiði, því ég ólst upp á drykkjuheimili. Mig langaði mest til að berja hann niður enda er ég orðinn stór strákur núna - en ég ákvað að nota hinn innganginn á búðinni.
Á meðan ég var inni heyrðust hróp úti fyrir og svo sírenur. Þegar ég kom út lá strákurinn rænulítill og kjökrandi í breiðu af glerbrotum með alblóðugt höfuð því dreyrinn lak úr augnbrúninni. Þessi ógnandi óvætt var orðin að kjökrandi barni.
Þrír lögreglubílar og sjúkrabíll stóðu fyrir framan búðina og hópur af lögreglumönnum horfði á strákinn liggja meðan einn tók skýrslu af tveim ungum mönnum sem virtust hafa gert það sem ég var að hugsa um að gera þegar ég kom. Mikið var ég feginn að hafa ekki tekið þennan slag, útlendingurinn.
Þessir ólánsmenn eru iðulega við búðina. Þeir eru dökka hliðin á drykkjumenningu Frakka og þeir hanga fyrir utan stórmarkaðina af því brennivínið er selt ódýrast þar. Þeir eru jafn ómissandi hluti af stórmarkaði í borg eins og flugurnar sem stikna á tilþessgerðum tækjum sem hanga fyrir ofan kjötborðið.
Ég er sannfærður um að þeir sem vilja vín í verslanir heima hafa ekki hugsað málið til enda og þeir sjá heiminn ekki eins og hann er.
Glansinn af þeirri breytingu færi jafn hratt og af lakkinu á nýrri bíldruslu.
Bloggar | Breytt 13.11.2007 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.11.2007 | 10:14
Gömul bók endurútgefin
Hún tengist miklum voðaverkum og það er full ástæða til að benda fólki á að aðstoða börn við að lesa bókina til að þau túlki hana ekki bókstaflega. Það verður að skoða bókina í samhengi við sögu hennar.
Engu að síður er sjálfsagt að endurútgefa bókina því hún er ómetanleg heimild um fyrri tíma.
Ég reikna með að ná mér í eintak af henni fljótlega enda verður spennandi að sjá hvaða breytingum hún hefur tekið í meðförum nýrra útgefenda -- mér er sagt að nýja útgáfan sé vönduð, enda ekki við öðru að búast þegar Biblían er annars vegar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.10.2007 | 14:10
Banvænar örbylgjur og Barbapabbi
Þegar ég fékk fyrst örbylgjuofn tók ég eftir því að te og kaffi sem ég bjó til með því að hita vatn í bolla í ofninum var ekki gott. Ég var á því að einhverjar óheilnæmar bylgjur væru í vatninu eftir ofninn og fór að nota hraðsuðuketilinn aftur.
Miklu seinna hugkvæmdist mér að stinga hitamæli í bolla með heitu vatni sem hafði verið hitað í hraðsuðukatli, og bera saman við vatnsbolla úr örbylgjunni.
Þegar maður hellir vatni úr hraðsuðukatli í bolla kólnar vatnið úr 100 gráðum í 70 gráður við að koma í kaldan bollann. Hins vegar er vatn í bolla sem var hitað í örbylgju hundrað stiga heitt ef maður leyfir vatninu að sjóða áður en bollinn er tekinn út, því bollinn hitnaði með vatninu. Skyndikaffi og te sem fer út í hundrað stiga heitt vatn verður ódrekkandi einhverra hluta vegna, hitinn eyðileggur bragðið, arómatískar olíur gufa upp eða hvað veit ég.
Lausnin er að mæla annaðhvort styttri tíma svo vatnið verði ekki heitara en sjötíu stig í bollanum, eða setja kalt vatn út í bollann á eftir, áður en skyndikaffi eða tei er bætt út í.
Þetta var þá ekki dularfull örbylgjumengun!
Fyrst ég er farinn að leysa gátur í eldhúsinu dettur mér annað í hug:
Man einhver eftir söguhetjunni Barbapapa? Um daginn sá ég sirkús í Frakklandi og komst að því að væmna sykurkvoðan sem er kölluð "Candyfloss" heima heitir "Barbe-à-papa" á frönsku, en það þýðir víst bókstaflega "Skeggið á pabba" enda má líkja Candyfloss við skegg á öldungi.
Barbapabbi er einmitt fransmaður. Þar er komin skýringin á bæði nafninu og litnum á söguhetjunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2007 | 12:00
Hobbítaholur
In a hole in the ground there lived a hobbit. Not a nasty, dirty, wet hole, filled with the ends of worms and an oozy smell, nor yet a dry, bare, sandy hole with nothing in it to sit down on or to eat: it was a hobbit-hole, and that means comfort.
It had a perfectly round door like a porthole, painted green, with a shiny yellow brass knob in the exact middle. The door opened on to a tube-shaped hall like a tunnel: a very comfortable tunnel without smoke, with panelled walls, and floors tiled and carpeted, provided with polished chairs, and lots of lots of pegs for hats and coats -- the hobbit was fond of visitors. The tunnel wound on and on, going fairly but not quite straight into the side of the hill.
Þessi byrjun höfðaði alltaf til mín. Ég hefði viljað heimsækja Bilbo Baggins og fá mér te og smákökur með honum en því miður var hann uppi fyrir mína tíð..
Eftir að hringadrottins saga kom í bíó hafa margir sérvitringar viljað gera hobbítaholur. Þetta er mjög vistvæn aðferð við að byggja húsnæði. Þetta gæti líka verið ódýr aðferð fyrir fólk til að koma sér þaki yfir höfuðið - til eru þeir sem vilja ekki kaupa sex milljón króna eldhús og gætu sætt sig við frumstæðari huggulegheit.
Íslendingar eiga þegar sínar hobbítaholur sem eru gömlu íslensku torfbæirnir, en þeir voru "nasty,dirty, wet holes with oozy smells". Ætli hægt væri að ráða bót á því?
Það gæti verið gaman að byggja nútíma útgáfu af íslenskum torfbæ, með almennilegri hitaveitu, rafmagnslýsingu og gegnheilum viðargólfum og fullt af snögum... Gaman væri að vita hversu mikið slíkt hús myndi kosta? Ætli kringlóttu útidyrnar yrðu ekki dýrasti hluti byggingarinnar?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.10.2007 | 20:35
Á tindi Mont Blanc - í heita pottinum
Ein af uppáhaldsbókunum mínum er "Brött spor" eftir Sir Edmund Hillary þar sem hann lýsir ferð sinni upp á Everest.
Ég rakst á aðra lýsingu af fjallaferð sem er stórkostleg á sinn hátt. Nokkrir gárungar tóku sig til og gengu á Mont Blanc með allt sem til þurfti til að byggja heitan pott á staðnum. Ég læt myndirnar tala sínu máli - en er ekki tímaspursmál þar til maður kemst í bað aðstöðu á Hvannadalshnjúk?
Ég rakst á ferðasöguna hjá Guillaume Dargaud sem ég fylgist með vegna ljósmyndanna sem hann tekur sem og útivistarinnar, en hann bjó á Suðurskautinu um nokkurt skeið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2007 | 21:09
Ortir þú þetta?
Davíð Þór Jónsson á að hafa spurt upprennandi skáld: "Ortir þú þetta?".
Skáldið svaraði : "Já".
Davíð sagði: "Jahá! ... hefurðu svolítið verið að -- orta?"
Menn þurfa að kunna íslensku til að misnota hana svona vel.
Það minnir mig á kvæði eftir einn af framvörðum íslenskrar hámenningar:
liggur niður hraun og hjarn
heljarvegur langur
fjarskalega leiðingjarn
er lífsins niðurgangur
Og þá er ég kominn að efninu: Mér er ljúft að tilkynna að höfundur stökunnar að ofan er farinn að blogga hér á Moggablogginu.
Bloggið mitt heitir reyndar í höfuðið á ljóðabók eftir hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.10.2007 | 19:25
Hlutabréfin falla kannski á morgun - bílar örugglega!
Í tilefni af áhyggjum af verðfalli á mörkuðum á morgun datt mér í hug að skoða verðfall VW Passat bíla. Ég setti inn verð fjörtíu bíla skv. bílasölum á vefnum:
2007 kostar bíllinn 2.800 þúsund nýr en tíu ára gamall er hann kominn niður í 500 þúsund, það er lækkun um 2.300 þúsund eða 230 þúsund á ári. Þetta er uppsett verð á bílasölunni, ég veit ekki hvort bíllinn selst á því verði.
Skattstjóri álítur að afföll af bílum séu 10% á ári. Hér er graf sem sýnir 10% lækkun afturvirkt af sömu upphæð:
Skattstjóri er bjartsýnn, hann heldur að 1997 árgerð kosti milljón en raunveruleikinn er 500 þúsund.
Bílar eru engin fjárfesting, en það vissi ég svosem fyrirfram.
Ef þessi sama upphæð hefði verið sett inn á reikning með 10% ársávöxtun árið 1997 væri vöxturinn svona:
Á þessu ári væri upphæðin komin í 7,2 milljónir. Það væri hægt að loppa af 4,4 miljónir og nota í eitthvað skemmtilegt, og vera samt með 2,8 milljónir eftir á reikningnum.
---
Mjög dýr reiðhjól á Íslandi geta kostað 200 þúsund krónur, en það er samt minna en verðfall á venjulegum Passat á einu ári. Það er skrýtið hvað sumu fólki finnst sumt dýrt stundum en borgar svo aðra fokdýra hluti með glöðu geði. Passat er ekki dýrasti bíllinn á götum Reykjavíkur í dag og hann fellur örugglega ekki meira í verði en sumir jeppar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.10.2007 | 15:48
Er breiðband Símans á útleið?
Fyrir nokkrum árum lagði Síminn Breiðbandið í götuna til mín og í kassa í kjallaranum. Ég lagði loftnetssnúru áfram upp í loftnetsdreifikerfi hússins og hef verið með myndlykil frá Símanum tengdan við þessa snúru.
Breiðbandið er ljósleiðari sem liggur um bæinn en flest hús eru tengd honum með venjulegri loftnetssnúru því búnaðurinn sem breytir ljósmerkinu í sjónvarps og símamerki er hafður í kössum á götuhornum. Það þótti ekki svara kostnaði að leggja ljósleiðarann alla leið í hvert hús.
Nú er Landssíminn byrjaður að bjóða upp á "Video on Demand" (VOD) þjónustu en aðeins fyrir þá sem nota ADSL myndlykla, en þeir eru tengdir við gömlu símasnúruna, ekki nýju loftnetssnúruna.
Ég beið rólegur og bjóst við að uppfærsla á breiðbandslyklunum væri ekki langt undan til að geta séð heimabíó með þeim. Svo leið og beið.
Nú er Síminn líka byrjaður að bjóða á háskerpu útsendingar (HD) en aftur, aðeins fyrir þá sem eru með ADSL myndlykla.
Því spurði ég þjónustuver Símans: Hvenær kemur Video-on-demand og Háskerpa fyrir notendur Breiðbandsins? Svarið frá þjónustuverinu var: það eru engin áform um að bjóða þá þjónustu á Breiðbandinu.
Ég álykta að myndlykillinn á Breiðbandinu sé að fara sömu leið og Betamax videótækin. Tímabært að leggja nýja snúru inn í stofu.
Smá hártogun í lokin: það er dáldið óskírt hvað Breiðbandið er í raun og veru. Ég fletti upp "Hvað er breiðbandið" á heimasíðu Símans og fæ þetta svar:
Breiðbandið var fyrst tekið í notkun þann 6. febrúar 1998 og hófst þá dreifing á sjónvarps- og útvarpsefni með einfaldri tengingu inn á loftnetskerfi heimilanna. Nú er komið að því að ljósleiðaratenging til heimila er orðinn raunhæfur kostur og því verður Breiðbandið nú uppfært í ljósnet og verður þannig eitt helsta gagnaflutningskerfi fyrir sjónvarp, útvarp, tölvur og síma. Þetta mun þó taka nokkur ár þar sem ljósleiðaratengingar kalla á nýjar innanhússlagnir á þeim heimilum sem vilja nýta sér þær.
Þarna stendur hvenær það var tekið í notkun og að dreifing á sjónvarps og útvarpsefni fari fram um það, en ekki hvað það er. Ef Breiðbandið er ljósleiðarakerfi símans, þá er breiðband símans náttúrulega ekki á útleið, en ef það er loftnetskerfi og myndlyklar tengdir því, þá er svarið já, þeir eru á útleið.
Ef til stendur að leggja ljósleiðara alla leið inn í stofu til mín og tengja myndlykil beint við hann, tekur vart að bíða eftir því og betra að byrja að undirbúa komu ADSL myndlykils.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.10.2007 | 19:36
Sniff
Ég sat við skrifborðið þegar kona gekk framhjá skrifstofunni. Ég sá hana ekki, leit ekki einu sinni við. Af henni var blanda af útilykt, góðri ilmvatnslykt og vægri reykingalykt, ekki of sterkri til að vera vond.
Samstundis var ég átta ára að koma til dyra þegar pabbi og mamma komu heim eftir að hafa verið út að skemmta sér. Ég sá þau fyrir mér í forstofunni heima og var feginn að fá þau heim. Sennilega var mamma með ilmvatn sem líktist þessu ilmvatni. Þessi minning kom í heilu lagi, áður en ég gat hugsað um hana meðvitað.
Það virðist vera stutt leið frá nefinu í tilfinningarnar. Kannski er þefskynið eldra og frumstæðara skynfæri en hin skilningarvitin. Þar er eins og lyktin sé ekki tengd við heilann á sama hátt og þau.
Bragðskynið er víst að miklu leyti blekking því bragðið af matnum er í raun lyktin af honum. Kínverskur málsháttur ráðleggur mönnum að borða rísgrjón á meðan þeir lykta af steiktri önd nágrannans því þannig megi borða herramannsmat og spara pening.
Við eigum nákvæm orð sem lýsa tónum og hljómum, litum og formum, en nafnorð yfir lykt eru varla til. Hvaða lykt er af engifer? Hver er munurinn á þeirri lykt og sítrónulykt? Hvað heitir lyktin sem kemur út ef ég blanda þeim saman? Væri hún góð? Þetta læra franskir ilmvatnsgerðarmenn, og fá víst góð laun fyrir. Væntanlega geta þeir talað saman um lykt af meira viti en ég.
Hér í Frakklandi fæst mikið af ilmvötnum, sem ég hef ekki séð út í fríhöfn. Ekki allir ilmvatnsframleiðendur eru á vegum fataframleiðenda eins og Chanel og Boss. Fragonard er eitt merki sem ég hef hvergi séð annars staðar:
Ég hef grun um að sumt fólk sé lyktarblint. Ég held það vegna þess að ég þekki þrifalegt fólk með daunillar borðtuskur. Ef það hefði þefskyn í lagi myndi það samstundis henda borðtuskunni og ná sér í nýja. Ég veit samt ekki til þess að lyktarblinda sé viðurkennd örorka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.10.2007 | 11:35
Dagbók: ósköp venjulegur laugardagur í Rennes
Ég er í krúttkasti yfir Rennes, borginni sem ég bý í eftir daginn í dag. Það er tuttugu stiga hiti, heiðskírt, logn og yndislegt veður. Ég vaknaði hægt við að nágrannarnir voru að spila svo fallega á gítar. Gluggarnir voru galopnir og ég heyrði kurrið í dúfunum uppá þaki.
Ég fékk mér kaffi og baguette, svo labbaði ég út á aðalgötuna sem var full af fólki. Fyrst kom par labbandi til mín með skilti sem á stóð "ókeypis faðmlög" (Soulage Gratuit). Þau föðmuðu mig bæði skælbrosandi. Strákurinn sagði að þetta verið gott faðmlag, ég sagði sömuleiðis og að ég hefði ekki fengið faðmlag í mánuð svo þetta hefði alveg tímabært.
Næst labbaði til mín par sem var að fara að gifta sig og spurði hvort ég vildi skrifa heilræði til þeirra í bók sem það var með. Vinir þeirra voru með þeim og fólk horfði til þeirra brosandi. Ég skrifaði, að hvort þeirra um sig ætti að muna að elska sig sjálft og hafa sjálfsvirðingu, því þá gætu þau elskað og virt hvort annað og aðra.
Ég labbaði aðeins lengra þar sem sirkúsinn var að kenna krökkum að labba á vír og halda jafnvægi uppá stórum bolta. Sirkúskallarnir voru í góðu skapi og göntuðust við gamla fólkið sem þekkti þá greinilega. Næst gekk ég að tjaldi þar sem fólk var að sækja númerin sín fyrir víðavangshlaupið á morgun. Hlaupið heitir "Tout Rennes Cours", (öll Rennes hleypur).
Í tjaldi á næsta torgi var harmonikkuhátíð í gangi. Ég er enginn harmonikku unnandi en frakkar spila vel á harmonikku, það rifjaðist upp fyrir mér músíkkin úr "Amelie" sem ég veit núna að var ekki eins mikil ídýllísering á frönsku lífi eins og ég hélt.
Ég fór á stóra markaðinn og keypti kjöt og grænmeti. Sá markaður er ótrúlegur, með tuttugu metra kjötborð og óendanlegt úrval af kæfu og pylsum. Annað eins úrval af grænmeti og svo margar sveppategundir sem ég kann ekkert að elda. Þar var ungt fólk sem sýndi eldri konum virðingu með því að hleypa þeim fram fyrir sig í röðinni.
Ég fór næst á torgið í mínu hverfi, þar var komið tjald þar sem háskólarnir í bænum voru að kenna krökkum um vísindi. Ég sá tæki sem gat séð á hvaða hluta tölvuskjás fólk horfði, á skerminum var mynd af fólki og það vakti mikla kátinu þegar tækið mældi að mennirnir horfðu á bringu kvennanna, ofarlega. Þarna var líka hópur að kynna gerfihnattaáætlun Frakklands. Vísinda og stærðfræðiáhugi frakka er mikill, ég vissi ekki hvað þeir eru framarlega í menntamálum áður en ég kom út.
Ég fór svo og keypti nýlenduvörur hjá kaupmanninum á horninu. Fyrir utan búðina var stelpa með kettling á öxlinni, og svo var kenndur gamall maður sem vildi segja eitthvað við mig, en hann talaði óskírt svo ég sagði á bjagaðri frönsku að ég væri ekki sleipur frönskumælandi. Hann brosti út að eyrum, kyssti á mér framhandlegginn og labbaði burt (hann var lágvaxinn).
Síðast fór ég á barinn í götunni minni og drakk einn bjór með nágrönnunum. Leffe er góður bjór, sérstaklega úr krana.
Það þarf ekki að halda menningarnótt í bænum, allar nætur hér virðast vera það sjálfkrafa. Bærinn var sneisafullur af fólki og viðburðum, samt var þetta bara venjulegur laugardagur. Rennes er 200 þúsund manna borg, eins og Reykjavík.
Ég dauðkvíði fyrir að fara heim, því hér er lífið eins og í draumi. Fólkinu á svæðinu tekst að halda í þær hefðir sem skipta máli þótt hér séu höfuðstöðvar hátækniiðnaðar allt um kring. Hér eru geimflaugar og Citroen bifreiðar og háhraðalestir framleiddar, en fólk fer á markaðinn og kaupir í matinn eftir sem áður.
Þrátt fyrir þennan yndislega dag er ég svolítið niðurdreginn. Ég kvíði því að fara heim til Íslands, sérstaklega eftir fréttirnar þaðan í síðustu viku. Það sem stendur upp úr fyrir mig er, hvað margir sýndu mikla eiginigirni og vanhæfni í starfi.
Nú trúi ég því að íslenska þjóðin eigi enga alvöru stjórnmálamenn, bara samtíning af fólki sem er að reyna að lifa af og skara eld að eigin köku. Það er enginn sem ég get virt, engar fyrirmyndir.
Það geta ekki alltaf allir verið eigingjarnir, við byggjum samfélag ekki upp þannig. Ég vona að einhver gangi fram fyrir skjöldu og geri eitthvað til að gera Ísland að betri stað að búa á. Ég er samt ekki vongóður. Alvöru fólk eins og Vigdís og Kristján Eldjárn eru ekki hvar sem er.
Ég er orðinn svo ofsalega þreyttur á fréttum um kaup og sölu á fyrirtækjum og gengi þeirra og hver á hvað í hvaða fyrirtæki. Þessir menn fljúga bráðum á einkaþotunum yfir rústirnar af þjóðfélaginu okkar.
Sunnudagur.
Ég skrifaði textann fyrir ofan í gærkveldi. Fyrirgefið þið hvað ég er drungalegur en mér líður þannig ennþá yfir þessum málum öllum. Ég fór og hljóp 10 kílómetra í hlaupinu og var 58:55 sem er ekki gott en betra hjá mér en í fyrra þegar ég hljóp í Glitnishlaupinu.
Nú ætla ég aftur út í sólina og ná þessum Íslands-drunga úr mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)