Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.8.2008 | 00:23
Haukur í horni
Fyrsta vinnan mín í Bandaríkjunum eftir að námi lauk var hjá hugbúnaðarfyrirtæki sem var í þann mund að skrá hlutabréfin sín á NASDAQ. Ég var þá svo blautur bak við eyrun að ég vissi varla hvað hlutabréf voru eða hvað "IPO" (Initial Public Offering) þýddi.
Maðurinn sem réði mig til starfa kom til mín í fyrstu vikunni og sagði "þú ættir að kaupa hlutabréf, öllum starfsmönnum bjóðast þau og þau munu hækka mikið strax og við förum á almennan markað". Ég sagðist ekki eiga krónu með gati enda nýkominn úr námi og væri ekki á leiðinni að fjárfesta. Hann sagði "Þetta er öruggur díll, ég skal lána þér fyrir kaupunum!" Ég spurði hann af hverju og hann sagðist vilja gera vel við sína undirmenn.
Ég var nýbyrjaður og treysti honum varla. Ég fór heim og sagði konunni frá þessu, ég væri kominn í "The firm" og það ætti að fara að neyða mig til að kaupa hlutabréf á nýja vinnustaðnum. Að endingu leyfði ég þó yfirmanninum að lána mér peninga fyrir hlutabréfum. Tveim vikum síðar var fyrirtækið komið á markað, ég seldi hlutabréfin, endurgreiddi yfirmanninum lánið og græddi rúmlega árslaun í leiðinni. Hann hafði þá rétt fyrir sér. Ekki slæmt fyrir þriggja vikna vinnu!
Ég minnist hans oft því hann kom okkur aldeilis vel af stað í húsnæðiskaupunum með þessu góðverki, en svo hugsa ég líka oft hversu gott það er að hafa vini í vinahópnum sem geta bent manni á svona "sure thing". Ég velti stundum fyrir mér hvernig kaupin ganga á eyrinni hér á Íslandi, hversu margir hafa fengið svona góðar ábendingar frá vinum sínum í bönkum og fyrirtækjum. Ef ábendingin er gullslegin þarf maður ekki einu sinni að vera eignamaður því maður getur fengið lán út á ábendinguna ef hún er nógu góð.
Þarna gildir að þekking er máttur. Svona má gera vinum sínum greiða, hvort sem til stendur að hækka eða lækka verð á hlutabréfum, eða jafnvel á gengi krónunnar. Hverjir hafa þessi völd á fjármálamarkaðinum á Íslandi og hverjum hygla þeir? Þegar þeir láta vini sína hafa peninga með þessum óbeina hætti, er það á kostnað venjulegs fólks? Er hægt að koma í veg fyrir þetta á litlum markaði þar sem allir þekkja alla? Ég veit það ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.7.2008 | 23:58
Íslenskur Celsius
Við gengum í sund áðan, konan mín og ég. Við vorum bæði í stuttbuxum og sammála um að það væri hlýtt. "Samt er bara fimmtán stiga hiti úti" sagði konan mín. "Það er vegna þess að íslenskar fimmtán gráður eru hlýrri en útlendar tuttugu gráður" sagði ég.
Þegar við bjuggum í Bandaríkjunum féll hitinn niður í tuttugu gráður í Október og það var merki um að haustið væri að koma. Þá fórum við í síðbuxur og sokka, og ekki langt í að við færum í peysu.
Í framhaldi af þessu datt mér í hug að íslendingar ættu að taka upp íslenskar Celsius gráður rétt eins og íslenska krónu. Þá getum við haldið hitastiginu á Íslandi stöðugu í tuttugu og fimm gráðum og hér verður virkilega eftirsóknarvert að búa. Ef veturinn er erfiður breytum við genginu á íslensku celsiusgráðunni sem því nemur.
Ég er sannfærður um að ef við værum komin með íslenskar gráður myndum við alls ekki vilja hætta að nota þær, því ef þær væru lagðar niður kæmi í ljós að á Íslandi væri frekar kalt.
Á sama hátt er rétt að vilja ekki Evru því hún myndi lækka laun og leiða í ljós að hér eru þau ekkert sérstök. Þá er betra að trúa því að við séum með há laun en hér sé allt svo dýrt.
22.7.2008 | 12:00
Hvar er best að búa?
Samkvæmt CNN Money er Fort Collins í Colorado einn af bestu stöðunum til að búa í Bandaríkjunum. Eitt af því fyrsta sem nefnt um borgina er að þar er "bicycle library", borgin leigir út reiðhjól.
Það væri gaman að beita mælikvörðum CNN á Reykjavík og sjá hvernig hún kæmi út í samanburði. Hvernig er veðursældin, hvað kostar að kaupa í matinn, hvað kostar að kaupa hús, hvað eru menn lengi í vinnuna, o.s.frv.
Bandaríkjamenn hafa lengi gert svona "cost of living" og "quality of life" kannanir fyrir þá sem eru á faraldsfæti. Það má segja að Reykjavík hafi haft einokunaraðstöðu á Íslandi og þurfi því ekki að keppa við aðrar borgir um aðstöðu til kayakróðra, fjölda kílómetra af hjólastígum, útimarkaði á sumrin, meðalfjarlægð í vinnu. Ég vissi að það er fákeppni á Íslandi en ég hafði ekki hugsað um hana í þessu samhengi.
Hins vegar má segja að það sé álíka mikið mál að flytja frá Reykjavík til Kaupmannahafnar eins og frá einni borg í Bandaríkjunum til annarar og því þurfi Reykjavík að keppa við aðrar borgir. Kosturinn við borgarflutninga í Bandaríkjunum er að fólki tekst yfirleitt að halda viðskiptum við sama tryggingafélag og banka og kostnaður við að flytja búslóðina er lítill miðað við kostnað af gámaflutningi yfir haf.
Bandaríkjamenn gera svo mikið af því að flytja milli borga að þeir hafa gert það að listgrein, liggur mér við að segja. Það má segja að þeir séu orðnir "nomadic" eða flökkufólk. Í því ljósi er merkilegt að þeim skuli ekki koma betur saman við Araba sem eru komnir af flökkufólki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2008 | 14:07
Domino áhrifin
Samkvæmt kennslubókum í hagfræði eiga gjaldmiðlar landa sem skulda mikið að lækka í verði miðað við gjaldmiðla þeirra landa sem eiga pening. Við það eykst útflutningur og innflutningur minnkar og þannig minnkar skuldin að lokum. Bandaríkin skulda mest allra landa enda hefur dollarinn fallið samviskusamlega síðan árið 2002. Hins vegar hafa mörg lönd sem skulda mikið verið með óeðlilega sterka gjaldmiðla þangað til núna nýlega. Loksins virðast markaðirnir hafa tekið eftir þessum löndum.
Bretland, Ástralía, Nýja sjáland og Ísland skulda öll mjög mikið (þau hafa líka verið með lána og byggingarbólur eins og Bandaríkin). Samt hafa gjaldmiðlar þessara landa hækkað þar til á miðju árinu 2007, miðað við gjaldmiðla Japan og Sviss sem skulda þó ekki peninga. Japan hagnast um 4,9% af landsframleiðslu á hverju ári en hefur þó mátt horfa upp á gengi Yensins falla um 13% frá 2002 til 2007. Nýja-sjáland, þar sem skuldirnar eru 8% af landsframleiðslu horfði aftur á móti upp á gjaldmiðil sinn hækka um 28% á sama tíma.
Þessi mótsögn er komin til út af því að alþjóðlegir fjárfestar sóttu í háa vexti og geymdu því peninga þar sem þá var að finna, í Bretland, Ástralíu, Nýja-sjálandi og Íslandi. Háu vextirnir áttu að bæta fjárfestum upp áhættuna sem þeir tóku með því að kaupa gjaldeyri sem átti á hættu að falla. Eftir því sem fjárfestar fengu lánaða peninga þar sem vextir voru lágir, (t.d. í Yenum) til að leggja þá inn hjá bönkum þar sem vextir voru háir, þá hækkaði verð gjaldmiðla í síðarnefndu löndunum. Við það framlengdist ójafnvægið því síðarnefndu löndin áttu auðvelt með að slá lán fyrir vikið.
Eftir að hagkerfi heimsins fór úr skorðum á síðasta ári og fjárfestar misstu lystina á áhættu hafa þessi viðskipti undið ofan af sér og það er orðið miklu erfiðara að fjármagna skuldir. Fyrir vikið eru skuldir aftur farnar að hafa áhrif á gengi gjaldmiðla eins og vera ber. Myndin að neðan sýnir að gjaldmiðlar hafa veikst mest í löndum þar sem skuldir eru miklar, Bretlandi og suður Afríku. [Ísland er ekki nefnt í greininni en er augljóslega ýktasta dæmið á myndinni]. Hins vegar hafa Yenið og Svissneski Frankinn styrkst. Sama mynd hefði verið nánast spegluð fyrir ári síðan.
Ástralía, Póland og Ungverjaland eru með óeðlilega sterka gjaldmiðla miðað við skuldastöðu -- líklega eru þau næstu dóminóin sem falla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.7.2008 | 10:04
Góðærið sem aldrei var
Þegar góðærið stóð sem hæst mátti lesa í flestum blöðum að allir væru að verða ríkir. Þetta var ranghugmynd sem mér fannst fæstir fjölmiðlamenn setja út á. Aðgengi almennings að lánsfé var lagt að jöfnu við góðæri, þótt kaupgeta hans væri í raun að lækka.
Ég fann á eigin skinni í miðju góðærinu að launin mín entust ekki eins og þau gerðu. Um aldamótin gat ég fengið mér hádegismat á Kringlukránni en ég var farinn að láta Sómasamloku duga þegar góðærið var lofsungið hvað mest. Ég hélt á tímabili að ég væri eitthvað skrýtinn og ég væri ekki að fatta einhverja nýja hagfræði en hef svo komist að því að svo var ekki. Því var líka haldið fram að þótt bankarnir högnuðust væri enginn í raun að tapa því kakan væri að stækka. Það reyndist líka rangt.
Hvað var að gerast? Af hverju fóru peningarnir frá fólki til bankanna? Af hverju hækkaði allt þótt enginn talaði um verðbólgu? Hér er mín skýring:
Í gamla daga prentaði ríkið peninga þegar það þurfti að fjármagna framkvæmdir. Ef peningar eru prentaðir án þess að verðmæti í landinu aukist heitir það "Verðbólga". Ríkið á nýja seðla og getur fjármagnað brýr og sjúkrahús, en þeir seðlar sem fyrir eru falla í verði sem nemur nýju seðlunum. Peningaprentunin er því sem ósamþykktur skattur sem leggst harðast á þá sem eiga seðlabúnka einhversstaðar.
Verðbólgan var orðin svo óvinsæl (sérstaklega hjá peningaeigendum) að yfirvöld fundu nýja leið til að auka hagsæld án þess að þurfa að nota orðið "Verðbólga". Hún var að gefa bönkum leyfi til að prenta peninga í staðinn fyrir að ríkið gerði það. Nú skyldi einkageirinn byggja brýr og sjúkrahús með bankalánum.
Áður máttu bankar bara lána þá peninga sem þeir áttu til. Nú máttu þeir lána án þess að þeir ættu innistæðu fyrir láninu því bankarnir geta skráð væntanlega endurgreiðslu lána sem sína eign. Sá sem biður bankann um lán fær þá, eins og fyrir kraftaverk, innistæðu á reikninginn án þess að úttekt hafi verið færð af öðrum reikningi innan bankans. Nýjir peningar verða þannig til og bankinn hagnast um vexti af peningum sem hann átti ekki til að byrja með.
Heimildin til að prenta svona peninga heitir því saklausa nafni "Bindiskylda" á Íslandi. Lág bindiskylda jafngildir leyfi til að prenta mikla peninga. Sjá á vísindavefnum um bindiskyldu hér: http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=841
Þetta er peningaprentun eins og þegar verðbólgan var upp á sitt besta en hún heitir bara ekki verðbólga núna. Verð á laxveiðileyfum og fínum mat hækkar niðrí miðbæ og húsnæði þrefaldast í verði en samt segja fjölmiðlar að verðbólgan sé lítil sem engin. Þeir sem eiga þegar hús og landareignir verða ríkari á pappírnum meðan launþegar finna launaseðlana hjaðna í höndunum á sér af því þeir fá stærri lán til að kaupa sömu húsin og voru til fyrir.
Ríkið gaf bankamönnum leyfi til að prenta peninga. Það gat aldrei staðist að menn sem voru ekkert sérstaklega mikið faglærðir, áttu ekki verðmæti svo sem landareignir og bjuggu ekki til nein áþreifanleg verðmæti með höndunum skyldu verða svona ríkir svona hratt.
Það má segja að bólan hafi orðið til vegna þess að almenningur hafði svo gott aðgengi að bankalánum, en ég held að skýringin að ofan svari því hvers vegna bankarnir höfðu svona stórar fjárupphæðir til að lána almenningi til að byrja með.
Kannski er ekkert sérstakt að krónunni sem gjaldmiðli. Kannski þurfum við frekar að skoða hvort við höfum flutt inn of mikið af nútíma bankamenningu? Við ættum að reyna að skilja hvað gerðist hjá fjármálafyrirtækjum á undanförnum árum áður en við göngum næst í kjörklefana.
Hagfræði virðist eiga mikið skylt við heimsspeki. Þegar menn byrja að rýna í undirstöðurnar er ekkert augljóst hvað peningar eru í raun og veru. Sjá ágæta umræðu hér um fyrirbærið "Fractional Reserve Banking"
http://www.tickerforum.org/cgi-ticker/akcs-www?post=16342
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
14.7.2008 | 12:16
Sjónvarp sl. viku
Tilgangur sjónvarpsins er að gera bláa dagskrárefnið. Grænu, svörtu og rauðu dagskrána getur hvaða stöð sem er sent út, hún þarf ekki einu sinni að vera staðsett á Íslandi.
Ég get ekki séð að sjónvarpið sé að uppfyllta neitt sérstakt menningalegt hlutverk út frá þessari dagskrárlýsingu. Helstu bláu liðirnir eru fréttir og veður, nokkuð sem Stöð 2 virðist fullfær um að gera líka án nokkurra milljarða í ríkisstyrk.
Varðandi hlutfall útlends efnis þá er listinn hér að neðan er full rauður og grænn fyrir minn smekk og ekki nógu mikið svart í honum.
Ég vil ekki leggja sjónvarpið niður, en ég held þeir séu á villigötum. Ég get séð þetta ameríska og breska drasl á kaplinum. Sjónvarpið ætti að einbeita sér að íslensku efni og menningu eða fara af ríkisspenanum.
19.00 Fréttir
19.30 Veður
19.35 Kastljós
20.00 Skyndiréttir Nigellu Nigella Express (7:13) Í þessari þáttaröð sýnir breska eldhúsgyðjan Nigella Lawson hvernig matreiða má girnilega rétti með hraði og lítilli fyrirhöfn.
20.35 Hvað um Brian? What About Brian? (11:24) Bandarísk þáttaröð um Brian O'Hara og vini hans. Brian er eini einhleypingurinn í hópnum en hann heldur enn í vonina um að hann verði ástfanginn. Meðal leikenda eru Barry Watson, Rosanna Arquette, Matthew Davis, Rick Gomez, Amanda Detmer, Raoul Bova og Sarah Lancaster.
21.15 Svipmyndir af myndlistarmönnum Portraits of Carnegie Art Award 2008: Anna Tuori Í stuttum þáttum er brugðið upp svipmyndum af myndlistarmönnum sem taka þátt í Carnegie Art Award samsýningunni 2008. Sýningin verður sett upp í átta borgum í sjö löndum, þar á meðal á Íslandi.
21.25 Omid fer á kostum The Omid Djalili Show (2:6) Sprengfyndnir breskir gamanþættir með grínaranum Omid Djalili sem er af írönskum ættum.
22.00 Tíufréttir
22.25 Aðþrengdar eiginkonur Desperate Housewives IV Ný syrpa af þessari vinsælu bandarísku þáttaröð um nágrannakonur í úthverfi sem eru ekki allar þar sem þær eru séðar. Aðalhlutverk leika Teri Hatcher, Felicity Huffman, Marcia Cross, Eva Longoria og Nicolette Sheridan.
23.10 Lífsháski Lost (74:86) Bandarískur myndaflokkur um hóp fólks sem komst lífs af úr flugslysi og neyddist til að hefja nýtt líf á afskekktri eyju í Suður-Kyrrahafi þar sem ýmsar ógnir leynast. Meðal leikenda eru Naveen Andrews, Emilie de Ravin, Matthew Fox, Jorge Garcia, Maggie Grace, Dominic Monaghan og Josh Holloway. Atriði í þáttunum eru ekki við hæfi barna. e.
19.00 Fréttir
19.30 Veður
19.35 Kastljós
20.00 Í sálarháska H-E Double Hockey Sticks Bandarísk fjölskyldumynd frá 1999. Ungdárinn Griffelkin er sendur upp á yfirborð jarðar til að stela sálinni úr efnilegum íshokkíleikara. Leikstjóri er Randall Miller og meðal leikenda eru Will Friedle, Matthew Lawrence og Gabrielle Union.
21.40 Líkaminn The Body Bandarísk bíómynd frá 2001. Í gröf í Jerúsalem finnst forn beinagrind og af beinunum má draga þá ályktun að dánarorsökin hafi verið krossfesting. Leikstjóri er Jonas McCord og meðal leikenda eru Antonio Banderas, Olivia Williams, Derek Jacobi, Jason Flemyng og Ian McNeice. Atriði í myndinni eru ekki við hæfi ungra barna.
23.30 Svartstakkar Men in Black Bandarísk bíómynd frá 1997. Tveir menn sem hafa eftirlit með geimverum í New York reyna að bjarga jörðinni þegar gestirnir hóta að sprengja hana í tætlur. Leikstjóri er Barry Sonnenfeld og meðal leikenda eru Tommy Lee Jones, Will Smith, Linda Fiorentino og Vincent D'Onofrio. Atriði í myndinni eru ekki við hæfi barna. e.
19.00 Fréttir
19.35 Veður
19.40 Út og suður George Hollanders og Aðalgeir Egilsson 888 Viðmælendur Gísla Einarssonar að þessu sinni eru George Hollanders leikfangasmiður að Öldu í Eyjafjarðarsveit og Aðalgeir Egilsson safnbóndi á Mánárbakka. Dagskrárgerð: Freyr Arnarson. Textað á síðu 888 í Textavarpi.
20.10 Julie Julie (2:2) Þýsk/frönsk sjónvarpsmynd í tveimur hlutum. Julie de Maupin er ungri bjargað frá því að verða fórnað við svarta messu. Þegar hún vex úr grasi verður hún afbragð annarra kvenna og heillar hirð Loðvíks 14. með fegurð sinni og sönglist. En af hverju er henni veitt eftirför? Af hverju eru nánustu vinir hennar drepnir og hverjir eru foreldrar hennar? Leikstjóri er Charlotte Brändstorm og meðal leikenda eru Sarah Biasini, Pietro Sermonti, Pierre Arditi, Thure Riefenstein, Jürgen Prochnow, Gottfried John og Marisa Berenson.
21.50 Sunnudagsbíó - United United Norsk bíómynd frá 2006. Kåre og Anna búa í smábæ á vesturströnd Noregs. Þau hafa verið saman síðan í æsku og elska hvort annað en ekki síður fótboltaliðið Manchester United. Leikstjóri er Magnus Martens og meðal leikenda eru Håvard Lilleheie, Berte Rommetveit, Vegar Hoel og Sondre Sørheim.
19.00 Fréttir
19.35 Veður
19.40 Sápugerðin Moving Wallpaper (6:12) Leikin bresk gamanþáttaröð um framleiðslu sápuóperunnar Bergmálsstrandar sem sýnd er á eftir þættinum. Meðal leikenda eru Ben Miller, Elizabeth Berrington, Raquel Cassidy, Sarah Hadland, Sinead Keenan, Dave Lamb, James Lance og Lucy Liemann.
20.05 Bergmálsströnd Echo Beach (6:12) Bresk sápuópera um Susan og Daniel, fyrrverandi kærustupar í strandbænum Polnarren á Cornwall-skaga, og flækjurnar í lífi þeirra. Meðal leikenda eru Martine McCutcheon, Ed Speleers, Jason Donovan og Hugo Speer.
20.30 Friðarspillirinn A Room For Romeo Brass Kanadísk bíómynd frá 1999. Tveir tólf ára vinir lenda í hremmingum eftir að einkennilegur náungi vingast við þá. Leikstjóri er Shane Meadows og meðal leikenda eru Martin Arrowsmith, Paddy Considine, Andrew Shim, Ben Marshall og Bob Hoskins.
22.00 Hefndarhugur A Man Apart Bandarísk bíómynd frá 2003. Fíkniefnalögreglan á í stríði við mann að nafni Diablo sem gerist foringi eiturlyfjahrings eftir að fyrri höfuðpaur hans er fangelsaður. Leikstjóri er F. Gary Gray og meðal leikenda eru Vin Diesel, Larenz Tate og Timothy Olyphant. Atriði í myndinni eru ekki við hæfi barna.
23.50 Hetjan frá Sjanghaí Shanghai Noon Bandarísk hasarmynd frá 2000. Sagan gerist á 19. öld og segir frá Kínverja sem fer til villta vestursins að bjarga prinsessu úr klóm mannræningja og lendir í ýmsum ævintýrum. Leikstjóri er Tom Dey og meðal leikenda eru Jackie Chan, Owen Wilson og Lucy Liu. e.
19.00 Fréttir
19.30 Veður
19.35 Kastljós
19.55 Aþena Athens (1:2) Bresk þáttaröð um sögu Aþenu
20.45 Vinir í raun In Case of Emergency (5:13) Bandarísk þáttaröð
21.10 Lífsháski Lost Bandarískur myndaflokkur
22.00 Tíufréttir
22.20 Sportið Íþróttaviðburðir helgarinnar, www.ruv.is/sport/
22.45 Herstöðvarlíf Army Wives (12:13) Bandarísk þáttaröð
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.7.2008 | 13:57
Um samtengingar allra hluta
Þegar ég skipti um lag á iPhone símanum í Range Rovernum drap bíllinn á sér. Ég held það sé vegna þess að ég keypti símann í Bandaríkjunum og hann er því ekki á réttu markaðssvæði miðað við lagið sem ég valdi að spila. Samkvæmt samningi milli Apple og Land Rover slökkti síminn á bílnum í gegnum tenginguna í handfrjálsa búnaðinn og nú ég get ekki ræst bílinn þótt ég sé búinn að taka símann úr sambandi.
Ég hringdi í Bifreiðar og Landbúnaðarvélar en þeir vilja ekki gera við Range Roverinn af því ég notaði ekki viðurkennda aukahluti. Ég held að tölvan í bílnum sé ónýt. Ég hef engan lagalegan rétt því síminn var ekki keyptur í Apple búðinni enda fæst hann ekki þar því Ísland er ekki á lista yfir lönd sem Apple styður.
Þetta er vísindaskáldsaga ennþá, en mig grunar að hún verði það ekki næsta ár.
Í gamla daga framleiddu fyrirtæki vörur sem fóru í heildsölu og svo smásölu. Núna vilja mörg fyrirtæki eiga alla dreifingarkeðjuna og opna eigin verslanir. Þau haga sér eins og alheimskirkjur. Þau mynda líka óguðlegustu bandalög með öðrum fyrirtækjum. Apple er dæmi um svona fyritæki. Þú getur ennþá keypt iPod og tengt við iTunes en iTunes virkar bara í sumum löndum og þú verður að vera með kreditkort frá öðru landi en Íslandi til að geta keypt lög á iTunes. Sama gildir um XBOX frá Microsoft.
Íslensk fyrirtæki leika líka þennan leik. Ef þú ert með líftryggingu hjá Sjóvá og bankareikning hjá Glitni færðu afslátt. Ef þú kaupir bensínið með Visa færðu ókeypis í sund -- eða var það Mastercard? Ef ég vil skipta um banka þarf ég að skipta um húsnæðislán en ég get það ekki og ég er líka líftryggður hjá Sjóvá og hef fengið sjúkdóm í millitíðinni svo ég fæ ekki líftryggingu annars staðar. Ætli þetta verði vísindaskáldsaga líka?
Þessi bandalög eiga eftir að koma Íslandi í koll. Ísland er ekki land í hinni nýju veröld risafyrirtækjanna. Ef "Ísland" birtist ekki í felliglugga þegar þú setur nýju vöruna í samband gætir þú lent í klandri.
Kannski er ekki nóg að ganga í ESB. Kannski verðum við að sækja um að verða nýlenda dana aftur til að geta valið "Denmark" í mælaborðinu næst þegar við kaupum bíl eða sjónvarp.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.5.2008 | 15:16
Glögg gestsaugu
Erlendur kunningi minn sem kemur í heimsókn til Íslands á 3-4 ára fresti kom í heimsókn í sl. viku og mætti í mat.
Það fyrsta sem hann þurfti að segja var að Reykjavík væri ryðguð. Hann átti við að litríku þökin í gömlu borginni væru að víkja fyrir ryðkláfum, og svo væru gangstéttirnar allar sprungnar og mosavaxnar.
Svo sagði hann að íslendingar væru orðnir miklu feitari, þar á meðal ég... Hann sagði að allir væru síétandi hvert sem hann færi. Fólk væri með orkudrykk eða ís eða pylsu. "Kann fólk ekki að borða á matmálstímum lengur?" spurði hann.
Mér varð svarafátt og við leiddum talið að öðru.
18.4.2008 | 10:41
Gamli miðbær, nýji miðbær
Ég veit að gamli miðbærinn er að drabbast niður. Ég man líka að Kringlan var kölluð nýji miðbærinn.
Hér eru loftmyndir úr Google Earth af báðum þessum miðbæjum, báðar myndirnar eru teknar úr sömu fjarlægð og sýna því jafn stóran flöt.
Ég veit í hvorum miðbænum ég vil vera ....
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.4.2008 | 21:35
Sjö fræ ofbeldis
Mahatma Gandhi gaf Arun, barnabarni sínu lista yfir það sem samfélög ættu að forðast ef ekki ætti að koma til ofbeldis.
Stephen R. Covey, höfundur "Seven habits of highly effective people" kom með eftirfarandi skýringar á hverri aðvörun um sig.
Auður án vinnu
Hér er átt við þá sem fá eitthvað fyrir ekkert - þá sem sýsla með markaði og eignir til að þurfa ekki að skapa verðmæti eða vinna heldur sýsla með fólk og hluti fram og til baka. Í dag eru til starfsgreinar sem byggjast á því að skapa auð án þess að vinna, búa til peninga án þess að borga skatt, hagnast á styrkjum án þess að leggja neitt að mörkum til þeirra, eða njóta góðs af því að vera ríkisþegn eða starfa hjá fyrirtæki án þess að taka á sig ábyrgð eða áhættu.
Ánægja án ábyrgðar
Aðalspurning hinna vanþroskuðu, gráðugu og eigingjörnu hefur alltaf verið: Hvað fæ ég? Mun þetta gleðja mig, mun þetta láta mér líða vel? Margir vilja ánægju án ábyrgðar samviskulaust, þeir yfirgefa jafnvel maka og börn til þess að geta "bara verið þeir sjálfir". En sjálfstæði er ekki æðsta þroskastigið, það er bara lítið skref á leiðinni til samhjálpar sem er æðsta stigið. Að læra að gefa og þiggja, lifa óeigingjarnt, sýna tillitsemi og nærgætni, það er markmiðið.
Auglýsingar hvetja forstjóra til að njóta lífsins áhyggjulaust af því "þeir eiga það skilið" eða "þeir hafa unnið fyrir því" eða "þeir vilja það, svo því ekki að láta undan og gefa eftir?" Skilaboðin eru: þú ert búinn að ná takmarkinu. Nú þarftu ekki samvisku lengur. Í sumum auglýsingum eru sextugir menn með þrítugum konum á leið á ráðstefnur. Hvað varð um eiginkonurnar? Hvað varð um reglur samfélagsins sem segja að framhjáhald sé ekki í lagi?
Þekking án drenglyndis
Of lítil þekking er hættuleg en mikil þekking án drenglyndis er miklu hættulegri. Þeir sem safna þekkingu án þess að hafa þroskað sig sem manneskju eru eins og fullur krakki á sportbíl. Allt of oft gerist það í háskólum að menn útskrifast með hausinn fullan af þekkingu en ekkert brjóstvit.
Viðskipti án siðferðis
Ef við leyfum hagkerfum að þróast án siðferðilegrar undirstöðu munum við enda með siðlaust samfélag og fyrirtæki. Sérhver viðskipti eiga að fara fram þannig að kaupandi og seljandi fái það sem honum ber. Gullna reglan er að allir aðilar þurfa að njóta góðs af viðskiptunum og réttlætis þarf að hafa verið gætt.
Fólk lendir í vandræðum þegar það segir að yfirleitt stundi það siðleg viðskipti. Það þýðir að einhver hluti viðskiptanna sé ekki í lagi. Fólk er með baktjaldamakk, leynilíf sem það felur jafnvel fyrir sjálfu sér og útskýrir einhvern veginn að það sé undanþegið lögum guðs og manna.
Vísindi án manngæsku
Ef vísindin einblína á tækni og aðferðir enda þau sem árás á mannkynið. Tækni byggir á vísindum. Ef skilningur á tilgangi með jarðvistinni er ekki til staðar gera þau okkur fórnarlömb tækninnar. Við sjáum vel menntað fólk klifra upp metorðastiga vísindanna þótt þrep fyrir manngæsku vanti og stiginn halli upp að vitlausum vegg.
Langflestir vísindamenn sem nokkurntímann hafa verið til eru lifandi í dag og þeir hafa valdið sprengingu í tækni og vísindum. Við munum sjá fullt af tæknibyltingum en án manngæsku munum við ekki sjá framfarir fyrir mannkynið. Óréttlæti heimsins mun vera með okkur áfram.
Trúarbrögð án fórna
Ef við færum engar fórnir getum við verið virk í kirkjustarfi en samt óvirk í útbreiðslu fagnaðarerindins. Þá er ekki reynt að hjálpa fólki eða bæta úr vandamálum samfélagsins. Það kostar fórnir að þjóna öðru fólki, sérstaklega þarf að fórna sínu eigin stolti og fordómum.
Einu sinni fylgdist ég með hjónabandi þar sem erjurnar hljóðnuðu ekki. Mér varð þá hugsað að þetta fólk þyrfti að gefast upp gagnvart hvoru öðru og iðrast ef hjónabandið ætti að geta gengið. Þú getur ekki fundið fyrir samhug án þess að hafa auðmýkt. Stolt og eigingirni mun eyða sambandi manns og Guðs, manns og konu, manns og manns, sjálfs og sjálfs.
Stjórnmál án grunngilda
Án grunngilda er engin höfuðátt til að stefna að, ekkert til að treysta. Samfélög sem gera mikið úr stjórnmálamönnum en lítið úr grunngildum eru búin að gera viðkomandi mann að ímynd, markaðsvöru sem hægt er að selja og lítið annað.
Við sjáum stjórnmálamenn eyða milljónum í að byggja upp ímynd sína þótt hún sé grunn og innihaldslaus, til að kaupa atkvæði og fá embætti. Þegar þeim tekst það fáum við stjórnkerfi sem lýtur eigin lögmálum óháð hinum náttúrulegu sem ættu að vera við lýði, þau sem eru í stjórnarskránni, að allir séu skapaðir jafnir og með jafnan rétt til lífshamingjunnar.
Í kvikmyndinni "Boðorðin tíu" segir Móse við Faraó, "við viljum lúta Guðs lögum, ekki þér". Hann er að segja, "við munum ekki láta að stjórn manns sem styðst ekki við grunngildi". Í réttlátum samfélögum og fyrirtækjum eru náttúruleg grunngildi við lýði og jafnvel þeir hæstsettu verða að fylgja þeim. Enginn er yfir þau hafinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)