Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kjúklingar Hr. Schrödingers

Ef maður labbar inn í hús með tólf egg, kemur ungunum á legg og ræktar þar til tugþúsundir kjúklinga tísta í kringum hann, hendir þeim svo öllum í kvörn svo úr verður blóðug kássa og ekkert verður eftir nema tólf egg, sem hann labbar með út aftur, er hann þá vondur maður? Hann byrjaði og endaði jú með jafn mörg egg?

Maður situr á eyðieyju undir þessu klassíska kókóshnetutré þegar annan mann rekur til hans með tösku fulla af peningum.  Ef kókóshnetan er það eina verðmæta á eyjunni, hvað ætti tréið þá að kosta?  Á maðurinn sem fyrir er að selja?

Þessi dæmi duttu mér í hug þegar ég hugsaði um góðæri undanfarinna ára og hvernig milljarðar urðu til úr engu og urðu að engu. Sumir segja að það sé allt í lagi, þetta hafi aldrei verið alvöru peningar.

Þessi árekstur raunverulegra verðmæta og ímyndaðra er mér hugleikinn þessa dagana. Ég veit ég er dottinn í heimsspekinördadraumóra, en það er erfitt að skrifa á öðrum nótum þegar svona óraunverulegir atburðir eru að gerast í þjóðfélaginu, og svo eru peningar mjög afstætt hugtak þegar allt kemur til alls - eða hvað?

Svoleiðis afstæðishyggja er mér ekki að skapi. Ég tel að tíminn sé peningar og að þar af leiði að peningar séu tími og þegar milljarðar tapist hafi tími glatast og þar af leiðandi mannslíf. Vandinn er að peningarnir sem urðu að engu voru ekki í eigu sömu manna og eignuðst peninga úr engu.

Það er mér viðbjóðslegt að taka raunveruleg verðmæti, og mæla þau með sömu mynt og spilasjúkir menn nota við leiki sína.  Ég get ekki vanist því.

Þótt ég sé ekki trúaður held ég að biblían hafi byggt á biturri reynslu af mannlegu eðli þegar hún andskotaðist út í okurlán -- hún gerir það á þó nokkrum stöðum.  (Fæstir vita af andstyggð biblíunnar á okurlánum þótt flestir hafi lesið um hatur hennar á samkynhneigðum.  Hvers vegna ætli það sé?)

Ég var eitraður á  blogginu fyrir rúmu ári og ropaði súrum ropum um það sem myndi gerast, hrun krónunnar, fólk sem myndi hneppast í lánafangelsi og arðrán þeirra sem myndu eignast íslenskar auðlindir, en nú þegar þetta hefur allt gerst verð ég hálf kjaftstopp.  Hvað getur maður sagt?

Ögmundur gagnrýnir ástandið í blaðinu í dag og bendir á hvernig burgeisar hafa sagt sig úr lögum við þjóðina eftir að hafa "keypt af henni kókóshneturnar".  Hann hefur rétt fyrir sér en hefur engar patentlausnir frekar en ég, skaðinn er skeður.

Ég óttast að þetta ástand verði verra áður en það verður betra, skaðinn er svo mikill. Ísland skuldar alveg hrikalega mikið og mér er nokk sama hvort það er ríkið eða þegnarnir því ríkið, það er við? Við höfum ekki byggt upp iðnað sem skyldi undanfarin ár ef frá er talið eitt álver á austurlandi. Sterka krónan hefur valdið því að þekkingarfyrirtækin sem hér tórðu fyrir hótuðu allan tímann að flytja en það sem verra var, engin ný slík urðu til.  Hér verður kynslóð af ungu fólki sem skuldar meira en hún á, húsnæði þess mun falla um 30% meðan afborgarnir þess aukast í takt við óðaverðbólguna. Sameiginleg verðmæti hafa verið einkavædd og arðurinn er kominn í erlendar sumarhallir.

Þegar við réttum úr kútnum þurfum við að hafa lært eina lexíu. Peningar eru ekki afstæðar stærðir og það má ekki láta eins og þeir séu það, þótt bankastarfsmenn láti þannig þegar þeir fara á flug.

Hér er dæmi í lokin fyrir ungu kynslóðina: Ef ungir krakkar keyptu hús á 100% láni fyrir 50 milljónir um áramótin og það kostar 44 milljónir í næstu viku á sama tíma og verðbólgan hækkaði lánið í 55 milljónir og iPod kostar  fimmtán þúsund (20 þúsund eftir fall krónunnar), hvað töpuðu krakkarnir þá mörgum iPoddum?  Svar: 977 stykkjum.  Eða hvað, er þetta allt bara abstrakt?

 


Reykjavíkurborg

Hér eru skálkar og skækjur
er skjögra um götur og torg.
Hér eru dólgar og dækjur
með dýrslega hegðan og org.

Mörg eru svínin er sitja
að sumbli hér í vorri borg.
Þeirra æ vandræðin vitja
er valda oss trega og sorg.

Hér eru búðarmenn barðir
menn bíta hvern annan og slá.
Rustarnir vandræðum varðir
svo venja sig glæpalíf á.

Hér úir og grúir af götum
á gangséttar bílum lagt er.
Svæðunum grænu við glötum
og gröndum því fegursta hér

Rusl fyllir götur og garða
en glerbrot og veggjakrot smá
hér menjar og minnisvarða
mannvirkin lítil og há.

Borgartún bankarnir fylla
og byggingarlistin þar dvín.
Víða mun spákaupmanns- spilla
speglahöll fagurri sýn.

Miðbæjarhreysin og hrófin
svo hrörleg mjög eru að sjá.
Og þykk liggur skíta-skófin
í skotum og strætunum á.

Kringlur menn keppast að reisa
og kaupa sig leiðanum frá.
Af Nesinu nýríkar þeysa
Nadíur Porsche-jeppa á.

Spillingin röftum hér ríður
í Ráðhúsi Tjarnar við hlið.
Mönnum þar sárast það svíður
að sitja ei kjötkatla við.

 

-- Höfundur: Vandráður Torráðsson

 

IMG_7938

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Upp, upp mín evra og allt mitt geð

Fjölmiðlar erlendis eru farnir að benda á þá staðreynd að íslenska krónan er ekki lengur gjaldmiðill, heldur hlutabréf í fyrirtækinu Ísland sem ríkisstjórnin hefur ábyrgst að væri alvöru fyrirtæki sem gæti greitt 15% í hlutabréfaarð á ári.

Landsmenn sem hafa sparað hafa verið plataðir til að kaupa hlutabréf með því að spara í þessum gjaldmiðli.  Ég hélt að ég væri að spara peninga til erfiðu áranna, ekki að kaupa hlutabréf í braskarafyrirtæki.

Flestum ætti að vera ljóst að krónan er ekki lengur gjaldmiðill heldur léleg hlutabréf.  Enginn gjaldmiðill fellur svona hratt. Ef hann gerir það er hann ekki lengur gjaldmiðill samkvæmt minni skilgreiningu. Til þess að teljast gjaldmiðill þarf pappír að vera svo traustur að fólk vilji nota hann í stað fyrir vöruskipti. Krónan er það ekki lengur. Ég mun aldrei virða hana eftir þetta hrun.

Krónan liggur nú í ræsinu eins og mella eftir hópnauðgun og nauðgarnarnir eru horfnir á bak og burt, enginn veit hverjir þeir voru. Þeir sem álpuðust til að eiga krónur sitja eftir með sárt ennið.

Þeir sem vilja ekki taka upp evruna hafa góðar ástæður til þess. Það eru þeir sem vilja halda fjárhættuspilinu áfram, bankamenn og vöruinnflytjendur. Svo er það Seðlabankinn sem heldur að hann geti ennþá einhverju stjórnað, rétt eins og örvinglaður skipstjóri sem heldur um stýrið á skipi meðan það sekkur í hafið.

Hér er hús í Skuggahverfinu sem má rífa:

sedlabankinn_200807

 

 

 

 

 

 

 

 


Lárétt eða lóðrétt

Trúarbrögð, þjóðernishyggja, pólitík.  Ef  menn hafa áhuga á þessum málum þá mæli ég með að menn hlusti á ágætt viðtal Ævars Kjartanssonar við Jón Orm Halldórsson í þættinum "Lárétt eða Lóðrétt" um samskipti múslima og vestrænna manna.

Þátturinn verður aftur á dagskrá RÚV kl.23.10 á morgun, mánudag.

 

 


Með hverjum á að halda?

Fyrir rúmlega ári mælti einhver ráðherranna með því að almenningur færi að borga upp sín lán og spara því erfiðari tímar væru framundan.  Hann reyndist framsýnn og sannspár.   Við hjónin tókum hann á orðinu á sínum tíma og notuðum peningana sem við höfðum safnað fyrir nýjum jeppa til að klára að borga upp íbúðina okkar.  Fyrir vikið erum við nú skuldlaus.

Peningarnir hafa verið ótrúlega fljótir að safnast til heimilisins síðan, sem staðfestir þann grun margra að það er dýrt að skulda.  Við eigum aftur nóg til að kaupa nýjan bíl og vel það, bara af því  við eyðum ekki peningum í afborganir.

Milljónirnar sem við eigum eru að safna ágætis vöxtum í núverandi árferði enda eru innlánsvextir háir, ekki bara útlánsvextir.

Ég vil ekki að vextir verði lækkaðir.  Ég hef hagað mér af ábyrgð í fjármálum og nú vil ég fá að njóta ávaxtanna.

Þeir sem vilja lækka vexti vita að verðbólgan rýkur upp við það og sparifé verður að engu.  Þeir eru að reyna að stela af mér peningunum.  Eftir því sem trú mín á staðfestu Seðlabankans minnkar og með því trú á verðgildi íslenska gjaldmiðilsins mun ég kaupa fleiri Evrur til að vernda sparifé mitt.

Ég vona að ég þurfi ekki að selja síðustu krónurnar mínar.

 


Þetta virðist vera í góðum farvegi

Hér er skipulag svæðisins við Öskjuhlíð:

flugvallarsvaedi

 

 

 

 

 

 

 

 

(Smellið tvisvar á myndina til að stækka hana). 

Ný tenging við veginn niður í Nauthólsvík byrjar á gatnamótum við gömlu BSÍ.   Hugmyndin virðist mér góð.

Myndin kemur úr þessu skjali.

 


Ætti ég að hafa áhyggjur?

Ég skokkaði fram hjá Nauthólsvík á mánudag og sá að nýja hús Háskólans í Reykjavík er þegar farið að stingast upp úr jörðinni rétt hjá veitingastaðnum Nauthól.

Ég fékk smá hland fyrir hjartað, því ég veit að tækni og verkfræðideild skólans opnar þarna strax haustið 2009 og það verða margir nemendur og kennarar sem keyra þangað.

Hér er mynd af svæðinu.  Rauði bletturinn er nýja svæði skólans:

hrvatnsmyri

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Loftmyndin sýnir veg sem liggur fram hjá hótel Loftleiðum niður í Nauthólsvík.  Vegurinn byrjar á gatnamótunum við slökkvistöðina.  Það er líka malarvegur þarna niðureftir, sem hlykkjast í gegnum kjarrið í Öskjuhlíð fram hjá kirkjugarðinum.  Sá vegur er ekki til stórræðanna.

Ég velti fyrir mér hvernig biðröðin á eftir að verða á vinstri beygjunni hjá slökkvistöðinni.  Ég efast um að núverandi vegamót beri umferðina.

Haustið 2009 verður komið von bráðar.  Vonandi er borgarstjórnin búin að skoða málið og á bara eftir að segja frá lausninni í fjölmiðlum.  Ég get varla beðið að sjá hvernig skipulagið á svæðinu verður svo ég geti byrjað að láta mig hlakka til.

 


Reykt síld og fonduepartý

Á ensku er reykt síld kölluð "Red herring".
800px-Kipper

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hundar voru þjálfaðir til refaveiða með því að kenna þeim að eltast  við slóð eftir reykta síld sem hafði verið dregin yfir fjöll og  firnindi.

Síðan þurfti að kenna þeim að eltast ekki lengur við síldarslóðir  heldur slóðir eftir refi. Þegar menn elta vitlausa slóð er því talað  um "Red Herring" á ensku.

Umræðan um veikindi Ólafs borgarstjóra er "Red Herring", hún er á  vitlausri slóð.

Nú er ekki talað um annað en illa meðferð  spaugstofumanna á Ólafi og sennilega fær hann ómaklegt fylgi vegna þess að sumum finnst að maður eigi að vera góður við minni máttar.

Sjálfstæðismenn hefðu ekki getað beðið um betri villu því hún beinir sjónum manna frá réttu spurningunni:  Eiga Ólafur og Vilhjálmur að  vera borgarstjórar?

Löglega geta þeir krafist þess, rétt eins og sá sem tekur fram úr  öðrum í umferð og bremsar snögglega að tilefnislausu getur krafist fullra bóta vegna aftanákeyrslu.  Löglegt en siðlaust.

Það var siðleysið sem krakkarnir mótmæltu á pöllunum.  Vonandi var það  ekki örvæntingaróp áður en lýðræðisneistinn var slökktur í þeim.

Ég veit ekki hvort Ólafur getur orðið góður borgarstjóri en ég veit að hann hafði ekki fylgi og það ætti að vera brot á einhverjum  lögum.

Ég vil ekki að Vilhjálmur verði borgarstjóri, því ég  treysti honum ekki eftir REI málið.  Sennilega braut hann ekki lög þá, en ég hélt að það væri augljóst að hann ætti að halda sig til hlés eftir  það axarskaft.

Vilhjálmur tapaði minni tiltrú fyrst þegar ég spurði á kosningafundi hvað hann ætlaði að gera í umferðarmálum í borginni.  Hann svaraði:  Íslendingar hafa valið einkabílinn og það er mitt hlutverk að hjálpa þeim að komast hindrunarlaust milli staða.  Annars keyra þeir bara í gegnum íbúðahverfin og það væri verra.

Í þessum anda á að byggja mislæg gatnamót Miklubrautar og  Kringlumýrarbrautar.  Það finnst mér gamaldags.

Í fyrsta lagi finnst mér ótækt að fólk komist upp með að kaupa hús í úthverfi á lágu verði og fá svo niðurgreiddar samgöngur fyrir einkabílinn sinn inn í bæ.  Hvaða heimtingu á fólk á því að komast  fljótt í vinnuna þegar það kaupir húsnæði útí rassgati?  Og það á kostnað þeirra sem búa við Miklubraut.  Hvaða hvatning er þá fyrir fólk að haga sér ekki eins og hálfvitar þegar það kaupir hús?

Ég veit um konu sem fer úr Vesturbæ Reykjavíkur í miðbæ Hafnarfjarðar á einkabíl til þess að láta klippa köttinn sinn.  Ef menn eins og Villi halda áfram að malbika verður konan farin að láta klippa köttinn  í Keflavík.

Meiri steinsteypa niðrí bæ kallar bara á meiri umferð.  "Build it and  they will come".

Í öðru lagi finnst mér mislæg gatnamót ekki eiga heima inní miðborgum  heldur í útjaðri þeirra.  Þau eru risastór og ljót og klippa  borgarhverfi í sundur eins og ferkílómeters stórt geimskip sem  brotlendir.  Þessi mynd  gæti verið af nýju gatnamótunum.

Ætlar  einhver að segja að þetta sé fallegt?  Geta nýju gatnamótin orðið  fallegri?


Gamli góði Villi sagði í kosningabaráttu sinni að hann hefði búið í  sama húsinu í Breiðholti í tugi ára.  Það hefur kosti og ókosti. Ef  hann hefði eytt einhverjum tíma erlendis hefði hann kannski myndað sér aðrar skoðanir á einkabílisma og væri tilbúinn að læra af mistökum annara þjóða.

Þegar Vilhjálmur segir "mislæg gatnamót" finnst mér ég vera staddur í  fortíðinni.  Hann gæti alveg eins sagt: "Höldum Fondue  partý?"

fondue-party-los-angeles-1968

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hvenær á borgaraleg óhlýðni rétt á sér?

Pabbi minn hét Hörður Ólafsson og var hæstaréttarlögmaður. Árið 1989 þýddi hann á íslensku greinina "The justification of Civil Disobedience" sem var skrifuð 1969 af heimspekingnum John Rawls, sem fæddist 1921 (eins og pabbi) og kenndi stjórnmálaheimspeki við Harvard.

JohnRawls

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

John Rawls

Ég veit ekki hvort pabbi ætlaði að gefa þýðinguna út og fæ varla að vita það úr þessu því ég fékk þýðinguna í hendur þegar hann dó árið 1994.  Hún hefur verið uppí skáp hjá mér síðan.

Í tilefni af uppákomunni í ráðhúsinu hefur mikið verið rætt um hvort hróp og köll væru skrílslæti eða lögmæt borgaraleg óhlýðni.  Mér datt því í hug að efni greinarinnar sem pabbi þýddi ætti erindi við þá sem vilja kynnast fyrirbærinu betur.

Ég tölvuskannaði því handritið með von um að það nýtist einhverjum og vinna pabba fái notið sín.

 

Handritið er í viðhenginu að neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hver eru grunngildi íslensks samfélags?

Miriam Rose sem fór í fangelsi fyrir að mótmæla Kárahnjúkavirkjun með friðsamlegum hætti flutti ræðu í Reykjavíkurakademíunni 20.nóvember síðastliðinn.

Ræðan í heild sinni var upphaflega birt hér og einnig er til íslensk þýðing á henni.

Hér er bútur úr ræðunni.  Í neðri málsgreinunum tveim vitnar Miriam í Arundhati Roy sem skrifaði "The god of small things":

Icelandic media is controlled by a few private groups and a small state run element, which accepts private finance. What are their interests? Can company owned and sponsored media really criticise its own, or associated companies, or report fairly on their economic abuses? In whose interest was it that lies about the payment of Saving Iceland activists were published by RÚV and never revoked despite complaints made through all the official channels?

"The only way to make democracy real is to begin a process of constant questioning, permanent provocation, and continuous public conversation between citizens and the State. That conversation is quite different from the conversation between political parties. (Representing the views of rival political parties is what the mass media thinks of as 'balanced' reporting.)

It is important to remember that our freedoms such as they are, were never given to us by any government, they have been wrested from them by us. If we do not use them, if we do not test them from time to time, they atrophy. If we do not guard them constantly, they will be taken away from us. If we do not demand more and more, we will be left with less and less." (Roy, 2005)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband