Færsluflokkur: Tölvur og tækni

File Hippo

 

Á http://filehippo.com/ er hægt að nálgast vandaðan hugbúnað.  Eigendur síðunnar virðast leggja áherzlu á gæði en ekki magn.

Þarna má finna hlekki á Audacity, Skype, Picasa, Firefox, WinRAR og fleiri góða pakka.  Þeir sem þekkja vel til fara beint á heimasíður þessara fyrirtækja og þurfa ekki FileHippo,  en aðrir kunna vonandi að meta að þarna er þessum gæðahugbúnaði haldið til haga.

Hér eru nokkur dæmi:

  • Audacity breytir tölvunni í vandað upptökutæki.  Ég hef notað það til að afrita vinyl plötur og kassettur.
  • RealAlternative  er spilari fyrir real audio skrár svo hægt sé að hlusta á BBC án þess að setja upp RealPlayer sem er stór og leiðinlegur og fullur af auglýsingum.
  • VLC media player er besti spilarinn fyrir bíómyndir, betri en Windows Media Player.
  • "Google Desktop" frá Google er prívat leitarvél fyrir öll skjöl á diskinum þínum, þú getur gert "Google leit" í póstinum, word og excel skjölunum.
  • Paintshop Pro er gott teikniforrit sem nýtist líka vel til að laga og breyta ljósmyndum.

Ef mín starfsgrein væri aðeins eldri...

Ég ólst upp við suðið í tölvu móður minnar þegar hún sat í stofunni heima og forritaði. Faðir minn var úti í tölvuveri og sinnti búverkum, afritatöku og uppfærslum.

Einu sinni í viku kom pósturinn inn dalinn, sótti nýjustu viðbæturnar sem skrifaðar höfðu verið og skildi þá gjarnan eftir einhvern bitling á pallinum í staðinn, lítinn tölvuleik eftir hagleiksmann að vestan eða annað viðbit.

Ég hef alist upp við íslenska hugbúnaðargerð og tel að hún sé ein af máttarstólpum lífs á landinu. "Forritari er netþjónabústólpi, netþjónabú er landstólpi" orti skáldið. "Þar sem tveir forritarar koma saman, þar er hugbúnaðarhús" sagði þingmaðurinn.

Við íslendingar höfum borið gæfu til að hlúa að hagsmunum forritarastéttarinnar og leyfa ekki ótakmarkaðann innflutning á erlendri hugbúnaðarvöru. Hugbúnaðarráðuneytið hefur verið ómissandi þáttur í að gæta vegferðar íslensku þjóðarinnar.

Ef þessum vörnum hefði ekki verið komið við er ekki víst að íslenska væri töluð á íslandi í dag. Erlend ritvinnsluforrit styðja ekki við íslensku og henta ekki fyrir íslenskar aðstæður.

Öðru máli gegnir um þau ritvinnsluforrit íslensk sem skrifuð hafa verið hér og seld af forritasamsölunni um árabil. Hún er í eigu hugbúnaðarhúsa og sér um að safna saman uppfærslum og dreifa þeim til neytenda sem og að standa að vöruþróun. Núna nýlega setti hún á markað leikinn "Sokkaplaggaflokkarann" sem er íslenskuð útgáfa af leik sem er kallaður "Tetris" og er seldur í útlöndum.

Ég skrifa pistil núna í tilefni af því að nú á að leyfa innflutning á nýju erlendu stýrikerfi, Windows 7. Ég er sannfærður um að þetta yrði óheillaspor.

Íslenska stýrikerfið Iðavellir sem við notum öll í dag er sameiningartákn þjóðarinnar og dæmi um íslenskt handverk eins og það gerist best. Að vísu vantar stuðning við grafík og mýs en þetta eru einmitt dæmi um óþarfann sem við fengjum fyrir dýrmætann gjaldeyrinn.

Ég skora á ráðamenn að leyfa ekki þennan innflutning. Hann mun ganga af íslenskri forritarastétt dauðri.

 steampunk_computer_tower.jpg


Picasa 3.5

Ég hef notað forritið Picasa til að skoða ljósmyndir sem ég hef tekið og geymi á hörðum diski.

Það er fljótvirkt og ókeypis og gerir flest það sem venjulegt fólk vill gera við heimilis ljósmyndirnar.

Í útgáfu 3.5 er kominn nýr möguleiki, sem er að leita að mannsandlitum í myndum og gefa þeim nafn.

Ég skrifa um þetta vegna þess að ólíkt mörgum nýjungum (t.d. gemsar sem skilja talaðar skipanir) virkar þessi nýjung vel.  Forritið er betri mannþekkjari en ég.  Picasa hefur fundið yfir 600 myndir af syni mínum, á öllum aldri en skjátlaðist aðeins 10 sinnum.

Forritið ruglar saman systkinum, jafnvel þótt mér hafi aldrei þótt þau lík.  Eitthvað er sameiginlegt með þeim sem ég sé ekki en forritið sér.

Nú veit ég að tölvur geta skoðað hópmyndir af fólki og þekkt nokkra einstaklinga úr.  Þessi tækni er komin til að vera hvort sem það er gott eða slæmt fyrir samfélög manna.

 

Fyrst ég er farinn að tala um góð forrit vil ég benda á Notepad++ sem hefur tekið við af Notepad, Textpad og Ultraedit sem mitt uppáhalds forrit ef ég þarf að ritvinna skjöl önnur en Word skjöl.


Nova tekur Símann

"Pabbi, ég þarf að skipta yfir í NOVA".

"Af hverju?"

"Af því vinir mínir eru með NOVA, og ég hef ekki efni á að hringja í þá".

"Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur".

 

Ég fer af stað og kíki á málið.  Það kostar 28 kr mínútan að hringja frá "Símanum" í NOVA símnotanda, en ekkert ef þú ert sjálf(ur) með NOVA síma.  28 kr er dýrara en að  hringja til Hawaii (það kostar 19,90 kr mínútan, fjarlægð 9.955 kílómetrar).

Hann er nú "kominn til NOVA".  Allir vinir hans eru með NOVA svo þetta var "no-brainer" fyrir hann.  Við þurfum núna að borga fyrir að hringja í hann, en það er ekki tekið af vasapeningunum hans svo þetta er góð bissness ákvörðun hjá honum.

Ég veit ekki hvort síminn lætur þetta kosta svona mikið til að refsa þeim sem reyna að hafa samskipti við NOVA en nú hafa vopnin snúist í höndunum á þeim.

Ég talaði fyrst við þjónustuver símans og svo við afgreiðslumann í verslun símans.  Fátt var um svör.  Einn sagði :"ég vona að við finnum betri lausn en þetta Frelsi", hinn sagði:  "Getur hann ekki verið með tvo síma?"

Það er tímaspursmál þar til ég og konan skiptum líka því það kostar ekkert fyrir okkur að hringja í hvort annað, þeir sem reyna að hringja í okkur bera allan kostnaðinn.

Ef hann væri áfram í Frelsi en borgaði 2000 kr. aukalega á mánuði má hann velja og hringja í hámark sex vini sína ótakmarkað og óháð kerfi, en bara 60 mínútur hámark á mánuði.   Ef hann hringir minna en 60 mínútur fást 2000 krónurnar væntanlega ekki endurgreiddar.   Svona verðskrár eru ekki til að auka yfirsýn og auðvelda verðsamanburð.

Þetta minnir mig á þegar VISA hélt innreið sína á Íslandi.  Kaupmaðurinn þarf að borga fyrir VISA og veltir þeim kostnaði á vöruna, enginn býður staðgreiðsluafslátt.  Þú ert því búinn að borga fyrir VISA hvort sem þú notar það eða ekki.  Eins gott að nota VISA...

Eru þetta endalok Símans?  Stay tuned...

 

 


Drauma myndavélin

Loksins er komin lítil nett vél með útskiptanlegri linsu og sem tekur jafn góðar myndir og reflex vél.  Hún heitir Olympus E-P1.

 

ep1-3q-17mm.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Linsan sem fylgir er nett og lætur vélina líta venjulega út, en sjáið svo þessar linsur:

ep1ftlenses.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vélin tekur nýjan staðal sem er kallaður Micro 4:3 en getur líka tekið gömlu Olympus Zuiko linsurnar sé notað millistykki.

Svo sakar ekki að geta þess að hún getur tekið upp High Definition video, 1280x720.  Hér eru sýnishorn af kvikmyndum.

Hér er grein um vélina frá dpreview.com

 


Apple Approved?

Apple heimurinn er með eindæmum lokaður, eins og hálfgerður sértrúarsöfnuður.  Ég átti ágæt Bluetooth heyrnartól en þau virkuðu ekki með iPhone af því þau eru ekki frá Apple heldur frá Plantronics.  Samt er Bluetooth opinn staðall.

Ég vona að nýja lifrin hans Jobs geri það sem hún á að gera þótt hún sé ekki "Approved Hardware" fyrir hans sálarhulstur.  Sennilega hafa læknarnir blekkt líkama Jobs til að taka hana í notkun.  Jobs sjálfur myndi lögsækja þá fyrir það ef hann hugsaði um líkama sinn eins og tölvurnar sem hann selur.  Ojæja...

 

latest-app-store-rejections-me-so-holly-and-drivetrain.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Jobs aftur til vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi tímar

Þó nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að búa til sérstakar tölvur til að lesa bækur.  Bóksalinn Amazon virðist loksins hafa gert það svo vel sé, með tölvunni  "Kindle".  Hún er með skjá sem er mjög læsilegur í dagsbirtu og rafhlöðurnar endast í viku.

Nú er önnur kynslóð þessarar tölvu að koma á markað, Kindle DX.

bookstack-01_v244132743.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skjárinn er í A4 stærð og mjög læsilegur, enda notar hann blek en ekki kristalla eða ljósadíóður.  Tölvan er mjög þunn:

profile-w-fingers_v244132766.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það sem mér finnst fréttnæmast sem kennara, er að Princeton háskóli er farinn í samstarf við Amazon um að gefa skólabækur út fyrir lesarann.  Aðrar háskólaútgáfur fylgja væntanlega í kjölfarið.

Lesarinn fæst ennþá bara í Bandaríkjunum en kemur vonandi einhvern tímann út á skerið. Kennslubækur á Íslandi hafa verið dýrar, þær geta vonandi lækkað hressilega þegar hægt verður að niðurhala þær yfir netið.  Þær eru líka níðþungar og geta valdið nemendum hryggskekkju þegar þeir troða fleiri en tveim í bakpokann, annað vandamál sem leysist væntanlega einnig.

Nýji lesarinn getur birt PDF skjöl svo kennarar geta dreift lesefni til nemenda án þess að ljósrita.  Ég sé fyrir mér að geta loksins hætt að nota pappír.

Venjulegur reyfari kostar 9.99$ fyrir lesarann í bandaríkjunum þegar þetta er skrifað.  Það er athyglisvert að hann er ekki tengdur við Internetið heldur notar hann GSM kerfið til að ná í bækur, og tekur hvert niðurhal um eina mínútu.  Það er því ekkert til fyrirstöðu að kaupa bók þótt maður sé utan netsambands.

 

 

PS:  Þessir skjáir eru á leið í fleiri tæki.  Hér er nýtt úr sem notar svona skjá sem bakgrunn og breytir útliti úrsins eftir smekk eigandans þann daginn (bæði úrin eru sömu tegundar en mismunandi stillt):

phosphor_eink_watches.jpg

 


Ísland endurræst

Í tilefni af umræðu um Ísland 2.0 datt mér í hug að taka saman hvað ríkisstjórnir eiga sameiginlegt með stýrikerfum. Mér hefur fundist samanburðurinn gefa mér innsýn í heima stýrikerfa og ríkisstjórna.

Stýrikerfi gefa öllum forritum á tölvu sameiginlegan vettvang að starfa á. Öll forritin nota harðan disk, minni, prentara, lyklaborð, mús með því að spyrja stýrikerfið í stað þess að tala beint við þessi tæki.  Þannig þurfa höfundar forrita ekki að tala við hvern einasta músaframleiðanda og læra að nota músina þeirra, þeim nægir að biðja stýrikerfið um að segja sér á hvað músin bendir.  Stýrikerfið býr þannig til vettvang sem sparar öllum forritum fyrirhöfn og tíma.

Ríkisstjórn útvegar einstaklingum og fyrirtækjum líka sameiginlegan vettvang, útvegar heilbrigðis og menntakerfi, peningakerfi, rafmagn og vegi til að fyrirtækin þurfi ekki sjálf að byggja bryggjur og vegi eða gera rafmagnsvirkjanir og sjúkrahús og prenta peninga.

Stýrikerfi tryggja að eitt forrit leggi ekki undir sig öll afköst vélarinnar og geri hinum forritunum ókleift að vinna. Stýrikerfi eru með "Scheduler" sem sér til þess að öll forrit fái að keyra svolítið, hafi einhvern aðgang að diski, neti og skjá, og að forritin sem fyrir eru geti ekki meinað nýjum forritum að keyra með því að leggja allar auðlindir vélarinnar undir sig.

Ríkisstjórn á að koma í veg fyrir verðsamráð og einokun hjá fyrirtækjum sem bólgna út og vilja leggja landið undir sig.  Stjórnin gerir það með því að leysa of stór fyrirtæki upp í smærri einingar (eins og gert var við AT&T) eða sekta fyrirtækin.  Ríkisstjórnir eru með skatta, virðisaukaskatt, launaskatt og erfðafjárskatt sem dreifa auðnum og sjá til þess að nýir einstaklingar geti einhvern veginn komist af stað í lífinu og á kostnað þeirra sem eru búnir að koma sér vel fyrir.  Ef ríkið gerir þetta ekki endar landið með miðalda fyrirkomulag þar sem allir verða leiguliðar hjá fáum ríkum landeigendum og allt stendur fast.

Stýrikerfi er með einhvern vegg milli sín og forritana sem keyra til að tryggja að stýrikerfið spillist ekki af forritum sem reyna að breyta stýrikerfinu viljandi eða óviljandi. Vírusar reyna viljandi að skipta út hlutum stýrikerfisins og gera það handgengið sér. Sum forrit spilla stýrikerfinu óviljandi með því að afrita gamlar útgáfur stýrikerfisskráa í möppur sem aðeins stýrikerfið ætti að skrifa í. Windows hefur verið slæmt að þessu leyti, Linux minna.  (Ef Windows er eins og bómullarborðúkur er Linux eins og vaxdúkur).  Stýrikerfi sem halda þessum aðskilnaði ekki til streitu verða á endanum grálúsug og hæg og það þarf að formatta diskinn upp á nýtt til að laga til.

Ríkisstjórn ætti að hafa sambærilegan vegg sem kemur í veg fyrir að embættismenn þiggi sporslur frá einstaklingum og fyrirtækjum eða að ráðherrar ákveði hverjir sitja í hæstarétti.  Einnig að þarf að tryggja að lögum sé ekki laumað inn í löggjöfina sem hygla ákveðnum hópi, sbr. kvótakerfið.  Svo mega forsetar ekki þiggja far með einkaþotum auðvaldsins. (Þarna er stærsti gallinn í Lýðveldinu Ísland 1.0 að mínu mati, skilin milli stjórnar, laga og auðvalds).

Í sumum stýrikerfum er litið svo á að notandinn eigi sjálfur að ná sér í þau forrit sem hann vantar og stýrikerfið sé bara til þess að gæta minnisins og harða diskins.  Önnur stýrikerfi halda að þau eigi að bjóða uppá sem mest frá byrjun, til dæmis ritvinnslu, póst og netvafra.  Þetta gerir seljendum forrita gramt í geði því stýrikerfið tekur frá þeim markaðshlutdeild.  Microsoft er gott dæmi um þessa heimsspeki en það dreifði Internet Explorer með Windows í óþökk margra.  Forrit frá framleiðanda stýrikerfisins geta þó oft gert hluti sem forrit frá öðrum framleiðendum geta ekki því sömu menn koma að hönnun beggja.

Sumar ríkistjórnir vilja bjóða upp á eldspýtnagerð, bæjarútgerð, bílaleigu, matvælaframleiðslu en aðrar halda sig við lágmarks framboð á þjónustu og láta einkageirann um sem flest.  Samt eru skil milli ríkis og einkageira alltaf óljós.  Af hverju rekur hið opinbera bókasöfn en ekki myndbandaleigur?  Af hverju tryggjum við okkur hjá Tryggingarstofnun en bílinn hjá Sjóvá?

Mörg stýrikerfi eiga erfitt með netvæðingu því vélin fyllist af vírusum. Þetta er sérlega slæmt ef stýrikefið er ekki nógu rammgert til að þola ókunnug forrit og notendur.  Þessi stýrikerfi voru mörg hver skrifuð áður en netsamskipti voru til, þess vegna eru þau svona viðkvæm.

Margar ríkisstjórnir eiga á sama hátt erfitt með alþjóðleg samskipti, þær líta á inngöngu í Evrópubandalag sem endalok sín, þær þurfa alls kyns tollamúra og eftirlit til að verja viðkvæma innviðina fyrir erlendum áhrifum. Íslenska ríkið er til dæmis með viðkvæma krónu sem þolir ekki öll þessi samskipti við aðrar þjóðir.

Stundum má deila um hvort tölva er nógu stór og öflug til að keyra stórt stýrikerfi.  Vél sem sligast undir Vista getur verið hress undir Windows XP. Eldgamlar tölvur geta haldið áfram að gera gagn ef þær keyra Windows 95 eða jafnvel DOS.

Sum lönd eru svo lítil að þau ættu ekki að vera með sendiráð í mörgum löndum eða ráðuneyti fyrir óþarfa hluti. Það má spyrja hvort Ísland eigi að vera með tollembætti eða synfoníu?  Getum við keyrt lagabálk Evrópubandalagsins?  Getur okkar land keyrt stjórnarskrá sem var hönnuð fyrir annað land á öðrum tíma?  Er okkar stjórnarskrá bara léleg afrit af þeirri dönsku?

Hér lýkur samlíkingunum. Ef menn sjá fleiri sambærilega hluti er um að gera að skrifa athugasemd.

windowsjitter1.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ástandið á Íslandi í dag er að okkur tókst einhvern veginn að endurræsa stýrikerfið eftir að tölvan hrundi en við erum í lítilli skjáupplausn og helmingurinn af forritunum getur ekki keyrt. Flestir eru á því að vírusar hafi eytt gögnunum af harða diskinum, ef gögnin hafi ekki glatast séu þau komin á harða diska í Cayman Islands. Vírusarnir voru vondir en stýrikerfið átti ekki að leyfa þeim að fjölga sér.  Maðurinn sem átti að taka backup hafði aldrei gert það og vill nú ekki segja af sér.

Sumir vilja formatta harða diskinn og setja upp nýtt, einfaldara stýrikerfi.

Ég er í þeim hópi sem er efins um að gera stórar breytingar á stuttum tíma. Ástæðan er sú, að gömul forrit eru oft gömul og skrýtin en þau endurspegla samt þekkingu sem hefur safnast upp á löngum tíma. "Never assume the guy who wrote the code was an idiot" segir máltæki í tölvubransanum. Það eru mörg dæmi um að nokkrar línur í kóða sem enginn vissi hvað gerði voru fjarlægðar, og allt hrundi.

Það eru dæmi um að fyrirtæki hafi ákveðið að endurskrifa hugbúnaðinn sinn frá grunni til að laga til og losna við gamalt drasl, en aldrei borið sitt barr eftir það því nýji kóðinn varð verri en gamli kóðinn.  Nýi kódinn var einfeldningslegur og tók ekki á mýmörgum sértilfellum sem fara ekki af sjálfum sér.

Þannig reyndi Netscape í mörg ár að skrifa netvafrann sinn aftur en ekkert gekk, Bandaríska flugmálastjórnin reyndi að endurskrifa hugbúnað fyrir flugumferðarstjórn án árangurs. Hún er ennþá að nota hugbúnað frá sjöunda áratugnum síðast þegar ég vissi.

Við þurfum að endurbæta lög og stjórnkerfi en við ættum þá að fara leið sem í hugbúnaði er kölluð "refactoring". Einhverjir góðir forritarar taka þá að sér að endurbæta forrit til að gera þau læsilegri og í samræmi við góða siði. Þeir eiga ekki að bæta við möguleikum, bara að laga til og gera hlutina skýrari.

Þetta jafngildir því að lögum og stjórnarskrá sé breytt gagngert til að endurbæta lýðveldið, en ekki af því einhver hópur sé að biðja um breytingar í eiginhagsmunaskyni.

Mig grunar að þessi tillögun og endurbótavinna hafi ekki verið unnin á Lýðveldinu Ísland 1.0, stjórnarskráin og lögin hafi staðið í stað í gegnum árin. Það er þó ekki réttlæting fyrir því að henda öllu út og byrja frá grunni.því fer hratt út í vitleysu. Hvað með hvalveiðar? Hvað með NATÓ? Eigum við að banna ættarnöfn? Og svo framvegis...

 

Hér er grein um "Refactoring" og hér er grein um hættur þess að skrifa allt aftur frá grunni.





Hvenær er nýtt nýtt ?

Það virðist vera lögmál að atvinnugreinar sem eru búnar að koma sér vel fyrir eiga erfitt með nýsköpun.  Stór hópur fólks áleit græjurnar á næstu mynd vera gott úrval:

ghettoblaster-family_738061.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Framleiðendunir voru Sony, Pioneer, Panasonic, Akai, "the usual suspects".  Ef þú hefðir spurt þessi fyrirtæki hefðu þau öll sagst vera sérfræðingar á sínu sviði og vita allt um hljómflutningstækni og þarfir notenda.

Það þurfti tölvufyrirtæki til að koma af hliðarlínunni með nýja hugsun:

newipods.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég nefni þetta bara sem dæmi um að stundum borgar sig að losna við gömlu valdaklíkurnar og hleypa nýrri hugsun að. 

Sjálfstæðisflokkurinn heldur því fram að hann sé sérfræðingur í að stjórna landinu enda mikill reynslubolti. Ég gef lítið fyrir reynslu sjálfstæðisflokksins.  Ég held að reynsla hans sé að verða honum ansi mikill fjötur um fót.  Ég er ekki að segja að við eigum að kjósa í næstu viku, en þegar við kjósum skulum við skipta almennilega út og hleypa ferskum vindum að.

 

 

 


Ræða Þorvalds Gylfasonar í Háskólabíói

Stjórnmál og viðskipti eru óholl blanda. Íslenzkt efnahagslíf var lengi gegnsýrt af stjórnmálum. Helmingaskipti voru reglan, kaup kaups. Einkavæðingu banka og ríkisfyrirtækja var ætlað að uppræta þá skipan. Markmið einkavæðingarinnar var að skerpa skilin milli stjórnmála og viðskipta til að dreifa valdi á fleiri og hæfari hendur.

Ríkisstjórnin brást þessu ætlunarverki líkt og gerðist nokkrum árum fyrr í Rússlandi. Hún tók sjálfa sig fram yfir fólkið í landinu. Hún afhenti ríkisbankana mönnum, sem voru handgengnir stjórnarflokkunum og höfðu enga reynslu af bankarekstri. Í höndum þeirra uxu bankarnir landinu yfir höfuð á örfáum árum og vörpuðu með leynd þungum ábyrgðum á þjóðina. Seðlabankinn, ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið höfðust ekki að. Stíflan brast.

Seðlabankinn vanrækti að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð til að vega á móti erlendri skammtímaskuldasöfnun bankanna. Þrákelkni ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans fyrir hönd krónunnar í nafni sjálfstæðrar peningastjórnar hefur nú í reyndinni teflt fjárhagslegu sjálfstæði landsins í tvísýnu um sinn.

Seðlabankinn og ríkisstjórnin skiptust ekki á nauðsynlegum upplýsingum í aðraganda kreppunnar og halda áfram að elda grátt silfur. Ríkisstjórnina brestur þor til að skipta um áhöfn í Seðlabankanum, þótt bankastjórnin hafi hvað eftir annað gert sig seka um alvarleg mistök, sem hafa ásamt öðru svert álit Íslands í útlöndum.

Bankastjórnin er vís til að eyða láninu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum í misráðna tilraun til að hífa gengi krónunnar upp fyrir eðlileg mörk í framhaldi af gengisfölsunarstefnu bankans undangengin ár. Bankastjórnin verður að víkja frá án frekari tafar. Fyrirhugaður flutningur Fjármálaeftirlitsins aftur til Seðlabankans herðir enn á kröfunni um, að bankastjórnin víki. Það vekur von, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur krafizt þess að fá að gera öryggisúttekt á Seðlabankanum.

Hrun bankakerfisins og veik viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hrapinu afhjúpa hyldjúpa bresti í innviðum íslenzks samfélags. Þessar dauðadjúpu sprungur, sem ættu að vera á allra vitorði, hafa stjórnmálaöflin þó aldrei fengizt til að viðurkenna, hvað þá heldur til að fylla.

Upphaf ófaranna má rekja til upptöku kvótakerfisins, þegar stjórnmálastéttin kom sér saman um að afhenda útvegsmönnum ókeypis aðgang að sameignarauðlind þjóðarinnar. Þessi rangláta ákvörðun, sem allir flokkar á þingi báru sameiginlega og sinnulausa ábyrgð á, skerti svo siðvitund stjórnmálastéttarinnar, að þess gat ekki orðið langt að bíða, að aðrar jafnvel enn afdrifaríkari ákvarðanir sama marki brenndar sæju dagsins ljós. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað, að kvótakerfið hefur leitt af sér mannréttindabrot, en ríkisstjórnin lætur sér samt ekki segjast, ekki enn.

Hví skyldu menn, sem víluðu ekki fyrir sér að búa til nýja stétt auðmanna með ókeypis afhendingu aflakvóta í hendur fárra útvalinna, hika við að hafa svipaðan hátt á einkavæðingu banka og annarra ríkisfyrirtækja? Varaformaður Framsóknarflokksins auðgaðist svo á einkavæðingu Búnaðarbankans, að hann gerði sér lítið fyrir og keypti þjóðarflugfélagið (og lét skipa sjálfan sig seðlabankastjóra í millitíðinni, en hann hafði að vísu ekki efni á láglaunabaslinu þar nema skamma hríð). Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins gerðist einnig milljarðamæringur við einkavæðingu Landsbankans, og enginn spurði neins, enda voru fjölmiðlarnir flestir komnir í hendur eigenda bankanna. Formaður Sjálfstæðisflokksins lét skipa sjálfan sig seðlabankastjóra og lét bankaráðið umsvifalaust hækka laun sín upp fyrir laun forseta Íslands með kveðju til Bessastaða. Áður hafði hann skammtað sér konungleg eftirlaun úr vasa almennings. Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið.

Nú býst ríkisstjórnin sjálf til að rannsaka tildrög bankakreppunnar. Við þurfum enga hvítþvottarbók frá ríkisstjórninni. Betur færi á skipun erlendrar rannsóknarnefndar, eins konar sannleiks- og sáttanefndar, með erlendum sérfræðingum. Við þörfnumst slíkrar nefndar til að endurheimta traustið, sem við þurfum að geta borið hvert til annars, og traust umheimsins. Farsæl samfélagsþróun útheimtir, að sagan sé rétt skráð og öllum hliðum hennar til haga haldið.

Bankakreppa á Íslandi er ekki einkamál Íslendinga. Þrálátur orðrómur um fjárböðun íslenzkra banka fyrir rússneska auðmenn horfir nú öðruvísi við en áður. Íslendingar og umheimurinn þurfa að fá að vita, hvort orðrómurinn á við rök að styðjast og hvað fór úrskeiðis. Aðrar þjóðir hljóta að þurfa að fá að læra af mistökum íslenzkra banka og stjórnvalda, enda hafa þær ákveðið að rétta Íslandi hjálparhönd í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Lýðræðisríki reisa trausta veggi milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Þar er borin virðing fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins, virðing fyrir valdmörkum og mótvægi. Þar eru reistar skorður gegn samþjöppun valds á of fáar hendur. Í þroskuðu lýðræðisríki gæti það ekki gerzt, að formaður stærsta stjórnmálaflokksins léti skipa sjálfan sig seðlabankastjóra án andmæla af hálfu annarra stjórnmálaflokka eða fjölmiðla.

Við stöndum nú frammi fyrir fjárhagsvanda, sem hefur hvolfzt af miklum þunga yfir Ísland og mun ágerast á næsta ári. Stjórnvöld virtu að vettugi varnaðarorð úr ýmsum áttum. Mikill hluti þjóðarinnar hefur fylgzt agndofa með rás atburðanna. Á vegum ríkisstjórnarinnar er unnið að endurskipulagningu bankanna undir tortryggilegum leyndarhjúp.

Ákæruvaldið hefði átt að láta strax til skarar skríða eftir hrunið frekar en að boða mörgum vikum síðar til veiklulegrar athugunar á því, hvort lög kunni að hafa verið brotin. Silagangur ríkisstjórnarinnar síðan bankarnir hrundu vekur ekki heldur traust. Eina færa leiðin til að endurreisa nauðsynlegt traust milli manna inn á við og álit Íslands út á við er að spúla dekkið. Stjórnmálastéttin hefur brugðizt. Hún þarf helzt að draga sig möglunarlaust í hlé, víkja fyrir nýju fólki og veita því frið til að leggja grunninn að endurreisn efnahagslífsins og réttarkerfisins með góðra manna hjálp utan úr heimi.

Reynslan sýnir, að bankahrun getur leitt af sér óstöðugt stjórnarfar og myndun öfgahópa, sem bítast um brakið, berja stríðsbumbur og ala á ótta við útlönd. Sýnum stillingu. Hlustum á allar raddir, en hlýðum þó aðeins þeim, sem boða undanbragðalaust uppgjör við liðna tíð og stefna á endurreisn íslenzks efnahagslífs með hagkvæmni, réttlæti og lýðræði að leiðarljósi. Tökum undir með skáldinu Snorra Hjartarsyni: „Ísland í lyftum heitum höndum ver ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.“

 

Ræðu Þorvalds afritaði ég héðan:  http://www.dv.is/frettir/2008/11/24/raeda-thorvalds-gylfasonar/

Mér finnst fréttaflutningur Morgunblaðsins á vefnum mjög takmarkaður og einhliða.  Ég veit ekki hvort ég get bloggað hér öllu lengur.

Á laugardag beið ég spenntur eftir því að sjá hversu fjölsóttur fundurinn á Austurvelli var. en það var ekki aukatekið orð um fundinn á mbl.is  !

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband