Færsluflokkur: Tölvur og tækni
15.1.2008 | 09:59
Rafmagnaðri Prius - myndi ég kaupa rafmagnsbíl?
Toyota Prius bíllinn er orðinn algengur á götum Reykjavíkur.
Hann verður afgreiddur með innstungu frá árinu 2010, því þá verður hægt að stinga bílnum í hleðslu.
Full hleðsla er 2.7 kílóvattsstundir og tekur 4 klukkutíma. Á þessari hleðslu getur bíllinn keyrt 12 kílómetra áður en bensínvélin hrekkur í gang. Tólf kílómetrar jafngilda bíltúr úr Hafnarfirði í Kringluna og til baka. Það er ekki mjög langt, en hins vegar er bíllinn ekki sérstaklega hannaður sem rafmagnsbíll, enda kemst hann út um allt á venjulegu bensíni þegar rafmagnið þrýtur.
Kílóvattsstund kostar 4,38 kr. núna svo kílómetrarnir tólf munu kosta 12 krónur.
Sama vegalengd í venjulegum bensínbíl kostar 162 krónur í bensín (miðað við 135 krónur á lítrann og tíu lítra eyðslu á hundraðið).
Tólf kílómetrar eru sú vegalengd sem margir fara til og frá vinnu daglega.
Ég vil heldur borga 12 krónur en 162 krónur fyrir keyrslu dagsins, en á móti kemur að ég þarf að muna að stinga bílnum í samband á hverju kvöldi. Ég væri líka að spara bíltúra út á bensínstöð og það er líka einhvers virði.
Á hverju ári fer ég 240 ferðir í vinnuna. Ef hver um sig kostar 162 krónur í bensín gera það 38.880 kr. Það er nú ekki mjög mikill peningur á ári sem maður sparar með því að hætta að kaupa bensín.
Þegar bíllinn hefur einu sinni verið keyptur, því þá ekki að nota hann sem mest, fyrst bensínið er ekki stærri hluti af rekstrarkostnaðinum? Þarna er væntanlega komin skýringin á umferðinni á götum Reykjavíkur. Það þarf miklu meiri hækkanir á bensíni til að fólk fari að labba eða hjóla þegar afborganir af bifreiðinni eru miklu stærri kostnaðarliður en bensínið sjálft.
Heimildir:
http://www.nytimes.com/2008/01/14/business/14plug.html?ref=technology
http://www.orkusalan.is/heimili/index.cfm?ccs=69
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
27.11.2007 | 09:34
Gutenberg
Gutenberg fór að prenta bækur upp úr 1450. Bækur höfðu verið eign konunga en urðu nú almennari eign og féllu í verði.
Internetinu hefur verið jafnað saman við uppfinningu Gutenbergs á prentvélinni. Hins vegar hafa geisladiskar með tónlist og bíómyndum ekki lækkað og framboð þeirra hefur ekki aukist vegna þess að framleiðendur hafa valið að láta eins og þessi nýja tækni sé ekki til.
Ef ég fer út í videoleigu get ég ekki fundið 99.99% af öllum bíómyndum sem gerðar hafa verið því það er bara pláss fyrir 0.001% þeirra á leigunni. Jafnvel nýlegar myndir eins og "Titanic" fást ekki leigðar. Leigan hefur aldrei verið dýrari og gæðin á efninu fara minnkandi. Geisladiskarnir á leigunni eru flestir brenndir á Íslandi án aukaefnis og fimm rása hljóðs sem fylgir með í útlöndum. SAM hf. er með einkarétt bæði á dreifingu í videoleigum og í bió. Venjulegt fólk fer ekki lengur í bíó vegna þess hvað miðaverð er orðið hátt og ekki keppir SAM við sjálft sig með því að lælkka verðið á diskunum í leigunni.
Ef rétthafar hefðu leyft öðrum að njóta góðs af tækniframförum með sér hefðu allir notið góðs af þeim, bæði þeir og aðrir. Þess í stað hafa rétthafar efnisins miskunnarlaust misnotað aðstöðu sína. Þeir hafa sofið í stað þess að bæta framboð og þjónustu. Núna reyna þeir að beita ósanngjörnum lögum til að allt geti orðið eins og það var áður. Það mun aldrei gerast, því öll undirheimatæknin til að dreifa mynd og hljóði er búin að hreiðra um sig. Ekki hafa hörð viðurlög við eiturlyfjanotkun minnkað streymi efnanna til landsins, og þetta smygl er þúsund sinnum auðveldara.
Lögin eru þverbrotin í hvert skipti sem afmælissöngurinn er sunginn í veislu. Ef rétthafar beittu lögunum eins og þeir hafa rétt til gætu þeir krafið hvert einasta afmælisbarn í landinu um bætur. Þannig eru lögin.
Erlendis er farið að bjóða upp á sanngjarnari verð og meira úrval í verslunum á netinu eins og iTunes frá Apple. Dreifingaraðilar efnisins á Íslandi munu verða óþarfir því fólk mun sækja sína tónlist og bíómyndir beint til gagnaþjóna á meginlandinu. Ég hef sjaldan séð augljósara dæmi um óþarfa milliliði og er þó nóg af þeim á Íslandi. Það er því skiljanlegt að íslenskir aðilar berjist eins og þeir eigi enga vini.
![]() |
Hart barist um höfundarréttinn á torrent-síðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.11.2007 | 13:39
Hvernig er hraðinn á Internetinu hjá þér?
Um daginn var sagt í fréttum að internet aðgangur væri dýr á Íslandi. Það er líka erfitt að komast að því hvort maður fær jafn hraða tengingu og maður borgar fyrir.
TeleDanmark í Danmörku er með hraðapróf á heimasíðu sinnni hér. Ég prófaði frá skrifborðinu í vinnunni í Frakklandi:
Download hastighed: 11190 kbit/sek eða 11.1 MB/s
(Sækja gögn frá Danmörku til Frakklands)
Upload hastighed: 4831 kbit/sek eða 4.8 MBb/s
(Senda gögn til Danmerkur frá Frakklandi)
Vodafone á Íslandi er með hraðapróf hér.
Ef ég sæki gögn frá þeim til Frakklands er hraðinn 3.98 MB/s eða 3980 kbit/sek
(Engar upplýsingar um sendihraða eru birtar)
Síminn er með hraðapróf hér.
Ef ég sæki gögn frá þeim er hraðinn : 6.64 MB/s eða 6640 Kbit/Sek
(Engar upplýsingar um sendihraða eru birtar)
Nú spyr ég ykkur sem heima sitjið: Hvaða niðurstöður fáið þið? Eru þær í samræmi við það sem þið borgið fyrir ?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
22.11.2007 | 09:55
Verkfræði dauðans
Ég skildi aldrei þessa mynd þegar ég fór í bíó að sjá James Bond. Ég hélt alltaf að þarna væri hann að skjóta vesalings ljósmyndara, og að þetta ætti að vera mynd tekin í gegnum ljósmyndalinsu.
Þetta eiga víst að vera riflurnar innan í byssuhlaupi. Orðið riffill er tilkomið út af þessum riflum eða rennum innan í hlaupinu, sbr. riflaðar flauelsbuxur. Raunverulegt riffilhlaup lítur svona út (skítugt af notkun):
Tilgangurinn með rákunum er að koma riffilkúlunni á snúning á leiðinni út úr hlaupinu.
Áður en riffillinn var fundinn upp var byssuhlaup bara venjulegt rör. Það var allur gangur á því hvernig kúlan snerist þegar hún kom út úr hlaupinu og skotin geiguðu, rétt eins og sá sem sparkar bolta getur sparkað snúningsbolta fram hjá markmanni.
Herforingjar lögðu vandamálið fyrir verkfræðinga sem fundu upp á að setja riflurnar í byssuhlaupin. Kúlan snýst alltaf eins, og hittir á sama stað ef skyttan kann að miða.
Æ!
Byssukúlurnar sem eru notaðar í stríði í dag eru hafðar nógu stórar til að særa óvininn en ekki nógu stórar til að drepa hann örugglega. Í fyrsta lagi þyrfti þá stærri byssukúlur og það þýðir meiri þunga fyrir hermenn að bera í byssubeltum á vígvellinum. Í öðru lagi er betra að særa óvininn, því þá þurfa félagar hans að hjúkra honum og bera. Ef maðurinn deyr er hann skilinn eftir og það þýðir minni vinnu fyrir herdeildina.
Menn hafa farið í stríð með litlar, eitraðar byssukúlur en þær voru ekki vinsælar - sennilega útaf ofangreindu. Sumum fannst þær líka ómekklegar enda eru þær víst bannaðar.
Púff!
Púðrið sem var notað í fyrstu byssurnar var óbreytt uppskrift frá Kínverjum, samsett úr kolum, saltpétri og brennisteini. Í stórum orrustum varð ólíft á vígvöllunum vegna púðurreyks því menn sáu hvorki vini né óvini í reykjarmekkinum.
Napóleon bað verkfræðinga að leysa þetta vandamál og útkoman var reyklaust púður.
Nútíma byssuskot innihalda því ekki gamla púðrið heldur svokallað "Kordít" sem er skyldara dínamíti en gamla byssupúðrinu.
Hviss!
Hins vegar halda flugeldaframleiðendur áfram að nota kínverska byssupúðrið í flugelda. Þess vegna sjá íslendingar ekki handa sinna skil á gamlárskvöld frekar en hermenn Napóleons.
Ef við verðum öllu skotglaðari þurfum við að fara að sérpanta reyklaust púður í þá flugelda sem eru fluttir inn til landsins.
17.11.2007 | 19:33
Græjudellan
Flestir fara ekki út úr húsi án grunnþarfanna:
1 Lykla sem er ávísun á húsaskjól
2 Seðlaveskis sem getur gefið fæði og klæði
3 Gemsa sem veitir samband við fjölskyldu og vini
Svo flækist málið. Eitthvað af neðantöldu gæti farið með í bæinn:
4 Skiptimynt
5 Penni
6 Vasaljós
7 Vasahnífur
8 Leatherman töng
9 Addressubók
10 Dagatal
11 Minnisbók
12 Myndavél
13 Minnislykil
14 MP3 spilari
15 GPS tæki
16 Kort af borginni.
Gemsar eru oft með eitthvað af 9..16 innbyggt en bæta við:
17 Vekjaraklukku
18 Stoppúri
19 Reiknivél
20 Leikjum
Flottustu gemsarnir eru með:
21 Tölvupóst
22 Vefaðgang
23 Kvikmyndavél
24 Kvikmyndaspilara
Listinn yfir dót í vösunum heldur vitaskuld áfram: Tyggjó, tannþráður,
varasalvi, kontaktlinsubox... en ég verð að hætta einhversstaðar.
Þegar ég var hvað nerdaðastur var ég með lítið "herraveski". Veskið innihélt
meðal annars fyrirbærið "PalmPilot" sem ég notaði fyrir atriði 9..11 og 17..20.
Það var erfitt að skrifa á PalmPilot með pennanum sem fylgdi og hann var ekki
með vélritunarborð. Maður glataði líka öllum upplýsingum ef rafhlöður kláruðust
og því endaði hann ofan í skúffu að lokum.
Í dag er ég yfirleitt bara með grunnþarfirnar 1..3 þegar ég fer í bæinn.
Gemsinn minn er gamall. Ég nota hann til að hringja, og stundum vekjarann þegar ég ferðast.
Reyndar er í honum myndavél en hún er lélegri en tárum taki. Nýjustu gemsarnir hafa víst fengið skárri myndavélar en ég hef ekki haft áhuga, því mér skilst þær séu ekki orðnar alvöru myndavélar ennþá. Litlar myndavélar verða að hafa litla myndaflögu og þá verður útkoman ekki góð, svo ég held ekki í mér andanum.
Of mikið í einum pakka?
Einu sinni keypti ég vasahníf sem innihélt stækkunargler og járnsög meðal annars, en hann var of þykkur og stór og endaði því í hanskahólfinu á bílnum því hann var ekki lengur "vasa"hnífur, heldur eitthvað annað. Af þessu lærði ég að vera ekki að kaupa of sambyggðar græjur sem eiga lítið sameiginlegt. Það er betra að eiga venjulegan vasahníf og taka bara skrúfjárn með ef maður heldur að maður þurfi að nota slíkt.
Gemsar innihalda sífellt fleiri hluti og eru orðnir eins og vasahnífurinn sem ég var að lýsa. Þessir flottu eru dýrir, úreldast hratt og ég veit fullvel að ég hef ekkert við alla þessa hluti að gera. Ég eyði samt tíu mínútum í að skoða þá meðan ég bíð eftir flugvél.
Nokia N810
Nú kemur samt tæki á markað í þessum mánuði sem hrærir mína nerdastrengi og það heitir Nokia N810.
Nokia kallar tækið "Internet Tablet". Það er bara stór skermur, þráðlaust net, GPS og Bluetooth, og svo er lítið lyklaborð í skúffu undir skerminum ef maður vill ekki nota snertiskjáinn. Stýrikerfið er Linux og tækið getur keyrt forrit frá öðrum en Nokia. Vefrápari, mynd og hljóðspilari, Skype og fleira góðgæti fylgir.
Tækið er ekki gemsi heldur á að tengja það við einn slíkan með Bluetooth ef maður er ekki á svæði með þráðlausu neti.
Ég er orðinn frekar háður Google, Google maps, og Skype og sakna oft að hafa ekki aðgang þegar ég sit ekki við skrifborð. Ég vil frekar hringja með Skype en að borga símafélagi fyrir venjulegt símtal þegar ég er erlendis.
Það væri líka gott að hafa GPS tæki tengt við Google maps þegar maður er staddur í stórborg.
Þegar ég ferðast tek ég iðulega með ferðatölvu sem getur þetta allt en það kostar tíma að kveikja á henni og maður tekur hana ekki svo glatt upp úr vasanum á götuhorni.
Stýrikerfið í N810 er opið (Linux) en ekki lokað eins og iPhone síminn nýji og það er í raun ástæðan fyrir því að ég hef áhuga á tækinu.
Tækið kemur á markað nú í nóvember og kostar grilljón. Hálfa grilljón. 400 dollara. Og það vantar vasahníf... Og það verður úrelt á morgun... Einhvern tímann verður samt að kaupa.
Þegar Seltjarnarnes og Reykjavík fara að bjóða upp á þráðlausan aðgang um allan bæ eykst notagildi svona tækis þótt maður sé ekki að ferðast. Það væri jafnvel hægt að segja upp bæði heimilissímanum og GSM áskriftinni.
Kannski er Nokia svolítið sniðugt að byggja ekki gemsa inn í þetta tæki, því ólíkt iPhone þarf Nokia ekki að úthugsa samkomulag við hin og þessi símafélög. Ef menn vilja nota Skype allan liðlangan daginn þá geta menn það.
Hverjir kaupa?
Flest fullorðin börn láta atvinnuveitandann kaupa svona tæki fyrir sig. Það er merkilegt að flestir tölvunarfræðingar ganga um með gamaldags pappírsdagatöl og úr með vísum, það eru bissnessmenn sem kaupa flest svona leikföng.
Ég held það sé vegna þess að tölvunarfræðingar vilja leysa vandamál. Þegar ég sé mörg þessi tæki undir glerborðinu út í fríhöfn spyr ég mig: Ef þetta er svarið, hvað var þá spurningin?
Framleiðendur eru oft ekki að reyna að leysa vanda heldur búa til nýja eftirspurn. Þeir setja myndavélar í síma af því þeir vilja auka netnotkun notenda því þeir munu reyna að senda myndina sem þeir tóku til einhverra kunningja sinna og borga vel fyrir. (Sendingin mistekst iðulega en það er svo annað mál).
Útkoman er allt of oft eins og svissneski vasahnífurinn. Of mikið af möguleikum, sitt úr hvorri áttinni, pakkað saman í umbúðir sem er erfitt að nota.
Kannski N810 verði öðruvísi. Kannski verður hann ómissandi. Ef ég hefði verið spurður fyrir fimmtán árum hvort ég myndi vilja ganga um með síma að staðaldri hefði ég svarað neitandi. Mér finnst sennilegt að Internet í vasanum verði hluti af framtíðinni.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.11.2007 | 08:27
Surtr fer sunnan
Hollywood hefur hannað mörg eftirminnileg skrýmsli. Skrýmslið á myndinni er þó "alvöru" og sennilega banvænna en skrýmslin í bíómyndunum áttu að vera, því þetta er orrustuflugmaður:
Hann er með glóandi glyrnur og horn eins og ári úr djöflabókum miðalda. Glóðin í augunum er endurkastið frá myndavélum í hjálminum.
Sniðugt hvað raunveruleikinn minnir stundum á gamlar sögusagnir. Maður vonar bara að þetta sé alger tilviljun en ekki vísun í opinberunarbók Jóhannesar...
Heimild: Daily Mail
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.11.2007 | 08:03
Bylgjur eru bestu skinn
Í framhaldi af þessu banni ætti þá að hætta með útsendingar útvarps og sjónvarps. Þær bylgjur hafa farið í gegnum okkur frá fæðingu og útskýra örugglega að miklu leyti hvers vegna sum okkar voru bólugrafin sem unglingar. Að minnsta kosti útskýra þær skoðanir okkar á stjórnmálum í dag.
Í alvöru talað held ég að það sé lítill munur á útvarpsbylgjum og ljósbylgjum. Þær hafa lægri tíðni en ljósbylgjur en eru að öðru leyti ósköp svipaðar. Þær geta í mesta lagi hlýjað manni ef það er mjög mikið af þeim. Þess vegna er svona hlýtt út í sólinni á sumrin.
Mannkynið þróaðist undir stöðugu bylgjuregni frá sólinni og geimnum. Við erum vön þessu. Þetta er ótti við hið ósýnilega.
![]() |
Þráðlaust net burt úr skólum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
1.11.2007 | 11:23
Orkuveita á víðavangi
Útilegur þurfa einhvern tímann að taka enda, ekki vegna matarleysis heldur rafmagnsleysis. Þegar myndavélar og gemsar verða rafmagnslitlir fer borgin að heilla með sínum rafmagnsinnstungum enda hættir maður ekki að vera nerd fjarri mannabyggðum.
Í síðustu ferð varð mér að orði að gott væri að geta hlaðið gemsa og myndavélar í mörkinni. Ég rakst á þessa lausn sem mér sýnist reyndar vera uppkast ennþá en hugmyndin er góð:
Ég veit að þeir sem eru í útilegum erlendis nota sólarrafhlöður, en sennilega er lausnin á myndinni heppilegri fyrir íslenskar aðstæður.
Önnur hugmynd sem gæti virkað er þessi hér. Hún byggir á sömu hugmynd og þegar barn blæs á ýlustrá, eða þegar Tacoma Narrows brúin byrjaði að sveiflast í vindinum. Sveiflurnar í belti sem strengt er upp þvert á vindinn eru notaðar til að framleiða rafmagn.
Mér þætti vel við hæfi ef lausnir fyrir vindasamar útilegur kæmu á markaðinn frá íslenskum frumkvöðlum.
Ég bið reglulega lesendur afsökunar á því hvað ég hef verið jákvæður upp á síðkastið en ég hef verið erlendis í meira en mánuð.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.10.2007 | 16:59
Back to the future
Árið 1983 var hægt að kaupa fartölvu sem var svo vel hönnuð að sumir eru að reyna að nota hana enn þann dag í dag. Vélin hét Tandy 102:
Hún var í miklu uppáhaldi hjá fréttamönnum sem vélrituðu greinar inn á hana og sendu til ritstjórnar með innbyggðu mótaldi. Fyrstu stimpilklukkurnar frá Hug hf. byggðu á þessari tölvu.
Kostirnir voru þó nokkrir: Í fyrsta lagi gekk hún mjög lengi á venjulegum rafhlöðum. Í öðru lagi var hún tilbúin til notkunar stax eftir að kveikt var á henni. Í þriðja lagi voru forritin brennd í kubb svo þau voru að eilífu tilbúin til notkunar og ósködduð af vírusum. Síðast en ekki síst var lyklaborðið mjög gott.
Í óspurðum fréttum var þetta síðasta vélin sem Bill Gates skrifaði forrit fyrir áður en hann snéri sér alfarið að rekstri Microsoft.
Þegar mig langar bara til að vélrita texta eða þegar uppfærslur, vírusar og trójuhestar eyðileggja daginn, sakna ég einfaldleikans sem fylgir tölvum á við Tandy 102.
Ég komst að því að hún á sér nútíma afleggjara sem heitir Alphasmart Dana sem notar stýrikerfið úr Palm Pilot tölvunni. Upphaflega er Dana hönnuð fyrir nemendur sem vilja taka glósur en aðrir hafa keypt hana, aðallega fréttamenn og rithöfundar.
Hún hefur flesta kosti gömlu Tandy vélarinnar og ekki spillir fyrir að hún kostar 25 þúsund krónur og keyrir vikum saman á tveim AA rafhlöðum. Það er enginn harður diskur og ekki hitar hún á manni kjöltuna. Samt getur hún lesið tölvupóst og farið á netið ef hún er tengd við GSM síma. Þessi vél hefur eignast dyggan aðdáendahóp meðal þeirra sem þurfa bara að vélrita texta og lesa tölvupóst. Ég reyndi að spyrja framleiðandann hvort hægt væri að setja íslenska stafi í gripinn en fékk ekki svör í fyrstu atrennu.
Ef svona vél fengist íslenskuð gæti ég séð hana fyrir mér hjá eldra fólki sem þyrfti að komast í tölvupóst en hefði hvorki áhuga né möguleika á að berjast við vírusa og hugbúnaðaruppfærslur, eða á að fjárfesta í dýrri fartölvu.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.10.2007 | 20:26
... en kódi deyr aldregi hveim er sér góðan getr
Í gær fékk ég tölvupóst frá manni sem ég vann með fyrir tíu árum. Hann var að breyta hugbúnaði sem ég var með í að skrifa 1997, rakst á athugasemd í kóðanum eftir mig og datt í hug að hafa samband. Það var gaman að heyra frá honum og mér finnst líka gaman að frétta að gömlu forritin mín eru ennþá á lífi.
Um daginn hafði maður samband sem vildi fá leyfi mitt til að þróa og selja hugbúnað sem ég skrifaði þegar ég var að byrja í háskóla í Bandaríkjunum 1994.
Elsta dæmið sem ég hef er að nemandi minn sagði mér að foreldrar sínir sem reka fyrirtæki í Hafnarfirði væru ennþá að nota forrit sem ég samdi árið 1984 þegar ég vann hjá Félagi Íslenskra Iðnrekenda, rétt tvítugur.
Það er gott að gera sér grein fyrir þvi að forrit geta átt sér mjög langan líftíma þótt flestir haldi kanski að hlutir úreldist hratt í tölvubransanum.
Ég veit um einn herramann í Reykjavík sem hefur fulla atvinnu af viðhaldi á COBOL hugbúnaði og hefur haft sömu ánægðu viðskiptavinina í áratugi.
Í framhaldi langar mig að heyra hverjir geta státað af elsta hugbúnaðinum sem þeir vita til að sé ennþá í notkun?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)