Færsluflokkur: Tölvur og tækni
15.10.2007 | 20:44
Hollensku neytendasamtökin: Ekki kaupa Vista
Hollensku neytendasamtökin hafa ráðlagt fólki að halda sig frá Microsoft Vista vegna þess að óánægðir neytendur hafa ekki fengið að losa sig við Vista og fá gamla Windows XP uppí í staðinn.
Fulltrúi samtakanna segir að Vista sé einfaldlega ekki tilbúið, þeir séu nú með 5000 kvörtunarmál í meðferð. Hollenskir bloggarar svara sumir á móti að þetta sé stormur í vatnsglasi því Vista virki á nýjum tölvum, þetta séu aðallega vandamál þeirra sem hafa sett Vista á eldri vélar.
Vandinn er samt líka að sumar nýjar vélar voru aðeins ætlaðar fyrir Vista og það vantar því "drivera" fyrir XP ef mönnum snýst hugur. Þetta ber að hafa í huga ef fólk ætlar út í búð á næstunni..
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
15.10.2007 | 15:47
Sigmund tölvunerdanna?
Hér er á ferð teiknari með undarlegan húmor og mikla tölvufræðiþekkingu. Hann fer örugglega fyrir ofan og neðan garð hjá þeim sem eru ekki tölvunarfræðingar en mér finnst þetta fyndið.


Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.10.2007 | 19:30
Fjarmiðjuhandbókin
Ég hef farið um netið í leit að upplýsingum um ýmiss tölvumálefni en oft gengið brösuglega að finna vel skrifuð skjöl um það sem ég vil fræðast. Yfirleitt er um að ræða hugbúnað frá stórum fyrirtækjum hverra nafn skiptir ekki máli.
Ég ætla í nerdagírinn og tala um skjölun.
Þeir sem eiga að skrifa handbækur eru oft orðnir svo samdauna vinnunni að þeir geta ekki lengur lýst henni á prenti fyrir ókunnugum, sennilega af því þeir geta ekki sett sig í spor óreyndra og af því þeir hafa ekki heyrt spurningarnar sem upp koma hjá þeim, hafandi ekki unnið í notendaþjónustu eða við kennslu á hugbúnaðinum.
Oft virðist höfundur ekki hafa skilgreint fyrir sjálfum sér hver lesandinn sé, áður en hann sest við skriftir. Stundum hef ég á tilfinningunni að sá sem skrifar gefi sér að lesandinn viti þetta allt og það sé hálf vandræðalegt að þurfa að lýsa kerfinu.
Það er algengt að hugtök séu notuð án þess að þau séu skilgreind fyrst. Einnig er algengt að kaflar geti ekki staðið sjálfstætt vegna óteljandi tilvísana út og suður innan skjalsins og í önnur skjöl. Tilvísanir eru í lagi - upp að vissu marki.
Þetta hefur ágerst eftir að netið kom, því sumir handbókahöfundar telja sig undanþegna því að skipuleggja frásögn sína, því alltaf megi hoppa á eftir næsta "hyperlink" ef lesandinn þarf að fylla út í söguþráðinn.
Hjá mörgum fyrirtækjum tíðkast að láta nýja starfsmenn skrifa handbækur því lengra komnir starfsmenn vilja helst sleppa. Nýliðar vita oft lítið um kerfin og geta ekki leyft sér að trufla forritarana við vinnu sína til að spyrja heimskulegra spurninga - sem eru í raun ekki heimskulegar.
Nýliðarnir reyna að sleppa billega með því að skrifa texta sem lýsir kerfinu mjög yfirborðslega, án þess að lýsa nokkurn tímann hvað kerfið gerir. (Sumir gárungar kenna þetta heilkenni við Microsoft).
Oft byrjar handbókin mjög lofandi eins og ef yfirmaður hafi setið hjá nýliðanum fyrsta klukkutímann en svo rennur hún út í sandinn. Stundum virðast handbækurnar vera lítið annað losaraleg dagbók yfir breytingar á kerfinu í gegnum árin, eins konar glósur fyrir höfundana sjálfa, en ekki leiðbeiningar fyrir notendur.
Það er vandi að skrifa handbók, en þegar hún eru góð getur verið unun að lesa hana.
Hér er í lokin ímyndaður kafli úr nútíma handbók sem ég ætla til viðvörunar, ekki eftirbreytni. Hann inniheldur flesta þá hluti sem ég var að skrifa um.
Inngangur
Kæri notandi!
Við óskum þér til hamingju með kaupin. Fjarmiðja ehf. hefur sérhæft sig í gerð vandaðra fjarmiðja sem standast ítrustu kröfur sem gerðar eru og við erum viss um að nýja fjarmiðjan þín á eftir að sinna hlutverki sínu um ókomin ár.
Kafli 1 Fjarmiðjur
Þessi kafli fjallar um fjarmiðjur. Kaflinn kemur í staðinn fyrir eldri lýsingar á fjarmiðjum. Eftir útgafu þessarar handbókar er Fjarmiðja hf ekki ábyrg gagnvart skemmdum sem verða vegna óviðeigandi lýsinga í eldri bókum á fjarmiðjum (eða hjámiðjum).
Kaflinn skiptist í undirkafla sem hér segir:
1.0: kynning
1.1: litlar fjarmiðjur
1.2: stórar fjarmiðjur
1.3: notkun á fjömiðjum
1.0: Kynning
Lýsingu á eldri fjarmiðjum er hægt að fá í fjórða kafla eldri handbókar um fjarmiðjur: "Nýjar fjarmiðjur 2006: meðferð og viðhald" (2006) og hægt er að panta hjá þjónustuveri.
(ATHUGIÐ: Fjarmiðjur fyrir sleskjur eldri en sex ára verða ekki þjónustaðar eftir janúar 2008).
Þessi kafli lýsir hvað fjarmiðjur eru, hvers vegna sleskjur fyrir fjarmiðjur slitna hraðar en eðlilegt þykir og hvað hægt er að gera til að uppfæra eldri fjarmiðjur til samræmis við nýrri vörur frá Fjarmiðju hf.
(Nánari lýsingar á fjarmiðjum fyrir lengra komna eru einnig í köflum 7: sleskjur með svarfsöfnurum, 11: minni sleskjur með hjámiðju og 13: svarfsafnara skipt út í nýrri fjarmiðjum).
Í hverri fjarmiðju er svæði fyrir sleskjur og sleskjusvarfi er safnað í svarfsafnara (merktur med rauðu "B" undir eldri fjarmiðjum eða grænu "S" í nýrri fjarmiðjum).
Boðið er upp á þrenns konar fjarmiðjur:
- Fjarmiðjur med stuðningi fyrir nýjar og eldri sleskjur
- Fjarmiðjur án stuðnings fyrir eldri sleskjur en stærri svarfsafnara
- Fjarmiðjur med áföstum sleskjum (verða ekki þjónustaðar eftir janúar 2008).
Um slit á sleskjum
Slit á sleskjum verður þegar fjarmiðja er of stór fyrir sleskjur eða þegar gömul sleskja er sett a svæði í nýrri fjarmiðju sem er ætluð fyrir nýjar sleskjur. Mikilvægt er að fylgjast með slitinu, sjá aftast í undirkafla 4.1 þar sem fjallað er um viðauka C.
1.1 litlar fjarmiðjur
Litlar fjarmiðjur eru þær fjarmiðjur sem hafa stuðning við fjórar eða færri sleskjur.
Hægt er að uppfæra litlar fjarmiðjur fyrir stuðning við fimm eda fleiri sleskjur, en mælt er med því að stórar fjarmiðjur séu keyptar ef til stendur ad nota fleiri en átta sleskjur. Litlar fjarmiðjur eru teknar upp i nýjar fjarmiðjur samkvæmt taxta enda sé slit á fjarmiðjunni undir mörkum (sjá viðauka A: Viðmiðunarverð a fjarmiðjum 2007 og viðauka C: slitstuðlar fyrir Fjarmiðjur i notkun 1989-2006). Athugið að verðskráin gildir aðeins til desember 2007.
1.2 stórar fjarmiðjur
Stórar fjarmiðjur ráða við fimm eða fleiri sleskjur. Séu sleskjurnar eldri en þriggja ára má koma tveim sleskjum fyrir á svæði sem ætlað er fyrir nýrri gerð af sleskjum en gæta verður að því að fjarmiðjan ofhitni ekki eða svarfsafnari offyllist.
1.3 notkun á fjarmiðju (loksins lærir maður eitthvað!?)
Inngangur
Stórar og litlar fjarmiðjur hafa sömu notendaskil. Á þeim eru þrír takkar að ofanverðu.
Takkar á fjarmiðju
Takkar á fjarmiðju eru merktir: "Sleskja tengd", "Sleskja aftengd" og "Svarfsöfnun á/af". Þeim verður nú lýst.
- [SLESKJA TENGD]
Ýtið á takkann til að tengja sleskju. Sé ýtt oftar en einu sinni heyrist aðvörunarhljóð. Varast skal að halda takkanum inni því sleskjan getur ofhitnað. - [SLESKJA AFTENGD]
Ýtið á takkann til að aftengja sleskju. Sé ýtt oftar en einu sinni heyrist aðvörunarhljóð en óhætt er að halda takkanum inni enda er sleskjan augljóslega ekki nálægt fjarmiðjunni. - [SVARFSÖFNUN Á/AF]
Ýtið á þennan takka til að kveikja og slökkva á svarfsöfnun.
---
Ég vona að þið séuð einhverju nær um sleskjur og fjarmiðjur, en ég óttast samt að þið séuð búin að ákveða að fjarmiðjur séu eitthvað sem þið hafið ekki vit á og best sé að láta sérfræðinga um að annast þær fyrir ykkur.
Kveðja, Kári
PS: Ég sé að það er fljótlegt að skrifa handbækur. Ein A4 síða komin á 25 mínútum!
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.10.2007 | 19:53
Byrjunarvandamál
Hér er saga frá upphafi PC tölvuvæðingarinnar sem ég vil skrifa niður áður en ég gleymi.
Ég vann einu sinni hjá litlu hugbúnaðarfyrirtæki sem hét Hugur. Forritið sem við seldum var afgreitt á tveim diskettum enda var harði diskurinn ekki kominn í PC tölvur.
Fólk átti að setja sitthvora diskettuna í sitthvort drifið og vélrita skipunina "HUGUR" til að kveikja á kerfinu.
Ég fékk símtal frá konu í frystihúsi úti á landsbyggðinni sem sagðist ekki geta kveikt á kerfinu því þegar hún vélritaði "HUGUR" gerðist ekkert.
Ég bað hana að lesa hvað stæði á skjánum þegar hún vélritaði "HUGUR" ?
Konan svaraði: "Það stendur Bad command or filename" sem þýddi fyrir mér að forritið væri ekki á diskettunni.
Ég bað hana næst að fá lista yfir hvað væri á diskettunni með því að skrifa "DIR" en þá sagði hún að textinn "Bad command or filename" hefði komið aftur. Mér leist ekki á blíkuna því DIR skipunin á alltaf að vera aðgengileg.
Þá datt mér svoldið í hug og ég spurði: "hvað stendur í næstu línu fyrir ofan villuboðin?"
Hún sagði:"það er fullt af D, svo koma mörg I og síðast fullt af R". Á ég að telja stafina?
Ég svaraði: "Nei. Bara ekki halda tökkunum svona lengi niðri þegar þú vélritar". Eftir það var allt í himnalagi.
KKKKKvvvvveeeeððððððjjjjjjaaa,
Kári
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.10.2007 | 20:00
Elsku blessuð mörgæsin
Hér í Frakklandi fékk ég Linux borðtölvu strax og ég mætti, það var ekkert verið að bjóða mér upp á Windows, ég hefði þurft að biðja um það sérstaklega.
Ég fékk að vísu vél með gamalli útgáfu af Linux (Fedora 4) en þegar ég sagði þjónustudeildinni frá því, sögðu þeir mér hálftíma síðar að þeir hefðu sett nýjustu útgáfuna inn og gerðu svo vel að endurræsa.
Ég gerði það og viti menn, nýja útgáfan brosti við mér eftir endurræsinguna. Enginn þurfti að heimsækja mig.
Næst bað ég um hugbúnað sem vantaði á vélina, fimm mínútum seinna var mér sagt að kíkja í "start menu" og viti menn, hann var kominn á sinn stað eins og fyrir galdra.
Ég fæ betri notendaþjónustu hér sem Linux notandi en ég hef fengið sem Windows notandi hjá öðrum fyrirtækjum. Linux virðist vera betur til þess fallið að notendaþjónustan þjónusti alla miðlægt án þess að þurfa að heimsækja menn sérstaklega. Þessi vinnustaður hefur alla vega náð mjög langt.
Ég get alveg vanist því að verða venjulegur notandi og hætt að þjónusta vélina mína sjálfur, svo ekki sé nú talað um allan tímann sem fer í að horfa á Windows tölvurnar ná í "Service Packs" og "Virus updates" og "Please reboot".
Hugsanlega er hægt að vinna sér inn heiðarleg laun með því að setja Linux tölvur upp fyrir venjulegt fólk og þjónusta vélarnar svo með nýjustu hugbúnaðaruppfærslum og annari aðstoð um Internetið án þess að þurfa að heimsækja kúnnana, eins og þessi þjónustudeild er að gera.
Hér er í lokin ný grein um Linux frá New York Times.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.9.2007 | 22:00
Vesen á Vista
Mér yfirsást þessi frétt í síðasta mánuði. Hér er lausleg þýðing.
16.ágúst:
Í dag var hætt við að nota stýrikerfið Windows Vista fyrir Ólympíuleikana 2008 eftir að tölvuframleiðandinn Leonovo sem sér um tölvur á leikunum lýsti yfir að Windows Vista væri ekki nógu áreiðanlegt til að verða stýrikerfi leikanna.
Þetta hefur vafalítið sent íshröngl um æðar yfirmanna Microsoft. Yfirmaður Leonovo sagði: Ólympíuleikarnir þurfa þroskaða, áreiðanlega tækni, þetta er ekki staðurinn til að prófa nýja hluti því þetta er mikilvægur stórviðburður. Allt þarf að virka. Síðan staðfesti hann að öll mikilvæg verkefni á leikunum yrðu leyst með Windows XP.
Þetta er í mótsögn við allt sem Microsoft hefur reynt að segja um Vista og eftir þó nokkur leiðindamál með tölvuframleiðendum, þar á meðal Dell sem er byrjað að selja tölvur með XP aftur, hefur Microsoft reynt að neyða menn til að nota nýja stýrikerfið með því að segjast skera á stuðning við nýjar sölur á XP í Janúar 2008.
Það sorglega við þetta allt er að í síðustu viku komu leiðréttingaruppfærslur fyrir Vista svo það er byrjað að haga sér aðeins meira eins og eitthvað sem gæti verið tilbúið til sölu. Orðstír Vista er svo slæmur að aðeins Service Pack 1 getur bjargað núna.
Vista hefur verið á markaði síðan Nóvember 2006 svo hveitibrauðsdagar þess fara að verða taldir, svo maður noti orðalagið sem notað er um ríkisstjórnir.
PS: Síðan fréttin birtist hefur Microsoft framlengt sölu á Windows XP til Júní 2008.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
26.9.2007 | 13:24
Lagað til í stofunni.
Þegar ég man fyrst eftir mér var bara einn takki notaður á útvarpinu og það var "On/Off-Volume". Það voru líka "FM/AM" og "Tuning" takkar en þeir söfnuðu ryki því tækið var alltaf stillt á einu stöðina og það var Útvarp Reykjavík. Málin hafa flækst síðan.
Í stofunni er myndlykill frá Símanum tengdur við sjónvarpið og videotækið, og svo er magnari, geislaspilari, fjarstýrðar gardínur og gamall myndvarpi einhversstaðar enda eru fjarstýringarnar orðnar sjö á stofuborðinu.
Ég er spenntur fyrir því að fækka fjarstýringunum aðeins. Í fyrsta lagi langar mig að kaupa geislaspilara sem getur tekið upp, og losna þar með við videotækið. Það eina sem stöðvar mig er að háskerpuvæðingin er ekki komin í geislaspilarana ennþá. Mér hrýs hugur við að kaupa nýjan geislaspilara sem spilar ekki "Blue-Ray" eða "HD" diska.
Geislaspilarakaup eru því í bið.
Í öðru lagi myndi ég vilja fá nýtt sjónvarp sem getur tekið beint á móti stafrænu efni og geta hætt að nota myndlykilinn. Þá væri ég þar með búinn að losna við tvær fjarstýringar. Þetta þarf ég að skýra aðeins.
Mér finnst mikilvægt að einfalda tækjareksturinn í stofunni, ekki flækja hann. Ég vil geta kveikt á sjónvarpinu og stillt beint á hvaða stöð sem er án þess að kveikja á myndlykli og stilla sjónvarpið á hann.
Nýir myndlyklar nota allir sama staðal til að taka á móti mynd, og sá staðall heitir "DVB" eða Digital Video Broadcast". Það er ekkert að því að setja þennan staðal inn í sjónvarpið sjálft enda eru flest ný sjónvörp með stafina "DVB" á framhliðinni. Það er bara ekki alveg nóg.
Myndlykillinn er nefnilega líka lykill, að því leyti að í honum er "smart" spjald sem síminn útvegar, og án spjaldsins neitar lykillinn að afrugla þær rásir sem eru læstar. Þessar rásir myndi nýja DVB sjónvarpið ekki birta.
Sum ný sjónvörp eru með rauf fyrir spjaldið. Spjöldin sem síminn notar heita "Conax" og þeim er stungið í millistykki sem er kallað "Conditional Access Module" og raufin heitir "Common Interface". Þessu millistykki er svo troðið í raufina í sjónvarpinu. Ég hef bara ekki ennþá séð sjónvarp með "Common Interface" og "DVB" á framhliðinni sem mig langar til að kaupa því þau eru ekki mörg.
Sjónvarpskaup eru því líka í bið.
Nýji geislaspilarinn með upptökunni þyrfti helst líka að vera með rauf fyrir spjöldin því ég vil geta stillt videóið á upptöku án þess að stilla myndlykil sérstaklega. Það er ekkert smáræðis flækjustig samfara því að reyna að taka upp efni úr sjónvarpi í gegnum myndlykil eins og staðan er í dag.
Eins og þetta sé ekki nóg, þá myndi ég vilja koma sjónvarpinu í stofunni á internetið því þar er fullt af góðu sjónvarpsefni. Þar þyrfti PC tölvu í hillu með þráðlausri mús, og lyklaborði og ég veit ekki hvað. Ég þyrfti helst að leggja snúru frá ADSL þangað inn - svo vil ég helst ekki fá Windows XP í stofuna því það þarf sífellt að vera að snýta því og skeina.
Það mál er því líka í bið...
Ég á mér draum um að á veggnum í stofunni verði einn skermur og á stofuborðinu verði ein fjarstýring. Mikið vildi ég að einhver kæmi með þessa lausn á markað.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.7.2007 | 09:47
Nú er glatt hjá nördahjörtum
Það er ekki á hverjum degi sem ég sé jafn vel gert og skemmtilegt forrit:
Stellarium getur sýnt stjörnuhimininn í miklum gæðum, hvar sem er á jörðinni og hvenær sem er ársins. Það er hægt að nota forritið sem stjörnukíki og skoða pláneturnar og tunglin snúast kringum þær.
Forritið skýrir líka vel hvers vegna sólin sest ekki á Íslandi á sumrin.
Forritið er ókeypis og til fyrir Macintosh, Linux og Windows. Náið í forritið hér.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2007 | 14:17
Um góða hönnun
Ég kom í Glyptotek herra Karlsbergs í Kaupmannahöfn í síðustu viku.
Þetta er með fallegustu söfnum sem ég hef komið á og ekkert er þar til sparað enda hangir Karlsberg ekki á horriminni.
Á klósettinu var hurðunum læst svona:
Þarna má greinilega sjá að hurðin er læst því krókurinn úr hurðinni læsir sér í vegginn.
Handþurrkurnar voru geymdar svona:
Þetta er bara hola í veggnum með stálrimlum fyrir framan. Ekkert mál að taka sér þurrku, maður fær ekki óumbeðinn búnka af þeim niður á gólf og það er augljóst hvort þær eru að verða búnar.
Nú færi ég mig yfir í sumarhús í Skagafirði. Þetta er hurðin á klósettinu. Fljótt, er hún læst eða ekki?
Ég veit það ekki heldur, best að snúa lyklinum aftur til að vera viss.
Hér er ísskápurinn. Hvernig er hann opnaður?
Maður á að pilla í hurðina, hægra megin frá, ekki vinstra megin frá. Það er engin leið að sjá það.
Þetta er þvottavélin. Er hún kveikt?
Rétt svar er "Nei". Ég hélt að merkið (I) þýddi kveikt. Núna er hún kveikt:
Hér er gufugleypirinn. Hvar er kveikt?
Ekki hægt að sjá það. Nú opna ég hann:
Gefstu upp? OK. Innstungan hægra megin er í alvörunni tveir rofar:
Sérðu núna hvernig hún virkar? Ekki ég heldur. Á vinstri rofanum stendur 1,2,3 á þeim hægri stendur L,M,T. Hvað skyldi það þýða? Letrið sést ekki á myndinni því það er skrifað hvítt á hvítu.
Svona var klósettið þegar við komum að því:
Takkinn fer ekki upp af sjálfsdáðum og vatnið hafði runnið sólarhringum saman. Það er svolítið fyndið því þessi hönnun er gerð til að spara vatn, litla sturt og stóra sturt.
Litlir hlutir safnast saman og gera lífið verra en það þarf að vera. Það er alltaf tími til að spyrja sig "er þetta góð hönnun?" þegar maður stendur út í búð.
Tölvur og tækni | Breytt 3.7.2007 kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2007 | 19:43
O Fortuna!
Einn kennari minn í stærðfræði benti á eftirfarandi :
Það er best að kaupa lottómiða á föstudögum því þá tvöfaldast líkurnar á að vinna.
Ástæðan er sú að líkurnar á að deyja í umferðinni á leið í vinnu yfir vikuna eru álíka góðar og að vinna í lottó...
Svona er stærðfræðin skemmtileg - og líkurnar á að vinna í lottó litlar. Ekki eyða peningum í lottómiða en njótið þess í staðinn að grafa holu í sandin.
![]() |
Strandgestir varaðir við að grafa holur í sandinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 3.7.2007 kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)