Færsluflokkur: Tölvur og tækni
18.6.2007 | 12:05
Stór sigur fyrir Blue-Ray staðalinn
Videóleigan Blockbuster í Bandaríkjunum ætlar að leigja út Blu-Ray bíómyndir eingöngu. Sjá frétt hér.
Ráðamenn þar segja að þeir hafi upphaflega leigt bæði HD-DVD og Blu-Ray diska en ætli nú að einbeita sér að því sem viðskiptavinir vilja.
Tölvur og tækni | Breytt 3.7.2007 kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.6.2007 | 01:04
Hvers vegna ég hef aldrei sæzt við gluggakerfi
Nú fer ég í algeran nerdagír, og bið þá fyrirfram afsökunar sem neyðast til að hætta að lesa eftir nokkrar málsgreinar.
Forritin í Windows þurfa öll að geyma upplýsingar. Yfirleitt notum við forritin til að búa til einhver skjöl sem við vistum í möppum undir "My Documents".
Forritin eru samt líka að geyma ýmislegt annað. Internet Explorer er til dæmis með lista yfir "Favourites" sem eru uppáhalds vefsíðurnar okkar.
Outlook býr til sína eigin gagnageymslu sem geymir alla póstana sem við höfum móttekið og sent.
Þessi gögn eru eign okkar notendanna en þau eru samt ekki geymd með skjölunum okkar undir "My Documents". Gangi ykkur vel að finna þau ef þið viljið taka afrit.
Svo eru ótaldir allir hlutirnir sem við höfum sagt forritunum um okkar þarfir.
Hvaða prentara viljum við prenta á, viljum við hafa kveikt á "Auto complete" í Word eða ekki, hvaða eyðublöð og stíla viljum við hafa aðgengileg í Word, Hvaða símanúmer höfum við sett inn í Skype?
Samanlagt eru þessi gögn kölluð "Stillingar" eða "Preferences". Ómissandi gögn sem eru ekki geymd í neinu skjali sem við erum vön að fást við eins og Word og Excel skjöl.
Allar þessar stillingar gera tölvu að okkar tölvu. Það eru þessar stillingar sem er svo sárt að missa þegar maður lendir í að fá nýja tölvu í hendur eftir að gamli harði diskurinn hrynur eða gamla tölvan úreldist.
Mér finnst þessar stillingar allar skipta miklu máli og þær verða fleiri eftir því sem tímar líða. Tölvan mín er ekki á sama máli. Stillingarnar eru geymdar hér og þar, og ég get ekki auðveldlega afritað þær frá vinnutölvunni yfir á heimatölvuna og áfram yfir á laptop þótt ég geti auðveldlega afritað Word og Excel skjöl.
Vanir tölvunerdar vita að uppáhalds vefsíðurnar eru í skrá sem heitir X og er geymd í möppu sem heitir Y og það er hægt að afrita þessa skrá yfir á aðra vél með því að gera Z. Gott og vel - en...
Jafnvel þótt hægt sé með góðri tölvuþekkingu að afrita stillingaskrár á milli tölva er það ekki nóg.
Suma hluti á að afrita, aðra ekki. Ég vil til dæmis að Word heima hjá mér viti, að mér hugnast alls ekki "AutoComplete" fídusinn, ég er búinn að segja Word í vinnunni það (og Word á öllum öðrum tölvum sem ég hef sezt við).
Það er ekki þar með sagt, að Word heima eigi að prenta út á sama prentara og Word í vinnunni. Það er stilling sem á heima niðrí vinnu og hvergi annars staðar.
Valmyndirnar í Office pakkanum hafa með tímanum orðið undirlagðar af stillingum. Bara í Word er Page setup, printer setup, view toolbars, styles and formatting, spelling and grammar, language settings, tools customize, tools options, listinn heldur áfram og áfram og áfram.
Hver hefur ekki lent í því að hjálpa vinnufélaga að breyta vel falinni stillingu sem var að eyðileggja vinnudaginn en var ekki hægt að finna af sjálfsdáðum af því það eru svo margar stillingar að það þyrfti Google leitarvél inní forritinu sjálfu til að leita að þeim öllum?
Samt eru stillingarnar ekki nógu margar. Ég get ekki búið til stillingu í Word sem segir að mér finnst best að skrifa bréf til konunnar minnar með ákveðinni kossaundirskrift og að það eigi að senda Word skjöl til hennar í tölvupósti. Hins vegar vilji ég prenta bréf til mömmu á laser prentarann og nota ákveðna leturgerð, takk.
Ég er alltaf að vinna verkamannavinnu þótt tölvan eigi að geta létt mér störfin.
Þótt ég gæti sagt Word að stilla þetta, væri það ekki nóg, því þegar ég byrja að skrifa bréf til konunnar minnar ætti ég að opna Outlook en þegar ég vil skrifa mömmu ætti ég að nota Word. Ég vil ekki velja milli Word eða Outlook, ég vil skrifa bréf, og svo vil ég ákveða hvort ég vil senda bréfið sem tölvupóst eða prenta það á pappír.
Ástæðan fyrir því að ég þarf að taka þessa ákvörðun fyrirfram um að nota Word eða Outlook er að gervallt Windows er hannað í kringum risastóra hugbúnaðarpakka, en ekki verkefnin sem notendur eru að reyna að leysa í sínu daglega lífi.
Þegar ég ætla að prenta út reikning í bókhaldskerfi, þá er mjög líklegt að ég vilji senda hann til mannsins sem ég er með í símanum þá stundina. Tölvan er tengd við sama tölvunet og símstöðin og gæti hæglega flett upp hver er á hinum endanum.
Ég læt mig ekki dreyma um að þessi fídus verði útfærður á næstunni því þá þyrftu kerfi að vinna saman og það gera þau ekki.
Stýrikerfið gæti tekið af skarið þarna, hlustað á símstöðina og sagt forritinu sem geymir tengiliðina mína að fletta númerinu upp, og sagt svo bókhaldsforritinu hvaða heimilisfang á að setja á nótuna.
Þannig er raunveruleikinn ekki. Stýrikerfið keyrir bókhaldspakkann og bókhaldspakkinn spilar sóló eftir það, og hann veit ekkert um símstöðvar og lætur ekki segja sér slíka hluti nema notandinn slái þá inn með sínum þreyttu fingrum.
Allar þessar stillingar eru settar inn í stóru forritin vegna þess að þau geta ekki spurt stýrikerfið um neitt af viti sem varðar notandann. Ef mér líkar ekki "AutoComplete" í Word þá er mjög líklegt að mér myndi ekki líka það heldur í Excel eða MindManager eða hvaða forriti sem kemur næst. Af hverju get ég ekki sagt stýrikerfinu frá mér í eitt skipti fyrir öll og það svo séð um að ala upp forritin sem ég nota frá degi til dags?
Grundvallarvandamálið er þessi tíska að búa til risaforrit sem reyna að gera allt fyrir notandann í lokuðum heimi.
Þegar ég notaði Unix áður en gluggakerfin komu, þá var ég vanur að taka mörg lítil forrit og "líma þau saman" á skipanalínunni eða með scriptum sem ég skrifaði. Unix notendur þekkja þetta sem "unix piping" og "command line options"
Stillingarnar mínar voru í þessum scriptum, í formi "command line options" og í því hvernig þessi litlu forrit voru límd saman.
Þessi script geymdu ekki bara stillingarnar mínar heldur líka í hvaða röð ég vildi gera hlutina. Ég gat búið til scipt sem hét "Bref til mömmu" sem byrjaði á að opna edit glugga, með ákveðnum fonti, og endaði á að prenta á laser prentarann. Ef ég vildi hefði ég getað látið scriptið prenta heimilisfangið á umslag á öðrum prentara strax á eftir.
Þetta er stóri munurinn á Unix og Windows heiminum í mínum huga. Scriptin voru mín eign og ég gat afritað þau á nýja tölvu. Þau voru mínar stillingar og þau gátu orðið eins einföld eða flókin og mínar þarfir voru einfaldar eða flóknar þá stundina.
Ég sakna þess ekki að gera allt á skipanalínunni, en geri mér að sama skapi grein fyrir því að Windows hefur aldrei komið með viðundandi mótsvar við henni.
Grunn vandamálið er þessi rosalega sjálfselska í Windows forritum. Þau eru ekki hönnuð til að starfa saman eins og Lego kubbar í stærra samhengi heldur reynir hvert forrit að vera endanlega lausnin á öllum vandamálum notandans.
Þegar forritin stækka verða stillingarnar í þeim að martröð. Ég held að margir geti verið sammála mér að Office pakkinn hefur ekki farið batnandi með árunum. Ég held að hann hafi náð sínu hámarki í kringum Office 97 og orðið leiðinlegri síðan. Skýringuna er að stóru leyti að finna í stillingakraðakinu.
Ég tek Office sem dæmi af því lang flestir þekkja það. Ég hefði getað notað marga aðra pakka sem dæmi, þetta er ekki árás á Microsoft.
Leiðin framávið er að endurhugsa hvað er átt við með notendastýrikefi. það er ekk nóg að stýrikerfið útvegi skrár, glugga og nettengingu fyrir forritin sem það hýsir, en taki ekki af skarið í neinu öðru sem varðar þarfir notandans og hans verklag. Kannski þarf "stillinga algebru". Kannski þarf öflugra "Grafískt Lego" en ActiveX varð.
Skrifborðs samlíkingin var sniðug árið 1984 en nú er árið 2007.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.6.2007 | 10:58
Better living through technology
Ég rakst á notendahanbók Reiknistofnunar Háskóla Íslands frá 1983 í skápnum í gær.
Þar stendur að tölvur í eigu skólans séu tvær:
- Stærri tölvan, VAX-11/780 hefur minni sem er 4MByte að stærð.
- Hún getur framkvæmt 0,8 milljón aðgerðir á sekúndu (MIPS)
- Sú minni, VAX-11/750 er 2MByte.
- Hún getur framkvæmt 0,5 milljón aðgerðir (MIPS)
Þetta voru tölvurnar sem allar útstöðvar í skólanum voru tengdar við og allir nemendur samnýttu til að keyra Pascal þýðendur, COBOL, Fortran og allt annað sem þurfti að gera...
Mig minnti að tölvur hefðu verið orðnar öflugri 1983.
Núna hef ég 2 GByte af minni útaf fyrir mig svo ég geti tekið á móti tölvupósti sem sýnir mér apa stinga puttanum í rassinn, lykta, og detta úr greininni
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2007 | 21:50
Brave new world
Kort sem líta út eins og kreditkort en eru í raun "Rafræn persónuskilríki" verða send til allra landsmanna í haust, ásamt lesara fyrir kortin. Bankarnir og ríkið borga brúsann.
Kortið lítur út eins og kreditkort og er með gylltum reitum í ramma framan á kortinu eins og er á nýjustu kreditkortunum.
Þessi kort munu taka við af auðkennislyklinum sem allir fengu sendan í vetur. Það má semsagt fleygja þeim lykli fljótlega.
Tæknin
Það má líta á nýja kortið sem lyklakippu sem geymir öll "Username / password" fyrir handhafa kortsins á þeim vefsíðum sem nota staðalinn sem kortið byggist á. Allir bankarnir, ríkið og borgin ætla að nota staðalinn hér á landi.
Notandinn (þ.e. ég og þú) stingur kortinu í kortalesarann, sem á að vera tengdur við heimilistölvuna.
Síðan á að opna kortið með því að slá eitt PIN númer inn á lyklaborð tölvunnar, eins og maður gerir til að opna gemsa.
Eftir það sér kortið um að auðkenna handhafann á þeim vefsíðum sem hann heimsækir. Í stað þess að muna username / password fyrir hvern heimabanka eða þjónustu, finnur kortið rétta nafnið og lykilorðið á "lyklakippunni" sem er geymd inní því. Notandinn fer bara á vefsíðuna og síðan stendur honum opin hvort heldur sem er heimabankinn eða vefur skattstjóra. Kortið sér um rest.
Kortið er meira en plast, inní því er tölva, með örgjörva, minni og öðru sem tölva þarf að hafa. Það eina sem vantar er skermur og lyklarborð. Heimilistölvan sér um að skaffa það.
Ný kreditkort eru með þessa sömu tækni, en kreditfyrirtækin hér á landi eru ekki byrjuð að nýta hana. Sumir hafa örugglega lent í því erlendis að þurfa að nota PIN númer þegar þeir borga í verzlun í stað þess að undirrita kvittun. Semsagt, sú tækni.
Það er nánast ómögulegt að skera upp kortið til að finna "lyklakippuna" því hún er innsigluð í miðju korti og er hvort sem er ekkert nema rafmagnshleðslur sem myndu glatast ef kortið væri opnað.
Notagildið
Nóg um tæknina. Það sem ég er spenntastur fyrir í sambandi við þessi kort er, að nú geta íslenskir notendur undirritað tölvupóst þannig að hægt er að sanna fyrir lögum að aðeins handhafi kortsins hafi getað gert það.
Einnig er hægt að dulkóða tölvupóst þannig að aðeins handhafi eins ákveðins korts geti lesið hann.
Þetta þýðir að tölvupóstur hættir að vera eins og póstkort og byrjar að vera eins og innsiglað ábyrgðarbréf í staðinn.
Ég bíð spenntur eftir því að geta krafist þess að allir sem senda mér tölvupóst hafi undirritað hann, annars mun ég henda póstinum. Ég vil ekki nafnlausan póst frekar en ég vil tala við fólk í síma sem er með stillt á númeraleynd.
Tölvupóstur sem berst mér erlendis frá mun fara í ruslsíuna nema sendandinn sé á lista yfir erlenda vini mína. Ruslpóstur ætti þar með að vera úr sögunni - held ég.
Annar möguleiki sem opnast með þessum kortum er að geta sent póst sem óvéfengjanlega kvittun eða beiðni til banka.
Ég gæti til dæmis borgað öðrum pening með því að senda honum póst sem í stendur : Kæri Glitnir, borgaðu þessum manni 10.000 kr. Undirritað Kári Harðarson. Maðurinn gæti áframsent póstinn sem hann fékk frá mér til tölvupóstfangs einhverrar greiðsluþjónustu hjá bankanum og fengið peningana greidda sjálfkrafa. Vesgú, rafræn ávísun.
Það sem gerir það dæmi svolítið spennandi er þegar upphæð ávísunarinnar er upp á 1 kr. Góður bloggari gæti selt áskrift að greinum sem kosta hver um sig 1 kr. Ef þúsund manns lesa bloggið einu sinni á dag í eitt ár er hann búinn að vinna sér inn 365 þúsund krónur. Margt smátt gerir eitt stórt.
Semsagt
Ég er persónulega spenntur fyrir þessari rafrænu framtíð sem byrjar í haust enda bjartýnisnerd.
Það er samt merkilegt, að í flestum löndum sem hafa reynt að innleiða svipuð kort hefur orðið kröftug umræða um lýðræði og mannréttindi og síðan var hætt við að innleiða kortin. Hér koma þau bara...
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.5.2007 | 13:02
Vista selst vel, segir Microsoft
Hér er frétt um sama efni frá Seattle Times.
Þar er málið rætt frá öllum hliðum. Mér finnst frétt moggans einum of lík upphaflegu fréttatilkynningunni frá Microsoft.
![]() |
40 milljónir eintaka hafa selst af Windows Vista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.5.2007 | 10:12
Ég hefi séð ljósið!
Ég vann á BSD Unix í Bandaríkjunum en hef notað Windows alfarið síðan 1997.
Það hefur pirrað mig hversu upptekin Windows tölvan mín er af sjálfri sér og mér hefur fundist það ágerast með árunum. Vélin verður hægari með tímanum og hún er alltaf að sækja sér "service packs" eða vírusvarna uppfærslur eða "software updates" af einhverju tagi.
Í gær fékk ég geisladisk með Ubuntu Linux 7.04 sem ég hafði heyrt að væri góð útgáfa af Linux.
Ég hafði ekki gefið Linux tækifæri í þó nokkurn tíma, svo ég ákvað að prófa. Það var kominn tími til að setja Windows upp aftur, eins og þarf reglulega að gera þegar Windows er annars vegar. Í gegnum árin hef ég sett Linux inn tímabundið en alltaf sett Windows inn aftur fljótlega á eftir.
Það hjálpaði til að þetta er sú Linux útgáfa sem Dell hefur ákveðið að bjóða með sínum tölvum svo eitthvað hlutu þeir að vera að gera rétt.
Til að gera langa sögu stutta þá var kvöldið viðburðaríkt og í dag byrjar niðurtalning hjá mér þar til ég kveð Windows XP.
Þetta var fyrsta Linux uppsetning sem gekk algerlega hratt og sársaukalaust fyrir sig og skildi mig eftir með fyllilega nothæfa vél sem ég gat byrjað að vinna á.
Hálftíma eftir að ég setti Linux geisladiskinn í tölvuna gat ég:
- séð skjáinn í réttri upplausn
- sett geisladisk í og hlustað á tónlist
- prentað á canon prentarann
- skannað með hp skannernum
- komist á netið án þess að stilla neitt
- farið á vefinn með Firefox
- opnað Windows netið í vinnunni
- lesið drifin mín í vinnunni
- opnað Acrobat PDF skrár
- unnið með ritvinnsluskjöl, reikniarkir og powerpoint með OpenOffice
- Séð póstmöppurnar mínar, tengiliði og dagatal frá Outlook Exchange Server
Allt þetta gat ég án þess að þurfa að ná í auka hugbúnað eða vélrita skipanir eða gera neitt annað en að smella með músinni. Þetta er eins og Macintosh menn lýsa sínu daglega lífi.
Það næsta sem ég gerði var að ná í forritin Picasa, Google Earth og Skype. Allt gekk eins og í sögu, bara nokkrir smellir með músinni. Ég endaði kvöldið með því að lesa inn "Bookmarks" listann minn úr gamla vafranum.
Það eina sem ég náði ekki í var vírusvörn :)
Uppsetning á hugbúnaði og allar kerfisstillingar eru betur útfærðar en í Windows XP. Það er greinilegt að Linux menn hafa notað tímann vel síðan Windows XP kom á markað á sínum tíma.
Ég áskil mér réttindi til að fara aftur í gamla Windows XP en þetta lítur óneitanlega vel út.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
14.5.2007 | 09:40
Um lögmál hinna leku yfirhylminga
(Þessi grein er um tölvutengd efni enda skráð í bloggflokkinn "Tölvur og tækni").
Fyrir nokkrum árum þýddi ég grein eftir Joel Spolsky sem hét "The Law of leaky abstractions". Hún birtist hvergi á Íslandi, heldur hefur hún verið á vefnum hjá Joel.
Hérna er úrdráttur úr henni:
Lögmál hinna leku yfirhylminga þýðir að þegar einhver finnur upp á rosa flottu verkfæri sem býr til kóda sem á að gera forritara svo afkastamikla heyrir maður fók segja: "lærðu að gera þetta í höndunum fyrst, svo getur þú notað verkfærið til að spara tíma".
Verkfæri sem búa til kóda eru lek eins og allar aðrar yfirhylmingar og eina leiðin til að bregðast við því er að skilja hvað er á bak við yfirhylminguna. Yfirhylmingarnar spara tíma en hlífa okkur ekki við lærdómnum.
Mótsögnin í þessu öllu er, að þótt við fáum betri og betri forritunarverkfæri með betri og betri yfirhylmingum hefur aldrei verið erfiðara að vera góður forritari.
Hér er greinin í heild sinni.
PS: Myndin er af Joel, ekki mér.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2007 | 10:53
Um uppáhalds slönguna mína (og skort á tölvunarfræðingum)
Ég er tölvunarfræðingur. Löngu áður en ég varð það, var ég með tölvudelluna. BASIC var forritunarmálið sem kom mörgum úr minni kynslóð af stað í faginu. Ég kynntist því fyrst á Commodore PET tölvu fimmtán ára gamall.
Ég veit ekki hvernig krakkar í dag fara að því að kynnast tölvum. Þær eru orðnar öflugri, en að sama skapi flóknari.
Það er orðið auðvelt að byrja að nota þær, en erfitt að byrja að forrita þær.
Þetta er sambærilegt við það sem hefur gerst í bílabransanum. Bílar voru einu sinni hannaðir þannig, að meðaljón gat gert við bílinn með topplyklasetti. Vélin var undir hálftómu húddi tilbúin fyrir sýnikennslu. Bílskúrar landsins voru kennslustofur í bílaviðgerðum. Nútíma bíll er svo flókinn og húddið er svo fullt, að enginn kemst að til að skipta um kerti eða kynnast bílnum nánar.
Við þurfum fólk sem fiktaði í tölvum.
Sá sem fer í tölvunarfræði í háskóla þarf helst að hafa kynnst henni lítillega í menntaskóla, þó ekki væri nema til að vita um hvað fagið snýst.
Ég held að krakkar séu hræddir við tölvunarfræði. Ég held að þeir þori ekki ekki að fara í hana af því þeir vita ekkert um hana og þori ekki að "opna húddið". Þeir komust ekki til að fikta í BASIC og byrja að hugsa um forritun sem heillandi ferli.
Hvort sem þessi skýring er rétt hjá mér þá er það staðreynd að krakkar sækja ekki um í tölvunarfræði þótt markaðurinn hér á Íslandi sé að æpa sig hásan eftir lærðu tölvufólki.
Hefur þú séð atvinnuauglýsingarnar?
Tölvunarfræðingar með þriggja ára starfsreynslu geta fengið hálfa milljón í laun. Fyrst atvinnuhorfur eru svona góðar hljóta krakkarnir annaðhvort að halda að tölvunarfræði sé mjög erfið eða mjög leiðinleg.
Tölvunarfræðin getur verið hrútleiðinleg ef menn skella nerdalegum hlutum eins og vélamáli og C++ beint í fangið á nýliðum. Hún getur hinsvegar verið bráðskemmtileg ef menn fá strax að nota hana til að leysa dagleg verkefni og sjá hversu gefandi það er að láta vélar létta sér hugarstörfin.
Hér er dæmi um daglegt verkefni:
Búðu til lista yfir alla sem hafa sent þér tölvupóst sl. ár. Flettu þeim upp á símaskrá púnktur ís og athugaðu hvort þeir hafa skipt um símanúmer eða heimilisfang.
Uppfærðu símaskrána í Outlook til samræmis og settu nýja númerið þeirra líka út í gemsann ef það hefur breyst eða er ekki í honum þegar.
Þetta getur tölva leyst á sekúndum ef notandinn kann að segja henni að gera það. Menntaskólaþekking í forritun ætti að duga til í mínu draumasamfélagi.
Samt held ég að 99.9% notenda myndu eyða mörgum klukkustundum við tölvu til að leysa verkefnið handvirkt og enda með krampa í músarhendinni. Til hvers vorum við þá að finna tölvurnar upp?
...og nú að allt öðru ... og þó ekki.
Uppáhalds slangan mín
Python er uppáhaldsforritunarmálið mitt. Ef einhver myndi spyrja mig hvar hann ætti að byrja, myndi ég svara "Python".
Þótt málið sé einfalt er það samt alvöru forritunarmál. Ég hef grætt fullt af peningum með forritum sem ég skrifaði í því. CCP samdi meirhlutann af EVE Online leiknum með því. Google notar það til að skrifa leitarsíðuna sína.
Í Python gæti fyrsta uppkast að lausn á verkefninu litið einhvern veginn svona út.
for postur in postforrit.allir_postar:
if nyrri(postur,"1.jan 2006"):
baeta_i_lista(sendendalisti, postur.sendandi)
for sendandi in sendendalisti:
sendandi.simanumer=simaskrarleit(sendandi.nafn)
if gemsi.numer(sendandi)!=sendandi.simanumer:
gemsi.uppfaera(sendandi)
Þetta er ekkert svo erfitt? Hvort er skemmtilegra, að leysa smá forritaþraut eða eyða mörgum klukkutímum í handaavinnu?
Fólk er búið að breyta tölvunum í ritvélar á sterum. Er ekki nær að læra smá forritun og geta sagt tölvum fyrir verkum í stað þess að vinna sjálfur vinnuna fyrir þær? Þær munu ekki læra íslensku á næstunni og forritunarþekking getur nýst öllum, ekki bara þeim sem ætla í tölvunarfræði í háskóla.
Ég vil leyfa mér að fullyrða að forritunarkunnátta sé mikilvægari en að kunna að heilda og diffra.
Ef lesandinn gæti hugsað sér að kynnast tölvum með ástarinnar gleraugum á nösum getur hann gert margt vitlausara en að fara á http://www.python.org, ná í forritunarmálið Python og fara í gegnum "Tutorial" sem fylgir því. Kannski verður ást við fyrstu sýn.
Fólk sem heldur að Excel kunnátta sé tölvukunnátta veit hættulega lítið.
PS: Það er einmanalegt að halda úti skrifum um annað en stjórnmál þessa dagana en einhver verður að standa pliktina :)
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
26.4.2007 | 15:48
Enn einn merkipenni sem vill ekki Windows Vista
Bruce Schneier er höfundur bókarinnar "Secrets and Lies" sem fjallar um tölvuöryggismál, ég les fréttaskeytin hans reglulega.
Hann er ekki hrifinn af Windows Vista sem hann upplifir sem stórt skref afturábak í réttindamálum tölvunotenda. Hér er úrdráttur úr grein hans um Vista:
Unfortunately, we users are caught in the crossfire. We are not only stuck with DRM systems that interfere with our legitimate fair-use rights for the content we buy, we're stuck with DRM systems that interfere with all of our computer use -- even the uses that have nothing to do with copyright.
In the meantime, the only advice I can offer you is to not upgrade to Vista. It will be hard. Microsoft's bundling deals with computer manufacturers mean that it will be increasingly hard not to get the new operating system with new computers. And Microsoft has some pretty deep pockets and can wait us all out if it wants to. Yes, some people will shift to Macintosh and some fewer number to Linux, but most of us are stuck on Windows. Still, if enough customers say no to Vista, the company might actually listen.
Greinin birtist upphaflega í Forbes blaðinu.
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2007 | 08:55
Hvað verður um skjölin okkar?
Þeir sem vilja fylgjast með tölvuiðnaðinum ættu að lesa bloggið hjá Joel í Joel on Software
Í nýjasta bloggi rifjar hann upp að Microsoft hefur alltaf reynt að koma í veg fyrir að notendur Windows og Office prófi eitthvað annað.
Það gerir Microsoft með því að geyma Word ".DOC" og Excel ".XLS" skjöl á leynilegan hátt svo aðrir framleiðendur hugbúnaðar geti ekki opnað skjölin, en einnig með því að hafa "Makróa" inni í skjölunum á sérstöku máli í eigu Microsoft (VBA) til að auka flækjustigið enn frekar.
Nú virðist sem þessi hugmyndafræði sé farin að skjóta Microsoft sjálfa í fótinn.
Hér er tilvísun í nýjasta bloggið hjá Joel:
What is really interesting about this story is how Microsoft has managed to hoist itself by its own petard. By locking in users and then not supporting their own lock-in features, they're effectively making it very hard for many Mac Office 2004 users to upgrade to Office 2008, forcing a lot of their customers to reevaluate which desktop applications to use. It's the same story with VB 6 and VB.Net, and it's the same story with Windows XP and Vista. When Microsoft lost the backwards-compatibility religion that had served them so well in the past, they threatened three of their most important businesses (Office, Windows, and Basic), businesses which are highly dependent on upgrade revenues.
PS: in researching this article, I tried to open some of my notes which were written in an old version of Word for Windows. Word 2007 refused to open them for "security" reasons and pointed me on a wild-goose chase of knowledge base articles describing obscure registry settings I would have to set to open old files.It is extremely frustrating how much you have to run in place just to keep where you were before with Microsoft's products, where every recent release requires hacks, workarounds, and patches just to get to where you were before. I have started recommending to my friends that they stick with Windows XP, even on new computers, because the few new features on Vista just don't justify the compatibility problems.
PPS: I was a member of the Excel Program Management team from 1991-1993, where I wrote the spec for VBA for Excel.
Ríkisstjórnir og stofnanir ættu að hugleiða að mörg skjöl sem verða til á tölvutæku formi í dag verða að vera læsileg eftir tíu ár.
Ég efast um að þeir sem eiga gamlar diskettur með Word Perfect og Word 3.0 skjölum eigi auðvelt með að opna þau í dag. Þetta vandamál er nógu erfitt tæknilega þótt fyrirtæki geri það ekki viljandi verra með leynilegum aðferðum við að vista skjölin.
Þess vegna þarf ríkið að krefjast þess, að skjöl í þeirra eigu séu vistuð á staðlaðan og skiljanlegan hátt.
Þetta finnst mér vera mikilvægara en allt tal um "Open Source hugbúnað". Ég vil að mín skjöl séu læsileg með nýjum eða gömlum forritum, opnuðum eða lokuðum.
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)