14.10.2007 | 11:35
Dagbók: ósköp venjulegur laugardagur í Rennes
Ég er í krúttkasti yfir Rennes, borginni sem ég bý í eftir daginn í dag. Það er tuttugu stiga hiti, heiðskírt, logn og yndislegt veður. Ég vaknaði hægt við að nágrannarnir voru að spila svo fallega á gítar. Gluggarnir voru galopnir og ég heyrði kurrið í dúfunum uppá þaki.
Ég fékk mér kaffi og baguette, svo labbaði ég út á aðalgötuna sem var full af fólki. Fyrst kom par labbandi til mín með skilti sem á stóð "ókeypis faðmlög" (Soulage Gratuit). Þau föðmuðu mig bæði skælbrosandi. Strákurinn sagði að þetta verið gott faðmlag, ég sagði sömuleiðis og að ég hefði ekki fengið faðmlag í mánuð svo þetta hefði alveg tímabært.
Næst labbaði til mín par sem var að fara að gifta sig og spurði hvort ég vildi skrifa heilræði til þeirra í bók sem það var með. Vinir þeirra voru með þeim og fólk horfði til þeirra brosandi. Ég skrifaði, að hvort þeirra um sig ætti að muna að elska sig sjálft og hafa sjálfsvirðingu, því þá gætu þau elskað og virt hvort annað og aðra.
Ég labbaði aðeins lengra þar sem sirkúsinn var að kenna krökkum að labba á vír og halda jafnvægi uppá stórum bolta. Sirkúskallarnir voru í góðu skapi og göntuðust við gamla fólkið sem þekkti þá greinilega. Næst gekk ég að tjaldi þar sem fólk var að sækja númerin sín fyrir víðavangshlaupið á morgun. Hlaupið heitir "Tout Rennes Cours", (öll Rennes hleypur).
Í tjaldi á næsta torgi var harmonikkuhátíð í gangi. Ég er enginn harmonikku unnandi en frakkar spila vel á harmonikku, það rifjaðist upp fyrir mér músíkkin úr "Amelie" sem ég veit núna að var ekki eins mikil ídýllísering á frönsku lífi eins og ég hélt.
Ég fór á stóra markaðinn og keypti kjöt og grænmeti. Sá markaður er ótrúlegur, með tuttugu metra kjötborð og óendanlegt úrval af kæfu og pylsum. Annað eins úrval af grænmeti og svo margar sveppategundir sem ég kann ekkert að elda. Þar var ungt fólk sem sýndi eldri konum virðingu með því að hleypa þeim fram fyrir sig í röðinni.
Ég fór næst á torgið í mínu hverfi, þar var komið tjald þar sem háskólarnir í bænum voru að kenna krökkum um vísindi. Ég sá tæki sem gat séð á hvaða hluta tölvuskjás fólk horfði, á skerminum var mynd af fólki og það vakti mikla kátinu þegar tækið mældi að mennirnir horfðu á bringu kvennanna, ofarlega. Þarna var líka hópur að kynna gerfihnattaáætlun Frakklands. Vísinda og stærðfræðiáhugi frakka er mikill, ég vissi ekki hvað þeir eru framarlega í menntamálum áður en ég kom út.
Ég fór svo og keypti nýlenduvörur hjá kaupmanninum á horninu. Fyrir utan búðina var stelpa með kettling á öxlinni, og svo var kenndur gamall maður sem vildi segja eitthvað við mig, en hann talaði óskírt svo ég sagði á bjagaðri frönsku að ég væri ekki sleipur frönskumælandi. Hann brosti út að eyrum, kyssti á mér framhandlegginn og labbaði burt (hann var lágvaxinn).
Síðast fór ég á barinn í götunni minni og drakk einn bjór með nágrönnunum. Leffe er góður bjór, sérstaklega úr krana.
Það þarf ekki að halda menningarnótt í bænum, allar nætur hér virðast vera það sjálfkrafa. Bærinn var sneisafullur af fólki og viðburðum, samt var þetta bara venjulegur laugardagur. Rennes er 200 þúsund manna borg, eins og Reykjavík.
Ég dauðkvíði fyrir að fara heim, því hér er lífið eins og í draumi. Fólkinu á svæðinu tekst að halda í þær hefðir sem skipta máli þótt hér séu höfuðstöðvar hátækniiðnaðar allt um kring. Hér eru geimflaugar og Citroen bifreiðar og háhraðalestir framleiddar, en fólk fer á markaðinn og kaupir í matinn eftir sem áður.
Þrátt fyrir þennan yndislega dag er ég svolítið niðurdreginn. Ég kvíði því að fara heim til Íslands, sérstaklega eftir fréttirnar þaðan í síðustu viku. Það sem stendur upp úr fyrir mig er, hvað margir sýndu mikla eiginigirni og vanhæfni í starfi.
Nú trúi ég því að íslenska þjóðin eigi enga alvöru stjórnmálamenn, bara samtíning af fólki sem er að reyna að lifa af og skara eld að eigin köku. Það er enginn sem ég get virt, engar fyrirmyndir.
Það geta ekki alltaf allir verið eigingjarnir, við byggjum samfélag ekki upp þannig. Ég vona að einhver gangi fram fyrir skjöldu og geri eitthvað til að gera Ísland að betri stað að búa á. Ég er samt ekki vongóður. Alvöru fólk eins og Vigdís og Kristján Eldjárn eru ekki hvar sem er.
Ég er orðinn svo ofsalega þreyttur á fréttum um kaup og sölu á fyrirtækjum og gengi þeirra og hver á hvað í hvaða fyrirtæki. Þessir menn fljúga bráðum á einkaþotunum yfir rústirnar af þjóðfélaginu okkar.
Sunnudagur.
Ég skrifaði textann fyrir ofan í gærkveldi. Fyrirgefið þið hvað ég er drungalegur en mér líður þannig ennþá yfir þessum málum öllum. Ég fór og hljóp 10 kílómetra í hlaupinu og var 58:55 sem er ekki gott en betra hjá mér en í fyrra þegar ég hljóp í Glitnishlaupinu.
Nú ætla ég aftur út í sólina og ná þessum Íslands-drunga úr mér.
Athugasemdir
oh.. nú fæ ég útþrá aftur Það væri óskandi að lífið á íslandi mundi líkjast þessu lífi þó ekki værni nema bara 10 %..
Óskar Þorkelsson, 14.10.2007 kl. 11:49
Þvílík lýsing! Nokkuð ljóst að Rennes er ekki alveg að farast úr stressi eins og Reykjavík getur gert stundum. Reykjavík væri sennilega mun skemmtilegri borg, ef það væri meira af svona alls konar útivistum, útimörkuðum, og.... óstressuðu fólki.
Takk fyrir pistilinn.
Einar Indriðason, 14.10.2007 kl. 11:59
reglur og reglugerðir gera fólk stressað.. bannað að reykja, bannað að drekka bjór úti.. bannað bannað bannað.. óÞolandi klakadjöfull !
Óskar Þorkelsson, 14.10.2007 kl. 12:09
Nú pakka ég niður. Ég myndi ekkert hafa fyrir því að koma heim í þínum sporum. Ísland verður ekki til sem sjálfstætt ríki eftir nokkur ár. Auðlindir og landnæði eru að komast í hendur gráðurgra kaupahéðna, sem mun nota fjöregg okkar sem veð fyrir fjárfestingum um víðann völl og svo þegar víxillinn fellur, þá verðum við á ný leiguþý erlendra lénsherra.
Hér eru 700 milljarðar í hagkerfinu af skammtímaskuldbindingum erlendra spekúlanta, sem gera út á háa vexti. Um leið og stýrirvexxtir falla, þá verður þessu fjármagni kippt út á augabragði og veðin innheimt. Við erum á leið á útsölubás í kolaporti frjálshyggjunnar og ég sé ekki hvernig það verður stöðvað. Þetta var langtfrá því óraunsætt niðurlag á færslunni, þótt eðlilega sé þa dapurlegt. Veruleiki engu að síður.
Nú horfi ég hundsaugum til draumastaðarins míns í Chinque Terre á Ítalíu.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.10.2007 kl. 22:41
Datt inn a bloggid thitt og vard ad leggja ord i belg. Eg hef buid her i Frakklandi i rum 2 ar og er svo innilega sammala ther hvad vardar samgongumal og gaedi matvara! Thegar eg kem heim til Islands tha missi eg matarlystina, eda allavega longunina til ad versla i matinn... Kjuklingabringurnar lodrandi i sykurvatni, vatnsbragd af graenmetinu, bragdlaus og half gervilegur ostur og baguette sem kosta 300 kall stykkid! Og thetta skilur folk heima ekki, thvi ad theirra mati er islenskur matur sa besti i heimi :) Tha byd eg theim jafnan ad koma med mer i innkaupaleidangur her i Frakklandi!
Hinsvegar hefur matvoruverd haekkad mjog mikid undanfarin ar her i Frakklandi, en eg hef kannski ekki lengur mikid skyn a samanburdinn vid verdid heima a Islandi...
Svo se eg ljoslifandi fyrir mer rafknuna nytiskulega sporvagna, lidast afram fra Hafnarfirdi til Reykjavikur og fra Reykjavik upp i Grafarvog... Thad vaeri ljomandi fint og praktist :)
Kvedja fra Antibes,
Asdis
Asdis (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 09:24
Ég smyglaði kvikmyndavél inn í eina búð. Vélin er ekki góð, þetta er bara upptökufídus í myndavélinni minni, en kannski er gaman að þessu engu að síður.
Hér er ostur og grænmeti og hér er kjötið. Þetta eru bara myndir úr einum gangi af sex í þessum eina markaði.
Myndirnar eru á .MOV (Quicktime) formatti.
Kári Harðarson, 15.10.2007 kl. 11:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.