Miðin og meginlandið

Umræðan um inngöngu í ESB hefur verið í svo miklum skotgröfum að ég hef aldrei fengið á hreint nákvæmlega hvað kemur fyrir fiskimiðin okkar við inngönguna.

Fyrst helt ég að útlendingar fengju að veiða eins og þá lystir innan 200 mílnanna alveg stjórnlaust.  Það getur ekki verið rétt, frekar en að ég mun mega sá mínum fræjum í land óðalsbónda í Frakklandi.  Það er jú eignaréttur?

Mér sýnist vandinn vera að útlendingar munu mega sækja um kvóta til að veiða hér, en það er nokkuð sem ekki einu sinni íslendingar mega gera í dag nema borga kvótakóngunum offjár.

Íslenska ríkið hefur ekki svarað úrskurði evrópudómstólsins að núverandi kvótakerfi er brot á stjórnarskránni.  Það mál hefur gleymst í öllu krepputalinu.

Nú spyr ég:  Getur verið að þeir sem vilja ekki ganga í Evrópubandalagið vilji það ekki vegna þess að núverandi ástand með kvóta fyrir fáa útvalda hentar mörgum kóngum hér ágætlega?

Hvernig snertir inngangan í bandalagið þá venjulegan íslending?

Þetta er örugglega misskilningur hjá mér og ég hlakka til að heyra frá "The usual suspects" sem  ráðast til atlögu í hvert sinn sem evrópumálin ber á góma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sá grunur þinn að kvótakongarnir séu hræddir hefur líka verið aðlæðastum í mínum kolli. Fiskistofnarnir okkar eru að hluta til staðbundnir semkallað er og ég skil það svo að við deilum  ekki veiðum úr þeim með öðrum þjóðum. Þeir stofnar sem eru sameiginlegir með öðrum þjóðum, höfum viðorðið að semja um við aðrar þjóðir og svo verður áfram. Samningsumboðið fer til Brussel og það getur auðvitað breytt einhverju, en í heildina tel ég að það sé kvótaeignin sem er í mestri hættu. Ég tek það fram að ég held þetta en er ekki með neitt skjalfest.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.12.2008 kl. 16:59

2 identicon

Þú veist áreiðanlega hvað þú ert að tala um, enda er þetta heila málið með LÍÚ og kvótann.

Netamaður (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 17:00

3 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Er ekki full seint um rassinn gripið að velta þessu frekar fyrir sér? 

Sá einhverstaðar í blaði að erlendir bankar(væntanlega lánadrottnar) muni að öllum líkindum eignast hluti í íslensku bönkunum. Verður það ekki fyrsta skrefið í þá átt að útlendingar komi höndum yfir kvótann?

Íslensk útgerðarfyrirtæki eru gríðarlega skuldsett og hvað gerist ef banki sem er í eigu útlendinga leysir til sín veð í óveiddum aflaheimildum? Gildir þá ekki einu hvort við erum í ESB eða ekki?

Guðmundur Gunnarsson, 10.12.2008 kl. 17:35

4 Smámynd: The bigot

Vona að Illugi og DV skirrist ekki við en neðangreint er tekið þaðan og er svar Eiríks Bergmans við spurningu Illuga: "Hvað er líklegt að ESB-aðild hafi í raun í för með sér fyrir íslenskan sjávarútveg?"

"Heill og sæll Illugi.

Svarið við þessari spurningu er háð niðurstöðum í aðildarsamningi og því eru allar vangaveltur þar að lútandi undirorpnar ákveðinni óvissu þar til samningur liggur fyrir.

Ef ekki yrði samið um neina sérlausn fyrir Ísland myndi meginbreytingin verða sú að ákvörðun um heildarafla á Íslandsmiðum myndi formlega vera tekin í ráðherraráði ESB en raunverulega samkvæmt tillögu íslenska sjávarútvegsráðherrans.

Reglan um hlutfallslegan stöðuleika (e. relative stability) ætti þó að tryggja að aflinn yrði áfram veiddur af íslenskum útgerðarmönnum samkvæmt því fiskveiðikerfi sem Íslendingar sjálfir ákveða, því samkvæmt skilgreiningu ESB hefur ekkert annað ríki en Ísland réttmætt tilkall til veiðanna.

Í ljósi mikilvægis sjávarútvegs fyrir íslenskt efnahagslíf finnst [hins vegar] mörgum að ekki sé nægjanleg vörn í reglunni um hlutfallslegan stöðuleika og því ætti það að vera samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda að ná fram sérlausn í aðildarviðræðum sem myndi tryggja bæði raunveruleg og formleg yfirráð íslenskra stjórnvalda yfir auðlindinni.

Aðildarsamningar hafa sömu lagastöðu og stofnsamningar ESB og vel flest ríki sem samið hafa um aðild að Evrópusambandinu hafa fengið tilteknar sérlausnir eða jafnvel hreinar og klárar undanþágur frá sáttmálum sambandsins, á sviðum sem teljast til grundvallar hagsmuna viðkomandi ríkis.

Hér má til að mynda nefna ákvæði um heimskautalandbúnað í Finnlandi og Svíþjóð og fiskveiðar í Miðjarðarhafi.

Komi til aðildarviðræðna ættu íslensk stjórnvöld því að fara fram á sérstaka aðlögun á sjávarútvegsstefnu ESB svo hún falli að aðstæðum á Íslandi.

Baráttan um yfirráð yfir auðlindum landsins er nátengd sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og beintengd hugmyndum um fullveldi Íslands. Sjávarafurðir telja enn góðan meirihluta í vöruútflutningi Íslands. Yfirráð yfir fisknum snýst því með beinum hætti um yfirráð yfir eigin örlögum.

Ekki síst þess vegna er mikilvægt að sérstaða svæðisins umhverfis Íslands sé áréttuð með óyggjandi hætti.

Þetta væri til að mynda hægt að tryggja með því að gera fiskveiðilögsögu Íslands að sérstöku stjórnsýslusvæði innan sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB. Ekki væri um að ræða almenna undanþágu frá sjávarútvegsstefnunni heldur um sértæka beitingu hennar á ákveðnu svæði þannig að ákvarðanir um nýtingu á auðlind Íslands sem ekki er sameiginleg með öðrum aðildarríkjum ESB yrðu teknar á Íslandi.

Sjávarútvegur yrði samkvæmt þessari lausn tekinn út fyrir sviga og meðhöndlaður sem sérmál Íslendinga.

Í rökstuðningi fyrir sérstakri beitingu sjávarútvegsstefnunnar á Íslandi má beina sjónum að ólíkum aðstæðum á norðvestur-Atlantshafssvæðinu annars vegar og hafsvæðum innan ESB hins vegar, líkt og Halldór Ásgrímsson gerði í Berlínarræðu sinni árið 2002.

Við skoðun á landakorti Evrópu sjá menn það í hendi sér að þörf er á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu á meginlandi Evrópu þar sem um sameiginlega nýtingu er að ræða úr sameiginlegum auðlindum. Fiskistofnar við meginland Evrópu virða ekki landamæri og eru veiddir af fjölda ríkja.

Því er augljóst að sameiginleg stjórn þarf að vera á slíkum veiðum.

Þessu er hins vegar ólíkt farið á Íslandsmiðum og raunar á öllu norðvestur-Atlantshafi. Fiskistofnar Íslands eru að mestu staðbundnir og því er ekki um sameiginlega auðlind að ræða, ekki frekar en á við um olíu við strendur Bretlands.

Sjávarútvegsstefnu ESB var í raun aldrei ætlað að ná yfir svæði þar sem ekki eru sameiginlegar auðlindir og því tekur stefnan, eðli málsins samkvæmt, ekki tillit til aðstæðna á Íslandi.

Í hugsanlegum aðildarviðræðum þarf því að skoða með hvað hætti unnt er að laga stefnuna að aðstæðum á Íslandi. Í því sambandi er unnt að beita nálægðarreglu Evrópusambandsins sem kveður á um að ákvarðanir skulu teknar sem næst þeim er ákvörðunin snertir.

Mikilvægt er að hafa í huga að ólíklegt er að Ísland gæti [við]haldið [núverandi] banni við fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum."

The bigot, 10.12.2008 kl. 21:52

5 identicon

Fyrir mér snúast deilurnar fyrst og fremst um hvort ákvörðunin um heildarafla verður tekin á Íslandi eða af ESB. Það hefur komið fram að meginkrafa ESB er sú að veiðarnar verði sjálfbærar og ákvörðunin um heildarafla verði tekin á vísindalegum grunni. Þar sem slíkur vísindalegur grunnur er notaður við þessa ákvörðun (þótt deilt sé um réttmæti þeirra vísinda) þá er erfitt að sjá af hverju ESB ætti að vilja breyta út af ákvörðun Íslendinga, sér í lagi með hliðsjón af árangri af fiskverndastefnu Íslendinga í samanburði við sumar ESB þjóðir. Ég get ekki séð að það skipti miklu máli hvort vísindamenn hér á landi eða annars staðar taki þessa ákvörðun á meðan að ákvörðunin er rétt grundvölluð.

Árni Richard (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 22:19

6 Smámynd: Steingrímur Helgason

Kári, þetta Samfylkíngarviðhorf um að þessi sameiginlega auðlind okkar sé hvort eð er í slæmum höndum Valhallarvina LÍÚ & því skipti hún sem slík okkur hin ekki máli um hvort að stýringin sé frá Bruxxelz nær öngvri vikt hjá mér.

Ef að rottur naga þitt hús, þá ræðst þú ekki á vandann með því að sprengja upp kofann, heldur beitir viðeigandi aðferðafræði við að losna við meindýrin, þó að það taki máske tímann sinn & sé til enda litið kostnaðarmeira en bomban, því þú vilt á endanum eiga þitt heimili sjálfur áfram.

TUS...

Steingrímur Helgason, 10.12.2008 kl. 23:54

7 Smámynd: Einar Indriðason

Hér er eitt aukavandamál með ESB.  Til langs tíma, þá mátti bara ekki einu sinni nefna orðið (eða stafina) "ESB".  Þá þeystist fram hin tryllta blá hönd, og *WHAM* dúndraði hnefanum í hnakkann á þér.

Það mátti á sínum tíma ALLS EKKERT ræða kostina og gallana.  Það bara MÁTTI EKKI.  Það voru nánast landráð á þeim tíma, að minnast á ESB.  

Þetta olli því, að fólk í landinu (og já, mismunandi fólk... sjómenn, bændur, kennarar, skrifstofufólk, búðarlokur, og svo framvegis) ... hafði engann grunn, ekkert tækifæri, til að kynna sér þetta sjálft, og kanna hvaða kostir og hvaða gallar voru við að vera inni eða úti.

Það var, með öðrum orðum, stigið mjög illilega á hugsun hjá fólkinu, og því var beinlínis smalað í akkúrat SVONA fjár-rétt!

Höfum við einhvern tímann fengið á hreint, lagt niður, bara lista af kostum og ókostum, sem myndu fylgja því að vera inni?  En úti?

Nei.  Slík upptalning hefur aldrei verið í boði.

Eins og staðan er í dag, þá liggur við að ég styðji ESB aðild BARA og eingöngu til að pota í LÍÚ arminn og Sjálfstæðisflokkinn.  BARA, og eingöngu þess vegna.  Kominn með nóg af þeirra valdagræðgi.

Þetta kallast ekki upplýst ákvörðun, það veit ég vel.  Mig vantar enn upplýsingar til að geta ákveðið, fyrir mig, hvort henti mér betur.  Inn í ESB, eða vera fyrir utan.

Hitt veit ég, að IKR er dauð.  Farið að lykta illilega af líkinu.  Þrátt fyrir tilraunir með bandspotta í líkið, til að hreyfa handleggina.

Einar Indriðason, 11.12.2008 kl. 08:45

8 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Þetta eru góðar og fróðlegar umræður.

Það að endanleg ákvörðun um árlegar veiðiheimildir af hverri tegund sé tekin í Brussel en ekki af íslenska sjávarútvegsráðherranum er að mínu mati mjög jákvætt. Reynslan er að Brussel hefur alltaf farið að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnanna á hverjum stað. Sjávarútvegsráherra mun því ekki geta keypt sér velvild íslenskra útgerðarmanna með því að úthluta meira en fiskifræðingar mæla með.

Eignarhaldinu á kvótanum verður hinsvegar að breyta. Það þarf að breyta þessum eignakvóta í leigukvóta þannig að íslenskir kvótaeigendur geti ekki selt kvótann útlendingum. Við getum ekki farið inn í ESB með óbreytt kvótakerfi. Þá selja þessir menn kvótann úr landi. Í dag er útlendingum bannað að eiga í íslenskum útgerðarfyrirtækum og geta þar með ekki eignast kvóta og þar með íslensku fiskveiðiauðlindina. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

En Þessum lögum þarf í öllu falli að breyta. Enda nær það ekki nokkurri átt að búið er að veðsetja kótann þannig að allur afrakstur af auðlindinni fer í fjármagnskostnað. Eins og lögin eru þá eru menn stanslaust að kaupa og selja kvóta. Þessi auðlind er og verður veðsett upp fyrir haus alla tíð ef þessi lög verða óbreytt. Af hverju höfum við lagaumhverfið í þessum geira þannig að fjármagnskostnaður er látinn éta upp allan arðinn af auðlindinni?

Varðandi kosti og galla ESB þá vísa ég á síðuna:

http://baraef.blog.is/blog/baraef/

 Þar stendur m.a:

Ísland á samstöðu með öðrum Evrópuþjóðum. Þeirra markmið eru þau sömu og okkar.

Við vitum öll hve dýrkeypt það hefur reynst Íslendingum að vera utan sambandsins á síðustu vikum - spyrjið bara Íra. Þeir eru með ofvaxið bankakerfi og, eins of forsætisráðherra Írlands hefur sagt, þeir væru í sömu stöðu og Íslendingar ef ekki hefði verið fyrir ESB og evruna.

Nokkrir einangrunarsinnar reyna að höfða til þjóðrembings-tilfinningar Íslendinga í þessum efnum. Halda þeir virkilega að Danir séu ekki lengur sjálfstæð þjóð, bara því þeir eru í ESB? Eða Þjóðverjar?

Horfum á hvað við fengjum ef við værum í ESB með Evruna. 

Hvaða umhverfi býr Ísland fyrirtækjum þessa stundina?

  • 18% stýrivexti
  • Verðtryggingu
  • Óstöðugan gjaldmiðil
  • Óðaverðbólgu
  • Ónýtt bankakerfi
  • Gjaldeyrishöft 

Lítum á hvernig dæmið horfði við værum við í Evrópusambandinu með evruna

  • 3,25% stýrivextir
  • Engin verðtrygging
  • Stöðugur gjaldmiðill
  • Verðbólga sem við teldum hlægilega lága
  • Við hefðum haldið bankakerfinu eins og Írland
  • Engin gjaldeyrishöft

Eini stjórnmálaflokkurinn sem er alfarið á móti ESB er VG. Þessi flokkur gerir alltaf út á óánægjufylgið, markmið hans er því að vera á móti öllu. Flokkur sem sýnir slíkan óþroska á ekki erindi í ríkisstjórn

Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.12.2008 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband