Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
18.10.2007 | 12:04
Hvílík forneskja!
Þegar iPod er orðinn dýrari en iPhone þá er það eins og að krókódíllinn sé fimm metrar frá haus aftur á hala en sex metrar frá hala fram á haus. Mótsögn, og sönnun þess að ríkisstofnun er komin inní fílabeinsturn sinnar eigin rökfirru.
Mér finnst að tolla þurfi að réttlæta sérstaklega. Að sjálfgefnu eiga þeir ekki að vera til staðar, frekar en bann við veiðum á ákveðnu svæði, hámarksöxulþungi, húsleitarheimild, heldur eitthvað sem gripið er til í sértilfellum eða tímabundið.
Ég krefst skýringa: hvað er svona merkilegt við tónlistarspilara á Íslandi að þeir skuli verða fyrir þessum ofurtollum sem tíðkast hvergi annars staðar? Af hverju kostar 13 þúsund króna spilari 32 þúsund heima?
Til að bíta höfuðið af skömminni er þessi flokkunarárátta algerlega úreld. Myndavélin mín getur sýnt video og síminn minn getur spilað MP3. Þeir gætu viljað flokka bifreiðar sem MP3 spilara, því flestir geta þeir spilað geisladiska í MP3 formatti núna, það er hætt við að bílverð myndi hækka við það. Ég sem hjólreiðamaður myndi gleðjast en það er annað mál.
Í alvöru talað myndi ég vilja fá skýringar á þessu, aðrar en "við ráðum þessu", því það er valdahroki að nenna ekki einu sinni að lagfæra svona augljóst ranglæti.
![]() |
iPod tollurinn er kominn til að vera |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.10.2007 | 19:36
Sniff
Ég sat við skrifborðið þegar kona gekk framhjá skrifstofunni. Ég sá hana ekki, leit ekki einu sinni við. Af henni var blanda af útilykt, góðri ilmvatnslykt og vægri reykingalykt, ekki of sterkri til að vera vond.
Samstundis var ég átta ára að koma til dyra þegar pabbi og mamma komu heim eftir að hafa verið út að skemmta sér. Ég sá þau fyrir mér í forstofunni heima og var feginn að fá þau heim. Sennilega var mamma með ilmvatn sem líktist þessu ilmvatni. Þessi minning kom í heilu lagi, áður en ég gat hugsað um hana meðvitað.
Það virðist vera stutt leið frá nefinu í tilfinningarnar. Kannski er þefskynið eldra og frumstæðara skynfæri en hin skilningarvitin. Þar er eins og lyktin sé ekki tengd við heilann á sama hátt og þau.
Bragðskynið er víst að miklu leyti blekking því bragðið af matnum er í raun lyktin af honum. Kínverskur málsháttur ráðleggur mönnum að borða rísgrjón á meðan þeir lykta af steiktri önd nágrannans því þannig megi borða herramannsmat og spara pening.
Við eigum nákvæm orð sem lýsa tónum og hljómum, litum og formum, en nafnorð yfir lykt eru varla til. Hvaða lykt er af engifer? Hver er munurinn á þeirri lykt og sítrónulykt? Hvað heitir lyktin sem kemur út ef ég blanda þeim saman? Væri hún góð? Þetta læra franskir ilmvatnsgerðarmenn, og fá víst góð laun fyrir. Væntanlega geta þeir talað saman um lykt af meira viti en ég.
Hér í Frakklandi fæst mikið af ilmvötnum, sem ég hef ekki séð út í fríhöfn. Ekki allir ilmvatnsframleiðendur eru á vegum fataframleiðenda eins og Chanel og Boss. Fragonard er eitt merki sem ég hef hvergi séð annars staðar:
Ég hef grun um að sumt fólk sé lyktarblint. Ég held það vegna þess að ég þekki þrifalegt fólk með daunillar borðtuskur. Ef það hefði þefskyn í lagi myndi það samstundis henda borðtuskunni og ná sér í nýja. Ég veit samt ekki til þess að lyktarblinda sé viðurkennd örorka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2007 | 21:05
Alvöru gírkassar
Þegar ég var strákur átti ég þriggja gíra hjól eins og flestir jafnaldrar mínir. Gírarnir voru inní afturöxlinum sem var fáanlegur frá tveim framleiðendum, annars vegar Sturmey-Archer í Bretlandi, og hins vegar Sachs í Þýzkalandi.
Gíraöxlarnir voru yfirleitt til friðs nema ef litla "gírkeðjan" slitnaði sem tengdi öxulinn við barkann upp í handfangið. Það gerðist yfirleitt þegar hjólið datt á hliðina því gírkeðjan stóð út um afturöxulinn og á hann datt hjólið. Það breytti samt ekki því að gírarnir inní öxlinum voru alltaf í lagi.
Um 1980 komu keppnishjólin til Íslands og eftir það voru gírar utanáliggjandi, sennilega vegna þess að fólki fannst betra að hafa fleiri gíra en bara þrjá. Það er alveg rétt, þrír gírar nægja ekki.
Keppnishjólagírar láta keðjuna ekki ganga beint milli tannhjóla eins og í flestum vélum sem nota keðjur, heldur er undið upp á vesalings keðjuna til að beina henni á mismunandi tannhjól.
Keðjan er send gegnum lítinn gaffal sem beinir henni inn á stórt eða lítið tannhjól að framan, og svo í S beygju gegnum tvö tannhjól úr plasti að aftan sem halda henni strekktri og beina henni á fimm og upp í átta tannhjól. Þannig geta gírhlutföllin orðið frá því að vera 2x5=10 og upp í 3x8=24. Mörg gírahlutföllin eru of svipuð til að þekkjast sundur í reynd svo það er hálfgerður skáldskapur að segja að "24 gíra" hjól sé það í raun og veru.
Utanáliggjandi gírar eru léttir og ódýrir en það þarf að stilla þá reglulega því annars er ekki hægt að velja alla gírana, og stundum lafir keðjan á milli tveggja gíra með tilheyrandi skrölti.
Slabb og slyddudagar eru algengir á Íslandi, og tjara og vegryk sest í keðju og gíra. Þetta sandleðjuparsl slítur og eyðileggur gírana á einum vetri ef þeir eru ekki þrifnir reglulega. Svo er heldur ekki hægt að setja keðjuhlíf utanyfir.
Þeir sem treysta sér ekki til að þrífa og stilla utanáliggjandi gíra ættu að skoða þetta:
Þetta gæti verið gírkassi úr vörubíl en er afturöxull með fjórtán gíra í stað þriggja áður. Engin tvö gírhlutföll eru eins, þau nýtast því öll.
Öxullinn er meiri fjárfesting en í utanáliggjandi gírum og um það bil hálfu kílói þyngri, en mér er sagt að hann sé viðhaldsfrír og skipti létt um gíra í öllum veðrum eins og fínasti jeppi.
Hjólið sjálft verður einfaldara:
- Keðjan er alltaf bein en þannig líður keðjum best.
- Keðjan getur verið stór og sterk og því minna viðkvæm fyrir sliti og skít.
- Það er hægt að setja keðjuhlíf á hjólið.
- Aðeins einn gírskiptir á stýrinu velur alla gírana fjórtán.
Framleiðandinn að öxlinum heitir Rohloff. Til eru ódýrari gíraöxlar frá Shimano sem heita Nexus. Þeir eru átta gíra og ku ekki þola eins mikil átök, enda ætlaðir í ferðir til og frá vinnu, ekki hamagang á hálendinu.
Ef þessir gírar fást ekki á Íslandi er það vegna þess að enginn vill þá og þess vegna selur þá enginn, en enginn vill þá, af því þeir fást ekki. Þannig er vítahringurinn oft. Það sakar samt ekki að spyrja eftir þeim, og svo má panta reiðhjól á netinu.
Það er dálítið mótsögn að smíða sterkleg fjallahjól en með utanáliggjandi gírum. Ég sé mig í anda keyra upp á hálendið í jeppa með loklausan gírkassa, opinn fyrir vegarykinu.
Ef ætlunin er að fá sér gíra sem eru lokaðir og viðhaldsfríir, má í framhaldi fá sér vökvadiskabremsur til að hjólið verði álíka viðhaldsfrítt og japanskur bíll.
Þá vantar bara góða hjólastíga, sem minnir mig á borgarstjórnina í Reykjavík, en það þykir mér ennþá of sárt umræðuefni...
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.10.2007 | 20:44
Hollensku neytendasamtökin: Ekki kaupa Vista
Hollensku neytendasamtökin hafa ráðlagt fólki að halda sig frá Microsoft Vista vegna þess að óánægðir neytendur hafa ekki fengið að losa sig við Vista og fá gamla Windows XP uppí í staðinn.
Fulltrúi samtakanna segir að Vista sé einfaldlega ekki tilbúið, þeir séu nú með 5000 kvörtunarmál í meðferð. Hollenskir bloggarar svara sumir á móti að þetta sé stormur í vatnsglasi því Vista virki á nýjum tölvum, þetta séu aðallega vandamál þeirra sem hafa sett Vista á eldri vélar.
Vandinn er samt líka að sumar nýjar vélar voru aðeins ætlaðar fyrir Vista og það vantar því "drivera" fyrir XP ef mönnum snýst hugur. Þetta ber að hafa í huga ef fólk ætlar út í búð á næstunni..
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
15.10.2007 | 15:47
Sigmund tölvunerdanna?
Hér er á ferð teiknari með undarlegan húmor og mikla tölvufræðiþekkingu. Hann fer örugglega fyrir ofan og neðan garð hjá þeim sem eru ekki tölvunarfræðingar en mér finnst þetta fyndið.


Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.10.2007 | 11:35
Dagbók: ósköp venjulegur laugardagur í Rennes
Ég er í krúttkasti yfir Rennes, borginni sem ég bý í eftir daginn í dag. Það er tuttugu stiga hiti, heiðskírt, logn og yndislegt veður. Ég vaknaði hægt við að nágrannarnir voru að spila svo fallega á gítar. Gluggarnir voru galopnir og ég heyrði kurrið í dúfunum uppá þaki.
Ég fékk mér kaffi og baguette, svo labbaði ég út á aðalgötuna sem var full af fólki. Fyrst kom par labbandi til mín með skilti sem á stóð "ókeypis faðmlög" (Soulage Gratuit). Þau föðmuðu mig bæði skælbrosandi. Strákurinn sagði að þetta verið gott faðmlag, ég sagði sömuleiðis og að ég hefði ekki fengið faðmlag í mánuð svo þetta hefði alveg tímabært.
Næst labbaði til mín par sem var að fara að gifta sig og spurði hvort ég vildi skrifa heilræði til þeirra í bók sem það var með. Vinir þeirra voru með þeim og fólk horfði til þeirra brosandi. Ég skrifaði, að hvort þeirra um sig ætti að muna að elska sig sjálft og hafa sjálfsvirðingu, því þá gætu þau elskað og virt hvort annað og aðra.
Ég labbaði aðeins lengra þar sem sirkúsinn var að kenna krökkum að labba á vír og halda jafnvægi uppá stórum bolta. Sirkúskallarnir voru í góðu skapi og göntuðust við gamla fólkið sem þekkti þá greinilega. Næst gekk ég að tjaldi þar sem fólk var að sækja númerin sín fyrir víðavangshlaupið á morgun. Hlaupið heitir "Tout Rennes Cours", (öll Rennes hleypur).
Í tjaldi á næsta torgi var harmonikkuhátíð í gangi. Ég er enginn harmonikku unnandi en frakkar spila vel á harmonikku, það rifjaðist upp fyrir mér músíkkin úr "Amelie" sem ég veit núna að var ekki eins mikil ídýllísering á frönsku lífi eins og ég hélt.
Ég fór á stóra markaðinn og keypti kjöt og grænmeti. Sá markaður er ótrúlegur, með tuttugu metra kjötborð og óendanlegt úrval af kæfu og pylsum. Annað eins úrval af grænmeti og svo margar sveppategundir sem ég kann ekkert að elda. Þar var ungt fólk sem sýndi eldri konum virðingu með því að hleypa þeim fram fyrir sig í röðinni.
Ég fór næst á torgið í mínu hverfi, þar var komið tjald þar sem háskólarnir í bænum voru að kenna krökkum um vísindi. Ég sá tæki sem gat séð á hvaða hluta tölvuskjás fólk horfði, á skerminum var mynd af fólki og það vakti mikla kátinu þegar tækið mældi að mennirnir horfðu á bringu kvennanna, ofarlega. Þarna var líka hópur að kynna gerfihnattaáætlun Frakklands. Vísinda og stærðfræðiáhugi frakka er mikill, ég vissi ekki hvað þeir eru framarlega í menntamálum áður en ég kom út.
Ég fór svo og keypti nýlenduvörur hjá kaupmanninum á horninu. Fyrir utan búðina var stelpa með kettling á öxlinni, og svo var kenndur gamall maður sem vildi segja eitthvað við mig, en hann talaði óskírt svo ég sagði á bjagaðri frönsku að ég væri ekki sleipur frönskumælandi. Hann brosti út að eyrum, kyssti á mér framhandlegginn og labbaði burt (hann var lágvaxinn).
Síðast fór ég á barinn í götunni minni og drakk einn bjór með nágrönnunum. Leffe er góður bjór, sérstaklega úr krana.
Það þarf ekki að halda menningarnótt í bænum, allar nætur hér virðast vera það sjálfkrafa. Bærinn var sneisafullur af fólki og viðburðum, samt var þetta bara venjulegur laugardagur. Rennes er 200 þúsund manna borg, eins og Reykjavík.
Ég dauðkvíði fyrir að fara heim, því hér er lífið eins og í draumi. Fólkinu á svæðinu tekst að halda í þær hefðir sem skipta máli þótt hér séu höfuðstöðvar hátækniiðnaðar allt um kring. Hér eru geimflaugar og Citroen bifreiðar og háhraðalestir framleiddar, en fólk fer á markaðinn og kaupir í matinn eftir sem áður.
Þrátt fyrir þennan yndislega dag er ég svolítið niðurdreginn. Ég kvíði því að fara heim til Íslands, sérstaklega eftir fréttirnar þaðan í síðustu viku. Það sem stendur upp úr fyrir mig er, hvað margir sýndu mikla eiginigirni og vanhæfni í starfi.
Nú trúi ég því að íslenska þjóðin eigi enga alvöru stjórnmálamenn, bara samtíning af fólki sem er að reyna að lifa af og skara eld að eigin köku. Það er enginn sem ég get virt, engar fyrirmyndir.
Það geta ekki alltaf allir verið eigingjarnir, við byggjum samfélag ekki upp þannig. Ég vona að einhver gangi fram fyrir skjöldu og geri eitthvað til að gera Ísland að betri stað að búa á. Ég er samt ekki vongóður. Alvöru fólk eins og Vigdís og Kristján Eldjárn eru ekki hvar sem er.
Ég er orðinn svo ofsalega þreyttur á fréttum um kaup og sölu á fyrirtækjum og gengi þeirra og hver á hvað í hvaða fyrirtæki. Þessir menn fljúga bráðum á einkaþotunum yfir rústirnar af þjóðfélaginu okkar.
Sunnudagur.
Ég skrifaði textann fyrir ofan í gærkveldi. Fyrirgefið þið hvað ég er drungalegur en mér líður þannig ennþá yfir þessum málum öllum. Ég fór og hljóp 10 kílómetra í hlaupinu og var 58:55 sem er ekki gott en betra hjá mér en í fyrra þegar ég hljóp í Glitnishlaupinu.
Nú ætla ég aftur út í sólina og ná þessum Íslands-drunga úr mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.10.2007 | 11:59
Nú er lag fyrir Dag
Í síðustu borgarstjórnarkosningum mætti ég á opinn kosningafund og spurði borgarstjóraefnin að eftirfarandi:
Í Reykjavík eru bílastæði yfirleitt ókeypis og allir sem byggja þurfa að skaffa þau. Hér er viðmiðunin fyrir stæði fjórum sinnum hærri en í Osló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.
Fyrir tuttugu árum var Reykjavík eins og hinar höfuðborgirnar á norðurlöndum. Núna erum við að ná Houston í bílafjölda á þúsund íbúa. Houston er mjög ljót borg.
Í Reykjavík eru reiðhjól ennþá leiktæki og útivist fyrir sérvitringa.
Bílaeigendur eru frekir, þeir eru margir og þeir munu skrifa greinar og biðja um ennþá meiri umferðarmannvirki. Þeir vilja fá að borga fólksbílagjald í hvalfjarðargöngin á 5 tonna vörubílum sem þeir keyptu í gegnum gloppu í lögum.
Hafið þið hugrekki til að standa uppi í hárinu á þessum stóra hagsmunahópi?
Svar Vilhjálms var:
Íslendingar hafa valið einkabílinn. Það er ekki okkar að segja þeim fyrir verkum. Ef við gerum aðalbrautirnar ekki góðar færist aksturinn bara inn í hverfin þar sem hann á ekki heima.
Svo mörg voru þau orð. Ekki líkaði mér svarið. Ég vil sjá Reykjavík hætta að vera fyrirmynd amerískra bílaborga og byrja að líkjast Evrópskri borg.
Ég er vonbetri en ég var í síðustu viku.
![]() |
Dagur: Tími til að breyta Reykjavík úr amerískri bílaborg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.10.2007 | 17:48
Kassanótan mín aftur
Ég var manaður til að fara í venjulega verslun svo ég skrapp út í búð sem líkist Krónunni og Bónus, hún selur Euroshopper og svoleiðis fínerí. Ég fékk svolítið kúltúrsjokk því ég hef ekki komið inn í svona búðir í rúman mánuð.
Hér eru verðin. Nú mana ég einhvern á móti til að kíkja í veskið og segja hvað þessar vörur kosta heima núna.
Krónan er gífurlega sterk og það á að endurspeglast í lágu vöruverði. Þetta er gengi krónunnar.
Vara Krónur (85kr/evru)
500 g kornfleks (ekki kellogs) 96,9
óþynnt appelsínudjús 0,75l 146,2
appelsínusafi úr þykkni, 1 1/2 l 124,95
basmati hrísgrjón, 1 kg 101,15
baunir í dós 265 g 34,85
bjór 500 ml 59,5
eggjabakki, 12 egg 203,15
emmentaler ostur 400 g 250,75
gulrætur 1 kg 62,05
kaffi 250 g 96,9
kartöfluflögur 150 g 57,8
kartöflur 1 kg 68,85
kassi af tepokum earl grey 75,65
klósettrúllur, 9 stk 193,8
kók 1,5 l (ekki kókakóla) 30,6
mjólk, 1 lítri 51,85
papríka 1 kg 243,1
sólblómaolía, 2 lítrar 189,55
spaghetti 500 g 51,85
suðusúkkulaðistykki 56,1
tómatadós 440 g 48,45
tómatar 1 kg 172,55
uppþvottalögur 500 ml 95,2
Samtals 2.511,75
Ég skoðaði ekki verðið á kjöti því það er svo erfitt að bera saman gæði á kjöti.
Ég fann enga ferkantaða skinku, ekki heldur í lágvöruverðsbúðinni. Ég fór loksins og athugaði málið.
Ef ég leita á Google að orðinu "Ham" fæ ég svona myndir:
Hins vegar heitir íslensk ferköntuð "skinka" ekki skinka heldur SPAM eða "Corned Ham" sem er pressað svínakjötskurl:
Þar er skýringin komin á því hvað íslensku svínin virtust alltaf vera ferköntuð...
Í framhaldi vil ég benda á að Mozzarella ostur lítur svona út:
en ekki svona:
Þessi ostur heitir brauðostur, þótt hann sé í öðrum umbúðum.
Það er því ekki nóg að bera saman vöruverð, heldur líka gæði og hvort verið sé að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.
Ég er að gefa í skyn að heilaþvotturinn um að íslenskar landbúnaðarvörur séu bestar sé kannski ekki alveg réttlætanlegur. Sá sem heldur að þær séu það, hefur ekki eldað kvöldmat í Frakklandi.
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.10.2007 | 18:55
Kassanótan mín
Ég var að koma úr búðinni hér í Frakklandi og sá á vefnum að Krónan og Bónus bítast á.
Mér datt í hug að sýna ykkur hvað ég fæ fyrir peningana úti í fínu búðinni á horninu.
Hér er maturinn sem ég keypti:
Hér er nótan (ekki allur maturinn er með á myndinni):
og hér er verðið í krónum á því sem var á myndinni:
Rauðvín 283,50
Appelsínusafi 166,05
Salatpoki 157,95
Fjórar jógúrtdósir 102,87
Ravioli með ostfyllingu 124,74
Salami 300 gr 305,37
Ostur, 200 gr 184,68
Skinka,450 gr 467,37
Samtals 1.792,53
Ég tek fram að þetta er alvöru skinka, niðursneidd í búðinni, ekki ferkantaða "skinkan" í lofttæmdu pökkunum eins og heima.
Kveðja, Kári
![]() |
Bónus og Krónan bítast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.10.2007 | 21:17
Ég hef hitt óvininn og hann er við sjálf
Einu sinni mátti ég ekki eignast hlut í fyrirtæki sem ég vann hjá, því það var þá enn að litlu leyti í eigu ríkisfyrirtækis; ég tel mig hafa skaðast á þessu. Ég treysti að reglan gangi enn jafnt yfir alla og að engir einkaaðilar hafi átt að eignast ómaklega hlut í sameign borgarbúa.
Ég veit ekki hvort það stóð til. Menn eru saklausir þangað til fundnir sekir.
Ég reyni að sinna mínu starfi en verð að treysta því að aðrir geri það líka, því nútímaþjóðfélög ganga fyrir sérhæfingu.
Ef allir Reykvíkingar hafa fylgst með fréttum af Orkuveitumálinu í eina klukkustund og meðallaun eru 3.000 krónur á tímann hafa 600 milljónir króna þegar tapast bara vegna fréttaáhorfsins. Það er því mikið í húfi að fólk vinni vinnuna sína samviskusamlega svo ekki þurfi að segja af því fréttir.
Í Kína er spilling ennþá dauðasök. Það er sennilega gott að aftökur tíðkast ekki hér, en það má samt einhver meðalvegur vera. Að lágmarki verður að ætlast til þess að fólk haldi ekki opinberu starfi eftir meiriháttar afglöp.
Ef þegnar telja sig sjá afglöp, hvað eiga þeir þá að gera? Menn geta þusað í bloggi en það er vita gagnslaust, held ég.
"I could burn the house down"
Þegar upp er staðið verð ég að viðurkenna að það var Svandís Svavarsdóttir sem velti hlassinu, annars hefði ekkert gerst. Á tímabili hlaut hún skítkast fyrir. Núna er boltinn hjá umboðsmanni Alþingis og héraðsdómi, þökk sé henni, en ekki blogginu hjá mér eða neinum öðrum.
---
Þegar Halldór Laxness flutti til Íslands eftir utandvölina fann hann hjá sér þörf til að segja þjóð sinni til syndanna í skáldverkum eins og Íslandsklukkunni, Sölku völku og Atómstöðinni enda var hann ekkert sérstaklega vinsæll meðal margra sem vildu ekki hleypa þessu heimkomna merkikerti upp með moðreyk.
Kiljan var ekki að úthúða stjórnvöldum, heldur benti hann þjóðinni allri á sinn eigin slóðaskap. Ólafur Kárason, Bjartur í Sumarhúsum og Jón Hreggviðsson voru alíslenskir gallagripir sem komu ekki úr stjórnmálageiranum, og þeir stóðu ekki með sjálfum sér.
Ísland er vissulega frábært land. Þá á ég við landið - en þjóðin ætti kannski að taka sig á. Ég hef lengi verið þeirrar trúar að fólk fái yfir sig þær ríkisstjórnir (og borgarstjórnir) sem það á skilið. Ef ráðnir fulltrúar standa sig ekki er það að hluta til vegna þess að betri fulltrúar voru ekki í boði. Agalaus þjóð elur upp agalausa embættismenn.
Ég þekki fullt af fólki með vísi að góðum eiginleikum, hjálpsemi, dug, hugrekki og heiðarleika. Þetta er bara vísir. Það þarf meira til. Við erum ekki alin upp til að verða borgarar og embættismenn af okkar eigin þjóðfélagi. Kannski er þetta vítahringur.
Kannski er skýringin söguleg. Við höfum ekki járnbrautir af því við fórum beint frá moldarkofum og hestum í steinsteypu og jeppa. Á sama hátt fórum við beint úr sveitamennsku í neysluhyggju án þess að máta nokkurn tímann borgarahlutverkið -- fá meðvitund um að bera ábyrgð sem þegnar.
Jón Sigurðsson barðist fyrir sjálfstæði okkar en svo læddumst við bakdyramegin út meðan Danir voru herteknir af Þjóðverjum. Stuttu síðar vorum við að verða rík á hernaðarbraskinu. Það var aldrei nein stór bylting þar sem lýðræðið fékk eldskírn í blóði, þar sem við lærðum að vera borgarar. Of auðveld velgengni spillti okkur kannski.
Ef við gætum okkar ekki núna missum við sjálfstæðið aftur, í þetta sinn í hendur manna sem voru einu sinni íslendingar en eru nú orðnir alþjóðlegir bissnessmenn. Margir sjá þetta og ofbýður en þeir fengu ekki þjálfun í réttum viðbrögðum. Hvað eigum við að gera núna annað en blogga?
Þetta klýfur þjóðina. Þegar frammámen tjá sig í fjölmiðlum og segja "Við eigum ekki að ganga í evrópusambandið" eða "við eigum að selja orkuveituna" þá spyr ég mig: hvað meina þeir með "Við"? Erum við ein þjóð ennþá? Ég á ekkert sameiginlegt með nýju óligörkunum.
Ég held ég reyni að kynna mér hvernig lýðræði er haldið virku og hver minn þáttur á að vera í að svo megi verða áfram. Blogg og kosningar á fjögurra ára fresti nægja kannski ekki eins og staðan er í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)