Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
17.4.2007 | 11:18
Síðustu perurnar í seríuna takk !
Ljósin á jólatrénu eru þeirrar náttúru að það kviknar ekki á þeim nema allar perurnar séu í lagi.
Hjólastígar eru þannig líka. Ef þeir mynda ekki samhangandi net þá treysta foreldrar sér ekki til að senda börnin sín út á hjóli. Þeir skutla þeim í bíl í staðinn. Það er slæmt, því fullorðnir hjólamenn (eins og ég) eru búnir til úr börnum sem hjóla.
Það er fullt af hjólastígum í Reykjavík en þeir eru ekki farnir að mynda fulltengt net ennþá. Það vantar uppá 100 metra hér og þar. Mig grunar að kostnaðurinn við að klára uppbyggingu netsins sé ekki rosalegur, en nú þarf að skoða hjólastíganetið, finna þessar gloppur og eyða þeim.
Nýju brýrnar yfir Hringbrautina voru öfgakenndar. Ef markmiðið var að efla umferð hjólandi hefði ég ekki byrjað þar. Það hefði mátt kaupa þó nokkra kílómetra af venjulegum hjólastíg fyrir andvirðið.
Það er til kort af hjólaleiðum í Reykjavík, en kortið gerir ekki greinarmun á gangstétt og hjólastíg. Ég myndi ekki þora að senda barn yfir Suðurgötu hjá þjóðminjasafninu því þar þeytast bílar út úr hringtorginu yfir ómerkta gangbraut allan sólarhringinn. Samt er þetta merktur hjólastígur á kortinu, rétt eins og hjólaleiðin meðfram sjónum.
Kortið gerir ógagn því fólk gæti haldið að Reykjavík sé orðin góð hjólaborg og fólk hjóli ekki af því það er latt. Reykjavík er ekki orðin hjólaborg en gæti farið að verða það.
Ég trúi því að ef hjólastígarnir væru kyrfilega merktir þannig að fólk viti af þeim, og ef þeir eru færir um að koma fólki milli staða án þess að leggja lífið í sölurnar, þá muni kvikna á perunni: fólk fer að hjóla.
Ég veit með vissu að brekkurnar og veðrið eru ekki vandamálið, heldur umferðin. Hún fer ekki neitt og borgin ekki heldur. Þess vegna getum við óhrædd lagt í þessa langtíma fjárfestingu og aðskilið hjólandi umferð frá bílunum.
Verkfræðistofur hafa verið fengnar til að meta umferðarálagið á stærstu umferðargötum í Reykjavík. Ég legg til að næsta skref verði að verkfræðistofa verði fengin til að gera úttekt á hjólastígum borgarinnar með þessa spurningu að leiðarljósi: "Myndi ég þora að senda barnið mitt þessa leið á hjóli?"
Hjólreiðar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.4.2007 | 21:07
Ráðleggingar til prinsa
"Ég færi á taugum ef ég ætti svona mikla peninga" hugsaði ég um daginn. "Af hverju sofa þeir ríku vel?"
Ég held ég viti svarið. Peningar eru ekki aðalatriðið og hafa aldrei verið, þeir eru einkenni um annað mikilvægara: Vald. Ég ólst upp við að ríkið réði flestu á Íslandi og þetta er því nýtt fyrir mér, en ég er að læra.
Frægur leikari fær peninga fyrir það eitt að nota dýran bíl sem framleiðandinn vill gefa honum. Völd í formi frægðar færa leikaranum þannig peninga.
Sumir sem eru ríkir á Íslandi eru það af því þeir hafa völd, ekki öfugt. Þeir vita að völdin eru tryggð og sofa vel. Völdin geta verið í formi lögbundinna réttinda, kvóta, einokunar, tengslanets og margs annars.
Ráðuneytin og þingið samanlagt gera ca. 1100 starfsmenn, ætli meðalbankinn sé með 2000 starfsmenn? Hver er með stærri her þegar kemur að þekkingaröflun og tengslaneti?
Af hverju vilja margir að ríkisumsvif séu sem minnst? Kannski útaf völdum. Ef ríkið minnkar við sig verður til valdatóm og þar komast aðrir að. Peningarnir sem losna við sölu ríkisfyrirtækis eru kannski ekki aðalatriðið, heldur hver stjórnar auðlindinni.
"Það er til nóg af peningum, þeir eru ekki málið" sagði framámaður í þjóðlífinu við mig um daginn. Ég held ég sé að skilja rétt það sem hann var að reyna að segja.
Sumir verða nýríkir óvart, t.d. með því að eiga hús sem verður verðmætt. Ef þú átt 100 milljóna hús núna gætir þú selt það, lagt peningana inn á banka og fengið milljón á mánuði í vexti. Af þessari milljón getur þú borgað 10% fjármagnstekjuskatt og átt 900 þúsund á mánuði til að lifa fyrir.
Þú gætir notað nýja frítímann til að læra að kaupa völd - en flestir sem eignast óvart pening eru vanir að vinna dagvinnu og vinna áfram í staðinn eða slæpast bara í Florida. Þeir munu missa peningana frá sér smám saman ef þeir sækjast ekki eftir völdum. Þótt þú kaupir verðbréf verður hollusta verðbréfasalans ekki fyrst og fremst við þig því þú ræður ekki yfir honum.
Ef þú eyðir öllum dagstundum þínum í að vinna áttu engan tíma aflögu til að læra að beita þeim völdum sem þú þó hefur sem neytandi eða félagsmaður í einhverju félagi. Þekking = völd.
Kunningi sem vann í fjármálafyrirtæki sagði mér að hann hefði haft samviskubit yfir þeim sem eyddu öllum tíma sínum í að afla fúlgu fjár en afhentu hana í bankann eins og býflugur koma með hunang til bóndans. Kunninginn er kominn á eftirlaun fyrir fimmtugt.
Heildsali var heimsóttur af verzlunareigendum sem keyptu af honum pallettu af vörum fyrir hálfa milljón. Næst komu þeir og vildu heilan gám fyrir fimm milljónir. Heildsalinn var glaður. Í síðasta skipti komu þeir og sögðu "Við kaupum af þér heildsöluna fyrir fimmtíu milljónir". Hann sagði "ég held nú ekki, ég er að græða á tá og fingri".
Loks fékk hann uppsagnarbréf frá framleiðandanum sem sagðist hafa fengið betri umboðsmenn, þeir væru með 70% markaðshlutdeild. Heildsalinn sat eftir með sárt ennið. Hann hafði haft peninga en þeim fylgdu engin völd.
Svona geta þeir gert sem skilja að þeir hafa völd og þora að beita þeim. Ef peninga vantar tímabundið má fá þá lánaða, því þeir sem hafa völd hafa lánstraust.
Ef ríkið veit af ójöfnuði í þjóðfélaginu og vill minnka hann aftur þá er ekki víst að ríkið ráði í raun þegar þar að kemur. Skv. "Leviathan" eftir Hobbes er ríkið samningur milli þjóðfélagsþegna um að vera ekki í stríði við hvorn annan. Sá friður kemur niður á athafnafrelsi manna en það er fórnin.
Ef ríkið verður að engu er vopnahléið búið. Menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir gera ríkið óstarfhæft, hvar sem þeir standa í flokki.
Ef þú ert ungur og þarft að kaupa 100 fermetra íbúð núna þarftu 300 þúsund eftir 40% skatta til að eiga fyrir afborgunum og þá er eftir að kaupa í matinn. Framtíðarlandið virðist ekki ætlað þér í bili.
Machiavelli myndi ráðleggja þér að fara utan, verða ríkur, koma aftur og brjótast til einhverra valda með auðnum.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2007 | 09:40
Mætti ég koma með smá tillögu?
Grein Uwe Reinhardt um að gera ætti árás á Ísland, á sér forföður í enskum bókmenntum. Blaðagreinin "A Modest Proposal" eftir Jonathan Swift kom út 1729. Í henni leggur hann til að fátækar írskar fjölskyldur selji börnin sín sem gott kjöt til ríkra fjölskyldna í London.
Í greininni fjallar hann á yfirvegaðan hátt um bágt ástand hjá fátækum og svo kemur þessi málsgrein eins og skrattinn úr sauðaleggnum:
A young healthy child well nursed, is, at a year old, a most delicious nourishing and wholesome food, whether stewed, roasted, baked, or boiled; and I make no doubt that it will equally serve in a fricassee, or a ragout.
Í seinni hluta greinarinnar fer hann ítarlega gegnum útreikninga á því, hversu jákvæð áhrif þetta muni hafa á allar vísitölur. Í enskum skólum er þessi grein kennd sem eitt besta dæmið um breska kaldhæðni.
Fjöldi fólks skrifaði haturgreinar gegn Swift og þarmeð var tilganginum náð; greinin og hryllilegt ástand fátækra fjölskyldna í London komst á forsíður blaðanna. Jonathan Swift er best þekktur sem höfundur annarar þjóðfélagsádeilu en það er "Gulliver í Puttalandi".
Mér datt í hug að skrifa mína eigin grein í þessum anda. Í henni ætlaði ég að leggja til að nú, þegar flestir keyra um á jeppum yfir rennislétt malbik meðan stéttarnar í borginni eru svo niðurníddar að þær eru eiginlega bara færar jeppum, hvernig væri þá að skipta? Jeppafólkið getur notað frábæra torfærueiginleikana í eitthvað og við hjólanerdarnir fáum loksins hjólastíga.
![]() |
Mikil viðbrögð við grein háskólaprófessors um sprengjuárás á Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2007 | 11:53
Öxl - Hurðarás
Þeir sem hafa tekið húsnæðislán nýlega munu sjá eftir nokkur ár að skuldabyrðin minnkar ekki sem skyldi.
Á fimmtugsaldri á erfiðasta hjallanum að vera náð og peningarnir sem menn afla eiga að verða þeirra eigin til að leika sér fyrir. Á fimmtugsaldri fer mönnum að svíða mistökin.
Hér er slóð á Excel skjal. Fylltu út í gulu reitina, láns upphæð og afborganirnar sem þú treystir þér til að standa við, leiktu þér svo með verðbólgureitinn og fylgstu með grafinu hægra megin.
Það sem vekur athygli mína á grafinu er hvað lítil verðbólguhækkun hefur mikil áhrif.
Í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans hafði Davíð Oddson orð á því hversu margir gætu orðið gjaldþrota á næstunni. Menn telja gjaldþrot eins og banaslysin í umferðinni en þeir sem eru örkumlaðir komast ekki í fréttirnar.
Mér datt í hug næsta nafn sem nota mætti á banka. Nafnið er "Öxl - Hurðarás".
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.4.2007 | 20:57
Óþarfa ánauð II
Adam og Eva voru ekki með nafla svo ekki stunduðu þau naflaskoðun. Þau höfðu engan að heimsækja, ekkert videó og afi kom aldrei í heimsókn, hvað þá að hann passaði Kain og Abel.
Það eina sem hjónaleysin höfðu var epli sem á stóð "Ekki éta mig". Þau áttu aldrei séns í þá freistingu. Ekki er vitað hvernig Kain eignaðist börn eftir að hafa drepið bróður sinn...
Svo komu kynslóðir af kóngum sem voru hver öðrum andstyggilegri. Jobsbók, orðskviðirnir og Davíðssálmar eru ágæt lesning, en þess á milli rennur út í fyrir bókarhöfundum. Móses leiddi lýðinn áfram og hvílíkur lýður!
Guð gamla testamentisins er mislyndur og frátekinn fyrir Guðs útvöldu þjóð sem er ekki Íslendingar heldur Gyðingar sem voru sannfærðir um að allir aðrir færu til fjandans. Afar óviðkunnaleg heimspeki.
Nýja testamentið er miklu betra. Ég kann mjög vel við Jesú og er sammála honum í næstum öllu. Ég er viss um að hann hafi verið til, Rómverjar staðfesta það í skrifum sínum. Ég trúi bara ekki á hann frekar en ég trúi á poppstjörnur, drauga eða jólasveina.
Ég held að Jesú hafi farið í austur frá Palestínu, kynnst Búddisma og fært hann í búning sem var nágrönnum hans skiljanlegur. Það útskýrir hvers vegna hugsanir Jesú eru svo upp á kant við allt sem á undan er gengið í Biblíunni -- enda var hann krossfestur. Mér hefur alltaf fundist fyrri bókin draga þá seinni verulega niður.
Það er hægt að lifa andlegu lífi án trúar og öfugt. Skipulögð trúarbrögð eru eins og fótboltaáhorf en andlegt líf er eins og að stunda reglulega hreyfingu. Þetta tvennt fer oft saman en ekki alltaf. Í þessari samlíkingu eru trúarofstækismenn eins og fótboltabullur. Hvað hafa þær með íþróttir að gera?
Það kemst enginn í form með því að horfa á fótbolta og mennirnir verða ekki góðir með því einu að mæta í messur. Trúaðir og trúlausir þurfa að vinna með sig andlega því höfuðsyndirnar eru lestir sem allir þurfa að reyna að sigrast á.
Ég hafði mitt trúleysi út af fyrir mig og brosti þegjandi þegar einhver gaf sér að ég væri trúaður. Núorðið segi ég að ég trúi ekki. Fyrir því eru tvær ástæður.
Í fyrsta lagi hafa árásir trúarofstækismanna á turna, borgir og lönd gefið misvitrum mönnum veiðileyfi á lýðræðið sem ég met mikils.
Í öðru lagi ýta mörg trúarbrögð undir þá hugmynd að betra líf bíði hinum megin og ekki þurfi að passa upp á náttúruna því hún sé gjöf Guðs til mannanna til að fara með eins og þeim sýnist. Sumir ganga svo langt að hlakka til heimsenda. Ég vil ekki umbera vitleysuna í þannig fólki.
Enginn má halda að trúarbrögð séu það sama og andleg sjálfsrækt.
Þjóðkirkjuna ætti að skilja frá ríkinu. Hún segist vera órjúfanlegur hluti af sögu og menningu landsins. Það er rétt, hún verður alltaf hluti af sögu Íslands. Það væru mistök að afneita henni í sögubókunum. Það er þó ekki rökrétt að álykta að hún þurfi þess vegna að vera innbyggð í lýðveldið áfram.
Á páskum er haldið upp á að dagurinn er orðinn lengri en nóttin og að vorið er að koma. Páskarnir eru eldri en dagatalið. Þess vegna eru þeir alltaf haldnir á fyrstu helgi eftir fullt tungl eftir jafndægur á vori og færast til í dagatalinu. Kanínurnar og eggin eru frjósemistákn. Sögurnar um engilinn sem myrti börn Egypta og um innreið Jesú í Jerúsalem komu seinna.
Páskarnir eru ekki bara fyrir trúaða. Ég get líka sagt: Gleðilega páska!
PS: Ég er í góðum félagsskap
Trúmál og siðferði | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)