Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
31.8.2007 | 11:24
Handunnar tartalettur og rauðvínslegin lambalæri
Þarna má sjá fjölmiðlana veita verslunareigendum aðhald. Danskt tartalettusvindl orðið að frétt á Íslandi.
Hér á landi er samt í lagi að kalla lambalæri rauðvínslegið þótt aldrei hafi það marínerast í öðru en papríku og salti.
Einhverra hluta vegna verður þetta samt ekki að frétt hér á landi.
Hvers vegna ætli það sé? Skyldi það vera af því það er auðveldara að afrita erlendar fréttir af vefnum en að vinna alvöru fréttavinnu í sínu eigin landi og styggja hugsanlega einhvern?
Danir blekktir til að kaupa vélunnar tartalettur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.8.2007 | 16:33
Flækjustig frá 12.öld
Evrópa fékk tugakerfið á 12.öld frá Aröbum (sem fengu það víst frá Indverjum).
Arabíska tölukerfið létti mönnum lífið og gerði flókið mál einfalt. Hvað er MCMXVIII + MCM ? Ekki hugmynd. Ég á auðveldara með að reikna þetta í tugakerfi: 1918 + 1900 = 3818.
Að vísu flæktist smá óþarfa flækjustig inn þegar Evrópubúar tóku kerfið í notkun. Arabar skrifa frá hægri til vinstri enda er þeirra texti hægrijafnaður:
Evrópubúar tóku arabíska talnakerfinu full bókstaflega og hægrijöfnuðu tölurnar eins og Arabarnir gerðu, þótt þess þyrfti ekki til að nýta sér tölukerfið.
Fyrir vikið þurfum við nú sitt á hvað að vinna með vinstri og hægri jöfnun. Ef við hefðum skrifað tölurnar okkar eins og við skrifum textann okkar myndum við skrifa tölur svona:
1011 plús einn, hundrað og þúsund
====
6611 gera sex, sextíu, hundrað og þúsund
Evrópubúar völdu samt að gera dæmið svona eins og arabar, hægri jafnað:
65 + Sextíu og fimm
1101 plús eittþúsund, eitthundrað, og einn
====
1166 gera eitt þúsund, eitthundrað, sextíu og sex.
Fyrir vikið höfum við barist við hægri jöfnun í átta hundruð ár. Ef dæmið hér að ofan birtist vitlaust jafnað er það vegna þess að ég var að tapa einum slag við hægri jöfnun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2007 | 22:33
Handbók fyrir konu Þorgríms loksins fáanleg
Ég sá þessa fyrirsögn á blaðsíðu 40 í "Blaðinu" í dag:
Loksins fáum við að læra á konu Þorgríms!
Í alvöru talað held ég að fyrirsögnin hafi átt að vera: "Kennir karlmönnum á konurnar þeirra".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.8.2007 | 11:49
Gætuð þér tekið hendina úr vasa mínum?
Ríkið rukkar mig samt ekki um hann heldur vinnuveitanda minn sem dregur hann af laununum mínum.
Ef ég græði milljón á sölu hlutabréfa fær yfirmaður minn að vita það manna fyrstur.
Ég er líka rukkaður fyrr en nauðsynlegt er.
Reikningar á Íslandi hafa Gjalddaga og Eindaga. (Ég veit ekki hvers vegna það eru tvö "deadline" til að borga reikning, ég hef ekki séð það annars staðar).
Atvinnuveitandinn tekur peningana á gjalddaga og ég get því ekki notað þá fram á eindaga eins og ég gæti annars gert.
Mér vitanlega er engin leið að skrá sig út úr þessu fyrirkomulagi. Það er ekki hægt að biðja skattstjóra um að senda reikninginn fyrir fjármagnstekjuskattinum beint heim til mín.
Þetta fyrirkomulag varð sennilega til þegar forsjárhyggjan var uppá sitt besta. Það átti að ná skattinum af verkamanninum áður en hann kæmist út í ÁTVR með launin og gæti drukkið þau út. Það er eldra en Persónuvernd því annars hefði hún sennilega komið í veg fyrir að atvinnuveitendum yrðu sendar upplýsingar um ótengd viðskipti starfsmanna þeirra.
Hins vegar hafa kaup mín og sala á bréfum ekkert með atvinnu mína að gera. Fer ég með vitlaust mál? Er þetta ekki tímaskekkja? Stenst þetta stjórnarskrá?
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.8.2007 | 13:10
Skyggni 2 metrar
Ég fer í sund í Vesturbæjarlauginni. Einhverra hluta vegna er vatnið þar eins og í Bláa lóninu. Ég tók myndir með vatnsheldri myndavél (held ég).
Þessi mynd er tekin í grunnu lauginni en ég get varla séð strikið sem er málað á botninn:
Nú tek ég mynd út í laug. Kaðallinn hverfur strax í grámóðuna:
Mér leiðist að synda í svona gruggugu vatni. Verra er þó að ég held að sundverðir geti ekki séð mann á botninum í gegnum sortann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2007 | 13:47
Hvaða tölvupóstur?
Ég sá viðtal við átján ára stúlku í Bandaríkjunum sem sagðist hafa verið að nota sitt fyrsta tölvupóstfang til að geta átt samskipti við háskólann sem hún var að sækja um í.
Hún sagði að vinir sínir notuðu eingöngu MSN, Facebook, AIM, SMS, blogg, Skype og fleiri slíkar þjónustur, þess vegna hefði hún aldrei notað sitt tölvupóstfang fyrr.
Ég hélt að tölvupóstur væri ennþá "hipp og kúl". Svo kemur í ljós að hann er orðinn jafn gamaldags og telexið var fyrir mína kynslóð.
Mér hefur lengi fundist tölvupóstur vera úreldur. Það verður gott að losna við hann. Ruslpósturinn og nafnlausu bréfin hafa fengið að þvælast fyrir nógu lengi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.8.2007 | 13:38
I recommend the Pina Colada
Ég sá að Púkinn er kominn með "Seal of approval" og varð að prófa sjálfur. Hér er mín einkunn:
Smellið á myndina til að að taka nördaprófið.
PS: Hver kannast við fyrirsögnina?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.8.2007 | 22:27
Með lögum skal land byggja
Þingholtin myndu brenna glatt því oft komast engir slökkviliðsbílar þarna um.
Hjólreiðamenn voru reknir upp á gangstéttar þegar yfirvöld misstu stjórn á einkabílismanum. Þá urðu þessir ólöglega lögðu bílar málefni hjólreiðafólks. Þeir eru úti um alla Reykjavík.
Það er ekki pláss á þessum stéttum fyrir gangandi eða hjólandi. Það er tilgangslaust að hringja í lögregluna því hún gerir ekkert. Ég hef oft reynt.
Yfirvöld kjósa að framfylgja ekki lögum því það vantar bílastæði og það er allt í lagi að ganga freklega á rétt hjólandi og gangandi af því þeir skipta engu máli.
Þannig fá þeir sem eru ekki á bíl skýr skilaboð um að þeir séu annars flokks þegnar í þessari Detroit norðursins.
Ég get ekki skilið hvers vegna við setjum lög sem við ætlum okkur ekki að framfylgja. Hvað segir það um löggjafann? Hvað segir það um dómsvaldið?
Af hverju eru sum lög "alvöru" en önnur "bara í plati"? Hvað varð um "Með lögum skal land byggja?"
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.8.2007 | 16:56
Velkominn heim
Ég var að koma heim flugleiðina. Það þýðir að sjálfsögðu viðkomu í Leifsstöð. Ég ætlaði að versla í einu raftækjaverslun landsins sem er undanþegin söluskatti, Elko.
Það fyrsta sem ég rak augun í var að þeir verðmerkja minna en helminginn af vörunum. Ég tók myndir af nokkrum hillum:
Ég gat því ekki séð hvað vörurnar þeirra voru ódýrar og góð kaup enda ákvað ég að sleppa því að eiga við þá viðskipti. Afgreiðslumaður bauðst að vísu til að romsa verðin upp eftir minni en ég afþakkaði það.
Vikurnar þrjár sem ég var úti, sá ég aldrei óverðmerktar vörur í búðum. Þetta eru ótrúlega ósvífnir viðskiptahættir sem viðgangast bara þar sem verslanir komast upp með slíkt í krafti einokunar og án aðhalds frá yfirvöldum eða neytendum.
Það er ekki rétt að íslendingar séu að verða ameríkaniseraðir. Mikið væri gott ef við værum að verða það í raun og veru. Verðmerkingar og neytendaréttur væru þá í lagi og vöruverð hagstætt.
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.8.2007 | 15:07
Home of the brave
Hér eru nokkrir sundurlausir þankar frá Bandaríkjunum þar sem þetta er skrifað.
Græjur - GPS
Við tókum bílaleigubíl með Garmin StreetPilot en það er tæki sem þekkir hvert einasta hús í Bandaríkjunum og kann leiðina þangað. Ég vissi ekki hvort þessi tækni væri tilbúin en ég veit núna að hún er það. Þetta er algerlega ómissandi fyrir túrista í stórborgum.
Við hjónin vorum vön að skipta með okkur verkum. Annað keyrði og hitt las kort. Allt gekk vel þar til maður slysaðist á vitlausan "Exit", þá var maður allt í einu kominn í hverfi í stórborg þar sem maður þekkti ekki leiðina aftur upp á hraðbraut. Í myrkri var ennþá erfiðara að lenda í þessu.
Við áttum gróf kort yfir landið, en okkur vantaði oft litlu kortin sem sýna hjáleiðirnar og borgirnar.
Með svona GPS tæki í bílnum er þetta úr sögunni. Hugarfarið breytist. Nú leggur maður í að finna ótrúlegustu búðir og söfn í stórborgum sem ella hefði hreinlega verið of mikil fyrirhöfn að keyra til.
Tækið fæst leigt á bílaleigunni og ég ætla að leigja slíkt eftirleiðis. Ég ætla samt ekki að fjárfesta í svona tæki því í næstu útlandaferð verður þessi græja ennþá flottari og kortið með nýjustu upplýsingum. Heima á Íslandi rata ég.
Græjur - HDTV
Á heimilinu þar sem ég gisti eru komin tvö sjónvörp í háskerpu, "HDTV". Það er ólíkt betra að horfa á sjónvarp hér í Bandaríkjunum núna en var þegar við bjuggum hér. Nú eru útsendingar hér miklu betri en í Evrópu. Myndin er hnífskörp og litirnir góðir. "Litla" sjónvarpið á heimilinu er 32 tommur og það liggur við að myndin sé of lítil til að upplausnin njóti sín til fulls. Í 50 tommu sjónvarpinu er aftur á móti rosalegur munur að horfa, sérstaklega á íþróttir.
Noblesse oblige
Á sjónvarpsstöðinni PBS sá ég viðtal við Warren Buffett og Bill Gates sem var tekið árið 2005. Hægt er að nálgast viðtalið á DVD diski hér.
Í viðtalinu spyrja háskólanemar þessa ríkustu menn heims spjörunum úr. Tvennt vakti athygli mína.
Einn nemandi spurði hvað þeim fyndist um flatan tekjuskatt. Þeir svöruðu hiklaust að hann ætti ekki að verða flatari en hann væri nú þegar. "Við borgum allt of lítið í skatta", sagði Warren Buffett. "Ég borgaði miklu meiri skatt þegar ég var fátækari, þetta er ósanngjarnt".
Annað sem kom fram, var að þeir ætla báðir að losa sig við 99% af auðnum áður en þeir falla frá. Það kom ekki til greina að láta erfingjana hafa alla þessa peninga. Þeir hafa ekki gott af því, og það er okkar skylda að láta peningana nýtast. Annað væri "unamerican". "Við gerum okkur grein fyrir því að þessar fjárupphæðir geta aldrei farið í einkaneyslu einstaklinga, þannig er leikurinn ekki spilaður". Ég mæli með þessu viðtali og vona að nýríkir íslendingar séu farnir að velta fyrir sér "tilgangi leiksins" á jafn heimspekilegan hátt og þessir tveir virðast vera að gera.
Verðlag
Hlaupaskórnir sem ég keypti á Íslandi fyrir 18 þúsund krónur fást hér fyrir 6 þúsund krónur. Leffe bjór kostar 100 krónur flaskan sem er sennilega minna en í Belgíu þaðan sem hann er. Bensínið hefur samt hækkað umtalsvert, kostar 3 dollara en kostaði 1 dollar þegar við bjuggum hér fyrir tíu árum.
Matur er svo ódýr að hann skiptir eiginlega engu máli í bókhaldinu. Margir hér borða bara úti í stað þess að eyða tíma í matarinnkaup og eldamennsku.
Ég man þegar íslenskir fjölskyldufeður gerðu sjálfir við bílana og íslenskar mæður saumuðu föt, saumavélin var aldrei langt undan. Í dag fara bílar á verkstæði og föt eru keypt í búðum.
Kannski kemur sú lenska til Íslands frá Bandaríkjunum, að matseld sé ekki eitthvað sem upptekið fjöskyldufólk fæst við hversdags.
Snobb
Hér kosta Levis gallabuxur 32-50$ (1800-3000 krónur) en þær kosta amk. 12 þúsund kr. heima á Íslandi.
Íslensku krakkarnir sem ég var með í hópi létu samt ekki að sér hæða. Á Íslandi var Levis álitið fínt en hér eru þær of ódýrar til að hægt sé að taka þær alvarlega. Þeir vildu heldur fá Diesel gallabuxur fyrir 100 $ sem eru 6000 krónur. Það sem krakkarnir vildu samt helst voru G-Star gallabuxur sem kosta 160$ og uppúr, þær eru því dýrari en Levis kosta heima. Buxurnar eru ekki málið, heldur að hafa eytt peningunum, virðist vera.
Tilgangurinn er ekki að eignast buxur heldur að fara í pissukeppni. Mikið er erfitt að vera unglingur.
Ég held samt stundum að þetta eldist ekki af Íslendingum. Það hefur eitthvað með smæðina að gera.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)