Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Ofbeldi 1 - Lýðræði 0

Í Búrma hefur stríðsherrunum sem halda þjóðinni í gíslingu tekist að berja niður friðsamleg mótmæli með því að myrða búddamúnka.

burma_ss_v_6_boy_monks

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hef ekki séð jafn skíra baráttu milli góðs og ills síðan ég sá Star Wars.

Merkilegast finnst mér að Bandaríkjamenn skuli ekki ætla þarna inn til að hjálpa  Aung San Suu Kyi að komast til þeirra valda sem hún er réttkjörin til.

Að vísu liggur Búrma upp að Kína og sennilega best að koma ekki þarna nálægt, en  Írak liggur upp að Íran, og ekki stoppaði það þá í að breiða út frelsi og lýðræði  þar.

Ég vona að það fari að skýrast, hvaða þjóðir mega búast við innrás ef lýðræðið  er ekki nógu gott.

Ég er ennþá svo barnalegur - en mér gengur illa að sætta mig við að "góðu" ríkisstjórnirnar skuli ekki ráða meiru þegar allt kemur til alls.

Að enginn "sterkur pabbi í hverfinu" skuli geta bankað að dyrum á þessu þjóðarheimili ofbeldisins og stöðvað misþyrmingarnar sem þarna fara fram og allir hlusta þöglir á.

Ef Hitler væri að setja helförina í gang í dag, myndi hann komast upp með hana aftur.


Óþekktu hermennirnir í bankabyltingunni

Ég bendi á góða grein Andrésar Magnússonar um fórnarlömb efnahagsundursins á Íslandi. Ég veit ekki hvernig ég færi að ef ég væri að fara að kaupa mína fyrstu íbúð í dag.

Hér er tilvitnun:

En það var sama hversu Halldór vann mikið, hann gat ekki borgað af íbúðarlánunum. Eina ráðið var að setja litlu íbúðina í leigu og hjónaleysin fluttu aftur heim hvort til sinna foreldra. Það komst los á sambandið. Halldór var ekki viss um hvort stúlkunni fyndist hann vera eitthvað til þess að veðja á. Og nú er Halldór kominn til geðlæknis, fullur sjálfsefa. En þetta hefði aldrei komið fyrir ef hann hefði ekki slysast til þess að fæðast á Íslandi. Ef hann hefði fæðst í einhverju af nágrannalöndunum hefði hann ekki bara haldið íbúðinni (og þar með kærustunni), með slíkri greiðslubyrði myndi hann vera búinn að borga niður íbúðina á meira en helmingi skemmri tíma heldur en hér heima.

Húsnæði hefur hækkað í öðrum löndum líka, en lánin þar eru ekki verðtryggð.

Í Bandaríkjunum hefur mikið verið rætt um háskalegar afleiðingar of mikilla lána til þeirra sem eiga erfitt með að borga til baka, til svokallaðs  "sub-prime lending market".

Hér hefur sú umræða ekki farið af stað eftir því sem ég best veit.

Eru allir hér fyrsta flokks lánþegar, eða eru upplýsingar um ástand á lánamarkaði einkamál bankanna?

 


Vesen á Vista

Mér yfirsást þessi frétt í síðasta mánuði.  Hér er lausleg þýðing.

16.ágúst:

Í dag var hætt við að nota stýrikerfið Windows Vista fyrir Ólympíuleikana 2008  eftir að tölvuframleiðandinn Leonovo sem sér um tölvur á leikunum lýsti yfir að  Windows Vista væri ekki nógu áreiðanlegt til að verða stýrikerfi leikanna.

Þetta hefur vafalítið sent íshröngl um æðar yfirmanna Microsoft.  Yfirmaður  Leonovo sagði: Ólympíuleikarnir þurfa þroskaða, áreiðanlega tækni, þetta er ekki  staðurinn til að prófa nýja hluti því þetta er mikilvægur stórviðburður. Allt  þarf að virka.  Síðan staðfesti hann að öll mikilvæg verkefni á leikunum yrðu  leyst með Windows XP.

Þetta er í mótsögn við allt sem Microsoft hefur reynt að segja um Vista og eftir  þó nokkur leiðindamál með tölvuframleiðendum, þar á meðal Dell sem er byrjað að  selja tölvur með XP aftur, hefur Microsoft reynt að neyða menn til að nota nýja  stýrikerfið með því að segjast skera á stuðning við nýjar sölur á XP í Janúar  2008.

Það sorglega við þetta allt er að í síðustu viku komu leiðréttingaruppfærslur  fyrir Vista svo það er byrjað að haga sér aðeins meira eins og eitthvað sem gæti  verið tilbúið til sölu.  Orðstír Vista er svo slæmur að aðeins Service Pack 1  getur bjargað núna.

Vista hefur verið á markaði síðan Nóvember 2006 svo hveitibrauðsdagar þess fara að verða taldir, svo maður noti orðalagið sem notað er um ríkisstjórnir.

PS: Síðan fréttin birtist hefur Microsoft framlengt sölu á Windows XP til Júní  2008.


Um ást á dauðum hlutum

Þegar ég var búinn að hjóla í vinnuna í morgun kastaði ég mæðinni fyrir utan hús og horfði á hjólið með ástarinnar gleraugu á nösum.

Þetta hjól eignaðist ég 1982.  Það var notað og frekar illa farið, en ég sá að stellið var fyrsta flokks (Reynolds 531) svo ég skipti um gírana, gjarðirnar, dekkin og alla barkana, bæði bremsu og gíra.  Ég er búinn að eiga hjólið í 25 ár og sennilega er það sjálft orðið þrítugt.  Ég veit að það var handsmíðað af manni sem heitir David Russell í borginni Slough á Englandi.  Síðast þegar ég heyrði hafði hann fengið slag og hann er hættur að smíða.

Gírskiptarnir eru niðri á botnstönginni og það eru engar smellur í þeim heldur stillir maður þá sjálfur eins og fiðlustrengi.  Svona hjól fást ekki lengur og reyndar ekki varahlutir í þau heldur.  Dekkjastærðin er ekki 700C eins og tíðkast á hjólum í dag heldur 27" sem ég sé ekki lengur til sölu.

Ég þekki hjólið algerlega.  Ég hef oft tekið það í sundur niður í síðustu kúlulegu og sett saman aftur, þrifið og smurt.  Hjólið myndi aldrei bila mér að óvörum af því ég veit í hvaða ástandi það er. 

P9150013

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta hjól er löngu afskrifað og einskis virði samkvæmt tryggingarfélaginu.  Í dag eru reiðhjól soðin saman af vélmennum og þau löngu orðin hluti af neyslumenningunni þar sem hlutum er hent.

Fólki er kennt að binda ekki ástfóstri við dauða hluti.  "Þú átt ekki að elska hluti sem geta ekki elskað þig til baka" er sagt.

Þetta er rangt.  Menn eru að rugla saman tvenns konar ást.

Hjólið er fyrir löngu orðin framlenging af mér.  Ég geri ekki mikinn greinarmun á því að klippa á mér neglurnar eða smyrja keðjuna á hjólinu.  Ef ég missi þetta hjól mun ég syrgja það eins og ef ég missti framan af fingri.

Ef ég sæi fingurinn afhöggvinn gæti ég líka sagt um hann, að hann gæti ekki elskað mig til baka.  Það er ekki þar með sagt að ég myndi ekki sakna hans.  Hann var hluti af mér og það er hjólið orðið líka.  Ég er ekki að tala um rómantíska ást heldur umhyggjuna sem kemur á mörgum árum þegar maður virkilega þekkir eitthvað vel og hefur passað uppá það.

Í morgun horfði ég á hjólið og fann að mér þótti vænt um það.  Ég skammast mín ekkert fyrir það.


La vie est belle

Ég er ennþá í Rennes í Frakklandi.

Þegar ég kem út á morgnanna gríp ég andann á lofti því allt er svo fallegt.

P9220040

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Blómin sem vaxa við gluggann ilma.  Húsið mitt er allt skakkt og skælt en samt fallegt.  Gatan er með tígulsteinum og hún er falleg.

P9220051

 

 

 

 

 

 

Bakarín eru fallegt og kaffihúsin líka.

paris3mv2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fólkið sem situr á kaffihúsunum  líka.

Ég veit ekki hvernig Fransmennirnir fara að þessu, en ég myndi vilja komast að því.

 


Lagað til í stofunni.

Þegar ég man fyrst eftir mér var bara einn takki notaður á útvarpinu og það var "On/Off-Volume".  Það voru líka  "FM/AM" og "Tuning" takkar en þeir söfnuðu ryki því tækið var alltaf stillt á einu stöðina og það var Útvarp Reykjavík.   Málin hafa flækst síðan.

Í stofunni er myndlykill frá Símanum tengdur við sjónvarpið og videotækið, og svo er magnari, geislaspilari, fjarstýrðar gardínur og gamall myndvarpi einhversstaðar enda eru fjarstýringarnar orðnar sjö á stofuborðinu.

Ég er spenntur fyrir því að fækka fjarstýringunum aðeins.  Í fyrsta lagi langar mig að kaupa geislaspilara sem getur  tekið upp, og losna þar með við videotækið.  Það eina sem stöðvar mig er að háskerpuvæðingin er ekki komin í geislaspilarana ennþá.  Mér hrýs hugur við að kaupa nýjan geislaspilara sem spilar ekki "Blue-Ray" eða "HD" diska.

Geislaspilarakaup eru því í bið.


Í öðru lagi myndi ég vilja fá nýtt sjónvarp sem getur tekið beint á móti stafrænu efni og geta hætt að nota myndlykilinn.  Þá væri ég þar með  búinn að losna við tvær fjarstýringar.  Þetta þarf ég að skýra aðeins.

Mér finnst mikilvægt að einfalda tækjareksturinn í stofunni, ekki flækja hann.  Ég vil geta kveikt á sjónvarpinu og stillt beint á hvaða stöð sem er án þess að kveikja á myndlykli og stilla sjónvarpið á hann.

Nýir myndlyklar nota allir sama staðal til að taka á móti mynd, og sá staðall heitir "DVB" eða Digital Video Broadcast".  Það er ekkert að því að setja þennan staðal inn í sjónvarpið sjálft enda eru flest ný sjónvörp með stafina "DVB" á framhliðinni.  Það er bara ekki alveg nóg.

Myndlykillinn er nefnilega líka lykill, að því leyti að í honum er "smart" spjald sem síminn útvegar, og án spjaldsins neitar lykillinn að afrugla þær rásir sem eru læstar.  Þessar rásir myndi nýja DVB sjónvarpið ekki birta.

Sum ný sjónvörp eru með rauf fyrir spjaldið.  Spjöldin sem síminn notar heita "Conax" og þeim er stungið í millistykki sem er kallað "Conditional Access Module" og raufin heitir "Common Interface".  Þessu millistykki er svo troðið í raufina í sjónvarpinu.  Ég hef bara ekki ennþá séð sjónvarp með "Common Interface" og "DVB" á framhliðinni sem mig langar til að kaupa því þau eru ekki mörg.

Sjónvarpskaup eru því líka í bið.

 

Nýji geislaspilarinn með upptökunni  þyrfti helst líka að vera með rauf fyrir spjöldin því ég vil geta stillt videóið á upptöku án þess að stilla myndlykil sérstaklega.  Það er ekkert smáræðis flækjustig samfara því að reyna að taka upp efni úr sjónvarpi í gegnum myndlykil eins og staðan er í dag.

Eins og þetta sé ekki nóg, þá myndi ég vilja koma sjónvarpinu í stofunni á internetið því þar er fullt af góðu sjónvarpsefni.  Þar þyrfti PC tölvu í hillu með þráðlausri mús, og lyklaborði og ég veit ekki hvað.  Ég þyrfti helst að leggja snúru frá ADSL þangað inn - svo vil ég helst ekki fá Windows XP í stofuna því það þarf sífellt að vera að snýta því og skeina.

Það mál er því líka í bið...

 

Ég á mér draum um að á veggnum í stofunni verði einn skermur og á stofuborðinu verði ein fjarstýring.  Mikið vildi ég að einhver kæmi með þessa lausn á markað. 

 


Harmleikurinn um úthverfin

Hér er athyglisverður fyrirlestur  fluttur af James Howard Kunstler.

Ég hafði ekki séð hann þegar ég skrifaði bloggin á undan, en hann segir eiginlega það sem ég var að reyna að segja, bæði um úthverfi og neyslumenningu.

 

Á vefsíðunni http://www.ted.com eru margir aðrir fyrirlesarar sem eru þess virði að sjá:

  • William McDonough talar um hvernig eigi að hanna hluti með það fyrir augum að við ætlum að lifa áfram á plánetunni.
  • James Nachtwey talar um feril sinn sem stríðsfréttaljósmyndari.
  • Hans Rosling segir sannleikann um þriðja heiminn.

Þarna er fræðandi efni af þeirri sort sem auglýsingavædda "ríkis" sjónvarpið okkar ætti að vera að sýna!


Ljósmyndir

P9160098

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég rakst á þennan herramann í St.Malo í síðustu viku.  Hann er búinn að hæna máf að sér að því marki, að fuglinn sezt á hendina á honum og þeir horfa á hvorn annan í þögulli aðdáun.

Þetta hafði ég aldrei séð fyrr.  Hann (maðurinn) sagði mér að augnaráðið væri lykillinn að velgengni í þessari list.  Mér sýndist aðgengi að snarli fyrir mávinn hafa eitthvað að segja líka.

Ég hef verið að setja myndir í albúm á vefnum fyrir fjölskylduna mína.  Kannski finnst einhverjum öðrum gaman að fletta þeim.  Nýjustu albúmin eru frá Rennes í Frakklandi, en eldri myndirnar koma víða að.

Nú ætla ég út í góða veðrið og hjóla 40 km!

 

 


Mynstur 2

Þegar ég panta herbergi á sjávarhóteli er verðmunur á herbergjum eftir því hvort  útsýnið er til hafs eða bara inn í götu.

Herbergi sem kostar 90 dollara út að götu kostar 120 dollara með hafútsýni.  Munurinn er einhver 30 prósent en ég er bara að slumpa.

Ég held að flestir séu sammála um að útsýni sé einhvers virði en ég hef samt  aldrei séð verðskrá í Fasteignablaðinu yfir það.  Hins vegar eru til nákvæmar  tölur um verð á íbúðarfermetra.  Þar er verið að einblína á magnið en lífsgæðin  eru ekki með í myndinni.

Nú ætlar Reykjavíkurborg að byrja á landfyllingu við Ánanaust, rétt hjá JL  húsinu.

Mér finnst landfyllingar stórsniðugar.  Ef Íslendingar gengju sköruglega til  verks og myndu fletja Ísland út eins og pizzudeig, gætu þeir endað með stórveldi  sem fyllti út hálft N.Atlantshafið, þótt ekki risu fjöllin þar úr sæ.

Það er samt ekki hægt að láta eins og að landfyllingin sé óviðkomandi fólkiu sem  býr við ströndina.  Öfundarraddir geta að vísu sagt að nú sé fólkið búið að hafa  útsýnið og komin tími fyrir aðra að njóta þess, en það væri bara öfund.  Fólkið  borgaði örugglega meira fyrir íbúðina út af útsýninu á sínum tíma.

Ef íbúð kostar 50 milljónir áður en byggt er fyrir framan, má leiða að því rökum  að hún kosti 37 milljónir á eftir, ef ég miða við verðskrá sjávarhótelsins. Það  væri því verið að stela 13 milljónum af þessum íbúðareiganda og láta fólkið sem  byggir á landfyllingunni hafa þær.

Það sem er fréttnæmast við landfyllinguna hjá Ánanaustum er að Reykjavíkurborg  ætlaði ekki að ræða við íbúðareigendur.

Svona vinnubrögð væri hægt að komast upp með ef mannasiðir væru af skornum  skammti og eðlileg samskiptamynstur hefðu brotnað niður. Þá mætti notfæra sér  ringulreiðina og segja sem svo: "látum fólkið leita réttar síns og sigum  lögfræðingum á það ef það reynir".  Lýðræðisleg vinnubrögð eru orku og tímafrek  en fautagangur er áhrifaríkur og fljótlegur, enda hafa fautar löngum orðir  fengsælir.

Ég held samt að Reykjavíkurborg vinni ekki svona.  Kjörnir fulltrúar í borginni mega ákveða að gera landfyllinguna en það þarf að borga skaðabætur.

Nú langar mig að sjá  verðlistann yfir þesi gæði sem fólkið glatar.  Hvers virði er sjávarútsýni í  Reykjavík í dag?

Í framhaldi af því, hvers virði er að búa ekki við umferðaræð eins og  Miklubraut? Hvers virði er að fá ekki skemmtistað eða kynlífshjálpartækjaverslun  í hverfið sitt þar sem áður var kjörbúð?  Ef allt er metið til peninga í dag, þá  legg ég til að við förum að vinna að gerð þessa verðlista svo enginn verði nú  féflettur.



Mynstur

Í bókinni "The Timeless way of building" frá árinu 1979 setur höfundurinn,  Christopher Alexander,  fram þá kenningu að íbúðir, hús, bæir og borgir byggist upp samkvæmt mörgum mynstrum, litlum og stórum, sem eru annað hvort lifandi eða dauð í eðli sínu.

Hann setur fram hugmyndir að góðum mynstrum í bókinni.  Ég nefni nokkur dæmi.

Eitt dæmi kallar hann "LESSTAÐ".  Vistarverur þurfa stað þar sem tveir gluggar mætast og hægt er að sjá vel út en samt að vera í friði, þar sem stendur þægilegur stóll og hægt er að koma sér fyrir með bók.

Annað dæmi um gott mynstur er "INNKOMA".  Það er svæði þar sem fólk er komið inn af götunni en er ekki komið inn í húsið.  Þar gefst tækifæri til að skipta um hugarfar, að hætta að vera "úti" og byrja að vera "inni".  Stundum þarf þetta bara að vera upphækkaður pallur við útidyrnar, helst með smá skyggni yfir.

"KROSSGÖTUR" er annað mynstur.  Þar sem vegir mætast, opna búðir og þar er eðlilegt að setja lítið torg.  Þar safnast fólk saman.  Bæjarhlutar sem hafa ekki krossgötur verða ekki lifandi.

"19% BÍLASTÆÐI" heitir enn eitt mynstrið.  Höfundur slær á að svæði, þar sem meira en 19% landrýmis fer undir bíla, missi lífskraftinn.  Þegar þetta er skrifað eru 50% Reykjavíkur komin undir malbik.  Það skal tekið fram að höfundur bókarinnar er að skrifa bók um arkitektúr, hann er ekki vinstri grænn.

Í seinni bókinni fer hann í gegnum u.þ.b. 250 mynstur, hvað geri þau góð, í hvaða samhengi þau eiga við.

Mismunandi kúltúrar koma sér upp mismunandi mynstrum.  Það sem gerir London að London eru mörg lítil og stór mynstur, hvernig menn ganga frá handriðum upp að útidyrunum, hvað gangstéttin er breið, hallinn á þökunum.   Þetta eru mynstrin í London. Allt er eins á vissan hátt og samt er ekkert eins.

Enginn einn aðili þarf að hanna London eins og hún leggur sig, menn þurfa bara að koma sér upp sameiginlegu "mynstursmáli" til að borgin verði að London.

Önnur mynstur gera þorp í Perú að þorpi í Perú.

Ef menn tala sama málið verður lítið um árekstra milli manna, það fer enginn að setja risastóra gluggastofu ofan í klósettgluggann hjá nágrannanum.

Að hans mati er mikilvægt að allir íbúar borgar tali sama "mynstursmálið", að þeir hafi sameiginlega sýn á hvaða mynstur gera borgina þeirra góða og húsin þeirra góð.  Þannig geta íbúar fengið góða tilfinningu í borginni, fundið að þeir eigi heima þar, án þess að allt virki "feik" eða sundurslitið.

Menn sjá tilsýndar ef reynt er að hanna "bryggjuhverfi" sem á að líta út fyrir að vera svo notalegt en var í raun hannað af einni arkitektastofu.  Einsleitnin  kemur upp um verknaðinn.  Einn aðili getur ekki hannað fjölbreytina sem er í  lifandi borgarskipulagi sem hefur byggst upp með sameiginlegum mynstrum.

Hann segir að nútíma fólk hafi misst niður þetta mynstursmál, það sé orðið "mállaust" í vissum skilningi.  Það treysti því "sérfræðingum" til að hanna miðlægt alla hluti hvort sem um er að ræða umferðar mannvirki, borgarhverfi eða húsgögn.

Sérfræðingarnir koma með mynstrin úr sínum skóla og setja alltof mikið af sínu egói í hönnunina.  Útkoman sé sundirslitnar borgir þar sem húsin og borgarskipulagið verða ögrandi í stað þess að gera borgina lifandi.

Þegar gömul hús brenna eins og gerðist í Austurstræti má samkvæmt nýjum arkitektum ekki byggja sambærileg hús aftur því þá væri verið að byggja gamaldags hús og það væri "feik".  Þetta er vitleysa.  Sumir hlutir eru tímalausir.  Það er verið að prjóna nýjar lopapeysur í sauðalitunum í dag og það er ekkert feik við það að þær eru nýjar.  Mynstrin í þeim eru tímalaus. Eftir þúsund ár verða þær vonandi prjónaðar ennþá.

Sósíalistar hönnuðu hlutina miðlægt og útkoman varð hryllilega mannfjandsamleg mannvirki sjöunda áratugarins.


comarch

 

 

 

 

 

 

 

 

Kaldhæðnin er að íslenskur ný-kapítalismi er að gera þetta nákvæmlega sama.  Nýja skuggahverfið og Kópavogur eru byggð upp miðlægt, án samræðna í sameiginlegu "mynstursmáli" við fólkið sem á að búa þarna.

Fólkið í bæjarstjórn heldur að það verði ekki tekið alvarlega nema það tali um pennga.  Það hættir að hlusta á fólkið sem býr í bænum en talar þess í  stað við verktakana, sem vilja græða sem mest með því að nota staðlaðar einingar.  Fólkið hlustar ekki á sjálft sig lengur svo það er ekki við neinn að sakast.

Útkoman verður sú sama eins og ef kommúnistar hefðu verið á ferð fyrir fjörtíu árum.

Ef íbúar reyna að finna málið aftur og standa á rétti sínum er vaðið yfir þá.  Uppivöðslusemi bæjarstjórans í Kópavogi er skýrt dæmi um fenið sem við erum komin í.

Við getum ekki afsakað okkur með því að líta til kapítalistanna í Bandaríkjunum.  New York borg velur að byggja ekki í Central Park.  Hvað skyldi landið undir garðinn kosta?  Borgarstjórnin þar kastar trilljörðum á glæ með því að byggja ekki þarna.  Hvílík eyðsla!

En hvað væri New York án Central Park?  Stundum eru það holurnar sem eru mikilvægastar.  Hvað væri donut án  holunnar?  Hvað kostar holan?

Í New York tala allir sama málið að því leyti að maður byggir ekki í Central Park.  

 

(Þessi grein var hluti af færslunni "Potpourri" sem ég lagði inn fyrir tveim dögum en ég vildi tengja þennan hluta hennar við þessa frétt).

 

 


mbl.is Lýsa furðu yfir að leyfa eigi að byggja hús í Laugardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband