Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Anousheh Ansari

Anousheh Ansari er fertug og frá Íran.  Hún er með B.S. í tölvunarfræði og M.S. í  rafmagnsverkfræði. Hún flutti til Bandaríkjanna og starfaði sem verkfræðingur en ákvað svo að stofna sitt eigið rafeindafyrirtæki ásamt manninum sínum.

Hún seldi það fyrir 750 milljón dollara og hefur síðan þá meðal annars heimsótt alþjóðlegu geimstöðina með rússneskri geimflaug.

 anousheh_patch_c

 

 

 

 

 

 

 

 

Hún er fyrirmynd margra ungra  stúlkna og ágætis auglýsing fyrir tölvunarfræðinám fyrir utan það að vera góður  fulltrúi fyrir Íranskar konur.

578154173638718anousheh

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hef þekkt tvo írani persónulega, þeir voru höfðingjar, vinir vina sinna og  strangheiðarlegir.  Írönsk kona hefur fengið  Nóbelsverðlaun og önnur var tilnefnd til þeirra.

Það er einmitt landið þeirra sem Bandaríkjamenn eru nú farnir að tala um að  kasta sprengjum á.

DWF15-458790_t

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Shirin Ebadi 

 

Ef íslendingar skyldu aftur láta sér detta í hug að verða á lista "hinna staðföstu þjóða" þá vil ég minna á að þetta eru ekki allt jóðlandi ofsatrúarmenn.

Til að setja andlit á þessa stórmerku þjóð læt ég meðfylgja myndir af nokkrum kynsystrum og samlöndum Anousheh sem hafa  skarað fram úr, hver á sínu sviði.

Miss_world_canada-Nazanin_Afshin-Jam-4medium_marjane-satrapiparsipur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

meena-9  
 

Shaghayegh Iranian Artist ~1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Potpourri

Gott er að verzla

Það er ánægjulegt að kaupa í matinn þótt ekki sé nema tómata, baunir og eina kjötsneið hér í Frakklandi.  Með þessu borða ég Baguette" og drekk eplacider frá Bretagne með. (4,5%)


p9150042

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Maturinn sem ég elda er svo einfaldur en hráefnin eru svo góð. Grænmetið í Yggdrasil á Skólavörðustíg skagar reyndar langleiðina upp í þessi gæði.  Maður dettur sjálfkrafa í "Franskt eldhús".

Hér er skinka alvöru skinka og lítur út eins og skinka.

 p9150044

 

 

 

 

 

 

 

 

Ferköntuðu "skinkuna" að heiman hef ég ekki séð til sölu.  Ég hef séð hana í Bretlandi, en þar heitir hún "SPAM".  SPAM er pressað hakk með viðbættu kartöflumjöli eins og íslenska "skinkan".

Hér er fullorðið fólk að afgreiða.  Kannski er það vegna þess að eftirspurn eftir vinnuafli er ekki eins mikil hér eins og á Íslandi. Mér finnst samt vinalegt að jafnaldrar eða eldri skuli afgreiða mig.

p9150026

 

 

 

 

 

Einu sinni fann ég ekki klósetthreinsilög í Krónunni. Ég spurði afgreiðslubarnið hvar hann væri.  "Er þetta það?" sagði það og kom með uppþvottalög.  Það hefur kosti að hafa fullorðið fólk í afgreiðslu.

 

Skipulag

Þegar ég mætti til starfa var þegar búið að merkja hurðina með nafninu mínu, gera nýtt tölvupóstfang, setja upp nýja tölvu og útvega skrifborðsstól.  Lykilkortið mitt var tilbúið og bara eftir að smella af mér ljósmynd og setja á kortið.

Ég gat strax notað kortið til að kaupa mat í mötuneytinu og opna hurðir. Ég gat líka farið á bókasafnið og tekið bækur.  Ég fékk lítinn bækling til að setja í veskið með tölvupóstföngum allra sem skiptu máli, húsvörðurinn, bóksasafnið, hvað ef ég er læstur úti o.s.frv.  Svona verða hlutirnir ekki nema einhver hafi hugsað út í skipulagninguna af alúð.

Það er mötuneyti í húsinu og hægt er að panta matinn frá tölvunni fyrir kl.10, þá er hann til taks kl.1200 og væntanlega hægt að mæla betur út hver eftirspurnin er svo ekkert fari til spillis.  Þetta hef ég ekki séð áður.  Reyndar er ekki pantað á vefnum heldur á skipanalínunni sem er krúttlega nerdalegt.


Hjólreiðarfólk á fyrsta farrými

Hérna er rein í hringtorgunum fyrir hjólreiðar.  Það bráðvantar heima því þar þeytast bílarnir út úr hringtorgi og yfir gangbrautirnar með engum fyrirvara.

Hér eru líka skilti úti um allan bæ þar sem á stendur "Nema fyrir hjólreiðafólk". Þetta og hitt er bannað, gata er einstefnugata, "Nema fyrir hjólreiðafólk". Öll umferð bönnuð "nema fyrir hjólreiðafólk".

Þetta sendir svo skýr skilaboð um að hjól eru fyrsta flokks í umferðinni. Borgin vill hjólreiðar.

Ef gata er einstefnugata í Reykjavík þá er hjólreiðafólki væntanlega bannað að hjóla hana í báðar áttir.  Samt er ástæðan að hún er einstefnugata sú, að tveir bílar geta ekki mæst í henni.  Af hverju á hjólreiðafólk að gjalda þess að bílar eru svo fyrirferðarmiklir að þeir geta ekki mæzt í mjóum götum?

Því skyldi hún ekki vera merkt tvístefna fyrir reiðhjól?



Hvað er fréttnæmt ?

Í fréttunum heima las ég að Gísli Marteinn hafi sagt að Reykjavík sé orðin meiri bílaborg en flestar borgir í Bandaríkjunum.

Þetta er "Ekkifrétt".  Þetta hefur verið vitað lengi.  Við náðum Detroit fyrir nokkrum árum.  Fréttamenn geta bara ekki sagt frá því, fyrr en þeir hafa það eftir einhverjum viðurkenndum aðila "sem sagði það".  Þetta var jafn mikil staðreynd
áður en Gísli Marteinn steig í pontu.

Ég held sveimér þá að meðalaldur íslenskra fréttamanna fari að nálgast meðalaldurinn á afgreiðslufólkinu í Bónus og Krónunni.

Ég vona að Gísli Marteinn geri eitthvað róttækt í umferðarmálum en ég þori ekki að vona að fréttamenn muni halda honum við efnið. Þeir virðast ekki hafa frumkvæði í sér til þess þessa dagana.

Annars hef ég aldrei skilið hvað telst fréttnæmt og hvað ekki.  Ég held að fréttamenn ritskoði sjálfa sig fyrirfram.

"Átján íslendingar byrjuðu á þunglyndislyfjum í dag" væri aldrei fyrirsögn.  Hins vegar er í lagi að hafa fyrirsögnina á borð við: "Hlutabréf í 365 miðlum féllu um 0,2% í dag".  Sú fyrirsögn er í lagi dag eftir dag (amk. hjá Blaðinu).

Af hverju er annað frétt en ekki hitt?  Mín lífshamingja sveiflast ekki eftir genginu í 365 miðlum.


Debitkort eru betri en kreditkort, en reiðufé er kannski best

Þegar ég fór utan keypti ég evruseðla og nú borga ég með þeim. Ég sé í veskinu núna hvað mikið er eftir af þeim pening sem ég tók út úr hraðbankanum.  Það er góð tilfinning.

Heima dett ég í að borga allt með kortinu og þá missi ég stjórn á því hvað ég á mikinn pening.  Reyndar er ég skrúfaður þannig saman að ég kem út í plús eftir mánuðinn en tilfinningin er samt ónotaleg.

Þegar ég notaði tékkhefti í gamla daga skrifaði ég í "svuntuna" í heftinu hvað ég átti mikinn pening fyrir og eftir hverja færslu.  Seðlarnir í veskinu voru sjálfsskjalandi.  Þessi stjórnun á fjármálunum er farin veg allrar veraldar eftir að kortin komu.

Að vísu fæst kvittun hjá hverjum kaupmanni en sú kvittun fer ekki jafnóðum inn í litla færslubók í veskinu.  Ég veit ekki  um neinn sem færir skipulega bókhald þegar hann notar kreditkort.

Ég myndi vilja fá aftur völdin yfir mínum fjármálum aftur en ég veit ekki alveg hvernig.

Á Íslandi borga allir með kreditkorti, upphaflega vegna þess að það er dýrara að nota debitkort en kreditkort.  Ef maður vill ekki skulda neinum og notar því debitkort, á maður á hættu að fá FIT sekt þótt maður fari bara eina krónu
yfir á reikningnum.

Sú eina króna gæti hafa verið tekin sjálfkrafa út af reikningnum af bankanum svo ekkert veskisbókhald getur komið í veg fyrir þetta.

Af hverju er það sektarvert ef ég fer eina krónu yfir á reikningnum?  Af hverju lokar ekki bankinn á færsluna og segir "ónóg innistæða?"  Nóg er af tölvusamskiptunum frá versluninni til bankans þegar maður borgar með kreditkorti.

Nú er afgreiðslufólk farið að spyrja  "viltu nokkuð kvittunina" þegar maður borgar með kreditkortinu. Stjórnleysið er orðin sjálfgefin hegðun.

Í Danmörku borguðu allir með Debetkorti og þar voru FIT sektir ekki til. Ef innistæða var ekki á kortinu þá kom það bara á skerminn í búðinni.

Þar spurði afgreiðslufólkið hins vegar "pa belobet?".  "Viltu fá reiðufé til baka?" Það fannst mér þægilegt.

Ég hef reynt að biðja um reiðufé í íslenskri verslun þegar ég borga með debetkorti.  Það sækist seint og illa og hámarkið er þúsund krónur. Maður skyldi halda að kaupmaðurinn væri að taka áhættu með því að láta
mann hafa pening.  Hann er það ekki, bankinn borgar honum örugglega.



Þegar hamingjan sést tilsýndar

Um helgina hjólaði ég 77 kílómetra frá Rennes til Dinan.  Leiðin öll er meðfram bátaskurði sem Napóleon lét grafa á 17.öld þegar Bretar réðu lögum og lofum á Ermarsundi og meinuðu Frökkum aðgang um sundið.  Skurðurinn sker í gegnum allan Bretagne skaga.

Næstu 25 kílómetrana tók ég bát frá Dinan til St.Malo við ströndina.

Þar sem áin kemur út í hafið er stærsta sjávarfallavirkjun í heimi.  De Gaulle vígði hana 1968.  Þar eru fjörtíu túrbínur sem nýta muninn á flóði og fjöru sem er mjög mikill hér eða 15 metrar þegar mest er.  Meðfram virkjuninni er skipastigi sem lét skipið okkar síga niður metrana fimmtán.  Það var tilkomumikið.

Hjólaleið liggur meðfram skurðinum alla leið.  Hún er ótrúlega falleg vegna þess að hún er svo vel hirt.  Með reglulegu millibili eru "bátalásar".  Við hvern lás stendur hús.

p9150015

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Það virðist vera samkeppni milli þeirra sem þar búa að gera þau sem fallegust og halda þeim sem best við.  Það virðist gera eitthvað mjög gott fyrir sálarlífið að búa þar.  Hvert einasta hús bar þess merki.  Allt virtist vera í svo miklu samræmi og ró yfir hlutunum.
p9160035

 

 

 

 

 

 

 

 

Og það minnir mig á annað.


Mynstur

Ég er að lesa bókina "The Timeless way of building" frá árinu 1979 eftir Christopher Alexander.  Í henni setur hann fram þá kenningu að íbúðir, hús, bæir og borgir byggist upp samkvæmt mörgum mynstrum, litlum og stórum, sem eru annað hvort lifandi eða dauð í eðli sínu.

Hann setur fram hugmyndir að góðum mynstrum í bókinni.  Ég nefni nokkur dæmi.

Eitt dæmi kallar hann "LESSTAÐ".  Vistarverur þurfa stað þar sem tveir gluggar mætast og hægt er að sjá vel út en samt að vera í friði, þar sem stendur þægilegur stóll og hægt er að koma sér fyrir með bók.

Annað dæmi um gott mynstur er "INNKOMA".  Það er svæði þar sem fólk er komið inn af götunni en er ekki komið inn í húsið.  Þar gefst tækifæri til að skipta um hugarfar, að hætta að vera "úti" og byrja að vera "inni".  Stundum þarf
þetta bara að vera upphækkaður pallur við útidyrnar, helst með smá skyggni yfir.

"KROSSGÖTUR" er annað mynstur.  Þar sem vegir mætast, opna búðir og þar er eðlilegt að setja lítið torg.  Þar safnast fólk saman.  Bæjarhlutar sem hafa ekki krossgötur verða ekki lifandi.

"19% BÍLASTÆÐI" heitir enn eitt mynstrið.  Höfundur slær á að svæði, þar sem meira en 19% landrýmis fer undir bíla, missi lífskraftinn.  Þegar þetta er skrifað eru 50% Reykjavíkur komin undir malbik.  Það skal tekið fram að höfundur bókarinnar er að skrifa bók um arkitektúr, hann er ekki vinstri grænn.

Í seinni bókinni fer hann í gegnum u.þ.b. 250 mynstur, hvað geri þau góð, í hvaða samhengi þau eiga við.

Mismunandi kúltúrar koma sér upp mismunandi mynstrum.  Það sem gerir London að London eru mörg lítil og stór mynstur, hvernig menn ganga frá handriðum upp að útidyrunum, hvað gangstéttin er breið, hallinn á þökunum.   Þetta eru mynstrin í London. Allt er eins á vissan hátt og samt er ekkert eins.

Enginn einn aðili þarf að hanna London eins og hún leggur sig, menn þurfa bara að koma sér upp sameiginlegu "mynstursmáli" til að borgin verði að London.

Önnur mynstur gera þorp í Perú að þorpi í Perú.

Ef menn tala sama málið verður lítið um árekstra milli manna, það fer enginn að setja risastóra gluggastofu ofan í klósettgluggann hjá nágrannanum.

Að hans mati er mikilvægt að allir íbúar borgar tali sama "mynstursmálið", að þeir hafi sameiginlega sýn á hvaða mynstur gera borgina þeirra góða og húsin þeirra góð.  Þannig geta íbúar fengið góða tilfinningu í borginni, fundið að þeir eigi heima þar, án þess að allt virki "feik" eða sundurslitið.

Menn sjá tilsýndar ef reynt er að hanna "bryggjuhverfi" sem á að líta út fyrir að vera svo notalegt en var í raun hannað af einni arkitektastofu.  Einsleitnin  kemur upp um verknaðinn.  Einn aðili getur ekki hannað fjölbreytina sem er í  lifandi borgarskipulagi sem hefur byggst upp með sameiginlegum mynstrum.

Hann segir að nútíma fólk hafi misst niður þetta mynstursmál, það sé orðið "mállaust" í vissum skilningi.  Það treysti því "sérfræðingum" til að hanna miðlægt alla hluti hvort sem um er að ræða umferðar mannvirki, borgarhverfi
eða húsgögn.

Sérfræðingarnir koma með mynstrin úr sínum skóla og setja alltof mikið af sínu egói í hönnunina.  Útkoman sé sundirslitnar borgir þar sem húsin og borgarskipulagið verða ögrandi í stað þess að gera borgina lifandi.

Þegar gömul hús brenna eins og gerðist í Austurstræti má samkvæmt nýjum arkitektum ekki byggja sambærileg hús aftur því þá væri verið að byggja gamaldags hús og það væri "feik".  Þetta er vitleysa.  Sumir hlutir eru tímalausir.  Það er verið að prjóna nýjar lopapeysur í sauðalitunum í dag og það er ekkert feik við það að þær eru nýjar.  Mynstrin í þeim eru tímalaus. Eftir þúsund ár verða þær vonandi prjónaðar ennþá.

Sósíalistar hönnuðu hlutina miðlægt og útkoman varð hryllilega mannfjandsamleg mannvirki sjöunda áratugarins.
comarch

 

 

 

 

 

 

 

Kaldhæðnin er að íslenskur ný-kapítalismi er að gera þetta nákvæmlega sama.  Nýja skuggahverfið og Kópavogur eru byggð upp miðlægt, án samræðna í sameiginlegu "mynstursmáli" við fólkið sem á að búa þarna.

Fólkið í bæjarstjórn heldur að það verði ekki tekið alvarlega nema það tali um pennga.  Það hættir að hlusta á fólkið sem býr í bænum en talar þess í  stað við verktakana, sem vilja græða sem mest með því að nota staðlaðar einingar.  Fólkið hlustar ekki á sjálft sig lengur svo það er ekki við neinn að sakast.

Útkoman verður sú sama eins og ef kommúnistar hefðu verið á ferð fyrir fjörtíu árum.

Ef íbúar reyna að finna málið aftur og standa á rétti sínum er vaðið yfir þá.  Uppivöðslusemi bæjarstjórans í Kópavogi er skýrt dæmi um fenið sem við erum komin í.

Við getum ekki afsakað okkur með því að líta til kapítalistanna í Bandaríkjunum.  New York borg velur að byggja ekki í Central Park.  Hvað skyldi landið undir garðinn kosta?  Borgarstjórnin þar kastar trilljörðum á glæ með því að
byggja ekki þarna.  Hvílík eyðsla!

En hvað væri New York án Central Park?  Stundum eru það holurnar sem eru mikilvægastar.  Hvað væri donut án holunnar?  Hvað kostar holan?

Í New York tala allir sama málið að því leyti að maður byggir ekki í Central Park.



Hér er djúpur skotabrandari

 

Strákurinn kemur heim úr skólanum og segir: "pabbi, ég hljóp á eftir strætó alla leiðina heim og sparaði strætómiða".   Pabbinn svarar:  "af hverju hljópstu ekki heim á eftir leigubíl?"

Það er ekki hægt að mæla allt í peningum...

Kveðja, Kári

PS: Ég á afmæli í dag, svo vinsamlega kvittið fyrir lestrinum :)

 


Hjólakúltúr og annar kúltúr

Rennes er hjólaborg.  Stofnunin þar sem ég vinn er með hjólageymslu í kjallaranum fyrir starfsmenn sem er opnuð með sama korti og allar aðrar hurðir í húsinu:


P9120003

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þar inni er gott pláss enda margir á hjóli (ég mætti mjög snemma):

P9120001

 

 

 

 

 

 

 

 

 

það er búið að festa pumpu á einn vegginn:

P9120002

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég vona svo sannarlega að svona hjólageymsla verði í nýja Háskólanum í Reykjavík en ekki bara malbiksauðn af bílastæðum þar sem áður var útivistarsvæði Reykjvíkinga.  Kringlusvæðið þar sem skólinn stendur nú er ekki beinlínis huggulegur staður.   Ég hef séð krúttlegri strippmöll í Bandaríkjunum.

Fyrir utan húsið hér er skilti sem á stendur að sekt fyrir að reykja fyrir utan séu 68 evrur.  Beinhörð viðurlög og ekkert tvínónað við að segja hver þau eru.


P9120004

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Allar götur í borginni eru með hjólaakgrein og sérstök ljós fyrir hjólandi.


P9130005

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á móti kemur að maður verður að gera svo vel að fara eftir umferðarreglunum. Á Íslandi er freistandi að gera eins og manni sýnist enda er maður jafn rétthár og mávarnir í borginni.  Enginn réttur en engin ábyrgð.

Bílarnir eru úti um allt en þeir keyra varlega og eru litlir Renault Megane og engir risajeppar.

 

Ég sit með skemmtilegum nördum í hádegismat hér.  Meðal annars var rætt um eftirfarandi:

Jólasveinninn í rauðum galla með hvítu skrauti er útkoman úr auglýsingaherferð frá Coca Cola.  Myndirnar sem voru teiknaðar fyrir kókauglýsingarnar urðu staðalímynd fyrir jólasveininn eftir það. Fyrir þann tíma var hann miklu líkari biskup.


xmas_santa05alg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta eru vonbrigði.  Það er ekki nóg með að jólasveinninn sé ekki til heldur er hann líka útsendari auðvaldsins.  (Hann var það víst líka fyrir kókherferðina, kirkjan var á móti honum á miðöldum).

Ég lærði meira:

Brauðið sem  heitir "Croissant" á frönsku heitir það eftir orðinu yfir hálfmána, "Crescent".  "Croissant de la Lune" þýðir "Crescent of the moon".  Sagan hermir að frakkar hafi bakað þá til að halda upp á sigur gegn Tyrkjum.

Sum orð hafa farið úr frönsku yfir í ensku og aftur yfir í frönsku.  Dæmi um þetta er franska orðið "Ticket" sem er tökuorð úr ensku.  Englendingar tóku það upphaflega frá franska orðinu "Etiket" sem þýðir "merkimiði".

Vikudagarnir frönsku hafa guðanöfn eins og í ensku og dönsku.  Englendingar og Danir nota germönsku / norrænu guðina en Frakkar þá rómversku:

  • Mánudagur, Monday,Tunglið                           = Luna,    Lundi
  • Þriðjudagur, Tuesday, Týr                               = Mars,    Mardi
  • Miðvikudagur, Wednesday, Wotan eða Óðinn = Merkúr,  Mercredi
  • Fimmtudagur, Thursday, Thor                         = Júpiter, Jeudi
  • Föstudagur, Friday, Frigg                                = Venus,   Vendredi
  • Laugardagur, Saturday                                   = Satúrn,  Samedi
  • Sunnudagur, Sunday                                      = Dieu,    Dimanche

Ég tók ekki eftir þessu þegar ég lærði þá í menntaskóla.

Á laugardaginn ætla ég að hjóla eftir hjólastíg meðfram á sem liggur til bæjarins Dinan á norðurströnd Bretagne.   Þar ætla ég að gista um nóttina í gamla bænum. Þaðan tek ég bát til St.Malo og lestina aftur til Rennes á sunnudagskvöld.


Allabadderí

Nú er ég í borginni Rennes í Frakklandi.

Ég er að heimsækja rannsóknarstofnun sem heitir IRISA og verð þar fram eftir  hausti.  Vonandi geri ég einhverjar rannsóknir af viti og læri meiri frönsku í  leiðinni.

Hjólið fór með.  Það reyndist lítið mál að pakka því niður með því að taka  dekkin og fremra tannhjólið af.  Eftir það pakkaðist það vel inn í poka sem ég  átti utan af IKEA stól.

Ég gat haldið á því eins og ferðatösku, tekið með í neðanjarðarlestina í París  og svo háhraðlestina til Rennes.  Eldra flugfélagið (Icelandair / Flugleiðir /  Loftleiðir / FL Group) tók hjólið um borð fyrir 2500 kr.  Þungi þess dregst þá  ekki frá ferðatöskuþyngdinni.  Ég var svolítið kvíðinn fyrir að drösla hjólinu  gegnum heiminn en þetta reyndist ekki vera neitt mál.

Ég ákvað reyndar að taka gamla hjólið með enda er það löngu afskrifað og lítill  skaði ef ég missi það í franskan þjóf.

Hér er mynd af hjólinu fyrir og eftir pökkun.

hjolfyrir

 

 

 

 

 

 

 

 hjoleftir

 

 

 

 

 

 

 

Fyrsta kvöldið snæddi ég með kollega og fjölskyldunni hans.  Mér þótti mikið til  koma að hvorki hrísgrjón né kartöflur voru í boði, þess í stað var mikið af  yndislegu, soðnu grænmeti.

baunir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessar baunir eru seldar í grammatali hvítum frauðplastbökkum heima.  Hér eru þær  borðaðar í svakalegu magni enda kosta þær lítið og koma í stað fyrir kartöflur eða hrísgrjón.

Þarna er kannski komin hluti af skýringunni á því  hvers vegna franskar konur fitna ekki. Kartöflur, pasta og hrísgrjón eru fitandi  en það er freistandi að borða sig mettan á þeim í staðinn fyrir að kaupa  grænmeti, ef það er dýrt og bragðlítið.

Ég enda pistilinn með frönskum konum (á markaðinum í Rennes):



Nýjasta tækni og vísindi

Toyota Prius er með bensínvél sem nýtur aðstoðar rafmótors og rafhlöðu. Bíllinn  er hálfgerður rafmagnsbíll og hálfgerður bensínbíll og þaðan er nafnið "hybrid"  komið, því bíllinn er "hvorki eitt né annað".  tilgangurinn með tækninni er að  gera bílinn sparneytinn.

Nú er bandaríski herinn farinn að skoða aðra notkun "hybrid" tækninnar og  markmiðið er ekki sparneytni heldur betri torfærueiginleikar og sitthvað fleira.

Það hefur löngum þekkst í járnbrautalestum að láta díselvélar búa til rafmagn  sem síðan er látið knýja hjól lestarinnar. Þessi sama aðferð er notuð í amk.  tveim nýjum farartækjum sem herinn er að fikta með. Það fyrra heitir HEMMT A3:

 033447.2-lg

Kosturinn við þessa hönnun er að ekkert pláss fer undir öxla, mismunadrif og  gírkassa.  Hönnun undirvagnsins verður því einfaldari.

 

 

 

Rafmagsmótor er inní hverri hjólaskál fyrir sig enda er bíllinn með aldrifi. 

Þar sem díselvélarnar  framleiða þriggja fasa riðstraum er hægt að nota þessa bíla sem raforkuver en  hernaður hefur víst aldrei verið rafmagnsfrekari.

Í stað þess að vera með rafhlöður eru notaðir þéttar sem geta gefið auka 190  hestöfl í tíu sekúndur.  Þéttarnir eru hlaðnir upp þegar ferlíkið bremsar.

AHED-chassis-cutaway

 

 

 

 

 

 

 

Hér er lítil og létt útgáfa sem notar þessa sömu tækni:

aggressor_mil

 

 

 

 

 

 

 

Farartækin geta keyrt með slökkt á díselvélinni og ferðast þannig hljóðlega og án þess að koma fram á hitamynd.

Ég spái því að "hybrid" tæknin verði komin til íslenskra jeppamanna fyrr en síðar og að höfuðmarkmiðið verði ekki að spara eldsneyti.

 


Lögbrjótar á fínum bílum

 

Þessi mynd birtist á visi.is og sýnir bíla fyrir utan stjórnarfund 365 miðla ehf.

bilde

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þarna eru umferðarreglur brotnar, bílarnir eru uppá kanti þar sem er bannað að leggja.  Fyrirtækið er í skólahverfi og þarna þurfa börnin að troðast á milli.

Þetta minnir mig á ökumenn diplómatabíla frá sumum þjóðum sem safna umferðarsektum og borga þær aldrei.

Hafa ökumenn gefið sér að þeir væru hafnir yfir lög?  Ef svo er, þá erum við uppi á Sturlungaöld.

 

 


Hvaða umferð?

Umferðarvandinn í Reykjavík er löngu leystur hvað mig varðar.

Á hverjum degi hjóla ég til og frá vinnu meðfram bílum föstum í umferðinni.   Ég dáist að staðfestu og þrjósku þeirra sem í þeim sitja.  Ég gæti þetta ekki.  Ég yrði svo pirraður.

Ég býst við holskeflu nýrra hjólreiðamanna á næstunni.  Það er svo gott að vita hvenær maður kemur í vinnuna og lenda aldrei í vandræðum með stæði.

 


mbl.is Morgunumferðin þung í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vélarrúm notuð sem afgreiðslustaðir

Ég kom inn í huggulegt gamalt bakarí í Strandgötunni í Hafnarfirði um daginn. Þarna var allt í gamla stílnum nema hvað þar voru fjórir eða fimm ísskápar og allir glömruðu þeir og urruðu.

Varla heyrðist mannsins mál inni í þessu annars ágæta bakaríi. Ég hrópaðist á við afgreiðslufólkið og flýtti mér út strax og ég gat.

Ég veit um nokkra svona ísskápahávaðastaði í Reykjavík.  Oft hefur eigandinn kostað miklu til að gera innréttingarnar sem bestar en gleymir sér svo alveg þegar kemur að því að kaupa ísskápa.  Hugsanlega fær hann þá ókeypis frá þeim sem útvegar vörurnar í þá og lætur sig því hafa hávaðann í þeim.

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að setja kælivélarnar niður í geymslu eða bak við hús og leggja svo köld rör að ísskápunum og hafa þá þannig alveg hljóðláta.

Mér hefur líka dottið í hug hvort hægt væri að nota kalda vatnið til að halda vörum köldum í stað þess að nota rafmagn og mótora.   Er kannski verið að selja Eskimóunum ísskápa?

 


Dýr myndi tankurinn allur...


Ég nota hreinsað bensín til að þrífa bletti.

Ég bað um hreinsað bensín hjá Lyfju Smáratorgi.  Þar kostaði það 298  kr. fyrir 100 ml. eða 2980 kr. lítrinn.

Ég gat keypt hreinsað bensín útí málningavörubúð í Danmörku fyrir  miklu minna.  Ég spurðist því aðeins fyrir.

Það kemur í ljós að Besta hf. í Ármúla 23 vill fá 350 kr. fyrir 500  ml.  Þar gerir 700 kr. lítrinn.  Lyfja er því rúmlega fjórfalt dýrari.
hreinsadbensinbig

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og þá vitið þið það.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband