Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
18.12.2008 | 08:19
Verðfall á notuðum lúxusjeppum
Hér er grein um lélega sölu á jeppum í Noregi :
http://dinside.no/motor/bil/biltrender/prisras+pa+brukte+luksus-suver/art798437.html
Verðfallið hjá þeim er samt ekki eins mikið og hér, sýnist mér í fljótu bragði.
Þessi síða, www.dinside.no er býsna góð.
10.12.2008 | 16:47
Miðin og meginlandið
Umræðan um inngöngu í ESB hefur verið í svo miklum skotgröfum að ég hef aldrei fengið á hreint nákvæmlega hvað kemur fyrir fiskimiðin okkar við inngönguna.
Fyrst helt ég að útlendingar fengju að veiða eins og þá lystir innan 200 mílnanna alveg stjórnlaust. Það getur ekki verið rétt, frekar en að ég mun mega sá mínum fræjum í land óðalsbónda í Frakklandi. Það er jú eignaréttur?
Mér sýnist vandinn vera að útlendingar munu mega sækja um kvóta til að veiða hér, en það er nokkuð sem ekki einu sinni íslendingar mega gera í dag nema borga kvótakóngunum offjár.
Íslenska ríkið hefur ekki svarað úrskurði evrópudómstólsins að núverandi kvótakerfi er brot á stjórnarskránni. Það mál hefur gleymst í öllu krepputalinu.Nú spyr ég: Getur verið að þeir sem vilja ekki ganga í Evrópubandalagið vilji það ekki vegna þess að núverandi ástand með kvóta fyrir fáa útvalda hentar mörgum kóngum hér ágætlega?
Hvernig snertir inngangan í bandalagið þá venjulegan íslending?
Þetta er örugglega misskilningur hjá mér og ég hlakka til að heyra frá "The usual suspects" sem ráðast til atlögu í hvert sinn sem evrópumálin ber á góma.
9.12.2008 | 10:57
Toyota lækkar verð um 30%
Ég ætla að kaupa bíl á næstu vikum. Ég sá á vef FÍB að Toyota umboðið hefur brugðist við styrkingu krónunnar með því að láta verðhækkun upp á 30% ganga til baka, svo öll verð á heimasíðu þeirra lækkuðu í nótt.
Í augnablikinu eru því hlutfallslega miklu betri kaup í nýjum bíl en notuðum því bílasölur með notaða bíla hafa ekki lækkað verðið til samræmis við lækkun Toyota.
Þetta er því ekki rétta vikan til að fara og skoða notaða bíla.
Mér skilst að bílasölur taki verðið á nýjum bíl, dragi 15% af fyrsta árið og 10% eftir það til að finna verð á gömlum bíl. Þarna er lítið svigrúm til að verðleggja sanngjarnt fyrir vel með farna eða lítið keyrða bíla, aldurinn er látinn skipta öllu máli. Framboð og eftirspurn skiptir heldur ekki máli, bara söluverð á nýjum bíl og fastir afslættir á hverju ári eftir það.
Sú var tíðin að ekki var hægt að nálgast notaðaðan Land Cruiser en nú skipta þeir tugum en allir eru verðlagðir eins og ennþá sé eftirspurn eftir þeim, því verðið er hærra en 15%/10% reglan segir til um en ekki lægri.
Nýr Land Cruiser GX kostar 6.700 þúsund núna. Miðað við afföll ætti 2004 árgerðin að kosta 3.700 þúsund. Ef ég leita að GX land Cruiser 2004 á www.bilasolur.is fæ ég hvorki meira né minna en 49 stykki til sölu, en þeir kosta allir 4.200 og upp í 5.200 þúsund.
Ég held því að nokkrir bjartsýnir bíleigendur í söluhugleiðingum þurfi að fara að slá af verðunum hjá sér.
Hér er dæmi um afföll af bíl sem kostar 6.700 þúsund fyrir 2009 árgerðina :
2009 | 6 700,00 |
2008 | 5 695,00 |
2007 | 5 125,50 |
2006 | 4 612,95 |
2005 | 4 151,66 |
2004 | 3 736,49 |
2003 | 3 362,84 |
2002 | 3 026,56 |
2001 | 2 723,90 |
N1 lækkar hjólbarðaverð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.12.2008 | 10:56
Sushi uppí tré
Köttur húkir á grein í tré fyrir utan gluggann okkar á þriðju hæð hér í Frakklandi og mjálmar án afláts.
Í garðinum búa þrír kettir, tveir sem eru í lagi og svo þessi. Hinir nota tréð til að komast upp á þak á annari hæð á húsinu á móti en þessi þriðji köttur, sem heitir Sushi, er ekki eins vel gefinn og þeir vilja ekkert með hann hafa. Hann hljóp upp trjábolinn á föstudagsmorgninum en gleymdi að taka hægri beygjuna upp á þak, hljóp áfram upp og situr nú hærra en nokkur nær.
Kötturinn er í laufkrónunni fyrir ofan...
Hann er búinn að vera þar í þrjá daga þegar þetta er skrifað. Slökkviliðið kemst ekki inn í portið með stigabíl og kettir eru ekki hátt á forgangslista hjá þeim. Ég veit ekki hvort ég þyrði þrjár hæðir upp stiga sem hallar að grönnu tré þótt ég vissi hvar ég ætti að fá hann lánaðan.
Kjartan sonur minn vill sprauta köttinn niður með vatni og grípa í lak. Ég held að það væri besta aðferðin. Hann benti líka á að þetta myndi enda einhvern veginn, við höfum aldrei séð kattabeinagrind uppi í tré. Maður væri farinn að taka eftir þeim ekki satt?
Konan mín segir að þetta sé Darwinslögmálið í framkvæmd og að þessi köttur sé móðgun við aðra ketti, eins og til dæmis köttinn okkar sem heitir Kismundur og myndi aldrei gera svona lagað.
Þegar ég sagði kollega mínum að kötturinn okkar héti Kismund spurði hann hvort hann væri skírður í höfuðið á trommuleikaranum í "The Who"? Það tók mig nokkra stund að skilja að nafnið á Keith Moon er borið fram eins og Kismund á frönsku. Prófið að bera nafnið fram með frönskum hreim nokkrum sinnum...
Kismundur
Mér datt í hug að ef Sushi lifir þetta af ætti hann að fá nýtt nafn, "General Motors" eftir fyrirtækinu sem er búið að koma sér í ógöngur og vill nú að bandaríska þjóðin bjargi sér. Mér fannst ekki fráleitt að þjóðin legði í púkkið þangað til ég hugleiddi hvenær mig hefði síðast langað í amerískan bíl. Svarið er "Aldrei". Hvernig þeir geta framleitt þessa kagga með hernaðarnöfnum eins og "Charger", "Fury", "Spitfire", "Stealth" og "Viper" ár eftir ár án þess að mig langi í einn einasta er mér hulið. Mikið vona ég að þessi fyrirtæki fái að deyja svo nýjar hugmyndir komist á teikniborðið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.12.2008 | 16:18
Seven habits of highly effective countries
Margir sem andmæla inngöngu í evrópusambandið benda á að það muni jafngilda uppgjöf sjálfstæðis.
Mér dettur í þessu sambandi í hug bókin "Seven habits of highly effective people". Fyrstu ávanarnir sem höfundur vill að lesandinn tileinki sér ganga út á að verða sjálfstæð manneskja.
Höfundur telur að fólk eigi að:
- Taka frumkvæði í stað þess að kenna öðrum um, bera ábyrgð á sínu lífi.
- Setja sér markmið en til þess þarf að hafa lært að þekkja sín grunngildi í lífinu.
- Forgangsraða, svo allur tíminn fari ekki í hluti sem virðast aðkallandi en skipta engu máli í hinu stóra samhengi.
Þessir fyrstu þrír hlutir snúa að því að manneskjan þroski sjálfa sig og standi á eigin fótum. Það má kalla þennan part sjálfstæðisbaráttu. Svo þegar sjálfstæðinu er náð er hægt að mynda bandalög við aðra fullvalda einstaklinga.
Liðir 4..7 hafa því með annað fólk að gera.
- Finndu leiðir til að ná þínum markmiðum þannig að aðrir nái sínum markmiðum líka. Ef þín hugmynd um velgengni kostar aðra þjáningar ertu ekki á réttri leið. (Útrásarvíkingarnir flöskuðu þarna).
- Reyndu að skilja aðra áður en þú byrjar að segja þeim frá þínum væntingum og vera með tilætlunarsemi, þá muntu ná betri árangri. Byrjaðu t.d. samtal með "hvernig hitti ég á þig?" en ekki bara "gerðu X fyrir mig".
- Deildu verkefnum á þá sem eru betur færir um að leysa þau en þú. Notaðu hrós og hvatningu og njóttu þannig góðs af því þegar allir gera það sem þeir gera best.
- Haltu þér í þjálfun, andlega og líkamlega. Farðu á námskeið. Farðu í frí. Endurskoðaðu markmiðin í lífinu reglulega. Ekki gera bara "bissness as usual" þangað til þú brennur út og þekkir ekki sjálfan þig.
Þeir sem vilja heilbrigð samskipti við aðra þurfa að vera orðnir heilbrigðir einstaklingar sjálfir. Þetta passar vel við þá visku sem kennd er í tólf sporunum í AA og Al-Anon.
Þeir sem eru styttra komnir á þroska/sjálfstæðisbrautinni eru oft hræddir við að stofna til sambanda við aðra því þeir óttast um eigið sjálf. Það er hluti af persónulegum þroska að byrja að treysta öðrum.
Íslendingar þurfa að hafa náð þangað áður en þeir ganga til viðræðna um náin samskipti því þeir mega ekki meðvirklast og gefa eftir í prinsipp málum. Kannski erum við ekki orðin nógu sjálfstæð til að geta umgengist aðrar þjóðir sem jafningjar?
Athugum með inngöngu í bandalagið, en höfum okkar markmið á hreinu áður. Það er veruleg hætta á að við semjum af okkur ef við göngum til viðræðna án þess að þekkja okkur sjálf og hvað við viljum.
Persónulega langar mig í bandalagið af því ég vil geta:
- unnið í öðrum löndum
- geymt mín verðmæti í öruggum gjaldmiðli. (Það er öruggt að krónan á sér enga framtíð og að við þurfum myntbandalag, bara spurning hvaða gjaldmiðill kemur í stað hennar).
- átt viðskipti við aðra banka og tryggingarfélög en starfa hér
- flutt sjálfur inn vörur án tollahafta og útrýmt þannig fákeppni í verslun
- laðað hingað erlend fyrirtæki sem útvega spennandi störf
- losnað við gömlu valdaklíkurnar á Ísland en fengið í staðinn nýjar og spennandi erlendar valdaklíkur :)
Ég óttast að ef við göngum í bandalagið muni:
- vandalausir flytja arð úr landi (skaðinn þegar skeður)
- vandalausir hagnast af útgerð en flytja arðinn úr landi (skaðinn þegar skeður)
- íslendingar kafna í ólögum sem henta ekki hér (hef ekki dæmi um slík lög -- mun EB banna kæstan hákarl?)
Semsagt: Ef við erum jafn frábær þjóð og við þykjumst (þóttumst) vera, þá eigum við að ganga til viðræðna. Ef við eigum einhver óútkljáð mál hér heima væri þó farsælla að afgreiða þau fyrst. Það má þó engan tíma missa, því margir (þar á meðal ég) vilja ekki búa í sjúku meðvirklaþjóðfélagi sem er ekki fært um eðlileg samskipti við aðrar þjóðir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.12.2008 kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)