Færsluflokkur: Bloggar
17.6.2007 | 23:47
Frumstæðar lífverur
Útidyrnar í vinnunni opna sig sjálfar. Yfir þeim vakir auga sem sér til þess. Það er svolítið nærsýnt og ég passa mig að ganga með fyrirferð að innganginum til augað verði örugglega vart við mig. Ég óttast að verða hunzaður og skella á glerinu eins og nærsýnn mávur.
Í síðustu viku tapaðist ein merkilegasta uppfinning 20.aldar, kúlupenninn, í hurðafalsinn á sjálfvirku hurðinni, sem ég flokka ekki með merkilegustu uppfinningum 20.aldar.
Útidyrnar vissu ekkert hvernig þær áttu að taka á pennanum. Þær opnuðust uppá gátt, lokuðust aftur, lentu á pennanum og opnuðust upp á gátt. Lokuðust aftur...
Hér hætti ég að lýsa því sem útidyrnar gerðu af því ólíkt þeim er ég fær um að sjá tilgangsleysið. Þessi framvörður þekkingafyrirtækisins þar sem ég vinn, varð uppvís að örgustu heimsku.
Ef dyrnar hefðu getað horft uppá sjálfar sig og roðnað, þá væri tæknin komin lengra en menn gefa í skyn. Þær hefðu getað hringt á aðstoð, eða kannski skellt fastar og fastar þar til penninn kvarnaðist í mjél, og glaðst svo yfir árangrinum.
Dyrnar eru dæmigerðar mannanna smíðar sem eiga að létta lífið en gera það eiginlega ekki alveg. Menn læra að lifa við skavankana á útfærslunni sem gerir lífið á vissan hátt flóknara en ekki einfaldara.
Þegar ég geng upp að svona dyrum veit ég aldrei hverju ég á von á. Skyldi hurðin opnast fyrir mér eða ekki? Ætti ég að standa kyrr í smá stund og banda höndunum út í loftið í von um að eitthvað gerist? Er kannski sá tími dags þegar beita á lykilkorti? Er ég kannski í þættinum "falin myndavél?" Eða á ég bara að taka í húninn?
Ég las lýsingu á fólki sem taldi sig vera læst inni á gangi milli tveggja hurða. Það var ekki hægt að sjá á dyrunum hvort þær opnuðust inn eða út. Fyrri dyrnar opnuðust inn, þær seinni út. Handföngin gáfu ekkert í skyn og engir "Pull" "Push" miðar voru límdir á hurðirnar með kveðju frá Visa.
Fólkið komst gegnum fyrri dyrnar, en ekki þær seinni og gaf sér að þær væru læstar. Svo sneri það við en gat ekki opnað hinar dyrnar heldur. Fólk kom þeim til aðstoðar. Illar tungur gætu sagt að fólkið væri álíka vel gefið og dyrnar í vinnunni hjá mér.
Hér má lesa lýsinguna á ensku, og fleiri skondnar lýsingar er þarna að finna.
Og nú að allt öðru - og þó ekki.
Náttúran ákvað fyrir löngu að gæða "æðri lífverur" stærri heila til að þær höguðu sér ekki eins og mölfluga sem flýgur inn í kertaloga. Heilinn er dýrt líffæri og þarf orku en náttúran ákvað að það væri þess virði.
Menn smíða fleira en hurðir, þeir búa líka til fyrirtæki og stofnanir. Margar stofnanir virðast ekki geta mætt breyttum aðstæðum frekar en hurðin í vinnunni. Hvernig er hægt að gæða stofnanir þessu "æðra vitsmunastigi" svo þær bregðist við breytingum? Enginn einn starfsmaður inní þeim virðist vera heilinn, allir "bara vinna þarna" eins og frumur í heimskri lífveru.
Það er fyrir löngu orðið tímabært að "ruslakallar" endurskoði tilgang sinn og sæki ekki bara rusl, heldur líka dósir, flöskur og annan úrgang sem má endurvinna. Það er mótsögn að allir borgarbúar fari á einkabíl út í Sorpu með ruslið. Þarna vantar sjálfsgagnrýni í kerfið.
Tollurinn hagar sér ennþá eins og landið sé lokað. Einhver þyrfti að einfalda tollareglur stórkostlega. Er tollskráin endurskoðuð eða bólgnar hún bara út?
Strætó hagar sér eins og hann sé ekki í harðri samkeppni við einkabíla. Leiðaplönin eru ennþá ólæsileg og strætó tekur bara reiðufé, sem fæstir hafa handbært nú á dögum. Við horfum á strætó deyja út eins og risaeðlu.
Án samkeppni verða til fyrirbæri eins og dýrin á Galapagos eyjum. Er ekki einhver leið til að stofnanir njóti hressandi áhrifa samkeppni án þess að alltaf þurfi að einkavæða allt? Eigum við að reka tvö tollembætti og láta þau keppa um hylli þeirra sem flytja inn vörur? Eigum við að gefa stofnunum einkunn í vinsældakosningu?
Sum fyrirtæki eru alltaf að endurskilgreina sig. Við feðgarnir gengum fram hjá verzluninni "17" á Laugavegi. Sonur minn var sannfærður um að hún væri glæný í búðaflórunni, hipp og kúl. Ég gat sagt honum að þetta væri að verða gömul og virðuleg verzlun í bænum (opnuð 1976). Þetta geta eigendur "17" tekið sem hrós.
Ég agnúast út í værukærar ríkis og borgarstofnanir vegna þess að ég vil að þær dugi vel. Annars verða þær vatn á myllu einkavæðingarsinna. Ég sé ekki mikinn mun á að glata sjálfstæði landsins í hendur Dönum eða auðhringum.
(Skrifað að kvöldi 17.júní).
Bloggar | Breytt 3.7.2007 kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.6.2007 | 10:07
Mig langar í !
Þessi auglýsing kom inn um bréfalúguna í vikunni:
Grillið er 33 sinnum dýrara en fyrsta gasgrillið okkar.
Ef maður grillar vikulega í þrjá mánuði á ári og grillið er afskrifað á tíu árum, þá kostar hver grillun 1.700 kr. Þá er eftir að kaupa matinn á grillið :)
Orðin "Aðeins" og "Þú sparar" komu því ekki upp í huga minn við að lesa auglýsinguna.
Ég er bara með leiðindi. Allir vita að þetta snýst ekki um grillun. Grillverðið er bara fjórðungur af Rolex úri og fimmtugasti hluti af nýjum Range Rover. Ef maður er á annað borð í pissukeppni þá er þetta eins góð fjárfesting og hver önnur.
Samt...
Ef öll heimili á landinu keyptu gasgrill á tíuþúsund krónur og létu mismuninn fara í sameiginlegt málefni væru komnir 20 milljarðar. Ég er að reyna að segja, að kannski er ekki þörf á frekari skattalækkunum ef svona grill eru farin að seljast.
Eigum við ekki frekar að slá saman í eina svona út á flugvöll?
Ég er enginn kommi, en ég veit að ef við högum okkur eins og ameríkanar mun Ísland líta út eins og Ameríka á endanum. Engir innviðir, en flott gasgrill.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.6.2007 | 11:32
Sjöfalt lyfjaverð
Um verð á lyfinu Terbinafin (Lamisil)
Í Velvakanda Morgunblaðsins í gær var sagt frá kaupum á lyfinu Terbinafin, 28 stk, 250 mg töflur. Sá sem skrifaði (S.Þ.S.) fann lyfið ódýrast í Lyfjavali á 5.362 kr. en dýrast í Lyfju á 7.499 kr.
Í tilefni af þessu sendi systir mín mér ljósmynd af kassanótu frá Kaupmannahöfn. Mamma mín keypti lyfið þar skv. lyfseðli læknis frá Íslandi :
Lyfið heitir Terbinafin HEXAL 250 mg. og thad eru 28 töflur í skammtinum sem kostar 62,90 DKK.
Gengið núna er 11,393 svo lyfið kostaði 717 kr. í Kaupmannahöfn.
Ódýrasta lyfið hér er sjö sinnum dýrara en í Kaupmannahöfn. Í Lyfju er munurinn tífaldur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.6.2007 | 10:20
Þröngt mega sáttir sitja
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.6.2007 | 10:37
Stafrænt útvarp
DAB (Digital Audio Broadcast) útvarpsstöðvar senda út í hljómgæðum sem jafnast á við geisladiska, enda eru þær stafrænar. Útsendingarnar eru miklu minna viðkvæmar fyrir suði og truflunum en gamla FM útsendingin.
Um 500 milljón manns hafa keypt útvörp sem geta tekið við þessum útsendingum. Fimmtíu slíkar útvarpsstöðvar eru í London einni.
BBC sendir út með þessari tækni.
Danska útvarpið sendir tólf opnar stöðvar út með þessari tækni, og sjö áskriftarstöðvar til viðbótar.
Stöðvarnar geta bæði sent út frá venjulegu sendimastri en einnig um gerfihnött og því væri hægt að hlusta á þær uppi á hálendinu.
Þessar útvarpsstöðvar hafa ekki orðið vinsælar í Bandaríkjunum en grein í blaðinu Economist segir frá því að nú sé annar staðall að verða vinsæll og heitir sá staðall "HD Radio" (Hybrid Digital Radio).
Hann gerir venjulegri útvarpsstöð kleift að bæta stafrænu útsendingunni við þá FM útsendingu sem þegar er til staðar, án þess að sækja um nýjar senditíðnir.
Skrýtin blanda
Umræða um stafræn útvörp hefur ekki farið fram á Íslandi frekar en umræða um breiðtjaldsútsendingar sjónvarps eða háskerpu útsendingar. Það er skrýtið því við erum vön að eltast við nýjustu dellurnar.
Við kaupum háskerpu flatskermana en getum ekki horft á þá í háskerpu. Við kaupum flottustu sportbílana en eigum engar hraðbrautir.
Við erum til skiptis í framtíðinni og fortíðinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.6.2007 | 17:08
Hvernig ég hætti að reykja
Það er til örugg leið til að hætta að reykja og hún er að deyja úr krabbameini. Allir hætta að lokum.
Það er valkostur að hætta, maður verður ekki að gera það.
Ég sagði sjálfum mér lengi að ég reykti svo lítið að það skipti ekki máli. Þegar reykingar urðu félagslega óvinsælar prófaði ég nikótín tyggjó en án þess að hafa ætlað að hætta að reykja.
Konan mín nauðaði í mér að hætta þessu, og á undarlegan hátt notaði ég það sem afsökun til að taka ekki ábyrgð á sjálfum mér.
Þegar hún hætti að skipta sér af, fann ég að þetta var ekkert nema mitt vandamál og ég yrði að leysa það. Þá fyrst fór ég að taka á því.
Ég áttaði mig á því að ég hafði verið eins og krakki sem var ekki tilbúinn að horfast í augu við staðreyndir og að þessi ósiður yrði að fara.
Ég sagði vini mínum sem er sálfræðingur að ég reykti til að slaka á.
Hann sagði mér að nikótín væri örvandi efni og ég væri alls ekki að fá neina slökun úr rettunni. Það væri bara athöfnin, að fara út fyrir húsvegg og kveikja í sem fæli í sér slökun.
Hann lagði til að ég fengi mér bara venjulegt tyggjó og kaffibolla undir húsveggnum í staðinn.
Þegar ákvörðunin var tekin reyndist þetta ekkert mál. Fráhvarf vegna nikotíns var hverfandi og fór á þremur dögum. Viljinn til að reykja var farinn áður en ég drap í.
Ég fæ mér ennþá kaffi og tyggjó og tek pásur en ég læt retturnar eiga sig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.6.2007 | 13:34
Heimsborgarar bragðast best
Hún hringdi á hótelið og bað afgreiðslufólkið að senda gemsann til vinkonu sinnar í Danmörku.
Hún er að fara í aðra vinnuferð þangað eftir tvær vikur og sækir gemsann í leiðinni.
Ég spurði strax: Af hverju léstu ekki senda hann til Íslands, hann yrði kominn eftir nokkra daga?
Hún svaraði: "Nei, það yrði svo mikið vesen. Ég myndi þurfa að borga aðflutningsgjöld og toll eða reyna að sanna að ég ætti hann".
Þetta svar hennar sýnir mér, að Berlínarmúrinn okkar er enn á sínum stað. Atlantshafið er okkar Berlínarmúr.
Hann hefur gefið stjórnvöldum hér afsökun til að halda landinu lokuðu, hvað sem hver segir. Reynið bara að panta varahlut í golfkerruna ykkar - eða ostbita.
Þótt bankar hafi hagnast á frjálsum viðskiptum eru þau ekki komin til okkar hinna.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.6.2007 | 10:58
Better living through technology
Ég rakst á notendahanbók Reiknistofnunar Háskóla Íslands frá 1983 í skápnum í gær.
Þar stendur að tölvur í eigu skólans séu tvær:
- Stærri tölvan, VAX-11/780 hefur minni sem er 4MByte að stærð.
- Hún getur framkvæmt 0,8 milljón aðgerðir á sekúndu (MIPS)
- Sú minni, VAX-11/750 er 2MByte.
- Hún getur framkvæmt 0,5 milljón aðgerðir (MIPS)
Þetta voru tölvurnar sem allar útstöðvar í skólanum voru tengdar við og allir nemendur samnýttu til að keyra Pascal þýðendur, COBOL, Fortran og allt annað sem þurfti að gera...
Mig minnti að tölvur hefðu verið orðnar öflugri 1983.
Núna hef ég 2 GByte af minni útaf fyrir mig svo ég geti tekið á móti tölvupósti sem sýnir mér apa stinga puttanum í rassinn, lykta, og detta úr greininni
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2007 | 15:26
Brynna vil ég fola mínum...
Sú kvöð er sett á fyrirtæki í borginni, að þau útvegi bílastæði, mismörg eftir stærð fyrirtækis. Ókeypis bílastæði eru jafn mikil tímaskekkja og ókeypis sígarettur í fermingarveislum.
Þess í stað væri hægt að leyfa fyrirtækjum að velja hvaða ferðamáta þau vilja niðurgreiða með sömu upphæð.
Fyrirtæki gæti tekið þátt í rekstri strætó eða uppbyggingu hjólabrauta í stað þess að borga fyrir gerð bílastæða.
Þessi niðurgreiðsla á bílastæðum skekkir kostnaðarmyndina við rekstur einkabíls rosalega og er ein megin ástæðan fyrir því að umferðin í háskólana á morgnana er jafn þung og raun ber vitni. Þegar nemandi hefur keypt sér bíl þá er bílastæðið ókeypis.
Segjum að eitt bílastæði sé 18 fermetrar og hver fermetri borgarlands kosti 150 þúsund krónur.
Segjum einnig að útlánsvextir séu 15% óverðtryggðir. Ég reikna ekki með kostnaði við sjálfa innkeyrsluna eða malbikun, bara fermetrana. Samt fæ ég út að verð stæðisins er 2,7 milljónir og árleg afborgun af þeirri upphæð væri 405 þúsund krónur eða 1.600 krónur á dag. Ég held að þessi upphæð sé nærri lagi en leiðréttið mig endilega.
Ég kem á hjólinu í vinnuna og spara bílastæði. Samt get ég ekki ráðstafað þessum peningum í eitthvað annað.
Vilhjálmur borgarstjóri gæti viljað bjóða fyrirtækjum að borga strætó eða hjólastíga sem eins konar syndaaflausn í stíl við kolviðarverkefnið sem virðist leggjast svo vel í fólk.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.6.2007 | 21:34
Hinn upplýsti
Ég er hrifinn af Búddhisma. Nú kann einhver að segja að ég hafi nýverið bloggað að ég tryði ekki.
Búddhismi er ekki trúarbrögð heldur tillaga mjög merkilegs manns um það hvernig best er að lifa lífinu. Búddhamúnkar eru ekki að dýrka Búddha heldur vilja þeir reyna að fylgja hans fordæmi.
Ég hef haft mjög gott af því að kynnast kenningum Búddha þótt ég sé ekki búinn að raka á mér hausinn og fjárfesta í kufli.
Búddha benti mönnum sem vildu vera göfugir á að feta lífsleið sem fæli í sér átta meginhugmyndir. (The eightfold noble path).
Það er hægt að gera margt vitlausara á netinu en að sækja eitt megin rit búddista sem er á PDF formi hér.
Víetnamski búddamúnkurinn (Thich) Nath Hanh sem er samtíðarmaður okkar (hann er áttræður), hefur sett þessar hugmyndir fram sem fimm verkefni sem menn ættu að taka sér fyrir hendur.
Framsetning hans er mjög aðgengileg. Ég ákvað að þýða orð Nath Hanh í staðinn fyrir að horfa á sjónvarpið eftir fréttir. Hann minnist á neyslu svo ég er ekki að fara langt frá mínum venjulegu umræðuefnum.
Fyrsta verkefni
Ég veit að tortíming lífs veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að vera umhyggjusamur og læra að vernda líf manna, dýra, plantna og jarðar. Ég ætla ekki að drepa, né láta aðra drepa, og ég mun aldrei samþykkja dráp í heiminum, með hugsunum mínum eða atferli mínu.
Annað verkefni
Ég veit að misnotkun, þjóðfélagslegt óréttlæti, rán og kúgun valda þjáningum og því hef ég ákveðið að rækta með mér ást og umhyggju og vinna að velferð manna, dýra, plantna og jarðar. Ég hef ákveðið að vera gjafmildur og deila tíma mínum, orku og efnum með þeim sem eru þurfandi í raun. Ég hef ákveðið að stela ekki og eiga ekki það sem ætti að tilheyra öðrum. Ég mun virða eigur annarra, en ég mun hindra aðra í að græða á þjáningum manna eða annara dýra á jörðinni.
Þriðja verkefni
Ég veit að óábyrg kynhegðun veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að temja mér ábyrgð og læra leiðir til að vernda öryggi og heilindi einstaklinga, para, fjölskyldna og þjóðfélagsins. Ég hef ákveðið að taka ekki þátt í kynferðislegum athöfnum sem fela ekki í sér ást né skuldbindingu. Ég ætla að viðhalda hamingju minni og annara með því að virða mínar skuldbindingar og þeirra. Ég mun gera allt í mínu valdi til að vernda börn frá kynferðislegri misnotkun og fyrirbyggja að pör og fjölskyldur leysist upp vegna óbyrgrar kynhegðunar.
Fjórða verkefni
Ég veit að kærulaust tal og skeytingarleysi gagnvart því sem aðrir segja veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að temja mér að tala af ástúð og hlusta einbeitt á það sem aðrir segja til að færa þeim gleði og hamingju og frelsa þá undan þjáningum. Ég veit að orð geta veitt hamingju eða þjáningu og því hef ég ákveðið að tala af sannsögli og velja orð sem byggja upp sjálfsöryggi, von og gleði. Ég er staðráðinn í að dreifa ekki fréttum sem ég veit ekki hvort eru sannar og að gagnrýna og dæma ekki hluti sem ég veit ekki mikið um. Ég mun forðast að segja orð sem valda sundrung og sundurþykkju eða valda upplausn fjölskyldna og samfélags. Ég mun reyna af fremsta megni að sætta og leysa allar deilur, hversu smáar sem þær eru.
Fimmta verkefni
Ég veit að taumlaus neysla veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að rækta heilsuna, bæði líkamlega og andlega, fyrir sjálfan mig, fjölskylduna og samfélagið með því að vera meðvitaður um át mitt, drykkju og aðra neyslu. Ég ætla að neyta aðeins þess sem viðheldur ró, velsæld og gleði í líkama mínum, og meðvitund minni, meðvitund fjölskyldu minnar og samfélags. Ég ætla ekki að nota áfengi eða aðra vímugjafa eða innbyrða eitur hvort sem það er sjónvarpsefni, blöð, bíómyndir eða samtöl. Ég geri mér grein fyrir því að ef ég skemmi líkama minn og sál með eitri svík ég forfeður mína, foreldra, samfélag mitt og komandi kynslóðir. Ég ætla að vinna að umbreytingu ofbeldis, hræðslu, reiði og óreiðu í sjálfum mér og þjóðfélaginu með því að stjórna neyslu minni. Ég skil að rétt neysla er forsenda þess að breyta sjálfum mér og samfélaginu.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)