Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Svar við gátunni - og hvað má læra af henni

Spurt var: 

Hver um sig borgaði 100 - 10 = 90 kr.

Þrisvar  90 eru 270 kr.

270 plús 20 sem þjónninn tók í þjórfé gera 290 kr.

Það vantar samt 10 kr uppá 300, hvað varð um þær?

Svar:

Vissulega borguðu gestirnir 3 x 90 = 270.

En af hverju að leggja svo 20 krónurnar við sem þjónninn tók í þjórfé?   Þær eru þegar inni í þessum 270 krónum.  Réttara er að segja:

270 - 20 kr. í þjórfé eru 250 kr. sem er það sem veitingastaðurinn fékk.

Samtalan þarf ekki að ná 300 kr. því það er ekki það sem maturinn kostar.

 

Af þessu má læra að vera ekki að eltast við útreikninga hjá fólki sem er ekki að reikna út það sama og þú.  Ekki hafa minnimáttarkennd gagnvart þeim sem þykjast kunna stærðfræði.

Sumir segja að strætó sé rekinn með tapi.  Er ekki vegakerfið rekið með tapi líka ? Ríkið borgar vegina en bærinn borgar strætó.  Ef vegirnir væru verðlagðir rétt hefðu strandflutningar ekki lagst af.

Kveðja, Kári

 

PS: Strætó er hins vegar alltaf tómur en það er allt annað mál..

 


Auglýsing um auglýsingar

 2007_024_271

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjáið auglýsinguna sem sigraði á auglýsingahátíðinni í Cannes.

 


Alltaf gaman af gátum...

 

Þrjár manneskjur fara á veitingastað og skipta kostnaðinum sem er 300  milli sín svo hver um sig borgar 100 kr.

Þjónninn tekur 300 en sér svo að það voru gerð mistök, maturinn kostaði bara 250 kr.

Hann getur ekki skipt 50  í þrennt og endurgreitt svo hann borgar sjálfum sér 20 í þjórfé og endurgreiðir hverjum gesti 10 kr.

Gott og vel. 

Hver um sig borgaði 100 - 10 = 90 kr.

Þrisvar  90 eru 270 kr.

270 plús 20 sem þjónninn tók í þjórfé gera 290 kr.

Það vantar samt 10 kr uppá 300, hvað varð um þær?

Svarið kemur seinna...

 


Um þotuhreiður og glysið sem safnast í þau

Gamla Tempelhof flugstöðin í Berlin er líkust aðalbyggingu Háskóla Íslands.  Hún er eins og virðulegt musteri og endurspeglar tíma þegar flugið var ennþá kraftaverk og dæmi um hverju mannsandinn getur áorkað.

tempelhof

Brautryðjendur gáfu okkur kraftaverkið en möppudýr og tækifærissinnar eru í óða önn að gera lítið úr því.

Ég sit og skrifa í vél Iceland Express á leið til Íslands frá Danmörku.  Flugið sjálft kostaði 18 þúsund en flugvallaskatturinn í Leifsstöð bætir 7 þúsund ofaná miðann minn.


Þar sem upphaflega stóð bárujárnsskúr við ameríska flugbraut er nú svæði sem er eins og Kringlan eða Smáralind í umfangi og reksturinn á því virðist kosta sitt.

Það styttist í að maður þurfi að vera mættur þremur tímum fyrir þriggja tíma flug.  Nýja vegabréfið mitt inniheldur nú lífssýni til að fullnægja þrálátri öryggisþörf Bandaríkjamanna.  Ég borgaði fimmþúsund fyrir vegabréfið og ég vona að Bandaríkjamenn krefji mig ekki um enn fullkomnara vegabréf allt of fljótt.

Á vellinum eru Íslendingar vanir að kaupa sínar myndavélar og vasadiskó því annarsstaðar á eyjunni er verðið alltof hátt.  Fyrir ferðina fór ég því á vefinn www.dutyfree.is og ætlaði að sjá verð á nerdaleikföngum.  Ég sá hvergi verð á myndavélum lengur svo ég sendi tölvupóst og fékk að vita að búðin Elko væri komin með einkaleyfi á græjusölu á vellinum.

Elko rekur verslunina með lágvöruverðssniði, þarna eru krakkar að afgreiða og áherslan á að selja mikið magn.  Þetta er alveg eins og að koma inn í þeirra verzlanir í bænum.

Af hverju er bara Elko úti á fríverslunarsvæðinu að selja myndavélar?  Hvar er Hans Petersen og allir hinir?  Flugvöllurinn skapar einokun sem er alls ekki nauðsynleg eða náttúruleg.

Ég pældi ekkert í þessu meðan gamla ríkisbúðin var þarna í denn, mér fannst þetta bara vera eins og ÁTVR, svona góð gamaldags ríkiseinokun sem maður hefur vanist frá blautu barnsbeini.  Núna er enginn ríkisbragur á vellinum lengur, þetta er bara nakin einokun í risastórri eftirlíkingu af Kringlunni.

Ég má ekki taka með mér vatnsbrúsa eða naglaklippur inn í þessa innkaupaparadís vegna þess að ég gæti verið að smygla sprengiefni.  Ég reyndi forðum að smygla skyri og soðnu spaghetti í stampi með pestó sósu út á en það var gert upptækt þótt ég byðist til að éta "sprengiefnið" á staðnum.

tsa_profiling

 

 

 

 

 

 


 

 


Gefum okkur að þetta sé heiðarleg tilraun til að auka öryggi í flugi.  Þá skil ég ekki hvernig hægt er að halda verslunarsvæðinu á flugvellinum öruggu.

Vinnustaðurinn er á við hálfa Kringluna.  Hvernig er með mannaráðningar?

Inn á svæðið er mokað tonnum af varningi og mat sem flugfarþegar eiga að kaupa.  Heilu gámarnir af DVD spilurum, kexi, klámblöðum og vindlingum fara inn á svæðið.  Er verið að röntgen gegnumlýsa alla sendiferðabílana?

Má bjóða þér að leita að naglaklippum og hættulegum varningi í sendiferðabílunum sem koma inn á svæðið frá eftirtöldum fyrirtækjum?

  • 66Norður
  • Bistro Atlantic
  • Blue Lagoon
  • Cafe Europa
  • Cafe International
  • Elko
  • Epal
  • Eymundsson
  • Fríhöfnin ehf.
  • Inspired by Iceland
  • Kaffitár
  • Landsbankinn
  • Leonard
  • Optical Studio
  • Panorama Bar
  • Rammagerðin
  • Saga Boutique
  • Securitas
  • Skífan
  • Verzlun 10-11

Ég get ímyndað mér hvernig er að vera terroristi þarna.

Ætli sé hægt að búa til sprengju úr tíu lítrum af 80% rommi?  Ég get keypt það á vellinum og farið með út í vél.  Hvað með haug af Lithium rafhlöðum fyrir fartölvur, þær eru víst slæmar með að springa og fást í Elko, ætli ég geti gert sprengju úr þeim?  Kannski er það of mikil fyrirhöfn, ég lauma sprengjunni bara í næstu sendingu af peysum í 66Norður búðina, eða í rakakrembrúsa frá Blue Lagoon.  Magnesíum er víst eldfimur málmur og er notaður í gleraugnaspangir.  Svo getur verið að brauðhnífurinn sem liggur á borðinu hjá Cafe Europa sé nýtilegur í eitthvað.

evil osama
Ég held ég þurfi ekki að þusa frekar, allir sjá að þessi leit að naglaklippum er fáránleg niðurlæging til að geta svo selt fólki þessar sömu naglaklippur þegar inn á völlinn er komið.

Ef mönnum er alvara með þessum öryggismálum ættu flugfarþegar að labba inn á mjög lokað svæði  eftir vopnaleitina.  Þar væru bara klósett og lögregluþjónar með útprentaðan lista frá Bush að leita að stressuðum mönnum með vefjarhetti og svartar bækur í litlu broti.  Kannski lítil ríkisrekin veitingasala.

Leifsstöð er ekkert einstök, svona eru margir flugvellir.  Undarlegt sambland af reglum sem eru svo fáránlegar að maður hristir hausinn á leiðinni um völlinn, og svo gróðabraski hjá þeim sem notfæra sér þessar undarlegu reglur til að komast í einokunar-verslunarrekstur.

Þegar hjarðir af möppudýrum renna saman á alþjóðavettvangi verður útkoman oft grátbrosleg, sérstaklega ef Bandaríkjamenn fá að ráða ferðinni.

Þegar maður kemur svo vatnsflösku- og naglaklippulaus inn á verslunarsvæðið er ekki hægt að fá kranavatn því á klósettunum rennur volgt forblandað handþvottavatn.  Eina leiðin er að kaupa sér vatnsflöskur í búðunum þar.  Ég er ekki svo mikill samssærissinni að halda að þetta sé vísvitandi gert til að auka vatnssölu, sennilega er þetta yfirsjón.

Kostnaðurinn við að nota þessa stöð er að verða all verulegur hluti af flugferð.  Það þarf að borga ríflega fyrir bílastæði þarna úti í auðninni, í kringum þrjúþúsund krónur fyrir langa helgarferð.  Svo þarf að borga flugvallarskatt, sjöþúsund á mann.  Það er aðgöngumiðinn inn á verslunarsvæðið.  Svo þarf að kaupa mat og drykk á stöðinni því hann fylgir ekki með í flugmiðanum lengur, og ekki má maður koma með mat að heiman því hann gæti verið sprengifimur.

Svo bætist við kaupæðið sem rennur á veikgeðja sálir (þar á meðal mig)  því það þarf að nota möguleikann til að kaupa á meðan hægt er.  Reyndar sýnist mér verðið þarna ekki sérlega hagstætt lengur.  Kannski þarf að leggja vel á núna til að borga uppbygginguna sem hefur átt sér stað þarna upp á síðkastið.  Það væri kaldhæðni ef farþegar byrja að bera draslið í gegnum stöðina í stað þess að kaupa það þar.

Þegar ég kem út í flugvél heldur æðið áfram.  Ég horfi á flugfreyjurnar stunda sölustarfsemi á brennivíni, ilmvötnum, heyrnartólum, moggum og samlokum alla flugferðina.  Meira að segja vatnið kostar.

Maður kemst ekki á klósettið fyrir þessum útspýttu elskum.  Hvernig ætli gangi að komast út í neyðarútgangana fyrir litlu pylsuvögnunum þeirra ef í harðbakka slær?  Það er grátlegt til þess að hugsa að samkvæmt lögum eru flugfreyjur um borð til að tryggja öryggi farþega.

Dyrnar til flugmanns eru harðlæstar.  Það er engin hætta á að litlir krakkar slysist lengur til að verða hugfangnir af flugi með því að heimsækja flugmanninn eins og ég fékk að gera þegar ég var lítill.

Það er niðurlægjandi að fljúga í dag og mér finnst sölumennskan vera komin út í öfgar.

thotuhreidur

 

 

 

 

 

 


 

Ég ætla að enda á uppbyggilegum nótum.

Hugmynd #1:  Hvernig væri að gera allt flugvallarsvæðið að fríverzlunarsvæði og hafa háskólann þarna?

Nemendur gætu búið á svæðinu, fengið mjög ódýran mat, drykk, skólabækur og aðrar nauðssynjar á námsárunum, og kannski unnið hjá fyrirtækjum sem væru í tengslum við skólann og sem gætu geymt hráefni og fullunna vöru á tollfrjálsu svæði.  Svæðið gæti orðið Hong Kong okkar íslendinga.

 

Hugmynd #2:  Gegn framvísun farmiða má fá toll og virðisaukaskatt fellda niður í verzlunum í Reykjavík, þar á meðal í ÁTVR.

Þá væri ekki lengur nauðsynlegt að fara með vörurnar út í vél og fljúga með þær milli landa.  Frjáls samkeppni væri milli búða í bænum og engin fríhöfn nauðsynleg.  Flugvöllurinn fengi að vera eins og BSÍ eða lestarstöð, ekki verzlunarmiðstöð.

 

Hugmynd #3:  Hvernig væri að taka þessa sömu "ströngu" öryggisgæslu upp við helstu umferðarmannvirki?  Miklubraut má sprengja með flutningabíl hlöðnum sprengiefni og því þarf að takmarka aðgang inn á brautina.

Leitað væri í öllum bílum og farmur væri bannaður (en það væri hægt að kaupa gos og samlokur í sérstökum verslunum sem væru reknar við brautina með sérleyfi frá ríkinu).  Einkabílisminn myndi leggjast af og allir færu að hjóla Smile

 


O Fortuna!

Einn kennari minn í stærðfræði benti á eftirfarandi : 

Það er best að kaupa lottómiða á föstudögum því þá tvöfaldast líkurnar á að vinna.

Ástæðan er sú að líkurnar á að deyja í umferðinni á leið í vinnu yfir vikuna eru álíka góðar og að vinna í lottó...

Svona er stærðfræðin skemmtileg - og líkurnar á að vinna í lottó litlar.  Ekki eyða peningum í lottómiða en njótið þess í staðinn að grafa holu í sandin.

 


mbl.is Strandgestir varaðir við að grafa holur í sandinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað við misstum

Ég sit í vinnunni og hugsa heim því sonur minn er í fríi frá skóla og  mamma hans er í Danmörku.  Mér þætti svo miklu meira gaman að vera  heima að kenna honum eitthvað, gera við hjól, grafa skurð eða labba  upp á Esju.

Ríkið elur upp börnin á veturna meðan við höngum við skrifborð. Mig  svíður að missa gæðatímann með uppáhalds manneskjunni í mínu lífi.

Pabbi minn kom heim í hádeginu til að borða og lagði sig svo í sófann.  Fjölskyldan hittist alla vega og því þurfti kvöldmaturinn ekki að vera  eins merkilegur.

Í dag hittist fólk fyrst á kvöldin og kvöldmaturinn þarf að vera hátíð  til að bæta fólki upp ástvinamissinn.

Það er verst að maður hefur ekkert við stóran kvöldmat að gera því  ekkert er framundan nema hvíld.  Maður gæti alveg eins smurt matnum  beint á ístruna.

Eldri kynslóðir unnu með fjölskyldunni sinni - og tóku með þeim kaffi  og hádegismat. Ég hef ekkert á móti vinnufélögunum, þetta er stórgáfað  lið, en ég sakna míns fólks.

Hvað ætli unga fólkið væri fært um að gera ef það hefði óskoraða  athygli frá fullorðna fólkinu yfir daginn í stað þess að vera geymt í  skólum eða við sjónvarp og Playstation?  Mig grunar að það yrði flott  kynslóð og hún væri ekki úti með spraybrúsa og nálar.

Enda með tilvitnun í Ralph Waldo Emerson:

Einhver þarf að segja það  sem allir hugsa og enginn segir, og það sem allir segja en enginn  hugsar.




Stór sigur fyrir Blue-Ray staðalinn

Videóleigan Blockbuster í Bandaríkjunum ætlar að  leigja út Blu-Ray bíómyndir eingöngu.  Sjá frétt hér.

Ráðamenn þar segja að þeir hafi upphaflega leigt bæði HD-DVD og Blu-Ray diska en ætli nú að einbeita sér að því sem viðskiptavinir vilja.

 


Frumstæðar lífverur

Útidyrnar í vinnunni opna sig sjálfar.  Yfir þeim vakir auga sem sér til þess.  Það er svolítið nærsýnt og ég passa mig að ganga með fyrirferð að innganginum  til augað verði örugglega vart við mig.  Ég óttast að verða hunzaður og skella á  glerinu eins og nærsýnn mávur.

Í síðustu viku tapaðist ein merkilegasta uppfinning 20.aldar, kúlupenninn, í  hurðafalsinn á sjálfvirku hurðinni, sem ég flokka ekki með merkilegustu  uppfinningum 20.aldar.

Útidyrnar vissu ekkert hvernig þær áttu að taka á pennanum.  Þær opnuðust uppá  gátt, lokuðust aftur, lentu á pennanum og opnuðust upp á gátt.  Lokuðust  aftur... 

Hér hætti ég að lýsa því sem útidyrnar gerðu af því ólíkt þeim er ég fær um að  sjá tilgangsleysið.  Þessi framvörður þekkingafyrirtækisins þar sem ég vinn,  varð uppvís að örgustu heimsku.

Ef dyrnar hefðu getað horft uppá sjálfar sig og roðnað, þá væri tæknin komin  lengra en menn gefa í skyn.  Þær hefðu getað hringt á aðstoð, eða kannski skellt  fastar og fastar þar til penninn kvarnaðist í mjél, og glaðst svo yfir  árangrinum.

Dyrnar eru dæmigerðar mannanna smíðar sem eiga að létta lífið en gera það  eiginlega ekki alveg. Menn læra að lifa við skavankana á útfærslunni sem gerir  lífið á vissan hátt flóknara en ekki einfaldara.

Þegar ég geng upp að svona dyrum veit ég aldrei hverju ég á von á. Skyldi hurðin  opnast fyrir mér eða ekki?  Ætti ég að standa kyrr í smá stund og banda höndunum  út í loftið í von um að eitthvað gerist?  Er kannski sá tími dags þegar beita á  lykilkorti?  Er ég kannski í þættinum "falin myndavél?"  Eða á ég bara að taka í  húninn?

Ég las lýsingu á fólki sem taldi sig vera læst inni á gangi milli tveggja hurða.  Það var ekki hægt að sjá á dyrunum hvort þær opnuðust inn eða út.  Fyrri dyrnar  opnuðust inn, þær seinni út.  Handföngin gáfu ekkert í skyn og engir "Pull"  "Push" miðar voru límdir á hurðirnar með kveðju frá Visa.

Fólkið komst gegnum fyrri dyrnar, en ekki þær seinni og gaf sér að þær væru  læstar.  Svo sneri það við en gat ekki opnað hinar dyrnar heldur.  Fólk kom þeim  til aðstoðar.  Illar tungur gætu sagt að fólkið væri álíka vel gefið og dyrnar í  vinnunni hjá mér.

Hér má lesa lýsinguna á ensku
, og fleiri skondnar lýsingar er þarna að finna.



doors2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og nú að allt öðru - og þó ekki.

Náttúran ákvað fyrir löngu að gæða "æðri lífverur" stærri heila til að þær  höguðu sér ekki eins og mölfluga sem flýgur inn í kertaloga. Heilinn er dýrt  líffæri og þarf orku en náttúran ákvað að það væri þess virði.

Menn smíða fleira en hurðir, þeir búa líka til fyrirtæki og stofnanir. Margar  stofnanir virðast ekki geta mætt breyttum aðstæðum frekar en hurðin í vinnunni.  Hvernig er hægt að gæða stofnanir þessu "æðra vitsmunastigi" svo þær bregðist  við breytingum?  Enginn einn starfsmaður inní þeim virðist vera heilinn, allir "bara vinna þarna" eins og frumur í heimskri lífveru.

Það er fyrir löngu orðið tímabært að "ruslakallar" endurskoði tilgang sinn og  sæki ekki bara rusl, heldur líka dósir, flöskur og annan úrgang sem má  endurvinna.  Það er mótsögn að allir borgarbúar fari á einkabíl út í Sorpu með  ruslið.  Þarna vantar sjálfsgagnrýni í kerfið.

Tollurinn hagar sér ennþá eins og landið sé lokað.  Einhver þyrfti að einfalda  tollareglur stórkostlega.  Er tollskráin endurskoðuð eða bólgnar hún bara út?

Strætó hagar sér eins og hann sé ekki í harðri samkeppni við einkabíla.  Leiðaplönin eru ennþá ólæsileg og strætó tekur bara reiðufé, sem fæstir hafa  handbært nú á dögum.  Við horfum á strætó deyja út eins og risaeðlu.

Án samkeppni verða til fyrirbæri eins og dýrin á Galapagos eyjum. Er ekki  einhver leið til að stofnanir njóti hressandi áhrifa samkeppni án þess að alltaf  þurfi að einkavæða allt?  Eigum við að reka tvö tollembætti og láta þau keppa um  hylli þeirra sem flytja inn vörur?  Eigum við að gefa stofnunum einkunn í  vinsældakosningu?

Sum fyrirtæki eru alltaf að endurskilgreina sig.  Við feðgarnir gengum fram hjá  verzluninni "17" á Laugavegi.  Sonur minn var sannfærður um að hún væri glæný í  búðaflórunni, hipp og kúl.  Ég gat sagt honum að þetta væri að verða gömul og  virðuleg verzlun í bænum (opnuð 1976).  Þetta geta eigendur "17" tekið sem hrós.

Ég agnúast út í værukærar ríkis og borgarstofnanir vegna þess að ég vil að þær  dugi vel.  Annars verða þær vatn á myllu einkavæðingarsinna. Ég sé ekki mikinn  mun á að glata sjálfstæði landsins í hendur Dönum eða auðhringum.

(Skrifað að kvöldi 17.júní).

 


Hvers vegna ég hef aldrei sæzt við gluggakerfi



Nú fer ég í algeran nerdagír, og bið þá fyrirfram afsökunar sem  neyðast til að hætta að lesa eftir nokkrar málsgreinar.

Forritin í Windows þurfa öll að geyma upplýsingar.   Yfirleitt notum  við forritin til að búa til einhver skjöl sem við vistum í möppum  undir "My Documents".

Forritin eru samt líka að geyma ýmislegt annað.  Internet Explorer er  til dæmis með lista yfir "Favourites" sem eru uppáhalds vefsíðurnar  okkar.

Outlook býr til sína eigin gagnageymslu sem geymir alla póstana sem  við höfum móttekið og sent.

Þessi gögn eru eign okkar notendanna en þau eru samt ekki geymd með  skjölunum okkar undir "My Documents".  Gangi ykkur vel að finna þau ef  þið viljið taka afrit.

Svo eru ótaldir allir hlutirnir sem við höfum sagt forritunum um okkar  þarfir.

Hvaða prentara viljum við prenta á, viljum við hafa kveikt á "Auto  complete" í Word eða ekki, hvaða eyðublöð og stíla viljum við hafa  aðgengileg í Word, Hvaða símanúmer höfum við sett inn í Skype?

Samanlagt eru þessi gögn kölluð "Stillingar" eða "Preferences".  Ómissandi gögn sem eru ekki geymd í neinu skjali sem við erum vön að  fást við eins og Word og Excel skjöl.

Allar þessar stillingar gera tölvu að okkar tölvu. Það eru þessar  stillingar sem er svo sárt að missa þegar maður lendir í að fá nýja  tölvu í hendur eftir að gamli harði diskurinn hrynur eða gamla tölvan  úreldist.

Mér finnst þessar stillingar allar skipta miklu máli og þær verða  fleiri eftir því sem tímar líða.  Tölvan mín er ekki á sama máli.  Stillingarnar eru geymdar hér og þar, og ég get ekki auðveldlega  afritað þær frá vinnutölvunni yfir á heimatölvuna og áfram yfir á  laptop þótt ég geti auðveldlega afritað Word og Excel skjöl.

Vanir tölvunerdar vita að uppáhalds vefsíðurnar eru í skrá sem heitir  X og er geymd í möppu sem heitir Y og það er hægt að afrita þessa skrá  yfir á aðra vél með því að gera Z.  Gott og vel - en...

Jafnvel þótt hægt sé með góðri tölvuþekkingu að afrita stillingaskrár  á milli tölva er það ekki nóg.

Suma hluti á að afrita, aðra ekki.  Ég vil til dæmis að Word heima hjá  mér viti, að mér hugnast alls ekki "AutoComplete" fídusinn, ég er  búinn að segja Word í vinnunni það (og Word á öllum öðrum tölvum sem  ég hef sezt við).

Það er ekki þar með sagt, að Word heima eigi að prenta út á sama  prentara og Word í vinnunni.  Það er stilling sem á heima niðrí vinnu  og hvergi annars staðar.

Valmyndirnar í Office pakkanum hafa með tímanum orðið undirlagðar af  stillingum. Bara í Word er Page setup, printer setup, view toolbars,  styles and formatting, spelling and grammar, language settings, tools  customize, tools options, listinn heldur áfram og áfram og áfram.

Hver hefur ekki lent í því að hjálpa vinnufélaga að breyta vel falinni  stillingu sem var að eyðileggja vinnudaginn en var ekki hægt að finna  af sjálfsdáðum af því það eru svo margar stillingar að það þyrfti  Google leitarvél inní forritinu sjálfu til að leita að þeim öllum?

Samt eru stillingarnar ekki nógu margar.  Ég get ekki búið til  stillingu í Word sem segir að mér finnst best að skrifa bréf til  konunnar minnar með ákveðinni kossaundirskrift og að það eigi að senda  Word skjöl til hennar í tölvupósti.  Hins vegar vilji ég prenta bréf  til mömmu á laser prentarann og nota ákveðna leturgerð, takk.

Ég er alltaf að vinna verkamannavinnu þótt tölvan eigi að geta létt  mér störfin.

Þótt ég gæti sagt Word að stilla þetta, væri það ekki nóg, því þegar  ég byrja að skrifa bréf til konunnar minnar ætti ég að opna Outlook en  þegar ég vil skrifa mömmu ætti ég að nota Word.  Ég vil ekki velja  milli Word eða Outlook, ég vil skrifa bréf, og svo vil ég ákveða hvort  ég vil senda bréfið sem tölvupóst eða prenta það á pappír.

Ástæðan fyrir því að ég þarf að taka þessa ákvörðun fyrirfram um að  nota Word eða Outlook er að gervallt Windows er hannað í kringum  risastóra hugbúnaðarpakka, en ekki verkefnin sem notendur eru að reyna  að leysa í sínu daglega lífi.

Þegar ég ætla að prenta út reikning í bókhaldskerfi, þá er mjög  líklegt að ég vilji senda hann til mannsins sem ég er með í símanum þá  stundina. Tölvan er tengd við sama tölvunet og símstöðin og gæti  hæglega flett upp hver er á hinum endanum.

Ég læt mig ekki dreyma um að þessi fídus verði útfærður á næstunni því  þá þyrftu kerfi að vinna saman og það gera þau ekki.

Stýrikerfið gæti tekið af skarið þarna, hlustað á símstöðina og sagt  forritinu sem geymir tengiliðina mína að fletta númerinu upp, og sagt  svo bókhaldsforritinu hvaða heimilisfang á að setja á nótuna.

Þannig er raunveruleikinn ekki.  Stýrikerfið keyrir bókhaldspakkann og  bókhaldspakkinn spilar sóló eftir það, og hann veit ekkert um  símstöðvar og lætur ekki segja sér slíka hluti nema notandinn slái þá  inn með sínum þreyttu fingrum.

Allar þessar stillingar eru settar inn í stóru forritin vegna þess að  þau geta ekki spurt stýrikerfið um neitt af viti sem varðar notandann.  Ef mér líkar ekki "AutoComplete" í Word þá er mjög líklegt að mér  myndi ekki líka það heldur í Excel eða MindManager eða hvaða forriti  sem kemur næst.  Af hverju get ég ekki sagt stýrikerfinu frá mér í  eitt skipti fyrir öll og það svo séð um að ala upp forritin sem ég  nota frá degi til dags?

Grundvallarvandamálið er þessi tíska að búa til risaforrit sem reyna  að gera allt fyrir notandann í lokuðum heimi.

Þegar ég notaði Unix áður en gluggakerfin komu, þá var ég vanur að  taka mörg lítil forrit og "líma þau saman" á skipanalínunni eða með  scriptum sem ég skrifaði.  Unix notendur þekkja þetta sem "unix  piping" og "command line options"

Stillingarnar mínar voru í þessum scriptum, í formi "command line  options" og í því hvernig þessi litlu forrit voru límd saman.

Þessi script geymdu ekki bara stillingarnar mínar heldur líka í hvaða  röð ég vildi gera hlutina.  Ég gat búið til scipt sem hét "Bref til  mömmu" sem byrjaði á að opna edit glugga, með ákveðnum fonti, og  endaði á að prenta á laser prentarann.  Ef ég vildi hefði ég getað  látið scriptið prenta heimilisfangið á umslag á öðrum prentara strax á  eftir.

Þetta er stóri munurinn á Unix og Windows heiminum í mínum huga.  Scriptin voru mín eign og ég gat afritað þau á nýja tölvu. Þau voru  mínar stillingar og þau gátu orðið eins einföld eða flókin og mínar  þarfir voru einfaldar eða flóknar þá stundina.

Ég sakna þess ekki að gera allt á skipanalínunni, en geri mér að sama  skapi grein fyrir því að Windows hefur aldrei komið með viðundandi  mótsvar við henni.

Grunn vandamálið er þessi rosalega sjálfselska í Windows forritum. Þau  eru ekki hönnuð til að starfa saman eins og Lego kubbar í stærra  samhengi heldur reynir hvert forrit að vera endanlega lausnin á öllum  vandamálum notandans.

Þegar forritin stækka verða stillingarnar í þeim að martröð.  Ég held  að margir geti verið sammála mér að Office pakkinn hefur ekki farið  batnandi með árunum.  Ég held að hann hafi náð sínu hámarki í kringum  Office 97 og orðið leiðinlegri síðan.  Skýringuna er að stóru leyti að  finna í stillingakraðakinu.

Ég tek Office sem dæmi af því lang flestir þekkja það.  Ég hefði getað notað marga aðra pakka sem dæmi, þetta er ekki árás á Microsoft.

Leiðin framávið er að endurhugsa hvað er átt við með notendastýrikefi.  það er ekk nóg að stýrikerfið útvegi skrár, glugga og nettengingu fyrir  forritin sem það hýsir, en taki ekki af skarið í neinu öðru sem varðar  þarfir notandans og hans verklag.  Kannski þarf "stillinga algebru". Kannski þarf öflugra "Grafískt Lego" en ActiveX varð.

Skrifborðs samlíkingin var sniðug árið 1984 en nú er árið 2007.


Mig langar í !

Þessi auglýsing kom inn um bréfalúguna í vikunni:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Grillið er 33 sinnum dýrara en fyrsta gasgrillið okkar.

grill33

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef maður grillar vikulega í þrjá mánuði á ári og grillið er afskrifað á tíu árum, þá kostar hver grillun 1.700 kr. Þá er eftir að kaupa matinn á grillið :)

Orðin "Aðeins" og "Þú sparar" komu því ekki upp í huga minn við að lesa auglýsinguna. 

Ég er bara með leiðindi.  Allir vita að þetta snýst ekki um grillun. Grillverðið er bara fjórðungur af Rolex úri og fimmtugasti hluti af nýjum Range Rover.  Ef maður er á annað borð í pissukeppni þá er þetta eins góð fjárfesting og hver önnur.


pissing_elephant

 

 

 

 

 

 

 

 

Samt... 

Ef öll heimili á landinu keyptu gasgrill á tíuþúsund krónur og létu mismuninn fara í sameiginlegt málefni væru komnir 20 milljarðar.  Ég er að reyna að segja, að kannski er ekki þörf á frekari skattalækkunum ef svona grill eru farin að seljast.

Eigum við ekki frekar að slá saman í eina svona út á flugvöll?

airport shuttle

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég er enginn kommi, en ég veit að ef við högum okkur eins og ameríkanar mun Ísland líta út eins og Ameríka á endanum.  Engir innviðir, en flott gasgrill.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband