17.4.2007 | 11:18
Síðustu perurnar í seríuna takk !
Ljósin á jólatrénu eru þeirrar náttúru að það kviknar ekki á þeim nema allar perurnar séu í lagi.
Hjólastígar eru þannig líka. Ef þeir mynda ekki samhangandi net þá treysta foreldrar sér ekki til að senda börnin sín út á hjóli. Þeir skutla þeim í bíl í staðinn. Það er slæmt, því fullorðnir hjólamenn (eins og ég) eru búnir til úr börnum sem hjóla.
Það er fullt af hjólastígum í Reykjavík en þeir eru ekki farnir að mynda fulltengt net ennþá. Það vantar uppá 100 metra hér og þar. Mig grunar að kostnaðurinn við að klára uppbyggingu netsins sé ekki rosalegur, en nú þarf að skoða hjólastíganetið, finna þessar gloppur og eyða þeim.
Nýju brýrnar yfir Hringbrautina voru öfgakenndar. Ef markmiðið var að efla umferð hjólandi hefði ég ekki byrjað þar. Það hefði mátt kaupa þó nokkra kílómetra af venjulegum hjólastíg fyrir andvirðið.
Það er til kort af hjólaleiðum í Reykjavík, en kortið gerir ekki greinarmun á gangstétt og hjólastíg. Ég myndi ekki þora að senda barn yfir Suðurgötu hjá þjóðminjasafninu því þar þeytast bílar út úr hringtorginu yfir ómerkta gangbraut allan sólarhringinn. Samt er þetta merktur hjólastígur á kortinu, rétt eins og hjólaleiðin meðfram sjónum.
Kortið gerir ógagn því fólk gæti haldið að Reykjavík sé orðin góð hjólaborg og fólk hjóli ekki af því það er latt. Reykjavík er ekki orðin hjólaborg en gæti farið að verða það.
Ég trúi því að ef hjólastígarnir væru kyrfilega merktir þannig að fólk viti af þeim, og ef þeir eru færir um að koma fólki milli staða án þess að leggja lífið í sölurnar, þá muni kvikna á perunni: fólk fer að hjóla.
Ég veit með vissu að brekkurnar og veðrið eru ekki vandamálið, heldur umferðin. Hún fer ekki neitt og borgin ekki heldur. Þess vegna getum við óhrædd lagt í þessa langtíma fjárfestingu og aðskilið hjólandi umferð frá bílunum.
Verkfræðistofur hafa verið fengnar til að meta umferðarálagið á stærstu umferðargötum í Reykjavík. Ég legg til að næsta skref verði að verkfræðistofa verði fengin til að gera úttekt á hjólastígum borgarinnar með þessa spurningu að leiðarljósi: "Myndi ég þora að senda barnið mitt þessa leið á hjóli?"
Hjólreiðar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.4.2007 | 21:07
Ráðleggingar til prinsa
"Ég færi á taugum ef ég ætti svona mikla peninga" hugsaði ég um daginn. "Af hverju sofa þeir ríku vel?"
Ég held ég viti svarið. Peningar eru ekki aðalatriðið og hafa aldrei verið, þeir eru einkenni um annað mikilvægara: Vald. Ég ólst upp við að ríkið réði flestu á Íslandi og þetta er því nýtt fyrir mér, en ég er að læra.
Frægur leikari fær peninga fyrir það eitt að nota dýran bíl sem framleiðandinn vill gefa honum. Völd í formi frægðar færa leikaranum þannig peninga.
Sumir sem eru ríkir á Íslandi eru það af því þeir hafa völd, ekki öfugt. Þeir vita að völdin eru tryggð og sofa vel. Völdin geta verið í formi lögbundinna réttinda, kvóta, einokunar, tengslanets og margs annars.
Ráðuneytin og þingið samanlagt gera ca. 1100 starfsmenn, ætli meðalbankinn sé með 2000 starfsmenn? Hver er með stærri her þegar kemur að þekkingaröflun og tengslaneti?
Af hverju vilja margir að ríkisumsvif séu sem minnst? Kannski útaf völdum. Ef ríkið minnkar við sig verður til valdatóm og þar komast aðrir að. Peningarnir sem losna við sölu ríkisfyrirtækis eru kannski ekki aðalatriðið, heldur hver stjórnar auðlindinni.
"Það er til nóg af peningum, þeir eru ekki málið" sagði framámaður í þjóðlífinu við mig um daginn. Ég held ég sé að skilja rétt það sem hann var að reyna að segja.
Sumir verða nýríkir óvart, t.d. með því að eiga hús sem verður verðmætt. Ef þú átt 100 milljóna hús núna gætir þú selt það, lagt peningana inn á banka og fengið milljón á mánuði í vexti. Af þessari milljón getur þú borgað 10% fjármagnstekjuskatt og átt 900 þúsund á mánuði til að lifa fyrir.
Þú gætir notað nýja frítímann til að læra að kaupa völd - en flestir sem eignast óvart pening eru vanir að vinna dagvinnu og vinna áfram í staðinn eða slæpast bara í Florida. Þeir munu missa peningana frá sér smám saman ef þeir sækjast ekki eftir völdum. Þótt þú kaupir verðbréf verður hollusta verðbréfasalans ekki fyrst og fremst við þig því þú ræður ekki yfir honum.
Ef þú eyðir öllum dagstundum þínum í að vinna áttu engan tíma aflögu til að læra að beita þeim völdum sem þú þó hefur sem neytandi eða félagsmaður í einhverju félagi. Þekking = völd.
Kunningi sem vann í fjármálafyrirtæki sagði mér að hann hefði haft samviskubit yfir þeim sem eyddu öllum tíma sínum í að afla fúlgu fjár en afhentu hana í bankann eins og býflugur koma með hunang til bóndans. Kunninginn er kominn á eftirlaun fyrir fimmtugt.
Heildsali var heimsóttur af verzlunareigendum sem keyptu af honum pallettu af vörum fyrir hálfa milljón. Næst komu þeir og vildu heilan gám fyrir fimm milljónir. Heildsalinn var glaður. Í síðasta skipti komu þeir og sögðu "Við kaupum af þér heildsöluna fyrir fimmtíu milljónir". Hann sagði "ég held nú ekki, ég er að græða á tá og fingri".
Loks fékk hann uppsagnarbréf frá framleiðandanum sem sagðist hafa fengið betri umboðsmenn, þeir væru með 70% markaðshlutdeild. Heildsalinn sat eftir með sárt ennið. Hann hafði haft peninga en þeim fylgdu engin völd.
Svona geta þeir gert sem skilja að þeir hafa völd og þora að beita þeim. Ef peninga vantar tímabundið má fá þá lánaða, því þeir sem hafa völd hafa lánstraust.
Ef ríkið veit af ójöfnuði í þjóðfélaginu og vill minnka hann aftur þá er ekki víst að ríkið ráði í raun þegar þar að kemur. Skv. "Leviathan" eftir Hobbes er ríkið samningur milli þjóðfélagsþegna um að vera ekki í stríði við hvorn annan. Sá friður kemur niður á athafnafrelsi manna en það er fórnin.
Ef ríkið verður að engu er vopnahléið búið. Menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir gera ríkið óstarfhæft, hvar sem þeir standa í flokki.
Ef þú ert ungur og þarft að kaupa 100 fermetra íbúð núna þarftu 300 þúsund eftir 40% skatta til að eiga fyrir afborgunum og þá er eftir að kaupa í matinn. Framtíðarlandið virðist ekki ætlað þér í bili.
Machiavelli myndi ráðleggja þér að fara utan, verða ríkur, koma aftur og brjótast til einhverra valda með auðnum.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2007 | 09:40
Mætti ég koma með smá tillögu?
Grein Uwe Reinhardt um að gera ætti árás á Ísland, á sér forföður í enskum bókmenntum. Blaðagreinin "A Modest Proposal" eftir Jonathan Swift kom út 1729. Í henni leggur hann til að fátækar írskar fjölskyldur selji börnin sín sem gott kjöt til ríkra fjölskyldna í London.
Í greininni fjallar hann á yfirvegaðan hátt um bágt ástand hjá fátækum og svo kemur þessi málsgrein eins og skrattinn úr sauðaleggnum:
A young healthy child well nursed, is, at a year old, a most delicious nourishing and wholesome food, whether stewed, roasted, baked, or boiled; and I make no doubt that it will equally serve in a fricassee, or a ragout.
Í seinni hluta greinarinnar fer hann ítarlega gegnum útreikninga á því, hversu jákvæð áhrif þetta muni hafa á allar vísitölur. Í enskum skólum er þessi grein kennd sem eitt besta dæmið um breska kaldhæðni.
Fjöldi fólks skrifaði haturgreinar gegn Swift og þarmeð var tilganginum náð; greinin og hryllilegt ástand fátækra fjölskyldna í London komst á forsíður blaðanna. Jonathan Swift er best þekktur sem höfundur annarar þjóðfélagsádeilu en það er "Gulliver í Puttalandi".
Mér datt í hug að skrifa mína eigin grein í þessum anda. Í henni ætlaði ég að leggja til að nú, þegar flestir keyra um á jeppum yfir rennislétt malbik meðan stéttarnar í borginni eru svo niðurníddar að þær eru eiginlega bara færar jeppum, hvernig væri þá að skipta? Jeppafólkið getur notað frábæra torfærueiginleikana í eitthvað og við hjólanerdarnir fáum loksins hjólastíga.
![]() |
Mikil viðbrögð við grein háskólaprófessors um sprengjuárás á Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2007 | 11:53
Öxl - Hurðarás
Þeir sem hafa tekið húsnæðislán nýlega munu sjá eftir nokkur ár að skuldabyrðin minnkar ekki sem skyldi.
Á fimmtugsaldri á erfiðasta hjallanum að vera náð og peningarnir sem menn afla eiga að verða þeirra eigin til að leika sér fyrir. Á fimmtugsaldri fer mönnum að svíða mistökin.
Hér er slóð á Excel skjal. Fylltu út í gulu reitina, láns upphæð og afborganirnar sem þú treystir þér til að standa við, leiktu þér svo með verðbólgureitinn og fylgstu með grafinu hægra megin.
Það sem vekur athygli mína á grafinu er hvað lítil verðbólguhækkun hefur mikil áhrif.
Í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans hafði Davíð Oddson orð á því hversu margir gætu orðið gjaldþrota á næstunni. Menn telja gjaldþrot eins og banaslysin í umferðinni en þeir sem eru örkumlaðir komast ekki í fréttirnar.
Mér datt í hug næsta nafn sem nota mætti á banka. Nafnið er "Öxl - Hurðarás".
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.4.2007 | 20:57
Óþarfa ánauð II
Adam og Eva voru ekki með nafla svo ekki stunduðu þau naflaskoðun. Þau höfðu engan að heimsækja, ekkert videó og afi kom aldrei í heimsókn, hvað þá að hann passaði Kain og Abel.
Það eina sem hjónaleysin höfðu var epli sem á stóð "Ekki éta mig". Þau áttu aldrei séns í þá freistingu. Ekki er vitað hvernig Kain eignaðist börn eftir að hafa drepið bróður sinn...
Svo komu kynslóðir af kóngum sem voru hver öðrum andstyggilegri. Jobsbók, orðskviðirnir og Davíðssálmar eru ágæt lesning, en þess á milli rennur út í fyrir bókarhöfundum. Móses leiddi lýðinn áfram og hvílíkur lýður!
Guð gamla testamentisins er mislyndur og frátekinn fyrir Guðs útvöldu þjóð sem er ekki Íslendingar heldur Gyðingar sem voru sannfærðir um að allir aðrir færu til fjandans. Afar óviðkunnaleg heimspeki.
Nýja testamentið er miklu betra. Ég kann mjög vel við Jesú og er sammála honum í næstum öllu. Ég er viss um að hann hafi verið til, Rómverjar staðfesta það í skrifum sínum. Ég trúi bara ekki á hann frekar en ég trúi á poppstjörnur, drauga eða jólasveina.
Ég held að Jesú hafi farið í austur frá Palestínu, kynnst Búddisma og fært hann í búning sem var nágrönnum hans skiljanlegur. Það útskýrir hvers vegna hugsanir Jesú eru svo upp á kant við allt sem á undan er gengið í Biblíunni -- enda var hann krossfestur. Mér hefur alltaf fundist fyrri bókin draga þá seinni verulega niður.
Það er hægt að lifa andlegu lífi án trúar og öfugt. Skipulögð trúarbrögð eru eins og fótboltaáhorf en andlegt líf er eins og að stunda reglulega hreyfingu. Þetta tvennt fer oft saman en ekki alltaf. Í þessari samlíkingu eru trúarofstækismenn eins og fótboltabullur. Hvað hafa þær með íþróttir að gera?
Það kemst enginn í form með því að horfa á fótbolta og mennirnir verða ekki góðir með því einu að mæta í messur. Trúaðir og trúlausir þurfa að vinna með sig andlega því höfuðsyndirnar eru lestir sem allir þurfa að reyna að sigrast á.
Ég hafði mitt trúleysi út af fyrir mig og brosti þegjandi þegar einhver gaf sér að ég væri trúaður. Núorðið segi ég að ég trúi ekki. Fyrir því eru tvær ástæður.
Í fyrsta lagi hafa árásir trúarofstækismanna á turna, borgir og lönd gefið misvitrum mönnum veiðileyfi á lýðræðið sem ég met mikils.
Í öðru lagi ýta mörg trúarbrögð undir þá hugmynd að betra líf bíði hinum megin og ekki þurfi að passa upp á náttúruna því hún sé gjöf Guðs til mannanna til að fara með eins og þeim sýnist. Sumir ganga svo langt að hlakka til heimsenda. Ég vil ekki umbera vitleysuna í þannig fólki.
Enginn má halda að trúarbrögð séu það sama og andleg sjálfsrækt.
Þjóðkirkjuna ætti að skilja frá ríkinu. Hún segist vera órjúfanlegur hluti af sögu og menningu landsins. Það er rétt, hún verður alltaf hluti af sögu Íslands. Það væru mistök að afneita henni í sögubókunum. Það er þó ekki rökrétt að álykta að hún þurfi þess vegna að vera innbyggð í lýðveldið áfram.
Á páskum er haldið upp á að dagurinn er orðinn lengri en nóttin og að vorið er að koma. Páskarnir eru eldri en dagatalið. Þess vegna eru þeir alltaf haldnir á fyrstu helgi eftir fullt tungl eftir jafndægur á vori og færast til í dagatalinu. Kanínurnar og eggin eru frjósemistákn. Sögurnar um engilinn sem myrti börn Egypta og um innreið Jesú í Jerúsalem komu seinna.
Páskarnir eru ekki bara fyrir trúaða. Ég get líka sagt: Gleðilega páska!
PS: Ég er í góðum félagsskap
Trúmál og siðferði | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.3.2007 | 12:00
Þankar um öryggi í tölvuheimum
Stýrikerfum og tölvunetum má líkja við byggingar sem forritin okkar eiga heima í.
Ef byggt er á friðartímum þegar innbrotsþjófar eru ekki til, er erfitt að gera bygginguna örugga eftirá.
Fangelsi eru yfirleitt hönnuð fyrir sitt hlutverk. Það er erfitt að gera öruggt fangelsi úr t.d. Landsspítalanum. Dyrnar og gluggarnir eru of margir og of margir gangar sem þarf að fylgjast með.
Það er hægt að kaupa skynjara og myndavélar en í byggingu með þúsund innganga þarf þúsund myndavélar og einhvern til að fylgjast með þeim öllum.
Þetta er staðan í öryggismálum í tölvum í dag. Þótt kerfin líti út fyrir að vera ný er nýnæmið bara á yfirborðinu. Stýrikerfin eru barnabörn kerfa sem voru hönnuð þegar notendur voru upplýstir sérfræðingar og vírusar og internet voru ekki til.
Þegar kerfin voru hönnuð sat fólk eitt með sína einkatölvu og hafði ekki tengingu út á netið. Þá var ekki búið að leggja þetta (skólp) rör út úr heimilum og fyrirtækjum sem hægt var að skríða inn um.
Hér eru nokkrir ósiðir í tölvubransanum sem við þurfum fyrr eða síðar að fást við.
Ósiður 1: Allt er leyft þar til það er bannað.
Tölvur leyfa alla skapaða hluti eins og að láta Word skjöl keyra forrit eða leyfa forritum að keyra nema vírusvörnin nái að stoppa notandann af. Þau leyfa börnunum á heimilinu að setja upp hugbúnað sem þau finna á netinu og heimsækja vefsíður sem enginn fullorðinn hefur skoðað eða samþykkt.
Þessu þarf að snúa við. Hlutir eiga að vera læstir þar til þeir eru opnaðir ef þeir eiga að þola að liggja á glámbekk. Ég nota 10 - 20 forrit á tölvunni minni. Öll önnur forrit eiga að vera lokuð nema ég opni þau.
Vefurinn í heild sinni má ekki standa opinn börnum. Við leyfum börnum ekki að ferðast ein til útlanda. Vefurinn er miklu ógeðslegri en klámblöð voru í gamla daga og hann stendur galopinn á flestum heimilum.
Ósiður 2: Að gera lista yfir vondu kallana. Allir sem eru ekki á listanum eru góðir.
Þetta er það sem veiruvarnarforrit gera. Allar skrár á diskinum eru skoðaðar og bornar saman við lista yfir alla þekkta vírusa í heimi þann daginn. Ef skrá líkist vírus kvartar veiruvarnarforritið.
Þessi aðferð gengur ekki til lengdar, vírusarnir eru of margir og þeim fjölgar á hverjum degi. Eins og stýrikerfi virka í dag er þetta eina lausnin, ég er ekki að tala illa um veiruvarnarforrit sem slík.
Ég vil samt heldur viðhalda lista yfir góðu forritin á tölvunni. Allt sem er ekki á listanum má ekki nota. Þetta er eins og þjóðfélagið gerir fyrir lyf og matvörur. Þeir sem vilja lifa spennandi lífi geta valið að hunza listann.
Annað dæmi um ósið númer tvö, er að ég fæ allan póst í innboxið mitt nema póstsían haldi að hann sé rusl. Ég vil snúa þessu við mjög fljótlega. Ef sá sem sendir mér póst undirritar ekki póstinn með rafrænum skilríkjum á póstsían að endursenda póstinn og benda sendanda á að útvega sér þau.
Þessi skilríki koma til Íslands í haust og íslendingar ættu að taka þeim fagnandi. Tölvupóstur getur þá breyst úr nafnlausum póstkortum í undirrituð ábyrgðarbréf í umslagi. Hugsanlega verða íslendingar í fararbroddi þarna.
Ósiður 3: Bíðum eftir árás / slysi og endurbætum svo vöruna / öryggisferlið.
Ef þessi aðferð gengi væri Windows orðið öruggt stýrikerfi núna.
Það verður að hanna öryggi inn í vöru frá byrjun. Bankarnir eru núna að taka rafræn persónuskilríki í notkun og það er frábært. Sumir notendur hafa kvartað undan óhagræðinu en þeir gera sér ekki grein fyrir hvað hættan er orðin mikil. Það er auðvelt að hlera lyklaborð hjá öðrum. Það eru ekki tæknilegar ástæður fyrir því að það hefur ekki verið gert oftar. Alda innbrota í danska netbanka er nú í uppsiglingu.
Ósiður 4: Að halda að hakkarar séu töff.
Nei, þeir eiga að fara í fangelsi. Það á ekki að þakka hökkurum fyrir að koma upp um nýjustu veikleikana í stýrikerfum og bönkum. Enginn þakkar innbrotsþjófi fyrir að prófa þjófabjöllukerfið. Ég held að þetta hugarfar sé reyndar á útleið. Öryggismál eru félagsleg, ekki tæknileg.
Ósiður 5: Að reyna að láta óbreytta notendur sjálfa bera ábyrgð á öryggismálum.
Flestir eru tilbúnir að segja ókunnugum manni lykilorð ef hann er vingjarnlegur og lítur út eins og tæknimaður. Lykilorðin eru skrifuð á mottu undir músinni. Notendur þekkja ekki mun á vefsíðu banka eða eftirlíkingu af henni sem stelur af þeim lykilorðinu.
Þeir skilja ekki glugga sem birtast á skjánum og í stendur: "This attachment may contain an active object". Eftir smátíma ýta þeir bara á "OK" hnappinn við öllum "Are you sure" spurningum.
Umferðarfræðsla er mikilvæg en það þarf samt örugga vegi og vegrið.
Ósiður 6: Þegar fyrirtæki og stjórnmálamenn segja: "Gerum eitthvað í örygginu núna það lætur okkur líta vel út".
Öryggismál eru viðvarandi ferli, ekki vara sem hægt er að hlaupa út í búð og kaupa. Þú getur ekki keypt nýjasta eldvegginn eða veiruvörnina útí bæ en látið hjá líða að hafa heildarstefnu í öryggismálum. Það er eins og að hafa keypt hús sem stendur eitt í skógi með glerhurðum út í garð og ætla að redda öryggismálunum eftirá með einni þjófabjöllu.
Mér datt í hug að birta þessa þanka í tilefni af rafrænum skilríkjum sem koma í haust. Þar hafa menn og konur hér unnið vinnuna sína samviskusamlega. Skilríkin marka vonandi endalok "villta vestursins" í sögu netsins og upphaf þess að netheimar fari að líkjast samfélagi sem fólk vill eiga heima í.
Sjá nánar á www.audkenni.is og www.skilriki.is
Tölvur og tækni | Breytt 3.4.2007 kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.3.2007 | 12:24
Óþarfa ánauð
Ég er með breiðband Landssímans. Stærsti pakkinn frá þeim er með mikinn fjölda sjónvarpsrása, en það sem stingur í stúf er að engin þeirra sýnir "The Simpsons" eða "Scrubs" eða neinn þann þátt sem er einnig sendur út hér.
Þessir þættir eru sýndir á "TV2" í Danmörku sem við horfðum mikið á meðan við bjuggum þar. TV2 er ekki á leið til Íslands frekar en margar aðrar stöðvar sem vantar í stöðvaflóruna hér.
Ég held því fram að samkeppnin sé ekki í lagi. Skammt er að minnast þegar slökkt var á útsendingu danska sjónvarpsins eins og hún lagði sig vegna þess að danir sýndu frá HM í knattspyrnu sem var sent út í læstri dagskrá á einhverri íslensku stöðvanna.
Nú eru nokkur ár liðin síðan örbylgju og breiðbands útsendingar hófust og ég er að verða vondaufur um að þetta ástand breytist til batnaðar.
Ein leið til að komast undan einokunninni er að kaupa gerfihnattaloftnet. Vegna tækniframfara á síðastliðnum árum hafa gerfihnattadiskar minnkað og eru nú aðeins 85cm stórir. Ég veit satt að segja ekki hvers vegna neytendur flykkjast ekki hópum saman að þessari tækni.
Skýringarnar eru þó sennilega að enginn aðili hér á landi sér hag í að útbreiða hana enda er bara hægt að selja hvern disk einu sinni.
Ég hvet lesendur til að hugsa sjálfstætt og hafa samband við næsta útsöluaðila á gerfihnattadiskum.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2007 | 12:14
Hversvegna tölvunarfræði?
Ég þurfti ekki að kunna að smíða legokubbana til að smíða úr þeim og reynslan við að smíða úr þeim nýtist líka á múrsteina eða hugmyndir. Það sem hægt er að byggja með kubbum er óháð kubbunum og þannig er tölvunarfræði óháð tölvum.
Tölvunarfræði á meira skylt við tónlist og stærðfræði en við verkfræði eða efnafræði og hún býður upp á ótrúlega sköpunargleði.
Á tímabili voru tölvur aðeins fyrir útvalda einfara sem vildu kynnast þeim betur á sama tíma og venjulegt fólk notaði ritvélar.
Fullkomnunarárátta og stjórnsemi eru eiginleikar sem fá útrás í tölvugeiranum því tölvan skapar heim fyrir þig þar sem þú getur ráðskast að vild. Tölvuheimurinn laðaði því að sér marga sem eru ekki tilbúnir til að taka þátt í mannlegum samskiptum, og hann gerir það enn.
Þeir sem komast langt í tölvubransanum eru þó yfirleitt færir um mannleg samskipti til jafns við tölvusamskiptin. Hinir lenda fyrr eða síðar á glerþaki.
Flestir sem ég þekki í tölvubransanum eru ekki fagidjótar heldur skemmtilegt fólk sem hefur önnur áhugamál en tölvur. Reyndar finnst mér mikil fylgni milli þess að vera góður í tölvum og að vera áhugasamur um tónlist.
Windows og Office pakkinn eru búin að vera með okkur síðan 1995 og hafa mótað mjög hugsanir fólks um hvað tölvur eru.
Mér finnast Windows og Office frekar óspennandi og mér sárnar þegar fólk segir "þú ert tölvunarfræðingur, hjálpaðu mér með Excel". Það er álíka og að segja við fransmann: "Þú ert frakki, hjálpaðu mér að skipta um dekk á þessum Citroen" án þess að vilja vita neitt um landið sem hann kemur frá.
Það er hægt að smíða svo miklu meira spennandi vörur en Windows og það er ennþá hægt að verða sá sem gerir það (og verða ríkur). Windows, Macintosh og Unix eru öll amerísk. Hvernig myndi evrópskt stýrikerfi líta út? Þurfum við stýrikerfi? Hverfa þau á bak við tjöldin og Google heimasíðan verður nýja skjámyndin sem mætir þér á morgnana?
Tölvur hafa verið notaðar til svo margs en tölvunarfræðin á ekki heima í neinni einni grein.
Tölvur eru mikið notaðar af vísindamönnum. Það þýðir ekki að menn þurfi að kunna stærðfræði til að forrita tölvur.
Verkfræðingar hafa smíðað tölvur og tölvuhluta, en samt er tölvunarfræði ekki undirskor í verkfræði.
Tölvur eru líka mikið notaðar af viðskiptageiranum. Það þýðir ekki að maður þurfti að ganga með bindi og hafa gaman af prósentureikningi til að nota tölvur.
Krakkar í dag nota tölvur til að spila leiki og vera á MSN. Það þýðir ekki að tölvur séu fyrir krakka.
Tölvunarfræði er að verða fræðin um það hvernig fólk leysir vandamál í öllum hinum fræðunum. Margir vilja gera tölvunarfræði að skyldufögum í öllum öðrum fögum, rétt eins og stærðfræði er í dag.
PC tölvur eru oft ljótir ljósbrúnir eða svartir kassar. Þær þurfa ekki að vera þannig. Vissirðu að það er tölva inní Visa kortinu þínu, örgjörvi, minni og allur pakkinn? Gemsinn þinn er 99% tölva.
Tölvur þurfa ekki að ganga fyrir rafmagni. Þær geta gengið fyrir vatni eða ljósi. Menn eru að prófa að smíða tölvur úr frumum. Hver einasta fruma í líkamanum er tölva. DNA er forritið hennar. Samruni tölvunarfræði og líffræði er rétt að byrja og óhemju spennandi svið sem margir fást við.
Vinur minn notar tölvur til að tefla skák og stýra vefstól sem hann forritar mynstur í.
Kollegi minn lætur tölvur skrifa glæpasögur. Hún er búin að sjá að plottin í glæpasögum má búa til með formlegum hætti, alveg eins og Agatha Christie gerði.
Annar kollegi minn er að hugsa um ljósmyndir.
Enn annar leitar að laglínum í tónlist.
Hvers vegna er forritun skemmtileg? Hvaða undur bíða þess sem leggur hana fyrir sig?
Í fyrsta lagi er það hrein sköpunargleði. Rétt eins og barnið leikur sér að drullukökum eða legokubbum, þá nýtur sá fullorðni þess að byggja forritin inní tölvunni.
Í öðru lagi er það ánægjan að sjá annað fólk geta nýtt sér sköpunarverkið. Allir vilja koma að gagni og það er óskaplega mikið stolt samfara því að fá þakkir fyrir að hafa létt einhverjum störfin.
Í þriðja lagi getur verið gaman að kljást við flækjustig sem geta komið upp. Hluti dagsins hjá forritara fer í að leysa gátur. Tölva heillar á sama hátt og klukka sem hægt er að rífa í sundur og skrúfa saman aftur.
Í fjórða lagi eru endalausar uppgötvanir. Það er alltaf eitthvað nýtt í hverju forriti rétt eins og hver bygging sem arkitekt hannar býður upp á ný viðfangsefni.
Síðast en ekki síst er það ánægjan sem fylgir því að vinna í leir sem er svona mótanlegur. Tölvan er svo sveigjanleg, hún leyfir þér að pússa og breyta og bæta við sköpunarverkið. Leirinn þornar aldrei, það kvarnast ekki úr og listaverkið upplitast ekki eða verður skítugt.
Þótt forritið sé ekkert nema hugarsmíði lifnar það við fyrir augunum á þér. Það skilar niðurstöðum, tölum, texta eða myndum og þú getur sýnt það öðrum, stoltur eins og krakki. Það er dulúð yfir því að slá inn réttu orðin á lyklaborð og sjá forritið þitt svara þér í fyrsta sinn.
Eftirspurn eftir hugbúnaðarfólki fór upp úr öllu valdi rétt áður en "dotcom" bólan sprakk, um aldamótin. Þótt eftirspurnin hafi minnkað síðan þá, er hún engu að síður mikil. Það þarf ekki að fletta atvinnuauglýsingum lengi til að sjá að nóg er að gera í bransanum hér á landi.
Ég hef lesið í 25 ár að bráðum verði búið að semja síðasta tölvuforritið eða að nú sé öll hugbúnaðarvinna farin til Indlands eða Kína. Nú eru flest rör framleidd í útlöndum en það er samt nóg að gera hjá íslenskum pípulagningarmönnum. Enginn hefur haft áhyggjur af atvinnuleysi hjá þeim.
Þótt tölvur séu skemmtilegar og nóg sé að gera, auglýsi ég samt eftir fjölbreyttari viðfangsefnum. Íslenskur þekkingariðnaður getur verið ennþá blómlegri, sérstaklega ef ríkisstjórnin hættir að mæna á aldargamlar atvinnugreinar.
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.3.2007 | 11:36
Vöfflujárn og vestræn menning
Vöfflujárnið okkar er frá Moulinex. Ég keypti það af því við keyptum örbylgjuofn frá þeim fyrir tuttugu árum og hann er ennþá að skila sínu.
Á járninu eru tvö ljós. Rautt ljós er alltaf kveikt og þýðir að straumur sé á því. Grænt ljós slökknar þegar járnið er orðið heitt.
Bæði ljósin eru ómerkt, svo ég verð að muna hvað þau gera. Mér gengur bölvanlega að muna að græna ljósið þýði "bíddu" og að rauða ljósið þýði að allt sé í sómanum.
Sá sem hannaði grillið er að svíkja grundvallarboðorð. Grænt þýðir "gott, haltu áfram" en rautt þýðir "stopp, passaðu þig".
Járnið er lengi að hitna og ef vöffludeig er sett í járnið kólnar það niður og er fimm mínútur að steikja vöffluna. Sá sem hannaði grillið setti of lítið hitaelement í það og of lítið járn.
Ef ég set of mikið deig í járnið vellur deigið út í raufar og samskeyti sem er ómögulegt að þrífa.
Svona grill er með einföldustu tækjum sem neytendur geta keypt og það er svo auðvelt að hanna þau rétt. Moulinex er fínt merki og mér vitanlega var þetta ekki ódýra byrjendajárnið frá þeim.
Vöfflujárn voru orðin ágæt vara fyrir þrjátíu árum en nú fer þeim aftur. Ég velti fyrir mér hvers vegna.
Vita ungir hönnuðir í dag ekki að rautt þýðir stopp og grænt þýðir gott? Vita þeir ekki að það á að merkja ljós með texta? Vita þeir ekki að það þarf að þrífa vöfflujárn og að það á að taka 2 mínútur að steikja vöfflu en ekki fimm?
Ég get upphugsað nokkrar skýringar á þessu:
- Kannski fer kennslu aftur í iðnhönnun.
- Kannski er ekki hægt að fá nógu hæft starfsfólk til að hanna af því það er krónísk vöntun á hæfu fólki í skólana.
- Kannski er vöfflujárn í dag tuttugu sinnum ódýrara en það var fyrir þrjátíu árum og verðlækkunin kemur svona niður á gæðunum.
- Kannski eru hönnuðurnir valdalausir og óhamingjusamir og vinna fyrir feita kalla með bindi sem hafa bara áhuga á að hvert vöfflujárn skili hámarks framlegð.
- Kannski tekur því ekki að hugsa um svona smáatriði af því neytandinn á að henda járninu og kaupa nýtt innan árs.
Kannski er það blanda af öllu þessu.
Ég er ekki með stóráhyggjur af vöfflujárnunum -- en þjóðfélagið byggir á tækni sem þarf að virka svo við getum haldið áfram að finna upp meiri tækni. Hvað með Multimedia stofukerfið og rafrænu skilríkin og Windows Vista og Internetið og gemsana og ljósastýringarnar og þjófavarnarkerfin?
Það er til hugtak sem heitir "Dancing Bear Syndrome". Eftir að hafa séð björn dansa í sirkús nokkrum sinnum byrja menn að spyrja sig: "já, en hversu vel dansar hann?" Ég er að spyrja mig að þessu núna með tilliti til tækninnar.
Ég er einn af þeim sem hef hjálpað öðrum að tjónka við tækni í gegnum árin. Gemsarnir og þvottavélarnar blikka ljósum sem ég er beðinn að ráða í enda er ég einn af þeim fáu sem lesa handbækur. Mig grunar að flestir sem eru ekki tæknilega þenkjandi hafi einhvern "tæknigúru" í sínu lífi.
Þetta gengur ekki svona til lengdar. Tækjunum fjölgar, flækjustig þeirra eykst og ég er löngu hættur að nenna að vera fótgönguliði í þessari Tamagotchi byltingu. Mig grunar að svo sé um fleiri.
Kannski erum við að byggja tæknilegan Babelsturn sem ekki er hægt að bæta ofaná fyrr en gæði eru sett í fyrsta sæti og tæki eru hönnuð þannig að venjulegt fólk geti notað þau.
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2007 | 13:38
Potemkin þorpin
Hér er hluti af hjólastígakorti Reykjavíkur. Mér vitanlega var kortið gert vegna ráðstefnu um skipulagsmál borga á Norðurlöndum.
Kortið gerir ekki greinarmun á leiðinni meðfram sjónum báðum megin sem er malbikuð og ágæt hjólaleið, eða leiðunum meðfram Hringbraut og Lækjargötu sem eru gamlar gangstéttir. Finnst einhverjum öðrum en mér hæpið að kalla þær hjólastíga?
Þetta minnir mig á þegar Ameríkanar endurskilgreindu tómatsósu sem grænmeti til að fullnægja kröfum um grænmetisneyslu hjá unglingum í skólum.
Þetta minnir mig líka á Potemkin Þorpin rússnesku.
Hjólreiðar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)