Færsluflokkur: Neytendamál
22.10.2007 | 18:39
Passat er hátíð miðað við...
Hvaða bíll ætli lækki svona hratt í verði?
Vísbending: nýr kostar hann yfir tíu milljónir, en það má sjá á grafinu, svo það er kannski ekki mikil vísbending.
Tölurnar tók ég með stikkprufum af bílasölum á netinu.
Kveðja, Kári
PS: Svarið fæst með því að velja allan textann og sjá hvað birtist...
Svarið er Range Rover
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.10.2007 | 12:04
Hvílík forneskja!
Þegar iPod er orðinn dýrari en iPhone þá er það eins og að krókódíllinn sé fimm metrar frá haus aftur á hala en sex metrar frá hala fram á haus. Mótsögn, og sönnun þess að ríkisstofnun er komin inní fílabeinsturn sinnar eigin rökfirru.
Mér finnst að tolla þurfi að réttlæta sérstaklega. Að sjálfgefnu eiga þeir ekki að vera til staðar, frekar en bann við veiðum á ákveðnu svæði, hámarksöxulþungi, húsleitarheimild, heldur eitthvað sem gripið er til í sértilfellum eða tímabundið.
Ég krefst skýringa: hvað er svona merkilegt við tónlistarspilara á Íslandi að þeir skuli verða fyrir þessum ofurtollum sem tíðkast hvergi annars staðar? Af hverju kostar 13 þúsund króna spilari 32 þúsund heima?
Til að bíta höfuðið af skömminni er þessi flokkunarárátta algerlega úreld. Myndavélin mín getur sýnt video og síminn minn getur spilað MP3. Þeir gætu viljað flokka bifreiðar sem MP3 spilara, því flestir geta þeir spilað geisladiska í MP3 formatti núna, það er hætt við að bílverð myndi hækka við það. Ég sem hjólreiðamaður myndi gleðjast en það er annað mál.
Í alvöru talað myndi ég vilja fá skýringar á þessu, aðrar en "við ráðum þessu", því það er valdahroki að nenna ekki einu sinni að lagfæra svona augljóst ranglæti.
![]() |
iPod tollurinn er kominn til að vera |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.10.2007 | 17:48
Kassanótan mín aftur
Ég var manaður til að fara í venjulega verslun svo ég skrapp út í búð sem líkist Krónunni og Bónus, hún selur Euroshopper og svoleiðis fínerí. Ég fékk svolítið kúltúrsjokk því ég hef ekki komið inn í svona búðir í rúman mánuð.
Hér eru verðin. Nú mana ég einhvern á móti til að kíkja í veskið og segja hvað þessar vörur kosta heima núna.
Krónan er gífurlega sterk og það á að endurspeglast í lágu vöruverði. Þetta er gengi krónunnar.
Vara Krónur (85kr/evru)
500 g kornfleks (ekki kellogs) 96,9
óþynnt appelsínudjús 0,75l 146,2
appelsínusafi úr þykkni, 1 1/2 l 124,95
basmati hrísgrjón, 1 kg 101,15
baunir í dós 265 g 34,85
bjór 500 ml 59,5
eggjabakki, 12 egg 203,15
emmentaler ostur 400 g 250,75
gulrætur 1 kg 62,05
kaffi 250 g 96,9
kartöfluflögur 150 g 57,8
kartöflur 1 kg 68,85
kassi af tepokum earl grey 75,65
klósettrúllur, 9 stk 193,8
kók 1,5 l (ekki kókakóla) 30,6
mjólk, 1 lítri 51,85
papríka 1 kg 243,1
sólblómaolía, 2 lítrar 189,55
spaghetti 500 g 51,85
suðusúkkulaðistykki 56,1
tómatadós 440 g 48,45
tómatar 1 kg 172,55
uppþvottalögur 500 ml 95,2
Samtals 2.511,75
Ég skoðaði ekki verðið á kjöti því það er svo erfitt að bera saman gæði á kjöti.
Ég fann enga ferkantaða skinku, ekki heldur í lágvöruverðsbúðinni. Ég fór loksins og athugaði málið.
Ef ég leita á Google að orðinu "Ham" fæ ég svona myndir:
Hins vegar heitir íslensk ferköntuð "skinka" ekki skinka heldur SPAM eða "Corned Ham" sem er pressað svínakjötskurl:
Þar er skýringin komin á því hvað íslensku svínin virtust alltaf vera ferköntuð...
Í framhaldi vil ég benda á að Mozzarella ostur lítur svona út:
en ekki svona:
Þessi ostur heitir brauðostur, þótt hann sé í öðrum umbúðum.
Það er því ekki nóg að bera saman vöruverð, heldur líka gæði og hvort verið sé að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.
Ég er að gefa í skyn að heilaþvotturinn um að íslenskar landbúnaðarvörur séu bestar sé kannski ekki alveg réttlætanlegur. Sá sem heldur að þær séu það, hefur ekki eldað kvöldmat í Frakklandi.
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.10.2007 | 18:55
Kassanótan mín
Ég var að koma úr búðinni hér í Frakklandi og sá á vefnum að Krónan og Bónus bítast á.
Mér datt í hug að sýna ykkur hvað ég fæ fyrir peningana úti í fínu búðinni á horninu.
Hér er maturinn sem ég keypti:
Hér er nótan (ekki allur maturinn er með á myndinni):
og hér er verðið í krónum á því sem var á myndinni:
Rauðvín 283,50
Appelsínusafi 166,05
Salatpoki 157,95
Fjórar jógúrtdósir 102,87
Ravioli með ostfyllingu 124,74
Salami 300 gr 305,37
Ostur, 200 gr 184,68
Skinka,450 gr 467,37
Samtals 1.792,53
Ég tek fram að þetta er alvöru skinka, niðursneidd í búðinni, ekki ferkantaða "skinkan" í lofttæmdu pökkunum eins og heima.
Kveðja, Kári
![]() |
Bónus og Krónan bítast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.10.2007 | 08:48
Þegar minna er meira
Árið 2000 gerðu tveir félagsfræðingar (Iyengar & Lepper) tilraun til að meta áhrif þess að bjóða fólki upp á of marga valkosti.
Þeir settu sultukrukkur í sinn hvorn sýningarbásinn. Í öðrum básnum var boðið upp á 24 sultur en í hinum básnum voru sulturnar sex.
Á báðum stöðum mátti smakka og fólki var boðið upp á afslátt til að geta keypt sulturnar ódýrt. Iyengar og Lepper skiptust á að setja sýningarstandana upp í mismunandi verslunum um bæinn og mældu hversu margir gengu framhjá útstillingunni, hversu margir stoppuðu og smökkuðu, og hversu margir nýttu afsláttinn og keyptu sultu.
Niðurstöður:
- Þar sem standurinn með 24 sultum stóð smökkuðu 60% þeirra sem gengu framhjá en aðeins 3% keyptu sultu.
- Ef sulturnar voru aðeins sex, smökkuðu 40%, en 30% keyptu samt sultu.
Stóri standurinn vakti meiri athygli, en fjöldi valkosta ofbauð fólki og það gekk í burtu án þess að ákveða að kaupa. Með öðrum orðum: ef markmiðið er að laða viðskiptavini að, þá er minna stundum meira. Of margir valkostir virka lamandi.
---
Margar bækur hafa komið út um þetta fyrirbæri síðan. Þessar niðurstöður komu mér ekki á óvart, en ég var feginn að lesa um þær, því ég hef fundið fyrir þessari ákvörðunarlömun og hélt stundum að það væri ekki í lagi með mig.
Ég er ekki að mæla á móti samkeppni sem er yfirleitt af hinu góða. Stundum er bara ekki um samkeppni að ræða, heldur bjóða fáir en stórir aðilar uppá margar útgáfur af sama hlutnum. Dæmi um þetta á Íslandi er Mjólkursamsalan sem býður tugi osta sem allir eru eins á bragðið til að fela einokunina.
Annað dæmi er þegar fólk skiptir um rás á fjarstýringunni á sekúndu fresti allt kvöldið án þess að stoppa og horfa, því það er í raun ekkert í sjónvarpinu þótt ekki vanti rásirnar.
Enn annað dæmi er blaðabúnkinn sem er dreift ókeypis til landsmanna á hverjum degi. Það má spyrja sig hvort pappírsmagnið er ekki form ritskoðunar því raunverulegum málefnum er drekkt í hafi "ekkifrétta".
Stundum eru valkostir raunverulegir, en stundum eru þeir bara lamandi fjölbreytni af engu.
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.9.2007 | 22:15
Óþekktu hermennirnir í bankabyltingunni
Ég bendi á góða grein Andrésar Magnússonar um fórnarlömb efnahagsundursins á Íslandi. Ég veit ekki hvernig ég færi að ef ég væri að fara að kaupa mína fyrstu íbúð í dag.
Hér er tilvitnun:
En það var sama hversu Halldór vann mikið, hann gat ekki borgað af íbúðarlánunum. Eina ráðið var að setja litlu íbúðina í leigu og hjónaleysin fluttu aftur heim hvort til sinna foreldra. Það komst los á sambandið. Halldór var ekki viss um hvort stúlkunni fyndist hann vera eitthvað til þess að veðja á. Og nú er Halldór kominn til geðlæknis, fullur sjálfsefa. En þetta hefði aldrei komið fyrir ef hann hefði ekki slysast til þess að fæðast á Íslandi. Ef hann hefði fæðst í einhverju af nágrannalöndunum hefði hann ekki bara haldið íbúðinni (og þar með kærustunni), með slíkri greiðslubyrði myndi hann vera búinn að borga niður íbúðina á meira en helmingi skemmri tíma heldur en hér heima.
Húsnæði hefur hækkað í öðrum löndum líka, en lánin þar eru ekki verðtryggð.
Í Bandaríkjunum hefur mikið verið rætt um háskalegar afleiðingar of mikilla lána til þeirra sem eiga erfitt með að borga til baka, til svokallaðs "sub-prime lending market".
Hér hefur sú umræða ekki farið af stað eftir því sem ég best veit.
Eru allir hér fyrsta flokks lánþegar, eða eru upplýsingar um ástand á lánamarkaði einkamál bankanna?
18.9.2007 | 10:05
Potpourri
Gott er að verzla
Það er ánægjulegt að kaupa í matinn þótt ekki sé nema tómata, baunir og eina kjötsneið hér í Frakklandi. Með þessu borða ég Baguette" og drekk eplacider frá Bretagne með. (4,5%)
Maturinn sem ég elda er svo einfaldur en hráefnin eru svo góð. Grænmetið í Yggdrasil á Skólavörðustíg skagar reyndar langleiðina upp í þessi gæði. Maður dettur sjálfkrafa í "Franskt eldhús".
Hér er skinka alvöru skinka og lítur út eins og skinka.
Ferköntuðu "skinkuna" að heiman hef ég ekki séð til sölu. Ég hef séð hana í Bretlandi, en þar heitir hún "SPAM". SPAM er pressað hakk með viðbættu kartöflumjöli eins og íslenska "skinkan".
Hér er fullorðið fólk að afgreiða. Kannski er það vegna þess að eftirspurn eftir vinnuafli er ekki eins mikil hér eins og á Íslandi. Mér finnst samt vinalegt að jafnaldrar eða eldri skuli afgreiða mig.
Einu sinni fann ég ekki klósetthreinsilög í Krónunni. Ég spurði afgreiðslubarnið hvar hann væri. "Er þetta það?" sagði það og kom með uppþvottalög. Það hefur kosti að hafa fullorðið fólk í afgreiðslu.
Skipulag
Þegar ég mætti til starfa var þegar búið að merkja hurðina með nafninu mínu, gera nýtt tölvupóstfang, setja upp nýja tölvu og útvega skrifborðsstól. Lykilkortið mitt var tilbúið og bara eftir að smella af mér ljósmynd og setja á kortið.
Ég gat strax notað kortið til að kaupa mat í mötuneytinu og opna hurðir. Ég gat líka farið á bókasafnið og tekið bækur. Ég fékk lítinn bækling til að setja í veskið með tölvupóstföngum allra sem skiptu máli, húsvörðurinn, bóksasafnið, hvað ef ég er læstur úti o.s.frv. Svona verða hlutirnir ekki nema einhver hafi hugsað út í skipulagninguna af alúð.
Það er mötuneyti í húsinu og hægt er að panta matinn frá tölvunni fyrir kl.10, þá er hann til taks kl.1200 og væntanlega hægt að mæla betur út hver eftirspurnin er svo ekkert fari til spillis. Þetta hef ég ekki séð áður. Reyndar er ekki pantað á vefnum heldur á skipanalínunni sem er krúttlega nerdalegt.
Hjólreiðarfólk á fyrsta farrými
Hérna er rein í hringtorgunum fyrir hjólreiðar. Það bráðvantar heima því þar þeytast bílarnir út úr hringtorgi og yfir gangbrautirnar með engum fyrirvara.
Hér eru líka skilti úti um allan bæ þar sem á stendur "Nema fyrir hjólreiðafólk". Þetta og hitt er bannað, gata er einstefnugata, "Nema fyrir hjólreiðafólk". Öll umferð bönnuð "nema fyrir hjólreiðafólk".
Þetta sendir svo skýr skilaboð um að hjól eru fyrsta flokks í umferðinni. Borgin vill hjólreiðar.
Ef gata er einstefnugata í Reykjavík þá er hjólreiðafólki væntanlega bannað að hjóla hana í báðar áttir. Samt er ástæðan að hún er einstefnugata sú, að tveir bílar geta ekki mæst í henni. Af hverju á hjólreiðafólk að gjalda þess að bílar eru svo fyrirferðarmiklir að þeir geta ekki mæzt í mjóum götum?
Því skyldi hún ekki vera merkt tvístefna fyrir reiðhjól?
Hvað er fréttnæmt ?
Í fréttunum heima las ég að Gísli Marteinn hafi sagt að Reykjavík sé orðin meiri bílaborg en flestar borgir í Bandaríkjunum.
Þetta er "Ekkifrétt". Þetta hefur verið vitað lengi. Við náðum Detroit fyrir nokkrum árum. Fréttamenn geta bara ekki sagt frá því, fyrr en þeir hafa það eftir einhverjum viðurkenndum aðila "sem sagði það". Þetta var jafn mikil staðreynd
áður en Gísli Marteinn steig í pontu.
Ég held sveimér þá að meðalaldur íslenskra fréttamanna fari að nálgast meðalaldurinn á afgreiðslufólkinu í Bónus og Krónunni.
Ég vona að Gísli Marteinn geri eitthvað róttækt í umferðarmálum en ég þori ekki að vona að fréttamenn muni halda honum við efnið. Þeir virðast ekki hafa frumkvæði í sér til þess þessa dagana.
Annars hef ég aldrei skilið hvað telst fréttnæmt og hvað ekki. Ég held að fréttamenn ritskoði sjálfa sig fyrirfram.
"Átján íslendingar byrjuðu á þunglyndislyfjum í dag" væri aldrei fyrirsögn. Hins vegar er í lagi að hafa fyrirsögnina á borð við: "Hlutabréf í 365 miðlum féllu um 0,2% í dag". Sú fyrirsögn er í lagi dag eftir dag (amk. hjá Blaðinu).
Af hverju er annað frétt en ekki hitt? Mín lífshamingja sveiflast ekki eftir genginu í 365 miðlum.
Debitkort eru betri en kreditkort, en reiðufé er kannski best
Þegar ég fór utan keypti ég evruseðla og nú borga ég með þeim. Ég sé í veskinu núna hvað mikið er eftir af þeim pening sem ég tók út úr hraðbankanum. Það er góð tilfinning.
Heima dett ég í að borga allt með kortinu og þá missi ég stjórn á því hvað ég á mikinn pening. Reyndar er ég skrúfaður þannig saman að ég kem út í plús eftir mánuðinn en tilfinningin er samt ónotaleg.
Þegar ég notaði tékkhefti í gamla daga skrifaði ég í "svuntuna" í heftinu hvað ég átti mikinn pening fyrir og eftir hverja færslu. Seðlarnir í veskinu voru sjálfsskjalandi. Þessi stjórnun á fjármálunum er farin veg allrar veraldar eftir að kortin komu.
Að vísu fæst kvittun hjá hverjum kaupmanni en sú kvittun fer ekki jafnóðum inn í litla færslubók í veskinu. Ég veit ekki um neinn sem færir skipulega bókhald þegar hann notar kreditkort.
Ég myndi vilja fá aftur völdin yfir mínum fjármálum aftur en ég veit ekki alveg hvernig.
Á Íslandi borga allir með kreditkorti, upphaflega vegna þess að það er dýrara að nota debitkort en kreditkort. Ef maður vill ekki skulda neinum og notar því debitkort, á maður á hættu að fá FIT sekt þótt maður fari bara eina krónu
yfir á reikningnum.
Sú eina króna gæti hafa verið tekin sjálfkrafa út af reikningnum af bankanum svo ekkert veskisbókhald getur komið í veg fyrir þetta.
Af hverju er það sektarvert ef ég fer eina krónu yfir á reikningnum? Af hverju lokar ekki bankinn á færsluna og segir "ónóg innistæða?" Nóg er af tölvusamskiptunum frá versluninni til bankans þegar maður borgar með kreditkorti.
Nú er afgreiðslufólk farið að spyrja "viltu nokkuð kvittunina" þegar maður borgar með kreditkortinu. Stjórnleysið er orðin sjálfgefin hegðun.
Í Danmörku borguðu allir með Debetkorti og þar voru FIT sektir ekki til. Ef innistæða var ekki á kortinu þá kom það bara á skerminn í búðinni.
Þar spurði afgreiðslufólkið hins vegar "pa belobet?". "Viltu fá reiðufé til baka?" Það fannst mér þægilegt.
Ég hef reynt að biðja um reiðufé í íslenskri verslun þegar ég borga með debetkorti. Það sækist seint og illa og hámarkið er þúsund krónur. Maður skyldi halda að kaupmaðurinn væri að taka áhættu með því að láta
mann hafa pening. Hann er það ekki, bankinn borgar honum örugglega.
Þegar hamingjan sést tilsýndar
Um helgina hjólaði ég 77 kílómetra frá Rennes til Dinan. Leiðin öll er meðfram bátaskurði sem Napóleon lét grafa á 17.öld þegar Bretar réðu lögum og lofum á Ermarsundi og meinuðu Frökkum aðgang um sundið. Skurðurinn sker í gegnum allan Bretagne skaga.
Næstu 25 kílómetrana tók ég bát frá Dinan til St.Malo við ströndina.
Þar sem áin kemur út í hafið er stærsta sjávarfallavirkjun í heimi. De Gaulle vígði hana 1968. Þar eru fjörtíu túrbínur sem nýta muninn á flóði og fjöru sem er mjög mikill hér eða 15 metrar þegar mest er. Meðfram virkjuninni er skipastigi sem lét skipið okkar síga niður metrana fimmtán. Það var tilkomumikið.
Hjólaleið liggur meðfram skurðinum alla leið. Hún er ótrúlega falleg vegna þess að hún er svo vel hirt. Með reglulegu millibili eru "bátalásar". Við hvern lás stendur hús.
Það virðist vera samkeppni milli þeirra sem þar búa að gera þau sem fallegust og halda þeim sem best við. Það virðist gera eitthvað mjög gott fyrir sálarlífið að búa þar. Hvert einasta hús bar þess merki. Allt virtist vera í svo miklu samræmi og ró yfir hlutunum.
Og það minnir mig á annað.
Mynstur
Ég er að lesa bókina "The Timeless way of building" frá árinu 1979 eftir Christopher Alexander. Í henni setur hann fram þá kenningu að íbúðir, hús, bæir og borgir byggist upp samkvæmt mörgum mynstrum, litlum og stórum, sem eru annað hvort lifandi eða dauð í eðli sínu.
Hann setur fram hugmyndir að góðum mynstrum í bókinni. Ég nefni nokkur dæmi.
Eitt dæmi kallar hann "LESSTAÐ". Vistarverur þurfa stað þar sem tveir gluggar mætast og hægt er að sjá vel út en samt að vera í friði, þar sem stendur þægilegur stóll og hægt er að koma sér fyrir með bók.
Annað dæmi um gott mynstur er "INNKOMA". Það er svæði þar sem fólk er komið inn af götunni en er ekki komið inn í húsið. Þar gefst tækifæri til að skipta um hugarfar, að hætta að vera "úti" og byrja að vera "inni". Stundum þarf
þetta bara að vera upphækkaður pallur við útidyrnar, helst með smá skyggni yfir.
"KROSSGÖTUR" er annað mynstur. Þar sem vegir mætast, opna búðir og þar er eðlilegt að setja lítið torg. Þar safnast fólk saman. Bæjarhlutar sem hafa ekki krossgötur verða ekki lifandi.
"19% BÍLASTÆÐI" heitir enn eitt mynstrið. Höfundur slær á að svæði, þar sem meira en 19% landrýmis fer undir bíla, missi lífskraftinn. Þegar þetta er skrifað eru 50% Reykjavíkur komin undir malbik. Það skal tekið fram að höfundur bókarinnar er að skrifa bók um arkitektúr, hann er ekki vinstri grænn.
Í seinni bókinni fer hann í gegnum u.þ.b. 250 mynstur, hvað geri þau góð, í hvaða samhengi þau eiga við.
Mismunandi kúltúrar koma sér upp mismunandi mynstrum. Það sem gerir London að London eru mörg lítil og stór mynstur, hvernig menn ganga frá handriðum upp að útidyrunum, hvað gangstéttin er breið, hallinn á þökunum. Þetta eru mynstrin í London. Allt er eins á vissan hátt og samt er ekkert eins.
Enginn einn aðili þarf að hanna London eins og hún leggur sig, menn þurfa bara að koma sér upp sameiginlegu "mynstursmáli" til að borgin verði að London.
Önnur mynstur gera þorp í Perú að þorpi í Perú.
Ef menn tala sama málið verður lítið um árekstra milli manna, það fer enginn að setja risastóra gluggastofu ofan í klósettgluggann hjá nágrannanum.
Að hans mati er mikilvægt að allir íbúar borgar tali sama "mynstursmálið", að þeir hafi sameiginlega sýn á hvaða mynstur gera borgina þeirra góða og húsin þeirra góð. Þannig geta íbúar fengið góða tilfinningu í borginni, fundið að þeir eigi heima þar, án þess að allt virki "feik" eða sundurslitið.
Menn sjá tilsýndar ef reynt er að hanna "bryggjuhverfi" sem á að líta út fyrir að vera svo notalegt en var í raun hannað af einni arkitektastofu. Einsleitnin kemur upp um verknaðinn. Einn aðili getur ekki hannað fjölbreytina sem er í lifandi borgarskipulagi sem hefur byggst upp með sameiginlegum mynstrum.
Hann segir að nútíma fólk hafi misst niður þetta mynstursmál, það sé orðið "mállaust" í vissum skilningi. Það treysti því "sérfræðingum" til að hanna miðlægt alla hluti hvort sem um er að ræða umferðar mannvirki, borgarhverfi
eða húsgögn.
Sérfræðingarnir koma með mynstrin úr sínum skóla og setja alltof mikið af sínu egói í hönnunina. Útkoman sé sundirslitnar borgir þar sem húsin og borgarskipulagið verða ögrandi í stað þess að gera borgina lifandi.
Þegar gömul hús brenna eins og gerðist í Austurstræti má samkvæmt nýjum arkitektum ekki byggja sambærileg hús aftur því þá væri verið að byggja gamaldags hús og það væri "feik". Þetta er vitleysa. Sumir hlutir eru tímalausir. Það er verið að prjóna nýjar lopapeysur í sauðalitunum í dag og það er ekkert feik við það að þær eru nýjar. Mynstrin í þeim eru tímalaus. Eftir þúsund ár verða þær vonandi prjónaðar ennþá.
Sósíalistar hönnuðu hlutina miðlægt og útkoman varð hryllilega mannfjandsamleg mannvirki sjöunda áratugarins.
Kaldhæðnin er að íslenskur ný-kapítalismi er að gera þetta nákvæmlega sama. Nýja skuggahverfið og Kópavogur eru byggð upp miðlægt, án samræðna í sameiginlegu "mynstursmáli" við fólkið sem á að búa þarna.
Fólkið í bæjarstjórn heldur að það verði ekki tekið alvarlega nema það tali um pennga. Það hættir að hlusta á fólkið sem býr í bænum en talar þess í stað við verktakana, sem vilja græða sem mest með því að nota staðlaðar einingar. Fólkið hlustar ekki á sjálft sig lengur svo það er ekki við neinn að sakast.
Útkoman verður sú sama eins og ef kommúnistar hefðu verið á ferð fyrir fjörtíu árum.
Ef íbúar reyna að finna málið aftur og standa á rétti sínum er vaðið yfir þá. Uppivöðslusemi bæjarstjórans í Kópavogi er skýrt dæmi um fenið sem við erum komin í.
Við getum ekki afsakað okkur með því að líta til kapítalistanna í Bandaríkjunum. New York borg velur að byggja ekki í Central Park. Hvað skyldi landið undir garðinn kosta? Borgarstjórnin þar kastar trilljörðum á glæ með því að
byggja ekki þarna. Hvílík eyðsla!
En hvað væri New York án Central Park? Stundum eru það holurnar sem eru mikilvægastar. Hvað væri donut án holunnar? Hvað kostar holan?
Í New York tala allir sama málið að því leyti að maður byggir ekki í Central Park.
4.9.2007 | 10:09
Dýr myndi tankurinn allur...
Ég nota hreinsað bensín til að þrífa bletti.
Ég bað um hreinsað bensín hjá Lyfju Smáratorgi. Þar kostaði það 298 kr. fyrir 100 ml. eða 2980 kr. lítrinn.
Ég gat keypt hreinsað bensín útí málningavörubúð í Danmörku fyrir miklu minna. Ég spurðist því aðeins fyrir.
Það kemur í ljós að Besta hf. í Ármúla 23 vill fá 350 kr. fyrir 500 ml. Þar gerir 700 kr. lítrinn. Lyfja er því rúmlega fjórfalt dýrari.
Og þá vitið þið það.
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.8.2007 | 11:24
Handunnar tartalettur og rauðvínslegin lambalæri
Þarna má sjá fjölmiðlana veita verslunareigendum aðhald. Danskt tartalettusvindl orðið að frétt á Íslandi.
Hér á landi er samt í lagi að kalla lambalæri rauðvínslegið þótt aldrei hafi það marínerast í öðru en papríku og salti.
Einhverra hluta vegna verður þetta samt ekki að frétt hér á landi.
Hvers vegna ætli það sé? Skyldi það vera af því það er auðveldara að afrita erlendar fréttir af vefnum en að vinna alvöru fréttavinnu í sínu eigin landi og styggja hugsanlega einhvern?
![]() |
Danir blekktir til að kaupa vélunnar tartalettur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.8.2007 | 11:49
Gætuð þér tekið hendina úr vasa mínum?
Ríkið rukkar mig samt ekki um hann heldur vinnuveitanda minn sem dregur hann af laununum mínum.
Ef ég græði milljón á sölu hlutabréfa fær yfirmaður minn að vita það manna fyrstur.
Ég er líka rukkaður fyrr en nauðsynlegt er.
Reikningar á Íslandi hafa Gjalddaga og Eindaga. (Ég veit ekki hvers vegna það eru tvö "deadline" til að borga reikning, ég hef ekki séð það annars staðar).
Atvinnuveitandinn tekur peningana á gjalddaga og ég get því ekki notað þá fram á eindaga eins og ég gæti annars gert.
Mér vitanlega er engin leið að skrá sig út úr þessu fyrirkomulagi. Það er ekki hægt að biðja skattstjóra um að senda reikninginn fyrir fjármagnstekjuskattinum beint heim til mín.
Þetta fyrirkomulag varð sennilega til þegar forsjárhyggjan var uppá sitt besta. Það átti að ná skattinum af verkamanninum áður en hann kæmist út í ÁTVR með launin og gæti drukkið þau út. Það er eldra en Persónuvernd því annars hefði hún sennilega komið í veg fyrir að atvinnuveitendum yrðu sendar upplýsingar um ótengd viðskipti starfsmanna þeirra.
Hins vegar hafa kaup mín og sala á bréfum ekkert með atvinnu mína að gera. Fer ég með vitlaust mál? Er þetta ekki tímaskekkja? Stenst þetta stjórnarskrá?
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)